Hið misskilda miskunnarverk 30. apríl 2011 00:01 Einhver misskildasta frásögn Gamla testamentisins er sagan af því þegar Guð platar Abraham til að halda að hann eigi að fórna Ísak syni sínum. Enda engin furða. Við fyrstu sýn virðist sagan draga upp mynd af andstyggilegum Guði sem pínir fólk og lætur það halda að hann geri ómanneskjulegar kröfur til þess. En slíkur skilningur byggir á algerri vanþekkingu á sögulegum bakgrunni frásagnarinnar og því samfélagi sem hún gerist í. Trú Abrahams var ekki eingyðistrú í nútímamerkingu heldur sk. „mónólatría“. Þá er átt við að tilvist annarra guða var ekki hafnað sem slíkri, heldur beindist átrúnaðurinn og tilbeiðslan alfarið að einum tilteknum guði. Í tilfelli Abrahams var það sennilega kanverski háguðinn El. Hann var meðal annars tilbeðinn með frumburðafórnum. Þær voru alsiða í trúarbrögðum frjósama hálfmánans á öðru árþúsundinu fyrir okkar tímatal og héldust víða við lýði langt fram á það fyrsta. Í Spádómsbók Jeremía 7.30-31 gagnrýnir spámaðurinn villutrú konungsins og segir hann hafa reist Tófet-fórnarhæðir í Hinnómssonadal, sem í Nýja testamentinu er kallaður Gehenna. Tófet var fórnarstaður þar sem börnum var fórnað í eldi eins meðal annars tíðkaðist í Fönikíu. Kröfu Guðs um að Abraham fórnaði Ísak er því óþarfi að skilja öðruvísi en sem frásagnarhátt fornaldar af því að viðtekin trúariðkun Abrahams hafi krafist frumburðarfórnar af honum. En það er þá sem undrið gerist. Guð ættfeðranna afþakkar fórnina. Fram kemur guðsmynd sem hafnar mannfórnum. Sagan er allegoría af þeim merku tímamótum í þróun trúarbragða gyðinga þegar frumburðafórnirnar voru aflagðar, sennilega um 1800 f.Kr. eða um 500 árum fyrir brottförina úr Egyptalandi og um 800 árum fyrir stofnun konungdæmisins í Jerúsalem. Þetta skref stigu flestar grannþjóðir Ísraelsmanna ekki fyrr en mörgum öldum síðar, sumar ekki fyrr en árþúsundum síðar. Frásögnin er því í raun skáldleg útfærsla á afar blessunarríkum atburði í mannkynssögunni. Hún er á ákveðinn hátt fæðingarfrásögn hins miskunnsama Guðs. Hún segir söguna af því, skv. bókmenntalegum frásagnarreglum ritunartíma síns, þegar menn vakna til skilnings á Guði sem hefur þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórnum og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum (sbr. Hós 6.6), Guði sem setur siðferðið ofar ritúalinu, hve erfitt sem menn hafa síðan átt með að skilja það sl. 4.000 ár. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Halldór 30.11.2024 Halldór Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun Skrópað á Alþingi Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun
Einhver misskildasta frásögn Gamla testamentisins er sagan af því þegar Guð platar Abraham til að halda að hann eigi að fórna Ísak syni sínum. Enda engin furða. Við fyrstu sýn virðist sagan draga upp mynd af andstyggilegum Guði sem pínir fólk og lætur það halda að hann geri ómanneskjulegar kröfur til þess. En slíkur skilningur byggir á algerri vanþekkingu á sögulegum bakgrunni frásagnarinnar og því samfélagi sem hún gerist í. Trú Abrahams var ekki eingyðistrú í nútímamerkingu heldur sk. „mónólatría“. Þá er átt við að tilvist annarra guða var ekki hafnað sem slíkri, heldur beindist átrúnaðurinn og tilbeiðslan alfarið að einum tilteknum guði. Í tilfelli Abrahams var það sennilega kanverski háguðinn El. Hann var meðal annars tilbeðinn með frumburðafórnum. Þær voru alsiða í trúarbrögðum frjósama hálfmánans á öðru árþúsundinu fyrir okkar tímatal og héldust víða við lýði langt fram á það fyrsta. Í Spádómsbók Jeremía 7.30-31 gagnrýnir spámaðurinn villutrú konungsins og segir hann hafa reist Tófet-fórnarhæðir í Hinnómssonadal, sem í Nýja testamentinu er kallaður Gehenna. Tófet var fórnarstaður þar sem börnum var fórnað í eldi eins meðal annars tíðkaðist í Fönikíu. Kröfu Guðs um að Abraham fórnaði Ísak er því óþarfi að skilja öðruvísi en sem frásagnarhátt fornaldar af því að viðtekin trúariðkun Abrahams hafi krafist frumburðarfórnar af honum. En það er þá sem undrið gerist. Guð ættfeðranna afþakkar fórnina. Fram kemur guðsmynd sem hafnar mannfórnum. Sagan er allegoría af þeim merku tímamótum í þróun trúarbragða gyðinga þegar frumburðafórnirnar voru aflagðar, sennilega um 1800 f.Kr. eða um 500 árum fyrir brottförina úr Egyptalandi og um 800 árum fyrir stofnun konungdæmisins í Jerúsalem. Þetta skref stigu flestar grannþjóðir Ísraelsmanna ekki fyrr en mörgum öldum síðar, sumar ekki fyrr en árþúsundum síðar. Frásögnin er því í raun skáldleg útfærsla á afar blessunarríkum atburði í mannkynssögunni. Hún er á ákveðinn hátt fæðingarfrásögn hins miskunnsama Guðs. Hún segir söguna af því, skv. bókmenntalegum frásagnarreglum ritunartíma síns, þegar menn vakna til skilnings á Guði sem hefur þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórnum og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum (sbr. Hós 6.6), Guði sem setur siðferðið ofar ritúalinu, hve erfitt sem menn hafa síðan átt með að skilja það sl. 4.000 ár.