Smjör foringjans: Klípa aðstoðarmannsins 5. febrúar 2007 06:00 Illugi Gunnarsson situr hátt á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Hann er á leið á þing og almennt talinn efnilegur stjórnmálamaður. Margir telja eflaust að tími hans í starfi aðstoðarmanns forsætisráðherra hafi reynst honum góður undirbúningur fyrir feril í pólitík. Þeir fortíðardagar virðast þó ætla að elta Illuga óþægilega lengi. Um fyrri helgi tók hann fram gömlu stuttbuxurnar og mætti á þeim í Silfur Egils. Í þættinum var m.a. rætt um nýfallinn hæstaréttardóm í Baugsmáli og viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar við honum: Ríkisstjórnin gæti ekki firrt sig ábyrgð á þeirri sorgarsögu. Af yfirlæti unghanans sagðist Illugi ekki kippa sér upp við þau orð hennar fremur en önnur (hér vantaði bara orðalagið „sem sú ágæta kona lætur út úr sér") og klykkti síðan út með því að stjórnmálamenn ættu ekki að tjá sig um dómsmál. Eitthvað hljómaði þetta einkennilega í eyrum áhorfenda sem þurftu ekki nema litla stund enn til að rifja upp þátt þess sama Illuga Gunnarssonar í einum dýrðlegasta anga Baugsmálsins, þegar hann sat við hlið Davíðs Oddssonar á frægum fundi úti í London, og varð vitni að því að reynt var að múta landsins æðsta manni með 300 milljónum, hvorki meira né minna. Viðvera Illuga á mútustund hefur reyndar verið dregin í efa en sjálfur hefur hann staðfest hana þótt óneitanlega yrði spennandi að sjá hverju hann svaraði eiðsvarinn í vitnastúku. Hreinn Loftsson lagði um svipað leyti fram sína hlið málsins og sagði landsmönnum söguna af því hvernig lítill brandari varð að 300 milljón króna smjörklípu í munni Davíðs Oddssonar. Þá hafði Hreinn líka sagt frá því að á þessum sama Lundúnafundi hafi forsætisráðherrann fyrrverandi varað sig við því að senn yrði látið til skarar skríða gegn Baugi. Ekki vitum við hvort Illugi var viðstaddur þegar þau orð féllu en staðreyndin er þó sú að sex mánuðum síðar réðst lögreglan inn í fyrirtækið. Og fimm árum síðar er Illugi orðinn stjórnmálamaður og lætur eins og hann hafi aldrei verið aðstoðarmaður, mætir í sjónvarp og bannar mönnum að bendla Baugsmál við pólitík. Maðurinn sem stóð einbeittur að baki foringja síns í aðför hans og ávæningum gegn Baugi lætur nú eins og hann hafi aldrei haft neitt með málið að gera. Eins og hann hafi ekki gefið sig fram sem lykilvitni í stóra bolludagsmálinu sem tengist óneitanlega Baugsmálinu þótt ekki hafi þeir félagar talið það nægilega skothelt fyrir dómsalina. Fyrrum aðstoðarmaður mannsins sem hótaði Baugi rannsókn og viðraði landskunna andúð sína á fyrirtækinu í þingi og þjóðmiðlum um margra missera skeið mætir nú í sjónvarp til að segja okkur að stjórnmálamenn eigi ekki að tjá sig um dómsmál. Fyrrum aðstoðarmaður mannsins sem lýsti því yfir að væri Baugsmálið pólitískt yrði því öllu hent út úr dómstólunum hefur nú geð í sér, þegar sú er orðin raunin, til að segja okkur að málið sé alls ópólitískt og komi stjórnmálamönnum ekki við. Samflokksmaður dómsmálaráðherra, sem sýndi ákærðum þau elskulegheit á einni af ögurstundum málsins að segja þeim, sem yfirmaður íslenskra dómskerfisins, að dómstólarnir hefðu ekki sagt sitt síðasta í málinu, hann sýnir okkur nú það yfirlæti að hlæja þegar aðrir stjórnmálamenn viðra skoðun sína á sama máli. Sumir kjósa að hefja feril sinn í stjórnmálum með því að þjónusta foringja dagsins. Snattið í kringum hásætið færir mönnum einstaka reynslu og innsýn í viðjar valdsins en það getur líka flækt menn í vafasama vefi; krafist þess að þeir velji á milli sannleikans og foringjans. Það sem fellur á húsbóndann getur orðið þjóninum að falli. Í Silfri Egils draup smjör af hverju orði Illuga. Allt sem hann sagði um Baugsmálið minnti okkur á veru hans við hlið Davíðs Oddssonar á hótelherbergi úti í London. Smjör foringjans er klípa aðstoðarmannsins. Í besta heimi allra heima mætti taka undir með Illuga og segja að stjórnmálamenn eigi ekki að tjá sig um dómsmál. En það er líka góð regla að gamlir aðstoðarmenn skuli forðast mál sem þeir tengjast með svo eldfimum hætti, jafnvel þó óbeint sé. Illugi Gunnarsson ætti því að sýna sjálfum sér og sjónvarpsáhorfendum þá háttvísi að sitja heima næst þegar Baugsmál ber á góma. Annað er bara óþægilegt fyrir alla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór
Illugi Gunnarsson situr hátt á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Hann er á leið á þing og almennt talinn efnilegur stjórnmálamaður. Margir telja eflaust að tími hans í starfi aðstoðarmanns forsætisráðherra hafi reynst honum góður undirbúningur fyrir feril í pólitík. Þeir fortíðardagar virðast þó ætla að elta Illuga óþægilega lengi. Um fyrri helgi tók hann fram gömlu stuttbuxurnar og mætti á þeim í Silfur Egils. Í þættinum var m.a. rætt um nýfallinn hæstaréttardóm í Baugsmáli og viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar við honum: Ríkisstjórnin gæti ekki firrt sig ábyrgð á þeirri sorgarsögu. Af yfirlæti unghanans sagðist Illugi ekki kippa sér upp við þau orð hennar fremur en önnur (hér vantaði bara orðalagið „sem sú ágæta kona lætur út úr sér") og klykkti síðan út með því að stjórnmálamenn ættu ekki að tjá sig um dómsmál. Eitthvað hljómaði þetta einkennilega í eyrum áhorfenda sem þurftu ekki nema litla stund enn til að rifja upp þátt þess sama Illuga Gunnarssonar í einum dýrðlegasta anga Baugsmálsins, þegar hann sat við hlið Davíðs Oddssonar á frægum fundi úti í London, og varð vitni að því að reynt var að múta landsins æðsta manni með 300 milljónum, hvorki meira né minna. Viðvera Illuga á mútustund hefur reyndar verið dregin í efa en sjálfur hefur hann staðfest hana þótt óneitanlega yrði spennandi að sjá hverju hann svaraði eiðsvarinn í vitnastúku. Hreinn Loftsson lagði um svipað leyti fram sína hlið málsins og sagði landsmönnum söguna af því hvernig lítill brandari varð að 300 milljón króna smjörklípu í munni Davíðs Oddssonar. Þá hafði Hreinn líka sagt frá því að á þessum sama Lundúnafundi hafi forsætisráðherrann fyrrverandi varað sig við því að senn yrði látið til skarar skríða gegn Baugi. Ekki vitum við hvort Illugi var viðstaddur þegar þau orð féllu en staðreyndin er þó sú að sex mánuðum síðar réðst lögreglan inn í fyrirtækið. Og fimm árum síðar er Illugi orðinn stjórnmálamaður og lætur eins og hann hafi aldrei verið aðstoðarmaður, mætir í sjónvarp og bannar mönnum að bendla Baugsmál við pólitík. Maðurinn sem stóð einbeittur að baki foringja síns í aðför hans og ávæningum gegn Baugi lætur nú eins og hann hafi aldrei haft neitt með málið að gera. Eins og hann hafi ekki gefið sig fram sem lykilvitni í stóra bolludagsmálinu sem tengist óneitanlega Baugsmálinu þótt ekki hafi þeir félagar talið það nægilega skothelt fyrir dómsalina. Fyrrum aðstoðarmaður mannsins sem hótaði Baugi rannsókn og viðraði landskunna andúð sína á fyrirtækinu í þingi og þjóðmiðlum um margra missera skeið mætir nú í sjónvarp til að segja okkur að stjórnmálamenn eigi ekki að tjá sig um dómsmál. Fyrrum aðstoðarmaður mannsins sem lýsti því yfir að væri Baugsmálið pólitískt yrði því öllu hent út úr dómstólunum hefur nú geð í sér, þegar sú er orðin raunin, til að segja okkur að málið sé alls ópólitískt og komi stjórnmálamönnum ekki við. Samflokksmaður dómsmálaráðherra, sem sýndi ákærðum þau elskulegheit á einni af ögurstundum málsins að segja þeim, sem yfirmaður íslenskra dómskerfisins, að dómstólarnir hefðu ekki sagt sitt síðasta í málinu, hann sýnir okkur nú það yfirlæti að hlæja þegar aðrir stjórnmálamenn viðra skoðun sína á sama máli. Sumir kjósa að hefja feril sinn í stjórnmálum með því að þjónusta foringja dagsins. Snattið í kringum hásætið færir mönnum einstaka reynslu og innsýn í viðjar valdsins en það getur líka flækt menn í vafasama vefi; krafist þess að þeir velji á milli sannleikans og foringjans. Það sem fellur á húsbóndann getur orðið þjóninum að falli. Í Silfri Egils draup smjör af hverju orði Illuga. Allt sem hann sagði um Baugsmálið minnti okkur á veru hans við hlið Davíðs Oddssonar á hótelherbergi úti í London. Smjör foringjans er klípa aðstoðarmannsins. Í besta heimi allra heima mætti taka undir með Illuga og segja að stjórnmálamenn eigi ekki að tjá sig um dómsmál. En það er líka góð regla að gamlir aðstoðarmenn skuli forðast mál sem þeir tengjast með svo eldfimum hætti, jafnvel þó óbeint sé. Illugi Gunnarsson ætti því að sýna sjálfum sér og sjónvarpsáhorfendum þá háttvísi að sitja heima næst þegar Baugsmál ber á góma. Annað er bara óþægilegt fyrir alla.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun