Skoðun

Að kunna að tapa

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Samfylkingin beið fyrirséð afhroð í þingkosningunum. Það er list að sigra, en meiri að kunna að taka ósigri. Algeng, en ekki uppbyggileg viðbrögð, eru að benda á aðra, ekki horfa í eigin barm. Ýmsir félagar Samfylkingarinnar hafa beint sjónum að formanni flokksins sem tók við fyrir aðeins tólf vikum, þegar flokkurinn var með 12% fylgi í skoðanakönnunum. Skýringin er því miður ekki svona einföld, þá þyrfti ekki annað en að skipta um karlinn í brúnni og málið dautt!

Verðum að hafa jarðsamband

Nær er að horfa á flokkinn í heild, málflutning hans, stefnu og verk. Var forgangsröðin rétt? Vanmátum við ekki erfiðleika fjölskyldna, þrátt fyrir fjölda ráðstafana ríkisstjórnarinnar? Ekki einungis hafa lán hækkað, heldur bættist við að tekjumöguleikar minnkuðu, skattar og gjöld jukust. Enn eru 10.000 manns á atvinnuleysisskrá og mikill fjöldi í alvarlegum vanskilum. Jafnaðarmannaflokkur verður að hafa jarðsamband í gegnum félagsmenn sína og með samskiptum við samtök launafólks og hagsmunasamtök þeirra sem minna mega sín. Fólk hafði ekki lengur trú á Samfylkingu sem gæslumanni sinna hagsmuna, tók hæsta gylliboðinu, þótt fæstir skildu útfærslu þess.

Ríkisstjórnin færðist líklega of mikið í fang. Síðasti vetur fram á lokadag þingsins einkenndist af átökum um stór og flókin mál sem ekki náðust nema að litlu leyti í gegn. Við getum ekki kennt nýjum formanni um það. Við áttum að viðurkenna snemma sl. vetur að stjórnarskrármálið sem heild var ekki tilbúið og semja um hluta þess. Ríkisstjórnin, sem náði afburða árangri á mörgum sviðum, virkaði vanmáttug síðustu mánuðina og fyrri árangur drukknaði í rifrildi inni á Alþingi.

Ég var formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar sl. fjögur ár. Þó framkvæmdastjórn beri ekki ábyrgð á daglegri pólitík, þá ber hún ábyrgð á stefnumótun flokksins og tengslum almennra flokksmanna við framkvæmdina. Framkvæmdastjórnin hefði þurft að bregðast við viðvörunum í sveitarstjórnarkosningunum og skoðanakönnunum, sem sýndu stöðugt minnkandi fylgi.

Það gerðum við ekki. Nú er tækifæri til að læra af því, sem sagt er það eina sem fólk læri af, þ.e. eigin reynslu. Horfa einarðlega í eigin barm og gera betur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×