LÍÚ-varpið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 1. júlí 2013 12:00 Við þurfum að tala um hann Davíð. Og nú ranghvolfa margir augum og fórna höndum en vinir hans og félagar glotta illyrmislega og segja glaðir í bragði: „Þið eruð með Davíð á heilanum.“ Ætli það sé nú ekki eitthvað orðum aukið. Hitt er verra, að hann virðist enn að störfum í heilabúum svo margra sjálfstæðismanna. Í stað þess að sitja í sæmd sinni og skrifa skemmtilegar minningar, eins og ekki er að efa að hann gæti gert, er hann enn á þönum að stýra og stjórna, ráða. Eftir allt það sem á undan er gengið er það með nokkrum ólíkindum að enn skuli hugmyndir þessa manns vera á dagskrá – enn sé hann í hópi þeirra sem ráða. Sjálfur hrunkvöðullinn. Við getum því miður ekki látið eins og skrif Davíðs Oddssonar séu eins og hvert annað heitapottsskvaldur og skvamp eins og manni heyrist stundum að samflokksmenn hans vilji að þau séu afgreidd. Þrennt hefur Davíð einkum skrifað um í ritstjóratíð sinni af undraverðri þrákelkni: Evrópumál, afnám veiðigjalds og Ríkisútvarpið. Svo einkennilega vill til að þetta eru einmitt þau þrjú mál sem ný ríkisstjórn hefur sett á oddinn.Hinn bitri ráðgjafi Í ævintýrunum gömlu fer ungi maðurinn út í heim til að afla sér frægðar og frama með nesti og nýja skó. Á vegi hans verður fljótlega kátlegur karl, oftast dvergur, sem í þjóðsagnafræðunum er nefndur „hinn vitri ráðgjafi“; hann hjálpar unga manninum yfir margs konar hindranir svo að hann megi að lokum hreppa kóngsdótturina og hálft konungsríkið. Okkar nýi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skrifaði á dögunum langa grein í Morgunblaðið um það margvíslega mótlæti sem hann hefur mátt þola á stuttum ráðherraferli sínum, og virtist vilja rekja það í einn stað: fréttaflutning RÚV. Hann lét á sér skilja að myndi RÚV láta ógert að segja tilteknar fréttir myndi engin andstaða vera við gerðir ríkisstjórnarinnar. Slíkar hugmyndir heyrast að vísu stundum frá landstjórnarmönnum, en ekki ýkja oft frá þeim evrópsku lýðræðisríkjum sem við Íslendingar vildum til skamms tíma bera okkur saman við. En kunnuglegur var söngurinn: Engu var líkara en að Davíð Oddsson hefði skrifað fyrir hann greinina, svo samhljóða var hún átjánhundruð undangengnum leiðurum Davíðs um sömu vá. Hinn vitri ráðgjafi hefur raunar lýst því yfir að leggja eigi niður Ríkisútvarpið. Það er kunnugleg afstaða fyrir okkur sem lengi höfum búið við störf Davíðs – hann gerir þetta gjarnan: Hann leggur niður. Þegar hann var forsætisráðherra hafði hann það einkum að leiðarljósi í samskiptum við ríkisstofnanir, að þegar einhver þeirra hafði eitthvað fram að færa sem honum fannst ekki ástæða til að kæmi fram skyldi hún einfaldlega lögð niður. Þess vegna var Þjóðhagsstofnun lögð niður og þess vegna fengu Íslendingar engar fregnir – nema alveg framúrskarandi – um stöðu þjóðarbúsins fyrr en Geir Haarde bað Guð að blessa landið. Og nú þegar Davíð er á gamals aldri kominn í fjölmiðlabransann og heyrir eitthvað í Ríkisútvarpinu sem honum finnst vera óþarft að hafa orð á þá er það fyrsta hugmynd hans að leggja skuli Ríkisútvarpið niður. Þannig hugsar hann. Hefði Davíð orðið fótboltamaður og Valsari hefði hann væntanlega krafist þess að KR yrði lagt niður. Við héldum öll að Illugi Gunnarsson yrði svo ágætur menntamálaráðherra af því að hann kann á píanó en það var eigi að síður fyrsta mál á dagskrá hjá honum að ganga erinda Davíðs, sterka mannsins í Sjálfstæðisflokknum sem ræður yfir heilabúum svo margra sjálfstæðismanna, og láta herða tök Flokksins á RÚV.LÍÚV? Og nú er maður farinn að heyra glaðbeitta sjálfstæðismenn tala um að selja RÚV – það tókst nefnilega svo ljómandi vel til með Póst og síma og Landsbankann. En þá er að gæta þess að stofnunin komist í réttar hendur og tryggt verði að engar fregnir berist af stöðu þjóðarbúsins og framgöngu stjórnarinnar nema alveg framúrskarandi. Ekki er að efa að leiðtoginn er búinn að þrauthugsa þetta. Raunar er það einungis einn aðili sem er treystandi til þess að reka RÚV sómasamlega og með þeim hætti að ekki sé alltaf verið að segja frá einhverju og tala um eitthvað í útvarpið sem fólk hefur alls ekki gott af því að heyra um. Það er hún Guðbjörg í Vestmannaeyjum og mannskapurinn sem Gunnlaugur Sævar hefur af eljusemi safnað kringum hana – Samherjamenn og aðrir útgerðarrisar. Þetta fólk hefur fjárhagslegt bolmagn til að reka Ríkisútvarpið með reisn og ekki er að efa að það mun sjá til þess að þjóðmenningarleg verðmæti verði þar í hávegum höfð. Við þurfum nefnilega að tala um hann Davíð; það má ekki líta af honum, þá er hann búinn að selja Símann eða Landsbankann eða plata drengina sína til að selja Ríkisútvarpið útgerðarmönnunum sem hann starfar nú fyrir. Einhver svona þanki lúrir á bak við þrálátar árásir hans á Ríkisútvarpið – sem við eigum öll – enn sem komið er. Hann mun ekki linna látum fyrr en RÚV er orðið LÍÚ-varpið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór
Við þurfum að tala um hann Davíð. Og nú ranghvolfa margir augum og fórna höndum en vinir hans og félagar glotta illyrmislega og segja glaðir í bragði: „Þið eruð með Davíð á heilanum.“ Ætli það sé nú ekki eitthvað orðum aukið. Hitt er verra, að hann virðist enn að störfum í heilabúum svo margra sjálfstæðismanna. Í stað þess að sitja í sæmd sinni og skrifa skemmtilegar minningar, eins og ekki er að efa að hann gæti gert, er hann enn á þönum að stýra og stjórna, ráða. Eftir allt það sem á undan er gengið er það með nokkrum ólíkindum að enn skuli hugmyndir þessa manns vera á dagskrá – enn sé hann í hópi þeirra sem ráða. Sjálfur hrunkvöðullinn. Við getum því miður ekki látið eins og skrif Davíðs Oddssonar séu eins og hvert annað heitapottsskvaldur og skvamp eins og manni heyrist stundum að samflokksmenn hans vilji að þau séu afgreidd. Þrennt hefur Davíð einkum skrifað um í ritstjóratíð sinni af undraverðri þrákelkni: Evrópumál, afnám veiðigjalds og Ríkisútvarpið. Svo einkennilega vill til að þetta eru einmitt þau þrjú mál sem ný ríkisstjórn hefur sett á oddinn.Hinn bitri ráðgjafi Í ævintýrunum gömlu fer ungi maðurinn út í heim til að afla sér frægðar og frama með nesti og nýja skó. Á vegi hans verður fljótlega kátlegur karl, oftast dvergur, sem í þjóðsagnafræðunum er nefndur „hinn vitri ráðgjafi“; hann hjálpar unga manninum yfir margs konar hindranir svo að hann megi að lokum hreppa kóngsdótturina og hálft konungsríkið. Okkar nýi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skrifaði á dögunum langa grein í Morgunblaðið um það margvíslega mótlæti sem hann hefur mátt þola á stuttum ráðherraferli sínum, og virtist vilja rekja það í einn stað: fréttaflutning RÚV. Hann lét á sér skilja að myndi RÚV láta ógert að segja tilteknar fréttir myndi engin andstaða vera við gerðir ríkisstjórnarinnar. Slíkar hugmyndir heyrast að vísu stundum frá landstjórnarmönnum, en ekki ýkja oft frá þeim evrópsku lýðræðisríkjum sem við Íslendingar vildum til skamms tíma bera okkur saman við. En kunnuglegur var söngurinn: Engu var líkara en að Davíð Oddsson hefði skrifað fyrir hann greinina, svo samhljóða var hún átjánhundruð undangengnum leiðurum Davíðs um sömu vá. Hinn vitri ráðgjafi hefur raunar lýst því yfir að leggja eigi niður Ríkisútvarpið. Það er kunnugleg afstaða fyrir okkur sem lengi höfum búið við störf Davíðs – hann gerir þetta gjarnan: Hann leggur niður. Þegar hann var forsætisráðherra hafði hann það einkum að leiðarljósi í samskiptum við ríkisstofnanir, að þegar einhver þeirra hafði eitthvað fram að færa sem honum fannst ekki ástæða til að kæmi fram skyldi hún einfaldlega lögð niður. Þess vegna var Þjóðhagsstofnun lögð niður og þess vegna fengu Íslendingar engar fregnir – nema alveg framúrskarandi – um stöðu þjóðarbúsins fyrr en Geir Haarde bað Guð að blessa landið. Og nú þegar Davíð er á gamals aldri kominn í fjölmiðlabransann og heyrir eitthvað í Ríkisútvarpinu sem honum finnst vera óþarft að hafa orð á þá er það fyrsta hugmynd hans að leggja skuli Ríkisútvarpið niður. Þannig hugsar hann. Hefði Davíð orðið fótboltamaður og Valsari hefði hann væntanlega krafist þess að KR yrði lagt niður. Við héldum öll að Illugi Gunnarsson yrði svo ágætur menntamálaráðherra af því að hann kann á píanó en það var eigi að síður fyrsta mál á dagskrá hjá honum að ganga erinda Davíðs, sterka mannsins í Sjálfstæðisflokknum sem ræður yfir heilabúum svo margra sjálfstæðismanna, og láta herða tök Flokksins á RÚV.LÍÚV? Og nú er maður farinn að heyra glaðbeitta sjálfstæðismenn tala um að selja RÚV – það tókst nefnilega svo ljómandi vel til með Póst og síma og Landsbankann. En þá er að gæta þess að stofnunin komist í réttar hendur og tryggt verði að engar fregnir berist af stöðu þjóðarbúsins og framgöngu stjórnarinnar nema alveg framúrskarandi. Ekki er að efa að leiðtoginn er búinn að þrauthugsa þetta. Raunar er það einungis einn aðili sem er treystandi til þess að reka RÚV sómasamlega og með þeim hætti að ekki sé alltaf verið að segja frá einhverju og tala um eitthvað í útvarpið sem fólk hefur alls ekki gott af því að heyra um. Það er hún Guðbjörg í Vestmannaeyjum og mannskapurinn sem Gunnlaugur Sævar hefur af eljusemi safnað kringum hana – Samherjamenn og aðrir útgerðarrisar. Þetta fólk hefur fjárhagslegt bolmagn til að reka Ríkisútvarpið með reisn og ekki er að efa að það mun sjá til þess að þjóðmenningarleg verðmæti verði þar í hávegum höfð. Við þurfum nefnilega að tala um hann Davíð; það má ekki líta af honum, þá er hann búinn að selja Símann eða Landsbankann eða plata drengina sína til að selja Ríkisútvarpið útgerðarmönnunum sem hann starfar nú fyrir. Einhver svona þanki lúrir á bak við þrálátar árásir hans á Ríkisútvarpið – sem við eigum öll – enn sem komið er. Hann mun ekki linna látum fyrr en RÚV er orðið LÍÚ-varpið.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun