Oh My God! Bergur Ebbi Benediktsson skrifar 27. júní 2013 06:00 Ég man ekki eftir því að nein orð hafi verið bönnuð á heimilinu þegar ég var lítill. Það var ekki vel séð að segja „djöfullinn“ eða „fjandinn“ en það var ekki forboðið. Ég minnist þess ekki að neitt hafi verið forboðið. En nú stjórna ég sjálfur heimili og ég er kominn með bannorð. Ég hef sett bann á tvo frasa. Ég vil ekki heyra „Oh My God“ og ekki heldur „Jesus“ (borið fram „dísös“). Við þetta vil ég setja tvo fyrirvara. Í fyrsta lagi þá er ég ekki alvaldur á heimilinu og það má vel vera að bann mitt verði ekki virt og þá verð ég bara að kyngja því. Í öðru lagi þá hefur þetta bann ekkert að gera með trúarskoðanir eða skort á þeim. Síður en svo. Ég þoli ekki frasana „Oh My God“ og „Jesus“ vegna þess að mér finnst þeir einmitt afhelga það sem fagurt er í veröldinni. Nú skal ég reyna að útskýra. Ég sá einu sinni hóp pönkara í Berlín. Þetta var æðislegt gengi: hanakambar og gaddaleðurjakkar. Skyndilega brá einn pönkarinn á leik og braut flösku. Mér stökkbrá og taldi mig jafnvel vera kominn í hættu. En þá heyrði ég kunnugleg orð. „Oh My God!“ Pönkararnir höfðu ekkert merkilegra að segja við uppátækinu en „Oh My God“ með útvötnuðum amerískum hreim en eilítið rödduðu þýsku té-i. Hér vorum við með eitthvað sem leit út eins og atriði úr Dýragarðsbörnunum en breyttist skyndilega í flatan Friends-þátt. Þetta kalla ég skuggahlið alþjóðavæðingar. „Oh My God“ er engilsaxneskur frasi, þó fremur bandarískur en breskur, en fyrst og fremst alþjóðlegur. Hann er lægsti samnefnari tilfinninga okkar, það sem við grípum til þegar við erum orðlaus. Sumum finnst það kannski praktískt eða í öllu falli saklaust, en mér finnst það syndsamlegt metnaðarleysi. Við erum ríkt fólk og getum valið um heilu úthöfin af menningarhafsjó til að kafa í en í staðinn látum við nægja að ganga upp að næsta drullupolli og gára hann með tánni. Oh My God hvað það er lélegt! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun
Ég man ekki eftir því að nein orð hafi verið bönnuð á heimilinu þegar ég var lítill. Það var ekki vel séð að segja „djöfullinn“ eða „fjandinn“ en það var ekki forboðið. Ég minnist þess ekki að neitt hafi verið forboðið. En nú stjórna ég sjálfur heimili og ég er kominn með bannorð. Ég hef sett bann á tvo frasa. Ég vil ekki heyra „Oh My God“ og ekki heldur „Jesus“ (borið fram „dísös“). Við þetta vil ég setja tvo fyrirvara. Í fyrsta lagi þá er ég ekki alvaldur á heimilinu og það má vel vera að bann mitt verði ekki virt og þá verð ég bara að kyngja því. Í öðru lagi þá hefur þetta bann ekkert að gera með trúarskoðanir eða skort á þeim. Síður en svo. Ég þoli ekki frasana „Oh My God“ og „Jesus“ vegna þess að mér finnst þeir einmitt afhelga það sem fagurt er í veröldinni. Nú skal ég reyna að útskýra. Ég sá einu sinni hóp pönkara í Berlín. Þetta var æðislegt gengi: hanakambar og gaddaleðurjakkar. Skyndilega brá einn pönkarinn á leik og braut flösku. Mér stökkbrá og taldi mig jafnvel vera kominn í hættu. En þá heyrði ég kunnugleg orð. „Oh My God!“ Pönkararnir höfðu ekkert merkilegra að segja við uppátækinu en „Oh My God“ með útvötnuðum amerískum hreim en eilítið rödduðu þýsku té-i. Hér vorum við með eitthvað sem leit út eins og atriði úr Dýragarðsbörnunum en breyttist skyndilega í flatan Friends-þátt. Þetta kalla ég skuggahlið alþjóðavæðingar. „Oh My God“ er engilsaxneskur frasi, þó fremur bandarískur en breskur, en fyrst og fremst alþjóðlegur. Hann er lægsti samnefnari tilfinninga okkar, það sem við grípum til þegar við erum orðlaus. Sumum finnst það kannski praktískt eða í öllu falli saklaust, en mér finnst það syndsamlegt metnaðarleysi. Við erum ríkt fólk og getum valið um heilu úthöfin af menningarhafsjó til að kafa í en í staðinn látum við nægja að ganga upp að næsta drullupolli og gára hann með tánni. Oh My God hvað það er lélegt!