Trúin á landið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. júní 2012 06:00 Ríó+20 ráðstefnan virðist hafa verið mikið stefnt-skal-að-þing og óneitanlega visst vonleysi farið að grípa um sig varðandi framtíð lífsins á Jörðinni, framtíð tegundanna. Maðurinn, sem tegund, sér afleiðingar gerða sinna – en hann getur ekki horfst í augu við þær. Guðleysingjum 20. aldarinnar hefur tekist að finna þúsund aðferðir við að afsanna tilvist æðri máttarvalda en ekki eina einustu til að sanna nauðsyn þess að lífið haldi áfram á jörðinni. Skammtímahugsun er allsráðandi. Sérhver einstaklingur upplifir sig sem dauðlegan á þessum trúlausu tímum og þar með rofnar samhengið í framferði mannanna. Hver og einn er eins og forsetinn í stjórnarskránni: ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Maðurinn er hættur að trúa á guð og umbun eða refsingar í öðru lífi en hitt er verra: hann er hættur að trúa á sig og hæfileika sína til að breyta rétt. Hlutverk forsetaGleymum því samt ekki að mikið af eyðingunni hefur farið fram í Jesú nafni og Allah. Kannski er einn vandinn sá að menn fóru að líta svo á að Jörðin væri heilög einhvers staðar annars staðar en undir fótum sínum: Í Jerúsalem eða Mekka en ekki hér, nákvæmlega hér, sú jörð sem gefur mér líf og næringu og mér ber að virða og gæta. Trúarbrögð mannanna eru ekki lengur náttúrutengd heldur leit að umboði til athafna og eyðingar. Einu sinni trúðu Íslendingar á vatnið og sólina. Í greinasafni Helga Guðmundssonar málfræðings, Um haf innan, frá árinu 1997 er dálítil grein sem ber heitið Tilraun um Öxarárfoss. Þar veltir Helgi fyrir sér þeirri sérkennilegu framkvæmd í árdaga Íslandsbyggðar þegar Öxará var færð úr farvegi sínum og fossinn gerður eins og hann er í núverandi mynd, væntanlega í því skyni að gera þinghaldið svipmeira og jafnvel koma því í samband við æðri mátt, rétt eins og enn tíðkast þegar þingmenn koma saman í dómkirkjunni við messu þegar þing er sett. Helgi telur að á tímum heiðinna manna hafi ríkt hér á landi átrúnaður á fossa og færir fyrir því ýmis rök. Hann tengir til dæmis þennan átrúnað við orðið „forseti" – en Forseti er nefndur í Snorra Eddu sem sonur Baldurs og Nönnu, hann býr í Glitni og er sáttasemjari allra sem á hans fund leita. Helgi tengir orðið hins vegar við þann sem undir fossinum situr – foss-seti – og leitar fregna hjá æðri máttarvöldum, eins og alsiða er í ótal náttúrutengdum trúarbrögðum að sérstakir menn geri, sem hafi sérstakan aðgang að vilja guðdómsins. Helgi telur sem sé að þegar Þorgeir Ljósvetningagoði fór undir feldinn til að hugsa sitt ráð um það hvaða sið Íslendingar skyldu taka árið þúsund til þess að leysa gíslatökumálið í Noregi og kom svo með þann snjalla úrskurð að Íslendingar skyldu þykjast vera kristnir en halda áfram að blóta á laun – þeir sem það vildu – að þá hafi Þorgeir ekki verið í sjálfu sér að leggjast undir feld til að öðlast speki – feldurinn hafi í rauninni verið aukaatriði og regnhlíf – og einungis ætlaður til að verjast úðanum frá fossinum, sem var hin eiginlega véfrétt þarna. Hann hafi gerst foss-seti til að taka þessa mikilvægu ákvörðun. Maður og jörðÖll trúarbrögð hefjast í sambandi manns og jarðar, vangaveltum mannsins um stað sinn og hlutverk á jörðinni. Maðurinn ræktar jörðina og tekur að leggja átrúnað á þau öfl sem eru að verki þegar undrið gerist: eitthvað vex, og jörðin færir manninum ávexti sína. Maðurinn biður um regn og þegar það kemur þakkar hann þeim sem hann telur að því stjórni, til að vera viss um að fá góðar undirtektir næst þegar hann þarf á því að halda. Því að maðurinn þarf regn; vatn er það sem maðurinn þarf helst á að halda til að hann megi lifa og dafna á þessari jörð sem svo undursamlega vill til að hann er staddur á, með vitund sem hugsar og hendur sem iðja. Allt lífið snýst um vatn og vatnið snýst um allt líf. Við sjáum það bylgjast og hringsnúast, alltaf eins, alltaf síbreytilegt, alltaf hér og alltaf þar. Það er iða og það er kyrrð. Ekkert er jafn óhöndlanlegt og ekkert jafn áþreifanlegt. Ekkert er blíðlegra og ekkert harðara. Það skapar, nærir, hreinsar, flæðir, færir, borar, líknar, blessar, drepur og skapar. Það er lífgjafi okkar og ógnvaldur. Það er sjálfur gegnsær leyndardómur tilverunnar. Það er sú höfuðskepna sem við erum smíðuð úr. Kannski voru Íslendingar einmitt vatnatrúar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, trúðu á fossa. Því hvar má sjá fegurri og ógnarlegri birtingarmynd almættisins en í fossi? En hafi Íslendingar trúað á vatn, það er að segja sýnt vatni lotningu og umgengist það af virðingu – þá átti það viðhorf eftir að breytast. Áveiturnar í Mesópótamíu sköpuðu vöggu menningar og ræktunar – kúltúrs – en um síðir urðu slíkar framkvæmdir að risastíflum sem drápu og eyddu. Litlu virkjanirnar hér á landi urðu til mikillar blessunar þegar menn tóku að framleiða rafmagn, bera ljósið inn í bæina, eins og Bakkabræður – eða Lúsífer. En risavirkjanir sem hér hafa verið reistar raska og eyða. Umsvifunum hefur ekki fylgt virðing og auðmýkt þess sem skynjar lífsaflið að verki í vatninu, horfir á eigin framferði í stóru samhengi Jarðarinnar, skilur að það er ekki hlutverk mannsins að sigra lífsaflið heldur að ganga á vegum þess, trúa á það utan við sig og í sér. Okkur er ekki ætlað að ganga á vatninu. Maðurinn á að hætta að ímynda sér að hann sé herra jarðarinnar og hætta að haga sér eins og hann sé perri jarðarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór
Ríó+20 ráðstefnan virðist hafa verið mikið stefnt-skal-að-þing og óneitanlega visst vonleysi farið að grípa um sig varðandi framtíð lífsins á Jörðinni, framtíð tegundanna. Maðurinn, sem tegund, sér afleiðingar gerða sinna – en hann getur ekki horfst í augu við þær. Guðleysingjum 20. aldarinnar hefur tekist að finna þúsund aðferðir við að afsanna tilvist æðri máttarvalda en ekki eina einustu til að sanna nauðsyn þess að lífið haldi áfram á jörðinni. Skammtímahugsun er allsráðandi. Sérhver einstaklingur upplifir sig sem dauðlegan á þessum trúlausu tímum og þar með rofnar samhengið í framferði mannanna. Hver og einn er eins og forsetinn í stjórnarskránni: ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Maðurinn er hættur að trúa á guð og umbun eða refsingar í öðru lífi en hitt er verra: hann er hættur að trúa á sig og hæfileika sína til að breyta rétt. Hlutverk forsetaGleymum því samt ekki að mikið af eyðingunni hefur farið fram í Jesú nafni og Allah. Kannski er einn vandinn sá að menn fóru að líta svo á að Jörðin væri heilög einhvers staðar annars staðar en undir fótum sínum: Í Jerúsalem eða Mekka en ekki hér, nákvæmlega hér, sú jörð sem gefur mér líf og næringu og mér ber að virða og gæta. Trúarbrögð mannanna eru ekki lengur náttúrutengd heldur leit að umboði til athafna og eyðingar. Einu sinni trúðu Íslendingar á vatnið og sólina. Í greinasafni Helga Guðmundssonar málfræðings, Um haf innan, frá árinu 1997 er dálítil grein sem ber heitið Tilraun um Öxarárfoss. Þar veltir Helgi fyrir sér þeirri sérkennilegu framkvæmd í árdaga Íslandsbyggðar þegar Öxará var færð úr farvegi sínum og fossinn gerður eins og hann er í núverandi mynd, væntanlega í því skyni að gera þinghaldið svipmeira og jafnvel koma því í samband við æðri mátt, rétt eins og enn tíðkast þegar þingmenn koma saman í dómkirkjunni við messu þegar þing er sett. Helgi telur að á tímum heiðinna manna hafi ríkt hér á landi átrúnaður á fossa og færir fyrir því ýmis rök. Hann tengir til dæmis þennan átrúnað við orðið „forseti" – en Forseti er nefndur í Snorra Eddu sem sonur Baldurs og Nönnu, hann býr í Glitni og er sáttasemjari allra sem á hans fund leita. Helgi tengir orðið hins vegar við þann sem undir fossinum situr – foss-seti – og leitar fregna hjá æðri máttarvöldum, eins og alsiða er í ótal náttúrutengdum trúarbrögðum að sérstakir menn geri, sem hafi sérstakan aðgang að vilja guðdómsins. Helgi telur sem sé að þegar Þorgeir Ljósvetningagoði fór undir feldinn til að hugsa sitt ráð um það hvaða sið Íslendingar skyldu taka árið þúsund til þess að leysa gíslatökumálið í Noregi og kom svo með þann snjalla úrskurð að Íslendingar skyldu þykjast vera kristnir en halda áfram að blóta á laun – þeir sem það vildu – að þá hafi Þorgeir ekki verið í sjálfu sér að leggjast undir feld til að öðlast speki – feldurinn hafi í rauninni verið aukaatriði og regnhlíf – og einungis ætlaður til að verjast úðanum frá fossinum, sem var hin eiginlega véfrétt þarna. Hann hafi gerst foss-seti til að taka þessa mikilvægu ákvörðun. Maður og jörðÖll trúarbrögð hefjast í sambandi manns og jarðar, vangaveltum mannsins um stað sinn og hlutverk á jörðinni. Maðurinn ræktar jörðina og tekur að leggja átrúnað á þau öfl sem eru að verki þegar undrið gerist: eitthvað vex, og jörðin færir manninum ávexti sína. Maðurinn biður um regn og þegar það kemur þakkar hann þeim sem hann telur að því stjórni, til að vera viss um að fá góðar undirtektir næst þegar hann þarf á því að halda. Því að maðurinn þarf regn; vatn er það sem maðurinn þarf helst á að halda til að hann megi lifa og dafna á þessari jörð sem svo undursamlega vill til að hann er staddur á, með vitund sem hugsar og hendur sem iðja. Allt lífið snýst um vatn og vatnið snýst um allt líf. Við sjáum það bylgjast og hringsnúast, alltaf eins, alltaf síbreytilegt, alltaf hér og alltaf þar. Það er iða og það er kyrrð. Ekkert er jafn óhöndlanlegt og ekkert jafn áþreifanlegt. Ekkert er blíðlegra og ekkert harðara. Það skapar, nærir, hreinsar, flæðir, færir, borar, líknar, blessar, drepur og skapar. Það er lífgjafi okkar og ógnvaldur. Það er sjálfur gegnsær leyndardómur tilverunnar. Það er sú höfuðskepna sem við erum smíðuð úr. Kannski voru Íslendingar einmitt vatnatrúar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, trúðu á fossa. Því hvar má sjá fegurri og ógnarlegri birtingarmynd almættisins en í fossi? En hafi Íslendingar trúað á vatn, það er að segja sýnt vatni lotningu og umgengist það af virðingu – þá átti það viðhorf eftir að breytast. Áveiturnar í Mesópótamíu sköpuðu vöggu menningar og ræktunar – kúltúrs – en um síðir urðu slíkar framkvæmdir að risastíflum sem drápu og eyddu. Litlu virkjanirnar hér á landi urðu til mikillar blessunar þegar menn tóku að framleiða rafmagn, bera ljósið inn í bæina, eins og Bakkabræður – eða Lúsífer. En risavirkjanir sem hér hafa verið reistar raska og eyða. Umsvifunum hefur ekki fylgt virðing og auðmýkt þess sem skynjar lífsaflið að verki í vatninu, horfir á eigin framferði í stóru samhengi Jarðarinnar, skilur að það er ekki hlutverk mannsins að sigra lífsaflið heldur að ganga á vegum þess, trúa á það utan við sig og í sér. Okkur er ekki ætlað að ganga á vatninu. Maðurinn á að hætta að ímynda sér að hann sé herra jarðarinnar og hætta að haga sér eins og hann sé perri jarðarinnar.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun