Bakkafullur lækur Páll Baldvin Baldvinsson skrifar 13. nóvember 2008 06:00 Það er öng og þröng í hugunum. Fátt, lítið sem ekkert, til gleði í þjóðarranni. Ráðamenn svo hnípnir þá sjaldan þeir sjást að raun er á að líta. Öll ráð virðast þeim fjarri. Langir bálkar birtast í fjölmiðlum þar sem raktar eru spurningar sem almenningur vill fá svör við, spurningar sem eru brýnar og varða almenningsheill og engin svör fást við. Loðin svör, hálfsannleikur og þögn einkenna framkomu ráðamanna þá þeim bregður fyrir. Almenningur dregur þá ályktun að ráðaleysið sé algjört. Undir niðri logar reiðin sem brátt getur brotist út í almannamótmælum. Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þeim? Hvað hyggst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gera til að stýra þeim mannfjölda sem búast má við að þyrpist til mótmælastöðu á laugardag? Verða gerðar ráðstafanir til að stýra bílaumferð líkt og gert er á hátíðadögum þegar von er á þúsundum í Kvosina? Verða settir upp umferðartálmar, aðgengi heft? Óeinkennisklæddum lögreglumönnum dreift í mannfjöldann til að takast á við þá sem freistast til skemmdarverka? Er sú ráðstöfun skynsamleg? Eða verður gripið til þess ráðs að klæða lögregluna brynklæðum, höggvopnum, gasi til að dreifa mannfjölda? Og komi til átaka vegna fárra óróaseggja, hvert verður þá viðbragð hinna, þeirra stilltu sem standa hjá. Líkur eru á að börn verði með í för í mótmælum fjölskyldufólks á laugardag. Minna má á söguleg dæmi þess að almenningur var hvattur til að sýna andóf sitt og óánægju og hvernig friðsamleg mótmælastaða breyttist á örfáum andartökum í harkaleg ofbeldisátök, átök sem mörkuðu áratugalangan ófrið í landinu. Stór vandi er búinn ráðamönnum og umbjóðendur þeirra hafa ekki lengur traust á leiðsögn þeirra sem er svo óljós nú að stefnir í villur. Trausti rúin stjórnvöld geta litlu áorkað þótt góður vilji standi til. Jafnvel þótt skylduræknin segi mönnum að lafa. Aldrei á tíma lýðveldisins hefur vantrúin á stjórnvöldum verið svo djúp. Það er hörmuleg pólitísk arfleifð sem liggur eftir þá kynslóð sem nú situr á valdastólum og þumbast við að víkja, neitar að bera ábyrgð á gerðum sínum og stefnu. Kannast ekki við mistök og kann ekki að afsaka sig. Hefur ekki þrek til að víkja þeim sem hafa brugðist trausti og misnotað aðstöðu sína og sitja jafnvel í forsvari ráðuneyta. Í slíku bjargarleysi er krafa um kosningar eðlileg og þeir sem bera því við að þá muni ástandið snúast til hins verra geta fátt fram borið langsetu til réttlætingar meðan aðgerðaplan er ekki komið fram. Umfram allt verða ráðamenn að koma úr felum fundanna og tala til umbjóðenda sinna. Hafi þeir enn erindi í stjórnmálum og hyggjast stefna að framboði á ný er þeim brýnt að sinna upplýsingaskyldu sinni en ekki fela sig á bak við stuttaraleg svör á hlaupum, eða engin, í furðulegu fálæti sem sumir vilja kalla hroka en aðrir gæfuleysi. Því svona gengur ekki lengur: óánægjustrauminn brýtur á bökkum og brátt fer hann að brjótast úr farvegi sínum. Og þá ræður enginn við neitt. Kylfan ræður kastinu hvar sem höggið lendir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Páll Baldvin Baldvinsson Mest lesið Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Kynþáttahyggja, einangrunarhyggja og Evrópusambandsaðild Haraldur Ólafsson Skoðun Hvers vegna við veljum ekki „Reykjavíkurmódelið“ Meyvant Þórólfsson Skoðun Kæru kjósendur í Suðvesturkjördæmi Alma D. Möller Skoðun Keyrum á nýrri menntastefnu Arnór Heiðarsson Skoðun
Það er öng og þröng í hugunum. Fátt, lítið sem ekkert, til gleði í þjóðarranni. Ráðamenn svo hnípnir þá sjaldan þeir sjást að raun er á að líta. Öll ráð virðast þeim fjarri. Langir bálkar birtast í fjölmiðlum þar sem raktar eru spurningar sem almenningur vill fá svör við, spurningar sem eru brýnar og varða almenningsheill og engin svör fást við. Loðin svör, hálfsannleikur og þögn einkenna framkomu ráðamanna þá þeim bregður fyrir. Almenningur dregur þá ályktun að ráðaleysið sé algjört. Undir niðri logar reiðin sem brátt getur brotist út í almannamótmælum. Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þeim? Hvað hyggst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gera til að stýra þeim mannfjölda sem búast má við að þyrpist til mótmælastöðu á laugardag? Verða gerðar ráðstafanir til að stýra bílaumferð líkt og gert er á hátíðadögum þegar von er á þúsundum í Kvosina? Verða settir upp umferðartálmar, aðgengi heft? Óeinkennisklæddum lögreglumönnum dreift í mannfjöldann til að takast á við þá sem freistast til skemmdarverka? Er sú ráðstöfun skynsamleg? Eða verður gripið til þess ráðs að klæða lögregluna brynklæðum, höggvopnum, gasi til að dreifa mannfjölda? Og komi til átaka vegna fárra óróaseggja, hvert verður þá viðbragð hinna, þeirra stilltu sem standa hjá. Líkur eru á að börn verði með í för í mótmælum fjölskyldufólks á laugardag. Minna má á söguleg dæmi þess að almenningur var hvattur til að sýna andóf sitt og óánægju og hvernig friðsamleg mótmælastaða breyttist á örfáum andartökum í harkaleg ofbeldisátök, átök sem mörkuðu áratugalangan ófrið í landinu. Stór vandi er búinn ráðamönnum og umbjóðendur þeirra hafa ekki lengur traust á leiðsögn þeirra sem er svo óljós nú að stefnir í villur. Trausti rúin stjórnvöld geta litlu áorkað þótt góður vilji standi til. Jafnvel þótt skylduræknin segi mönnum að lafa. Aldrei á tíma lýðveldisins hefur vantrúin á stjórnvöldum verið svo djúp. Það er hörmuleg pólitísk arfleifð sem liggur eftir þá kynslóð sem nú situr á valdastólum og þumbast við að víkja, neitar að bera ábyrgð á gerðum sínum og stefnu. Kannast ekki við mistök og kann ekki að afsaka sig. Hefur ekki þrek til að víkja þeim sem hafa brugðist trausti og misnotað aðstöðu sína og sitja jafnvel í forsvari ráðuneyta. Í slíku bjargarleysi er krafa um kosningar eðlileg og þeir sem bera því við að þá muni ástandið snúast til hins verra geta fátt fram borið langsetu til réttlætingar meðan aðgerðaplan er ekki komið fram. Umfram allt verða ráðamenn að koma úr felum fundanna og tala til umbjóðenda sinna. Hafi þeir enn erindi í stjórnmálum og hyggjast stefna að framboði á ný er þeim brýnt að sinna upplýsingaskyldu sinni en ekki fela sig á bak við stuttaraleg svör á hlaupum, eða engin, í furðulegu fálæti sem sumir vilja kalla hroka en aðrir gæfuleysi. Því svona gengur ekki lengur: óánægjustrauminn brýtur á bökkum og brátt fer hann að brjótast úr farvegi sínum. Og þá ræður enginn við neitt. Kylfan ræður kastinu hvar sem höggið lendir.