Flugvallarmál og Sundabraut 10. maí 2006 00:01 Eitt heitasta kosningamálið í höfuðborginni, í annars rólegri kosningabaráttu, er án efa framtíð Reykjavíkurflugvallar. Væntanlegir borgarfulltrúar eru ólatir við að tjá sig um málið, sem þó á aðallega heima á borði samgönguráðherra, eins og önnur samgöngumannvirki í landinu. Auðvitað eiga Reykvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins fullan rétt á því að tjá sig um málið, en útsvarspeningar höfuðborgarbúa munu ekki fara í að breyta núverandi flugvelli eða gera nýjan á Lönguskerjum eða Hólmsheiði. Ákvarðanir í þeim efnum verða væntanlega teknar á Alþingi og framkvæmdir fjármagnaðar á fjárlögum ríkisins. Framtíð Reykjavíkurflugvallar er svo ekki síður hagsmunamál landsbyggðarfólks og sjónarmið þess verður að virða og taka tillit til varðandi málið. Það er fyrir löngu ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er fram til ársins 2016, eða í tíu ár enn að minnsta kosti. Miklum endurbótum á flugvellinum og umhverfi hans er varla lokið, og líklega hefur Reykjavíkurflugvöllur aldrei áður verið jafn góður til að sinna hlutverki sínu og nú. Eitt vantar þó og það er boðleg flugstöð fyrir farþega sem leið eiga um völlinn. Núverandi húsnæði er til skammar svo og allt umhverfið við afgreiðslu flugsins til og frá vellinum. Flugmenn hafa lagt orð í belg nýlega varðandi framtíð flugvallarins og bent á ýmsa kosti við staðsetningu hans varðandi veðurfar og fleira. Það er því ekki víst að það hafi verið tilviljun ein sem réði því að Bretar ákváðu á sínum tíma að gera flugvöll í Vatnsmýrinni þrátt fyrir lélega undirstöðu. Þar hefur hann verið síðan á stríðsárunum og þjónað fluginu vel. Auðvitað þurfa menn að taka fullt tillit til þess að flugvöllurinn er nálægt þéttbýlinu og aðflugs- og flugtaksleiðir eru yfir byggð. Nálægð vallarins við helstu stofnanir þjóðfélagsins, svo sem stjórnkerfið, fjármálastofnanir og Landspítalann skiptir líka miklu máli fyrir þá sem koma utan af landi og eiga erindi í þessar stofnanir. Um völlinn fara um 500 sjúkraflug árlega, og í langflestum tilfellum er þar um að ræða venjulegar flugvélar, þótt meira beri á sjúkraflugi með þyrlum, sem er um fimmtungur af sjúkrafluginu um völlinn. Samráðsnefnd um Reykjavíkurflugvöll er að störfum, en hún lýkur ekki athugun sinni varðandi miðstöð innanlandsflugs í landinu fyrr en síðar á þessu ári þótt hún hafi nýlega gert grein fyrir störfum sínum fram til þessa. Áður en hún lýkur störfum ættu menn að spara stórar yfirlýsingar um framtíð innanlandsflugsins, þótt það sé freistandi fyrir frambjóðendur að leiða að sér athygli í kosningabaráttunni með yfirlýsingum um framtíð þess. Sumum hefur tekist það býsna vel undanfarna daga, en þetta er mál sem á langt í land og væri nær fyrir frambjóðendur að leggja áherslu á eitthvað sem gæti orðið að veruleika á næstu fjórum árum og þar eru öldrunarmálin ofarlega á blaði. Varðandi samgöngumál er Sundabraut nærtækari kostur til að berjast fyrir. Hún á það reyndar sameiginlegt með Reykjavíkurflugvelli að þar er líka um að ræða samgöngumál á vegum ríkisins, þótt það skipti höfuðborgina að sjálfsögðu mjög miklu máli. Ef meirihluti Sjálfstæðisflokksins kemst til valda í Reykjavík, sem virðist fyrirsjáanlegt samkvæmt könnunum, þá ætti hnútukasti milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda varðandi Sundabraut að ljúka, svo hægt verði að hefja framkvæmdir við það mikla samgöngumannvirki. Ef hugsað er til framtíðar og menn njörva sig ekki niður við krónur og aura virðist jarðgangaleið með tveimur munnum Reykjavíkurmegin besti kosturinn. Það er eins með Sundabraut og Reykjavíkurflugvöll, að það er ekki síður landsbyggðarfólk sem á hagsmuna að gæta varðandi samgöngur til og frá borginni. Þess vegna er hæpið að efna til bindandi skoðanakannana í einstökum hverfum höfuðborgarinnar varðandi framtíðarlausn um lagningu Sundabrautar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kári Jónasson Skoðanir Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Stúlka frá Gaza sem að missti allt Asil Jihad Al-Masri Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Eitt heitasta kosningamálið í höfuðborginni, í annars rólegri kosningabaráttu, er án efa framtíð Reykjavíkurflugvallar. Væntanlegir borgarfulltrúar eru ólatir við að tjá sig um málið, sem þó á aðallega heima á borði samgönguráðherra, eins og önnur samgöngumannvirki í landinu. Auðvitað eiga Reykvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins fullan rétt á því að tjá sig um málið, en útsvarspeningar höfuðborgarbúa munu ekki fara í að breyta núverandi flugvelli eða gera nýjan á Lönguskerjum eða Hólmsheiði. Ákvarðanir í þeim efnum verða væntanlega teknar á Alþingi og framkvæmdir fjármagnaðar á fjárlögum ríkisins. Framtíð Reykjavíkurflugvallar er svo ekki síður hagsmunamál landsbyggðarfólks og sjónarmið þess verður að virða og taka tillit til varðandi málið. Það er fyrir löngu ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er fram til ársins 2016, eða í tíu ár enn að minnsta kosti. Miklum endurbótum á flugvellinum og umhverfi hans er varla lokið, og líklega hefur Reykjavíkurflugvöllur aldrei áður verið jafn góður til að sinna hlutverki sínu og nú. Eitt vantar þó og það er boðleg flugstöð fyrir farþega sem leið eiga um völlinn. Núverandi húsnæði er til skammar svo og allt umhverfið við afgreiðslu flugsins til og frá vellinum. Flugmenn hafa lagt orð í belg nýlega varðandi framtíð flugvallarins og bent á ýmsa kosti við staðsetningu hans varðandi veðurfar og fleira. Það er því ekki víst að það hafi verið tilviljun ein sem réði því að Bretar ákváðu á sínum tíma að gera flugvöll í Vatnsmýrinni þrátt fyrir lélega undirstöðu. Þar hefur hann verið síðan á stríðsárunum og þjónað fluginu vel. Auðvitað þurfa menn að taka fullt tillit til þess að flugvöllurinn er nálægt þéttbýlinu og aðflugs- og flugtaksleiðir eru yfir byggð. Nálægð vallarins við helstu stofnanir þjóðfélagsins, svo sem stjórnkerfið, fjármálastofnanir og Landspítalann skiptir líka miklu máli fyrir þá sem koma utan af landi og eiga erindi í þessar stofnanir. Um völlinn fara um 500 sjúkraflug árlega, og í langflestum tilfellum er þar um að ræða venjulegar flugvélar, þótt meira beri á sjúkraflugi með þyrlum, sem er um fimmtungur af sjúkrafluginu um völlinn. Samráðsnefnd um Reykjavíkurflugvöll er að störfum, en hún lýkur ekki athugun sinni varðandi miðstöð innanlandsflugs í landinu fyrr en síðar á þessu ári þótt hún hafi nýlega gert grein fyrir störfum sínum fram til þessa. Áður en hún lýkur störfum ættu menn að spara stórar yfirlýsingar um framtíð innanlandsflugsins, þótt það sé freistandi fyrir frambjóðendur að leiða að sér athygli í kosningabaráttunni með yfirlýsingum um framtíð þess. Sumum hefur tekist það býsna vel undanfarna daga, en þetta er mál sem á langt í land og væri nær fyrir frambjóðendur að leggja áherslu á eitthvað sem gæti orðið að veruleika á næstu fjórum árum og þar eru öldrunarmálin ofarlega á blaði. Varðandi samgöngumál er Sundabraut nærtækari kostur til að berjast fyrir. Hún á það reyndar sameiginlegt með Reykjavíkurflugvelli að þar er líka um að ræða samgöngumál á vegum ríkisins, þótt það skipti höfuðborgina að sjálfsögðu mjög miklu máli. Ef meirihluti Sjálfstæðisflokksins kemst til valda í Reykjavík, sem virðist fyrirsjáanlegt samkvæmt könnunum, þá ætti hnútukasti milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda varðandi Sundabraut að ljúka, svo hægt verði að hefja framkvæmdir við það mikla samgöngumannvirki. Ef hugsað er til framtíðar og menn njörva sig ekki niður við krónur og aura virðist jarðgangaleið með tveimur munnum Reykjavíkurmegin besti kosturinn. Það er eins með Sundabraut og Reykjavíkurflugvöll, að það er ekki síður landsbyggðarfólk sem á hagsmuna að gæta varðandi samgöngur til og frá borginni. Þess vegna er hæpið að efna til bindandi skoðanakannana í einstökum hverfum höfuðborgarinnar varðandi framtíðarlausn um lagningu Sundabrautar.