Da Vinci-lykillinn og sannleikurinn 1.hluti 15. júní 2005 00:01 Jæja, Michael Jackson var sýknaður en hefur lofað því að láta ekki framar litla stráka sofa uppi í rúmi hjá sér. Hannes Hólmsteinn var líka sýknaður, eða málinu gegn honum réttara sagt vísað frá, en hefur lofað að bæta tilvísunum og gæsalöppum inn í næstu útgáfu af bókinni sinni um Halldór Laxness. Halldór Ásgrímsson var líka sýknaður, eða réttara sagt hvítþveginn af ásökunum um að hafa verið vanhæfur til að sýsla með sölu ríkiseigna en hefur samkvæmt áreiðanlegum heimildum lofað að kaupa ekki fleiri banka. Svona gerast nú kaupin á eyrinni í henni veröld um þessar mundir. Nú - það er komið sumar, fólk er að tínast í sumarfrí - sumir til útlanda, kannski, en aðrir í ferðalög um landið eða bara upp í sumarbústað - og ætli það sé nú ekki notalegasta þegar allt kemur til alls. Liggja þar og flatmaga - rækta garðinn sinn - lesa. Klassískt lestrarefni yfir sumartímann eru reyfarar - bækur svona af léttara taginu - og skyldi ekki Da Vinci-lykillinn rata upp í margan sumarbústaðinn þetta sumarið? Margir eru að vísu búnir að lesa hana - því þetta er mikil metsölubók - hér á Íslandi sem annars staðar þessi árin - og raunar er Da Vinci-lykillinn eftir Dan Brown kominn í hóp mest seldu bóka sögunnar. Ég veit ekki hversu hátt hún er komin á þann lista - en alla vega er hana þar að finna, ofarlega. Ég man ekki hvort ég hef sagt það áður hér á þessum vettvangi, en ég skil ekki almennilega í vinsældum Da Vinci-lykilsins því þegar ég reyndi að lesa hana, þá fannst mér hún svo frumstæður samsetningur - illa skrifuð, persónusköpun fáránleg jafnvel af reyfara að vera, og margt fleira í svipaða lund - að ég gafst upp í miðju kafi - strax og ég þóttist vera búinn að fatta út á hvað plottið gengi - en það er samsuða upp úr bókinni Hið heilaga blóð og hið helga gral. Hún kom út fyrir 23 árum og vakti þá töluverða athygli fyrir kenningar sem höfundarnir, sem voru þrír, settu fram um að Jesú Kristur hefði átt barn með Maríu Magdalenu og frá því barni væri mikill ættbogi sem þræða mætti allt fram á þennan dag. Ég held ég sé varla að upplýsa neinn sérstakan leyndardóm fyrir þá sem kunna að eiga eftir að lesa Da Vinci-lykilinn - þótt ég segi þetta - því vita nú ekki allir þetta um Da Vinci lykilinn? - jafnvel þeir sem ekki hafa lesið hana. En séu nú kannski einhverjir að hlusta sem ekki hafa lesið Da Vinci-lykilinn en ætla sér að gera það í sumarbústaðnum nú á næstunni, þá ættu þeir kannski að lækka í tækjunum næstu mínútur - því ég ætla að fara um plottið í bókinni nokkrum orðum - verð reyndar ekki með neinar stórkostlegar uppljóstranir um það sem gerist í bókinni - og líklega er alveg óhætt að hlusta - þó menn hafi ekki lesið bókina - ég lofa að segja ekkert sem beinlínis skemmir fyrir fólki ánægjuna við að ráða í púsluspil sögunnar. Því ánægju virðist fólk vissulega hafa af bókinni - þótt ég hafi ekki notið hennar persónulega - og einmitt það, hversu margir fíla hana í ræmur eins og það heitir, það hefur orðið fleirum en mér rannsóknarefni. Ég var til dæmis að renna yfir langa grein í tímaritinu Times Literary Supplement í dag þar sem Bernard Hamilton fjallar einmitt um þetta sama - en hann er prófessor í sögu krossferðanna og höfundur bóka um margvísleg kirkjuleg málefni frá miðöldum. Og Bernard Hamilton er greinilega heldur ekkert sérlega hrifinn af bókinni en greinin hans er þó fyrst og fremst skoðun á því hvað liggur að baki bókinni svona guðfræðilega - ef það er þá eitthvað. Og hann segir í upphafi greinar sinnar: "Da Vinci-lykillinn er guðfræðilegur reyfari og því óvenjuleg metsölubók á þessum tímum sem sagðir eru svo veraldlegir. Eins og önnur fræg metsölubók, Hringadróttinssaga, þá er næstum ekkert ástarelement í bókinni og kynlíf yfirleitt kemur varla við sögu. Lýst er helgisið, eins konar helgisiðabrúðkaupi, sem átti sér stað nokkrum árum áður, en lýsingin er stuttaraleg og næsta vélræn. Hetjan og aðalkvenhetjan faðmast bara einu sinni og það á mjög penan hátt og ekki fyrr en á blaðsíðu 587. En þó er þetta metsölubók og raunar ein af mestu metsölubókum allra tíma. Áður en við veltum fyrir okkur hvað það er sem gert hefur bókina svo vinsæla, þá er gagnlegt að rekja í örstuttu máli söguþráðinn. Jacques Sauniere safnvörður í Louvre-safninu í París er myrtur á safninu en áður en hann deyr hefur hann tíma til að skilja eftir sig nokkrar vísbendingar um leyndarmál eitt sem hann hefur haft það hlutverk að gæta og hefur nú leitt til dauða hans. Robert Langdon, prófessor í trúarlegri táknfræði við háskólann í Harvard í Bandaríkjunum, tekur sér fyrir hendur að ráða gátuna um hvað er að baki þessum vísbendingum og honum til hjálpar er sonardóttir Sauniere safnvarðar, Sophie að nafni, en hún er lærður dulmálsfræðingur. Souniere reynist hafa verið stórmeistari hinnar dularfullu Síon-reglu sem helgar sig gæslu mikils leyndarmáls - að Jesú hafi verið mennskur maður, ekki sonur Guðs, og hann hafi gengið í hjónaband með Maríu Magdalenu sem bar honum barn og afkomendur þeirra eru enn á lífi. Langdon og Sophie álykta að kaþólska kirkjan viti að þetta leyndarmál búi að baki upphafs kristinnar trúar og líti á það sem ógnun við stöðu sína ef Síons-reglan gerði leyndarmálið opinbert. Þau álykta því ennfremur að Vatíkanið - og sérstaklega hin dularfulla stofnun Opus Dei sem þar hefur aðsetur - beri ábyrgð á morðinu á Sauniere og þremur öðrum félögum í reglunni sem hafa verið myrtir. Ekki skal sagt um það hér hvort þessi ályktun þeirra er rétt en víst er að meðlimir Opus Dei koma við sögu. Þegar til á að taka virðast leyndarmál Síon-reglunnar ekki hafa verið sérlega vel varðveitt því því bæði Langdon og Leigh nokkur Teabing, miðaldasérfræðingur sem Langdon leitar til, þeir reynast báðir hafa þekkt leyndarmálið fyrir, þótt ekki séu þeir meðlimir reglunnar, og vísbendingarnar sem Sauniere hefur skilið eftir sig, þær gera lítið annað en staðfesta það sem þeir vissu fyrir. Þeir útskýra í sameiningu leyndarmálið fyrir Sophie í þremur köflum í bókinni, og upplýsa þar að Jesú hafi bara verið dauðlegur maður en að vísu mikill trúarkennari. Skiljanlega - segja þeir - þá voru æviatriði hans skráð beinlínis af þúsundum lærisveina og það komu meira en 80 guðspjöll til mála þegar menn fóru að setja saman Nýja testamentið. Jesú kvæntist Maríu Magdalenu og var fyrsti femínistinn segir Teabing. "Hann vildi að framtíð kirkju sinnar yrði í höndum Maríu Magdalenu," fullyrðir Teabing. En kirkjan sem átti að vera helguð ekki síst hinum guðlega kvenleika hún lenti svo í klónum á rómverska keisaranum Konstantínusi mikla - sem ákvað að kristin trú skyldi verða ríkistrú í heimsveldinu. Hann þurfti því að selja þessa trú óteljandi heiðnum þegnum sínum og ákvað að samþætta - ef svo má segja - Jesú og Sol Invinctus, en það var sólarguð - "hin ósigraða sól" sem Kontantínus dýrkaði sjálfur lengst af. Keisarinn beitti því kirkjuþingið í Niceu í Tyrklandi miklum þrýstingi árið 325 og þar var kveðið á um guðdóm Jesú - og til stuðnings þessu þá ákváðu kirkjufeðurnir í Níkeu að velja þau fjögur guðspjöll sem best hentuðu til að renna stoðum undir hina guðlegu mynd af Jesú. Þá passaði ekki að Jesú hefði verið kvæntur og María Magdalena varð bara að konu í borginni sem ofan í kaupið var syndari. Öll hin 76 guðspjöllin og þær margvíslegu kenningar um eðli Jesú sem þar komu fram voru lýst villutrú - og kaþólska kirkjan varð sú karllæga stofnun sem við þekkjum enn í dag með tilheyrandi kvenfyrirlitningu. Nú er Da Vinci-lykillinn skáldsaga og því væri að æra óstöðugan að elta ólar við alla þá staði þar sem ónákvæmlega er farið með staðreyndir úr kirkjusögunni. Ef ekki væri fyrir formála sem Dan Brown hefur sett bók sinni þar sem segir: "Það er staðreynd að Síon-reglan - leynifélag sem stofnað var í Evrópu aárið 1099 - hún er til í raun og veru. Árið 1975 þá fundust í París pappírar sem kallast Les Dossiers Secrets þar sem nefndir eru nokkrir meðlimir reglunnar svo sem þeir Sir Isaac Newton, málarinn Sandro Botticelli, Victor Hugo og Leonardo da Vinci. Sú stofnun innan Vatíkansins sem kallast Opus Dei er heittrúarfélag kaþólskra sem hefur orðið skotspónn mikilla deilna þar sem stofnunin hefur verið sökuð um heilaþvott kúgun og hættulegt uppátæki sem kallast líkamleg refsing. Allar lýsingar á listaverkum arkitektúr skjölum og leynilegum helgisiðum í þessari skáldsögu eru sannleikanum samkvæmar." Sagði Dan Brown. En þó verður ekki annað sagt en að sú lýsing sem sögupersónur hans þeir Langdon og Teabing gefa Sophie um upphaflega kenningu Jesú og það hvernig Konstantiínus keisari sveigði hana að sínum þörfum, sé verulega broguð. Sögupersónur Browns ganga út frá því að kirkjan fyrir daga Konstantínusar hafi verið eitt og samfellt samfélag þar sem allir trúðu því sama - og að andófshópar hafi ekki sprottið upp fyrr en eftir að Konstantínus þvingaði kirkjuna af réttri braut og sumir vildu ekki gera það. Staðreyndin er hins vegar sú að kirkjan var jafnvel fyrir daga Konstantínusar og kirkjuþingsins í Níkeu klofin í alveg eins marga sértrúarflokka og til eru nú á vorum dögum. Stærsti hópurinn kallaði sig Stórkirkjuna eða Almennu kirkjuna - það er kaþólska kirkjan - sem kvaðst tala í nafni almennings - og það var sú kirkja sem Konstantínus ýtti undir og gekk að lokum til liðs við. Meðlimir þeirrar kirkjudeildar trúðu vissulega á guðlegt eðli Jesú löngu fyrir daga Konstantínusar og höfðu reglulega sætt ofsóknum Rómaveldis fyrir einmitt það. Þingið í Níkeu sem Konstantínus boðaði árið 325, það átti reyndar alls ekki að taka afstöðu til guðdóms Jesú - því um hann voru allir meðlimir þessarar kirkjudeildar sammála - heldur átti að taka afstöðu til þess hvort guðdómur Jesú væri ólíkur guðdómur Guði föður - og var niðurstaðan sú að guðdómur þeirra væri sama eðlis. Þar að auki - þótt Nýja testamentið eins og við þekkjum það hafi vissulega ekki orðið til í nútverandi mynd fyrr en síðar á fjórðu öld, þá hafði Stórkirkjan komist strax á annarri öld - 150-200 árum fyrir Níkeuþingið - að þeirri niðurstöðu að guðspjöllin fjögur sem kennd eru við Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes - þau gæfu ein skikkanlega rétta mynd af ævi Jesú. Það er vissulega laukrétt hjá sögupersónunni Teabing sem hann segir á einum stað í fyrirlestri þeirra félaga að til hafi verið önnur guðspjöll á fyrstu öldunum eftir Krist. Hann segir að þau standi mönnum nú aftur opin eftir fornleifafundi bæði við Dauða hafið í Ísrael og Nag Hammadi í Egiftalandi. Dauðahafs-skjölin koma þessu máli reyndar ekkert við því þar er ekki að finna nein kristin rit - en í skjölunum sem fundust við Nag Hammadi fundust vissulega stór og smá brot úr mörgum öðrum guðspjöllum - apókrýfum guðspjöllum sem svo eru kölluð af því þau hlutu ekki þann sess að vera tekin með í Nýja testamentið. Þótt flest þessara guðspjalla hafi reyndar verið kunn fyrir uppgröftinn í Nag Hammadi, þá varð fundurinn í Nag Hammadi vissulega til þess að auka við þekkingu manna á þessum guðspjöllum. Í grófum dráttum skiptast textarnir sem kenndir eru við Nag Hammadi í tvennt. Annars vegar er um að ræða tilraunir til að fylla upp í göt í frásögnum hinna fjögurra þekktustu guðspjalla um ævi Jesú og lærisveina hans - þar eru til dæmis frásagnir af æsku hans og sömuleiðis um afdrif lærisveinanna eftir að Jesú var horfinn úr heimi. Hins vegar eru textar sem leitast við að sýna fram á hina sönnu kenningu Jesú sem Stórkirkjan hafi þá þegar verið farin að bæla niður. Þessi seinni rit eru kölluð gnostísk af því höfundarnir telja sig hafa sérstaka þekkingu - eða gnosís eins og það heitir á grísku - á prédikun Jesú - þekkingu sem Stórkirkjan hafi glatað. Mikilvægt er að þessi rit voru ekki skrifuð á tímu Jesú sjálfs - eins og Teabing gefur til kynna - heldur voru þau öll skrifuð löngu síðar. Teabing tiltekur tvö dæmi úr þessum ritum sem eiga að sýna fram á hina réttu kenningu Jesú - annars vegar úr Guðspjalli Filippusar og hins vegar úr Guðspjalli Maríu - það er að segja Maríu Magdalenu en úr því síðarnefnda er bara til örstutt brot. Tilvitnanirnar sem Dan Brown lætur Teabing tilgreina eru vissulega réttar, en þær gefa ekki tilefni til þeirra ályktana sem Teabing - og reyndar Síon-reglan - draga af þeim. Gnostísku kirkjunnar á fyrstu öldum eftir Krist, sem töldu að þessi rit hefðu að geyma hina sönnu kenningu Jesú, þær héldu því sannarlega fram að Jesú hefði veitt konum í hópi lærisveinanna hærri og stærri sess heldur en Stórkirkjan vildi vera láta og að María Magdalena hafi orðið aðnjótandi sérstakrar upplifunar eða sýnar þar sem Jesú birtist henni eftir að hann var farinn upp til himna til föður síns." Það er reyndar athyglisvert að jafnvel gnostísku kirkjurnar voru margklofnar í afstöðu sinni til Jesú og kenninga hans - svo ekki er um það að ræða að Stórkirkjan hafi bælt niður einhverja eina rétta rétta kenningu þegar hún braut gnostísku kirkjurnar á bak aftur - millum þeirra var líka hver höndin upp á móti annarri. "En allir þeir sem hallir voru undir gnostísku kirkjurnar voru þó sammála um eitt - að efnisheimurinn hefði orðið til fyrir einhverja hálfgerða slysni sem hefði valdið því að andlegar sálir hefðu læst inni í jarðneskum kroppum - og kæmu í veg fyrir að sálirnar rynnu aftur saman við hinn eiginlega guðdóm. Tákn gnosta fyrir jarðlífið var "gullið í drullunni" - gullið var sálin og drullan var líkaminn. Allir gnostar voru þar að auki sammála um að Jesú hefði svo sannarlega ekki verið neinn venjulegur maður - eins og má þó ætla að fullyrðingum Dan Browns og sögupersóna hans - heldur hafi hann verið guðlegur sendiboði sem guðdómurinn gerði út til að kynna fyrir mönnunum þá þekkingu - gnosís - sem þurfti til að þeir áttuðu sig á raunverulegu hlutskipti sínu og gætu unnið að því að yfirvinna fangelsi líkamans. Hin gnostísku guðspjöll eru því síður en svo nokkur stuðningur fyrir þá trú að Jesú hafi verið mannlegur kennari sem prédikaði mikilvægi hins kvenlega. Eins og Dan Brown gefur í skyn. Það er að finna í Da Vinci-lyklinum mörg fleiri dæmi um rangar upplýsingar um kristna kenningu og frumsögu kirkjunnar og áhugasamir lesendur geta reyndar kynnt sér þau dæmi í ýmsum þeim bókum sem þegar hafa verið gefnar út til höfuðs Da Vinci-lyklinum - en ýta náttúrlega bara undir vinsældir bókarinnar." Svo mörg voru þau orð Bernards Hamilstons - grein hans er reyndar ekki lokið og ég glugga kannski frekar í hana seinna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór
Jæja, Michael Jackson var sýknaður en hefur lofað því að láta ekki framar litla stráka sofa uppi í rúmi hjá sér. Hannes Hólmsteinn var líka sýknaður, eða málinu gegn honum réttara sagt vísað frá, en hefur lofað að bæta tilvísunum og gæsalöppum inn í næstu útgáfu af bókinni sinni um Halldór Laxness. Halldór Ásgrímsson var líka sýknaður, eða réttara sagt hvítþveginn af ásökunum um að hafa verið vanhæfur til að sýsla með sölu ríkiseigna en hefur samkvæmt áreiðanlegum heimildum lofað að kaupa ekki fleiri banka. Svona gerast nú kaupin á eyrinni í henni veröld um þessar mundir. Nú - það er komið sumar, fólk er að tínast í sumarfrí - sumir til útlanda, kannski, en aðrir í ferðalög um landið eða bara upp í sumarbústað - og ætli það sé nú ekki notalegasta þegar allt kemur til alls. Liggja þar og flatmaga - rækta garðinn sinn - lesa. Klassískt lestrarefni yfir sumartímann eru reyfarar - bækur svona af léttara taginu - og skyldi ekki Da Vinci-lykillinn rata upp í margan sumarbústaðinn þetta sumarið? Margir eru að vísu búnir að lesa hana - því þetta er mikil metsölubók - hér á Íslandi sem annars staðar þessi árin - og raunar er Da Vinci-lykillinn eftir Dan Brown kominn í hóp mest seldu bóka sögunnar. Ég veit ekki hversu hátt hún er komin á þann lista - en alla vega er hana þar að finna, ofarlega. Ég man ekki hvort ég hef sagt það áður hér á þessum vettvangi, en ég skil ekki almennilega í vinsældum Da Vinci-lykilsins því þegar ég reyndi að lesa hana, þá fannst mér hún svo frumstæður samsetningur - illa skrifuð, persónusköpun fáránleg jafnvel af reyfara að vera, og margt fleira í svipaða lund - að ég gafst upp í miðju kafi - strax og ég þóttist vera búinn að fatta út á hvað plottið gengi - en það er samsuða upp úr bókinni Hið heilaga blóð og hið helga gral. Hún kom út fyrir 23 árum og vakti þá töluverða athygli fyrir kenningar sem höfundarnir, sem voru þrír, settu fram um að Jesú Kristur hefði átt barn með Maríu Magdalenu og frá því barni væri mikill ættbogi sem þræða mætti allt fram á þennan dag. Ég held ég sé varla að upplýsa neinn sérstakan leyndardóm fyrir þá sem kunna að eiga eftir að lesa Da Vinci-lykilinn - þótt ég segi þetta - því vita nú ekki allir þetta um Da Vinci lykilinn? - jafnvel þeir sem ekki hafa lesið hana. En séu nú kannski einhverjir að hlusta sem ekki hafa lesið Da Vinci-lykilinn en ætla sér að gera það í sumarbústaðnum nú á næstunni, þá ættu þeir kannski að lækka í tækjunum næstu mínútur - því ég ætla að fara um plottið í bókinni nokkrum orðum - verð reyndar ekki með neinar stórkostlegar uppljóstranir um það sem gerist í bókinni - og líklega er alveg óhætt að hlusta - þó menn hafi ekki lesið bókina - ég lofa að segja ekkert sem beinlínis skemmir fyrir fólki ánægjuna við að ráða í púsluspil sögunnar. Því ánægju virðist fólk vissulega hafa af bókinni - þótt ég hafi ekki notið hennar persónulega - og einmitt það, hversu margir fíla hana í ræmur eins og það heitir, það hefur orðið fleirum en mér rannsóknarefni. Ég var til dæmis að renna yfir langa grein í tímaritinu Times Literary Supplement í dag þar sem Bernard Hamilton fjallar einmitt um þetta sama - en hann er prófessor í sögu krossferðanna og höfundur bóka um margvísleg kirkjuleg málefni frá miðöldum. Og Bernard Hamilton er greinilega heldur ekkert sérlega hrifinn af bókinni en greinin hans er þó fyrst og fremst skoðun á því hvað liggur að baki bókinni svona guðfræðilega - ef það er þá eitthvað. Og hann segir í upphafi greinar sinnar: "Da Vinci-lykillinn er guðfræðilegur reyfari og því óvenjuleg metsölubók á þessum tímum sem sagðir eru svo veraldlegir. Eins og önnur fræg metsölubók, Hringadróttinssaga, þá er næstum ekkert ástarelement í bókinni og kynlíf yfirleitt kemur varla við sögu. Lýst er helgisið, eins konar helgisiðabrúðkaupi, sem átti sér stað nokkrum árum áður, en lýsingin er stuttaraleg og næsta vélræn. Hetjan og aðalkvenhetjan faðmast bara einu sinni og það á mjög penan hátt og ekki fyrr en á blaðsíðu 587. En þó er þetta metsölubók og raunar ein af mestu metsölubókum allra tíma. Áður en við veltum fyrir okkur hvað það er sem gert hefur bókina svo vinsæla, þá er gagnlegt að rekja í örstuttu máli söguþráðinn. Jacques Sauniere safnvörður í Louvre-safninu í París er myrtur á safninu en áður en hann deyr hefur hann tíma til að skilja eftir sig nokkrar vísbendingar um leyndarmál eitt sem hann hefur haft það hlutverk að gæta og hefur nú leitt til dauða hans. Robert Langdon, prófessor í trúarlegri táknfræði við háskólann í Harvard í Bandaríkjunum, tekur sér fyrir hendur að ráða gátuna um hvað er að baki þessum vísbendingum og honum til hjálpar er sonardóttir Sauniere safnvarðar, Sophie að nafni, en hún er lærður dulmálsfræðingur. Souniere reynist hafa verið stórmeistari hinnar dularfullu Síon-reglu sem helgar sig gæslu mikils leyndarmáls - að Jesú hafi verið mennskur maður, ekki sonur Guðs, og hann hafi gengið í hjónaband með Maríu Magdalenu sem bar honum barn og afkomendur þeirra eru enn á lífi. Langdon og Sophie álykta að kaþólska kirkjan viti að þetta leyndarmál búi að baki upphafs kristinnar trúar og líti á það sem ógnun við stöðu sína ef Síons-reglan gerði leyndarmálið opinbert. Þau álykta því ennfremur að Vatíkanið - og sérstaklega hin dularfulla stofnun Opus Dei sem þar hefur aðsetur - beri ábyrgð á morðinu á Sauniere og þremur öðrum félögum í reglunni sem hafa verið myrtir. Ekki skal sagt um það hér hvort þessi ályktun þeirra er rétt en víst er að meðlimir Opus Dei koma við sögu. Þegar til á að taka virðast leyndarmál Síon-reglunnar ekki hafa verið sérlega vel varðveitt því því bæði Langdon og Leigh nokkur Teabing, miðaldasérfræðingur sem Langdon leitar til, þeir reynast báðir hafa þekkt leyndarmálið fyrir, þótt ekki séu þeir meðlimir reglunnar, og vísbendingarnar sem Sauniere hefur skilið eftir sig, þær gera lítið annað en staðfesta það sem þeir vissu fyrir. Þeir útskýra í sameiningu leyndarmálið fyrir Sophie í þremur köflum í bókinni, og upplýsa þar að Jesú hafi bara verið dauðlegur maður en að vísu mikill trúarkennari. Skiljanlega - segja þeir - þá voru æviatriði hans skráð beinlínis af þúsundum lærisveina og það komu meira en 80 guðspjöll til mála þegar menn fóru að setja saman Nýja testamentið. Jesú kvæntist Maríu Magdalenu og var fyrsti femínistinn segir Teabing. "Hann vildi að framtíð kirkju sinnar yrði í höndum Maríu Magdalenu," fullyrðir Teabing. En kirkjan sem átti að vera helguð ekki síst hinum guðlega kvenleika hún lenti svo í klónum á rómverska keisaranum Konstantínusi mikla - sem ákvað að kristin trú skyldi verða ríkistrú í heimsveldinu. Hann þurfti því að selja þessa trú óteljandi heiðnum þegnum sínum og ákvað að samþætta - ef svo má segja - Jesú og Sol Invinctus, en það var sólarguð - "hin ósigraða sól" sem Kontantínus dýrkaði sjálfur lengst af. Keisarinn beitti því kirkjuþingið í Niceu í Tyrklandi miklum þrýstingi árið 325 og þar var kveðið á um guðdóm Jesú - og til stuðnings þessu þá ákváðu kirkjufeðurnir í Níkeu að velja þau fjögur guðspjöll sem best hentuðu til að renna stoðum undir hina guðlegu mynd af Jesú. Þá passaði ekki að Jesú hefði verið kvæntur og María Magdalena varð bara að konu í borginni sem ofan í kaupið var syndari. Öll hin 76 guðspjöllin og þær margvíslegu kenningar um eðli Jesú sem þar komu fram voru lýst villutrú - og kaþólska kirkjan varð sú karllæga stofnun sem við þekkjum enn í dag með tilheyrandi kvenfyrirlitningu. Nú er Da Vinci-lykillinn skáldsaga og því væri að æra óstöðugan að elta ólar við alla þá staði þar sem ónákvæmlega er farið með staðreyndir úr kirkjusögunni. Ef ekki væri fyrir formála sem Dan Brown hefur sett bók sinni þar sem segir: "Það er staðreynd að Síon-reglan - leynifélag sem stofnað var í Evrópu aárið 1099 - hún er til í raun og veru. Árið 1975 þá fundust í París pappírar sem kallast Les Dossiers Secrets þar sem nefndir eru nokkrir meðlimir reglunnar svo sem þeir Sir Isaac Newton, málarinn Sandro Botticelli, Victor Hugo og Leonardo da Vinci. Sú stofnun innan Vatíkansins sem kallast Opus Dei er heittrúarfélag kaþólskra sem hefur orðið skotspónn mikilla deilna þar sem stofnunin hefur verið sökuð um heilaþvott kúgun og hættulegt uppátæki sem kallast líkamleg refsing. Allar lýsingar á listaverkum arkitektúr skjölum og leynilegum helgisiðum í þessari skáldsögu eru sannleikanum samkvæmar." Sagði Dan Brown. En þó verður ekki annað sagt en að sú lýsing sem sögupersónur hans þeir Langdon og Teabing gefa Sophie um upphaflega kenningu Jesú og það hvernig Konstantiínus keisari sveigði hana að sínum þörfum, sé verulega broguð. Sögupersónur Browns ganga út frá því að kirkjan fyrir daga Konstantínusar hafi verið eitt og samfellt samfélag þar sem allir trúðu því sama - og að andófshópar hafi ekki sprottið upp fyrr en eftir að Konstantínus þvingaði kirkjuna af réttri braut og sumir vildu ekki gera það. Staðreyndin er hins vegar sú að kirkjan var jafnvel fyrir daga Konstantínusar og kirkjuþingsins í Níkeu klofin í alveg eins marga sértrúarflokka og til eru nú á vorum dögum. Stærsti hópurinn kallaði sig Stórkirkjuna eða Almennu kirkjuna - það er kaþólska kirkjan - sem kvaðst tala í nafni almennings - og það var sú kirkja sem Konstantínus ýtti undir og gekk að lokum til liðs við. Meðlimir þeirrar kirkjudeildar trúðu vissulega á guðlegt eðli Jesú löngu fyrir daga Konstantínusar og höfðu reglulega sætt ofsóknum Rómaveldis fyrir einmitt það. Þingið í Níkeu sem Konstantínus boðaði árið 325, það átti reyndar alls ekki að taka afstöðu til guðdóms Jesú - því um hann voru allir meðlimir þessarar kirkjudeildar sammála - heldur átti að taka afstöðu til þess hvort guðdómur Jesú væri ólíkur guðdómur Guði föður - og var niðurstaðan sú að guðdómur þeirra væri sama eðlis. Þar að auki - þótt Nýja testamentið eins og við þekkjum það hafi vissulega ekki orðið til í nútverandi mynd fyrr en síðar á fjórðu öld, þá hafði Stórkirkjan komist strax á annarri öld - 150-200 árum fyrir Níkeuþingið - að þeirri niðurstöðu að guðspjöllin fjögur sem kennd eru við Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes - þau gæfu ein skikkanlega rétta mynd af ævi Jesú. Það er vissulega laukrétt hjá sögupersónunni Teabing sem hann segir á einum stað í fyrirlestri þeirra félaga að til hafi verið önnur guðspjöll á fyrstu öldunum eftir Krist. Hann segir að þau standi mönnum nú aftur opin eftir fornleifafundi bæði við Dauða hafið í Ísrael og Nag Hammadi í Egiftalandi. Dauðahafs-skjölin koma þessu máli reyndar ekkert við því þar er ekki að finna nein kristin rit - en í skjölunum sem fundust við Nag Hammadi fundust vissulega stór og smá brot úr mörgum öðrum guðspjöllum - apókrýfum guðspjöllum sem svo eru kölluð af því þau hlutu ekki þann sess að vera tekin með í Nýja testamentið. Þótt flest þessara guðspjalla hafi reyndar verið kunn fyrir uppgröftinn í Nag Hammadi, þá varð fundurinn í Nag Hammadi vissulega til þess að auka við þekkingu manna á þessum guðspjöllum. Í grófum dráttum skiptast textarnir sem kenndir eru við Nag Hammadi í tvennt. Annars vegar er um að ræða tilraunir til að fylla upp í göt í frásögnum hinna fjögurra þekktustu guðspjalla um ævi Jesú og lærisveina hans - þar eru til dæmis frásagnir af æsku hans og sömuleiðis um afdrif lærisveinanna eftir að Jesú var horfinn úr heimi. Hins vegar eru textar sem leitast við að sýna fram á hina sönnu kenningu Jesú sem Stórkirkjan hafi þá þegar verið farin að bæla niður. Þessi seinni rit eru kölluð gnostísk af því höfundarnir telja sig hafa sérstaka þekkingu - eða gnosís eins og það heitir á grísku - á prédikun Jesú - þekkingu sem Stórkirkjan hafi glatað. Mikilvægt er að þessi rit voru ekki skrifuð á tímu Jesú sjálfs - eins og Teabing gefur til kynna - heldur voru þau öll skrifuð löngu síðar. Teabing tiltekur tvö dæmi úr þessum ritum sem eiga að sýna fram á hina réttu kenningu Jesú - annars vegar úr Guðspjalli Filippusar og hins vegar úr Guðspjalli Maríu - það er að segja Maríu Magdalenu en úr því síðarnefnda er bara til örstutt brot. Tilvitnanirnar sem Dan Brown lætur Teabing tilgreina eru vissulega réttar, en þær gefa ekki tilefni til þeirra ályktana sem Teabing - og reyndar Síon-reglan - draga af þeim. Gnostísku kirkjunnar á fyrstu öldum eftir Krist, sem töldu að þessi rit hefðu að geyma hina sönnu kenningu Jesú, þær héldu því sannarlega fram að Jesú hefði veitt konum í hópi lærisveinanna hærri og stærri sess heldur en Stórkirkjan vildi vera láta og að María Magdalena hafi orðið aðnjótandi sérstakrar upplifunar eða sýnar þar sem Jesú birtist henni eftir að hann var farinn upp til himna til föður síns." Það er reyndar athyglisvert að jafnvel gnostísku kirkjurnar voru margklofnar í afstöðu sinni til Jesú og kenninga hans - svo ekki er um það að ræða að Stórkirkjan hafi bælt niður einhverja eina rétta rétta kenningu þegar hún braut gnostísku kirkjurnar á bak aftur - millum þeirra var líka hver höndin upp á móti annarri. "En allir þeir sem hallir voru undir gnostísku kirkjurnar voru þó sammála um eitt - að efnisheimurinn hefði orðið til fyrir einhverja hálfgerða slysni sem hefði valdið því að andlegar sálir hefðu læst inni í jarðneskum kroppum - og kæmu í veg fyrir að sálirnar rynnu aftur saman við hinn eiginlega guðdóm. Tákn gnosta fyrir jarðlífið var "gullið í drullunni" - gullið var sálin og drullan var líkaminn. Allir gnostar voru þar að auki sammála um að Jesú hefði svo sannarlega ekki verið neinn venjulegur maður - eins og má þó ætla að fullyrðingum Dan Browns og sögupersóna hans - heldur hafi hann verið guðlegur sendiboði sem guðdómurinn gerði út til að kynna fyrir mönnunum þá þekkingu - gnosís - sem þurfti til að þeir áttuðu sig á raunverulegu hlutskipti sínu og gætu unnið að því að yfirvinna fangelsi líkamans. Hin gnostísku guðspjöll eru því síður en svo nokkur stuðningur fyrir þá trú að Jesú hafi verið mannlegur kennari sem prédikaði mikilvægi hins kvenlega. Eins og Dan Brown gefur í skyn. Það er að finna í Da Vinci-lyklinum mörg fleiri dæmi um rangar upplýsingar um kristna kenningu og frumsögu kirkjunnar og áhugasamir lesendur geta reyndar kynnt sér þau dæmi í ýmsum þeim bókum sem þegar hafa verið gefnar út til höfuðs Da Vinci-lyklinum - en ýta náttúrlega bara undir vinsældir bókarinnar." Svo mörg voru þau orð Bernards Hamilstons - grein hans er reyndar ekki lokið og ég glugga kannski frekar í hana seinna.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun