Vinnan er guðs dýrð: Taka tvö 3. ágúst 2006 00:01 Evrópumenn vinna minna en Bandaríkjamenn eins og ég lýsti hér á þessum stað fyrir viku. Munurinn er talsverður: vinnuvikan er að jafnaði einni klukkustundu styttri í Evrópu en í Bandaríkjunum. Vinnuálagið var svipað báðum megin Atlantshafsins um 1960, meira að segja ívið meira í Evrópu en í Ameríku, en það átti eftir að breytast. Evrópuþjóðirnar hafa með tímanum dregið meira úr vinnu sinni en Bandaríkjamenn. Með Evrópu á ég við Evrópusambandslöndin fimmtán fyrir stækkun Sambandsins 2004. Fækkun vinnustunda í Evrópu er annars vegar til komin af illri nauðsyn, sumpart vegna aukins atvinnuleysis og þungrar skattbyrði, sem dregur úr vinnuvilja, og hins vegar af fúsum og frjálsum vilja, meðal annars vegna þess að Evrópumenn kjósa að jafnaði að fara fyrr en Bandaríkjamenn á eftirlaun. Upp úr sextugu eru þrír af hverjum fjórum starfandi mönnum í Evrópu hættir að vinna, en helmingur Bandaríkjamanna á sama aldri heldur áfram að vinna. Fjórði hver kani heldur áfram að vinna eftir sjötugt á móti tuttugasta hverjum Evrópumanni. Eru Bandaríkjamenn vinnusamari en Evrópumenn? Varla. Þeir voru það allavega ekki 1960, því að þá unnu þeir minna en Evrópumenn. Hitt virðist líklegra, að margir Evrópumenn telji sig hafa rýmri fjárráð og búa við meira afkomuöryggi en Bandaríkjamenn og geti því leyft sér að hætta fyrr að vinna og njóta heldur frístunda og fjölskyldulífs. Það vill stundum gleymast, að ýmisleg óhagkvæmni íþyngir bandarísku efnahagslífi, rýrir lífskjör þjóðarinnar og knýr hana með því móti til að leggja harðar að sér en hún þyrfti ella á að halda. Þessi óhagkvæmni er ýmist óviðráðanleg eða heimatilbúin. Við skulum stikla á stóru. Loftslag Bandaríkjanna kallar á mikla orkunotkun til loftkælingar á heimilum og vinnustöðum á sumrin og til upphitunar á veturna. Orkan er dýr. Orkuþörf Evrópuþjóðanna til sömu nota er yfirleitt miklu minni. Við þetta bætist dreifð byggð, sem kallar á mun meiri orkunotkun vegna ferðalaga og flutninga í Bandaríkjunum en í Evrópu, enda er Evrópa miklu þéttbýlli en Bandaríkin. Bandaríkjamenn hafa ekki enn tekið upp breiðvirkar almannatryggingar á landsvísu eins og Evrópulöndin hafa löngu gert. Skipulag heilbrigðistrygginga í Bandaríkjunum er dýrt vegna mikils skrifræðis í kringum einkatryggingar og annars óhagræðis, sem lýsir sér auk annars í því, að Bandaríkjamenn verja mun hærra hlutfalli þjóðartekna sinna til heilbrigðismála en Evrópuþjóðirnar og hafa samt færri lækna og hjúkrunarfræðinga á hverja þúsund íbúa en til dæmis Frakkar og Þjóðverjar. Þarna birtist ein afleiðing þess, að nálega fimmtíu milljónir Bandaríkjamanna eru ótryggðar fyrir veikindum og slysum. Við þetta er því að bæta, að tvær milljónir manna sitja í bandarískum fangelsum, flestir fyrir minni háttar fíkniefnabrot. Fangelsisreksturinn kostar sitt fyrir nú utan vinnutapið. Einnig þarna er Evrópa betur sett af sjálfsdáðum. Þegar þessu öllu er til skila haldið, kemur í ljós, að Bandaríkjamenn þurfa að bera ýmsan kostnað umfram Evrópumenn, svo að það verður þá kannski skiljanlegra en ella, hvers vegna Bandaríkjamenn þurfa að vinna meira en Evrópumenn til að halda uppi svipuðum lífskjörum á heildina litið og tíðkast víða um Evrópu. Sumum finnst vinnan vera guðs dýrð: því meiri vinna, þeim mun betra. Sumir skoða minnkandi vinnuálag í Evrópu sem vísbendingu um veikt geðslag. Tungan dregur taum vinnunnar: vinnugleði er gamalt orð og kemur fyrst fyrir hjá Guðmundi Finnbogasyni prófessor 1917, hvíldargleði er nýyrði. En vinnu þarf helzt að stilla í hóf eins og flestu öðru, og því er eðlilegt, að aukinni hagsæld fylgi meiri og tryggari tekjur ásamt rýmri frístundum eins og í Evrópu. Frístundir gera gagn, sé þeim vel varið. Of mikilli vinnu getur fylgt ýmisleg vanræksla, og fjölgun frístunda samfara minna vinnuálagi getur bætt skaðann. Þyrftu íslenzk börn að gleypa allt þetta rítalín, sem þeim er af illri nauðsyn gefið í skólunum, ef foreldrarnir kæmu fyrr heim úr vinnunni og sinntu börnunum betur? Frakkar og sex aðrar Evrópuþjóðir skila nú meiri landsframleiðslu á vinnustund en Bandaríkjamenn, sem standa jafnfætis Þjóðverjum á þennan kvarða. Bandaríkjamenn skila að vísu meiri landsframleiðslu á mann en Frakkar og Þjóðverjar, og það er vegna þess eins, að Bandaríkjamenn vinna meira. Evrópa má vel við una - eða hvað? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Evrópumenn vinna minna en Bandaríkjamenn eins og ég lýsti hér á þessum stað fyrir viku. Munurinn er talsverður: vinnuvikan er að jafnaði einni klukkustundu styttri í Evrópu en í Bandaríkjunum. Vinnuálagið var svipað báðum megin Atlantshafsins um 1960, meira að segja ívið meira í Evrópu en í Ameríku, en það átti eftir að breytast. Evrópuþjóðirnar hafa með tímanum dregið meira úr vinnu sinni en Bandaríkjamenn. Með Evrópu á ég við Evrópusambandslöndin fimmtán fyrir stækkun Sambandsins 2004. Fækkun vinnustunda í Evrópu er annars vegar til komin af illri nauðsyn, sumpart vegna aukins atvinnuleysis og þungrar skattbyrði, sem dregur úr vinnuvilja, og hins vegar af fúsum og frjálsum vilja, meðal annars vegna þess að Evrópumenn kjósa að jafnaði að fara fyrr en Bandaríkjamenn á eftirlaun. Upp úr sextugu eru þrír af hverjum fjórum starfandi mönnum í Evrópu hættir að vinna, en helmingur Bandaríkjamanna á sama aldri heldur áfram að vinna. Fjórði hver kani heldur áfram að vinna eftir sjötugt á móti tuttugasta hverjum Evrópumanni. Eru Bandaríkjamenn vinnusamari en Evrópumenn? Varla. Þeir voru það allavega ekki 1960, því að þá unnu þeir minna en Evrópumenn. Hitt virðist líklegra, að margir Evrópumenn telji sig hafa rýmri fjárráð og búa við meira afkomuöryggi en Bandaríkjamenn og geti því leyft sér að hætta fyrr að vinna og njóta heldur frístunda og fjölskyldulífs. Það vill stundum gleymast, að ýmisleg óhagkvæmni íþyngir bandarísku efnahagslífi, rýrir lífskjör þjóðarinnar og knýr hana með því móti til að leggja harðar að sér en hún þyrfti ella á að halda. Þessi óhagkvæmni er ýmist óviðráðanleg eða heimatilbúin. Við skulum stikla á stóru. Loftslag Bandaríkjanna kallar á mikla orkunotkun til loftkælingar á heimilum og vinnustöðum á sumrin og til upphitunar á veturna. Orkan er dýr. Orkuþörf Evrópuþjóðanna til sömu nota er yfirleitt miklu minni. Við þetta bætist dreifð byggð, sem kallar á mun meiri orkunotkun vegna ferðalaga og flutninga í Bandaríkjunum en í Evrópu, enda er Evrópa miklu þéttbýlli en Bandaríkin. Bandaríkjamenn hafa ekki enn tekið upp breiðvirkar almannatryggingar á landsvísu eins og Evrópulöndin hafa löngu gert. Skipulag heilbrigðistrygginga í Bandaríkjunum er dýrt vegna mikils skrifræðis í kringum einkatryggingar og annars óhagræðis, sem lýsir sér auk annars í því, að Bandaríkjamenn verja mun hærra hlutfalli þjóðartekna sinna til heilbrigðismála en Evrópuþjóðirnar og hafa samt færri lækna og hjúkrunarfræðinga á hverja þúsund íbúa en til dæmis Frakkar og Þjóðverjar. Þarna birtist ein afleiðing þess, að nálega fimmtíu milljónir Bandaríkjamanna eru ótryggðar fyrir veikindum og slysum. Við þetta er því að bæta, að tvær milljónir manna sitja í bandarískum fangelsum, flestir fyrir minni háttar fíkniefnabrot. Fangelsisreksturinn kostar sitt fyrir nú utan vinnutapið. Einnig þarna er Evrópa betur sett af sjálfsdáðum. Þegar þessu öllu er til skila haldið, kemur í ljós, að Bandaríkjamenn þurfa að bera ýmsan kostnað umfram Evrópumenn, svo að það verður þá kannski skiljanlegra en ella, hvers vegna Bandaríkjamenn þurfa að vinna meira en Evrópumenn til að halda uppi svipuðum lífskjörum á heildina litið og tíðkast víða um Evrópu. Sumum finnst vinnan vera guðs dýrð: því meiri vinna, þeim mun betra. Sumir skoða minnkandi vinnuálag í Evrópu sem vísbendingu um veikt geðslag. Tungan dregur taum vinnunnar: vinnugleði er gamalt orð og kemur fyrst fyrir hjá Guðmundi Finnbogasyni prófessor 1917, hvíldargleði er nýyrði. En vinnu þarf helzt að stilla í hóf eins og flestu öðru, og því er eðlilegt, að aukinni hagsæld fylgi meiri og tryggari tekjur ásamt rýmri frístundum eins og í Evrópu. Frístundir gera gagn, sé þeim vel varið. Of mikilli vinnu getur fylgt ýmisleg vanræksla, og fjölgun frístunda samfara minna vinnuálagi getur bætt skaðann. Þyrftu íslenzk börn að gleypa allt þetta rítalín, sem þeim er af illri nauðsyn gefið í skólunum, ef foreldrarnir kæmu fyrr heim úr vinnunni og sinntu börnunum betur? Frakkar og sex aðrar Evrópuþjóðir skila nú meiri landsframleiðslu á vinnustund en Bandaríkjamenn, sem standa jafnfætis Þjóðverjum á þennan kvarða. Bandaríkjamenn skila að vísu meiri landsframleiðslu á mann en Frakkar og Þjóðverjar, og það er vegna þess eins, að Bandaríkjamenn vinna meira. Evrópa má vel við una - eða hvað?
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun