R-listi: Frá rót til Ráðhúss 23. júní 2004 00:01 Reykjavíkurlistinn, R-listinn, er tíu ára gamall um þessar mundir. Áratugur er liðinn frá því að hann lagði Sjálfstæðisflokkinn að velli í sögulegum borgarstjórnarkosningum. Við hæfi virðist að forráðamenn listans minnist þessa með einhverjum hætti. Ein leiðin - og kannski helst í anda hins upphaflega R-lista - væri að efna til málþings um stöðu hans og framtíðarhorfur. Velta fyrir sér hverju hann hefur áorkað, hvort hann sé á réttri leið, hvort enn sé samhljómur með honum og viðhorfum borgarbúa. "Það var ein margra hugmynda til að fagna þessu afmæli að halda málþing en svo reyndist ekki áhugi fyrir því en því meiri fyrir ballinu um kvöldið," segir Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri grænna í samtali við Fréttablaðið í gær. Og þessi unga kona, sem hefur það opinbera markmið að breyta orðræðu í stjórnmálum landsins, bætir við: "Mörgum fannst nóg komið af alls kyns málavafstri og því varð úr að blása þetta af". Nóg komið af "málavafstri"? Einhvern tímann hefði maður látið segja sér tvisvar að svona væri talað af hálfu R-listans í Reykjavík. Það eru út af fyrir sig tíðindi að skemmtanahald skuli tekið fram yfir stefnuþing á tíu ára afmæli R-listans. En samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins er málið ekki svona einfalt; í undirbúningsnefnd málþingsins var deilt um áherslur á málþinginu. Sumum þótti of mikið gert úr hlut Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þórólfs Árnasonar borgarstjóra. Útvarpið nefndi að til viðbótar þessum skoðanamun gætu erfið mál reynt á framtíð Reykjavíkurlistans á næstunni. Var í því samband m.a. nefnt fyrirhugað niðurrif Austurbæjarbíós, bílageymsluhús undir Tjörninni og hugmynd um léttlestakerfi. Skiljanlega vilja forráðamenn R-listans gera lítið úr þessu ósamkomulagi. En það er pólitískt óskynsamlegt að reyna slíkt. Öll leyndarmál leka út um síðir; eins og sögnin um rakarann hans Mídasar minnir á; hann gróf holu í jörðina, hvíslaði sínu þar ofan í og mokaði síðan yfir. Hafði létt á hug sínum og hélt sig lausan allra mála, en upp úr holunni óx sef og þegar vindurinn lék í sefinu heyrðist það hvísla að Mídas konungur hefði asnaeyru. Annars má spyrja: Hverjir eru "forráðamenn" R-listans? Sagt var frá því í Fréttablaðinu á föstudaginn að tilkynning um afmæli R-listans og ballið góða, sem haldið var í gærkvöldi, hefði komið frá skrifstofu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, undirritað af aðstoðarmanni hans. Af því tilefni var spurt hvort lögheimili R-listans væri í Ráðhúsi Reykjavíkur, hvort menn væru farnir að rugla saman stjórnsýslu og stjórnmálum. Í framhaldinu hefur aðstoðarmaðurinn beðist velvirðingar og sagt að það hafi verið mistök hjá sér að senda tilkynninguna með þessum hætti. En spurningin er áfram gild: Hvert er lögheimili R-listans? Hverjir stjórna honum, marka stefnuna? Er grasrótin, sem svo mikið var gert úr fyrir tíu árum, enn virk? Eða hafa kannski örfáir atvinnumenn í Ráðhúsinu tekið völdin? Það er ekki aðeins utan R-listans sem slíkra spurninga er spurt. Einn af trúnaðarmönnum listans og áhrifamaður í flokki Vinstri grænna, Sverrir Jakobsson, segir í Morgunpósti VG í gær: "Vinstrimeirihlutinn í borginni þarf að sýna málefnalegt frumkvæði en hann þarf einnig að taka til í eigin ranni. Kjörnir fulltrúar mega ekki gleyma baklandi sínu og einangrast sem stjórnarformenn hinna og þessara borgarstofnana, fulltrúar "ráðhússklíkunnar" en ekki fólksins". Það er svo ekki alveg nýtt að deilt sé innan R-listans. Samstarfið stóð tæpt fyrir ári síðan og þá voru í gangi þreifingar á milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um myndun nýs meirihluta. Óánægjan virðist vera mest meðal Vinstri grænna sem lengi hefur fundist of mikill embættisbragur á stjórnunarstíl R-listans í Ráðhúsinu auk þess sem komið hafa upp nokkur mál sem valdið hafa erfiðleikum milli "baklandsins" á þeim vettvangi og hinna, sem ráða ferðinni: óánægjan magnaðist síðan þegar Ingibjörg Sólrún hætti að fara leynt með hug sinn til Samfylkingarinnar og nú þykir Þórólfur Árnason borgarstjóri hallari undir Framsóknarflokk og Samfylkingu en góðu hófi gegnir og ekki taka nægilegt tillit til Vinstri grænna. Ekki er líklegt að þessi ágreiningur verði samstarfi R-lista flokkanna skeinuhættur í bráð. Í stöðunni nú virðast fáir kostir fyrir hina óánægðu; ólíklegt er að Vinstri grænir leiti eftir samstarfi við sjálfstæðismenn. Hitt ætti sennilega að vera meira áhyggjuefni fyrir R-listann, þegar tæp tvö ár eru til kosninga, að sú skoðun er orðin útbreidd í borginni að gjá hafi myndast milli forystu hans í Ráðhúsinu og grasrótarinnar sem kom honum til valda. Skipulagsmál Reykjavíkur, lóðaframboð, miðbæjarskipulag, flugvöllurinn og Hringbrautarmálið eru dæmi um það hve vanmegna R-listinn hefur reynst gagnvart stórum verkefnum. Skuldasöfnun borgarinnar og fjárfestingaævintýri Orkuveitunnar eru raunar líka stór mál en virðast ekki hafa náð í gegn í umræðunni á sama hátt og skipulagsmálin. Sérstaklega virðast mál flugvallarins og Hringbrautar hafa valdið grasrót R-listans og almennum stuðningsmönnum djúpstæðum vonbrigðum. Ummæli í ritstjórnargrein hér í blaðinu á þriðjudaginn um að vinnubrögðin í sambandi við færslu Hringbrautar minni á framgöngu ríkisstjórnarinnar með fjölmiðlafrumvarpið eru ekki út í bláinn. Þetta finnst fólki á förnum vegi. Æ fleiri taka undir orðin í sömu grein um að ákveðin valdþreyta og andleysi einkenni stjórn höfuðborgarinnar. Sennilega er orðið brýnna fyrir fyrir R-listann til að ráða ráðum sínum á málþingi en að halda dansleik. Nær er að slá upp balli þegar alvörumálin eru til lykta leidd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun
Reykjavíkurlistinn, R-listinn, er tíu ára gamall um þessar mundir. Áratugur er liðinn frá því að hann lagði Sjálfstæðisflokkinn að velli í sögulegum borgarstjórnarkosningum. Við hæfi virðist að forráðamenn listans minnist þessa með einhverjum hætti. Ein leiðin - og kannski helst í anda hins upphaflega R-lista - væri að efna til málþings um stöðu hans og framtíðarhorfur. Velta fyrir sér hverju hann hefur áorkað, hvort hann sé á réttri leið, hvort enn sé samhljómur með honum og viðhorfum borgarbúa. "Það var ein margra hugmynda til að fagna þessu afmæli að halda málþing en svo reyndist ekki áhugi fyrir því en því meiri fyrir ballinu um kvöldið," segir Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri grænna í samtali við Fréttablaðið í gær. Og þessi unga kona, sem hefur það opinbera markmið að breyta orðræðu í stjórnmálum landsins, bætir við: "Mörgum fannst nóg komið af alls kyns málavafstri og því varð úr að blása þetta af". Nóg komið af "málavafstri"? Einhvern tímann hefði maður látið segja sér tvisvar að svona væri talað af hálfu R-listans í Reykjavík. Það eru út af fyrir sig tíðindi að skemmtanahald skuli tekið fram yfir stefnuþing á tíu ára afmæli R-listans. En samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins er málið ekki svona einfalt; í undirbúningsnefnd málþingsins var deilt um áherslur á málþinginu. Sumum þótti of mikið gert úr hlut Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þórólfs Árnasonar borgarstjóra. Útvarpið nefndi að til viðbótar þessum skoðanamun gætu erfið mál reynt á framtíð Reykjavíkurlistans á næstunni. Var í því samband m.a. nefnt fyrirhugað niðurrif Austurbæjarbíós, bílageymsluhús undir Tjörninni og hugmynd um léttlestakerfi. Skiljanlega vilja forráðamenn R-listans gera lítið úr þessu ósamkomulagi. En það er pólitískt óskynsamlegt að reyna slíkt. Öll leyndarmál leka út um síðir; eins og sögnin um rakarann hans Mídasar minnir á; hann gróf holu í jörðina, hvíslaði sínu þar ofan í og mokaði síðan yfir. Hafði létt á hug sínum og hélt sig lausan allra mála, en upp úr holunni óx sef og þegar vindurinn lék í sefinu heyrðist það hvísla að Mídas konungur hefði asnaeyru. Annars má spyrja: Hverjir eru "forráðamenn" R-listans? Sagt var frá því í Fréttablaðinu á föstudaginn að tilkynning um afmæli R-listans og ballið góða, sem haldið var í gærkvöldi, hefði komið frá skrifstofu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, undirritað af aðstoðarmanni hans. Af því tilefni var spurt hvort lögheimili R-listans væri í Ráðhúsi Reykjavíkur, hvort menn væru farnir að rugla saman stjórnsýslu og stjórnmálum. Í framhaldinu hefur aðstoðarmaðurinn beðist velvirðingar og sagt að það hafi verið mistök hjá sér að senda tilkynninguna með þessum hætti. En spurningin er áfram gild: Hvert er lögheimili R-listans? Hverjir stjórna honum, marka stefnuna? Er grasrótin, sem svo mikið var gert úr fyrir tíu árum, enn virk? Eða hafa kannski örfáir atvinnumenn í Ráðhúsinu tekið völdin? Það er ekki aðeins utan R-listans sem slíkra spurninga er spurt. Einn af trúnaðarmönnum listans og áhrifamaður í flokki Vinstri grænna, Sverrir Jakobsson, segir í Morgunpósti VG í gær: "Vinstrimeirihlutinn í borginni þarf að sýna málefnalegt frumkvæði en hann þarf einnig að taka til í eigin ranni. Kjörnir fulltrúar mega ekki gleyma baklandi sínu og einangrast sem stjórnarformenn hinna og þessara borgarstofnana, fulltrúar "ráðhússklíkunnar" en ekki fólksins". Það er svo ekki alveg nýtt að deilt sé innan R-listans. Samstarfið stóð tæpt fyrir ári síðan og þá voru í gangi þreifingar á milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um myndun nýs meirihluta. Óánægjan virðist vera mest meðal Vinstri grænna sem lengi hefur fundist of mikill embættisbragur á stjórnunarstíl R-listans í Ráðhúsinu auk þess sem komið hafa upp nokkur mál sem valdið hafa erfiðleikum milli "baklandsins" á þeim vettvangi og hinna, sem ráða ferðinni: óánægjan magnaðist síðan þegar Ingibjörg Sólrún hætti að fara leynt með hug sinn til Samfylkingarinnar og nú þykir Þórólfur Árnason borgarstjóri hallari undir Framsóknarflokk og Samfylkingu en góðu hófi gegnir og ekki taka nægilegt tillit til Vinstri grænna. Ekki er líklegt að þessi ágreiningur verði samstarfi R-lista flokkanna skeinuhættur í bráð. Í stöðunni nú virðast fáir kostir fyrir hina óánægðu; ólíklegt er að Vinstri grænir leiti eftir samstarfi við sjálfstæðismenn. Hitt ætti sennilega að vera meira áhyggjuefni fyrir R-listann, þegar tæp tvö ár eru til kosninga, að sú skoðun er orðin útbreidd í borginni að gjá hafi myndast milli forystu hans í Ráðhúsinu og grasrótarinnar sem kom honum til valda. Skipulagsmál Reykjavíkur, lóðaframboð, miðbæjarskipulag, flugvöllurinn og Hringbrautarmálið eru dæmi um það hve vanmegna R-listinn hefur reynst gagnvart stórum verkefnum. Skuldasöfnun borgarinnar og fjárfestingaævintýri Orkuveitunnar eru raunar líka stór mál en virðast ekki hafa náð í gegn í umræðunni á sama hátt og skipulagsmálin. Sérstaklega virðast mál flugvallarins og Hringbrautar hafa valdið grasrót R-listans og almennum stuðningsmönnum djúpstæðum vonbrigðum. Ummæli í ritstjórnargrein hér í blaðinu á þriðjudaginn um að vinnubrögðin í sambandi við færslu Hringbrautar minni á framgöngu ríkisstjórnarinnar með fjölmiðlafrumvarpið eru ekki út í bláinn. Þetta finnst fólki á förnum vegi. Æ fleiri taka undir orðin í sömu grein um að ákveðin valdþreyta og andleysi einkenni stjórn höfuðborgarinnar. Sennilega er orðið brýnna fyrir fyrir R-listann til að ráða ráðum sínum á málþingi en að halda dansleik. Nær er að slá upp balli þegar alvörumálin eru til lykta leidd.