Af síld ertu kominn Guðmundur Andri Thorson skrifar 8. júlí 2013 06:00 Ég gekk um Síldarminjasafnið á Siglufirði á dögunum á miðjum rigningardegi – fáir á ferli – þögn yfir öllu. Þá er alltaf skemmtilegast að ganga um söfn, þegar maður þarf ekki að hlusta á eitthvert skvaldur og getur einbeitt sér að því að hlusta á hlutina þegja.Þögn hlutanna Þögnin er margvísleg. Þögn hafsins er mikilúðleg og þögn næturhiminsins vekur manni lotningu, þögn öræfanna er tignarleg og váleg er þögn svarta sanda; sumt fólk þegir þannig að gengur á með þrumum og eldingum kringum það en aðrir sveipa sig mildri og nærgætnislegri þögn. Og svo framvegis. Þögn hlutanna er hins vegar ólík allri annarri þögn. Nytjahlutir sem lokið hafa þjónustu sinni liggja þarna og bíða eftir höndum, bíða þess að vera teknir upp og notaðir – og þegja. Hlutir eru til þess að vera notaðir og hlutir sem ekki hafa verið notaðir til síns brúks áratugum saman fara smám saman að þegja á einhvern alveg sérstakan hátt. Aflögð amboð sem liggja til sýnis, tilbúin að spretta á ný upp, tilbúin að verða fyllt lífi með mannlegri nálgun, samleik handa og heila – frá slíkum verkfærum streymir þögul orka, góð og gjöful. Maður horfir á þau og sér liðin handtök, skynjar í sviphendingu ólgandi athafnalíf, framtakssemi, útsjónarsemi, mannlíf – mannlegt hugvit, tiltekinn þankagang – maður gerir svona og svona og svona og þá gerist þetta og þetta – og djúpt í manni vaknar eitthvað sem líkist verkmanni. Mann langar að fara og gera eitthvað gagn einhvers staðar. Slíkar og þvílíkar kenndir geta vaknað með manni þegar maður fer á minjasöfnin sem víða um land hafa risið og vitna um myndarskap og ræktarsemi við íslenskan menningararf. Ekki er síst gaman að koma á Síldarminjasafnið á Siglufirði og sjá allar þær keðjur og króka sem þar þegja, tunnur, klippur katla og ker – að ógleymdum díxílnum. Afar vel hefur tekist til með uppsetningu safnsins, maður líður þar um af áreynsluleysi og dáist að öllu. Ekki er síst mikilsvert að fá að sjá myndir af fólki, hvort sem það hefur stillt sér upp sérstaklega til myndatöku eða er við störf sín: fjarri er hið luntalega og feimnislega fas sem svo algengt er að sjá á gömlum myndum af íslensku sveitafólki. Þetta fólk er svalt. Það er dugnaðarlegt, íbyggið, opið og fasmikið að sjá, allir virðast óðir og uppvægir við að láta hendur standa fram úr ermum og tileinka sér tækni nýrra tíma, svipurinn ljómar af einhvers konar einkennilegri kátínu, eftirvæntingu, vinnugleði – gott ef ekki sjálfri verðandinni. Samtaka nú! segir þessi svipur. Kvikmyndirnar sýna síðan fólk sem labbar eins og í gömlum Chaplinmyndum: allir hreyfa sig þar svo hratt og manni finnst eins og það sé ekki vegna þess að kvikmyndatæknin sé ófullkomin heldur af hinu, að öllum liggi á að bjarga verðmætum, skapa framtíð – samfélag – nýtt og gott Ísland.Virðing og kærleikur Yfirleitt heyrum við mest talað um það hvað herinn og blessað stríðið hafi gert mikið fyrir Ísland – en í raun og veru var það þetta fólk sem kom Íslandi til bjargar á kreppuárunum, þegar Síldarverksmiðjur ríkisins tóku að starfa af fullum krafti og Íslendingar hættu að láta sér nægja að vinna síldina á forsendum Norðmanna. Maður sér það á fasi þess og svipmóti að það hefur mikilsverðu hlutverki að gegna: þetta er fólkið sem bjó til nútíma-Ísland, skapaði með dugnaði sínum, atorku, útsjónarsemi og vinnugleði – og samtaki – forsendur fyrir þéttbýlismyndun og bjó þar með í haginn fyrir afkomendur sína. Við vitum líka hitt, að þetta kostaði sitt: á síldarleysisárum geysaði stundum hungur í bænum, lífsbaráttan var upp á líf og dauða og margar urðu þarna örlagasögurnar, lífið gat verið ljótt og grimmt og stéttaátökin gátu orðið harðvítug vegna þess að verkafólk þurfti að sækja af alefli öll þau réttindi sín, sem sjálfsögð eru talin nú á dögum. Við megum ekki sjá þessi ár í of rómantísku ljósi eða ímynda okkur að þessi ár hafi lífið verið á einhvern máta betra en við þekkjum. Þetta vitum við. En samt: Síldarárin ljóma í Íslandssögunni. Og þau eru líka tákn þess sem aflaga fór. Af síld ertu kominn og síldin hvarf. Þau eru tákn um fallvaltleik þess að treysta um of á að geta ausið endalaust af brunnum Jarðar, leggja allt sitt traust á hráefnisframleiðslu fremur en hugvit. Eitt af því sem er svo fallegt við Síldarminjasafnið á Siglufirði er að þar er þessi gamla undirstöðu-atvinnugrein okkar, sjávarútvegurinn, umvafinn kærleika og virðingu, eins og vera ber. Allt vitnar um það á þessu safni: hvernig hlutunum er fyrir komið af ástríðu þar sem hver og einn fær notið sín í mælskri þögn sinni, hvernig vinnusvæði eru endurgerð í látleysi sínu og nytjafegurð, hvernig bátarnir í bátaskýlinu tróna í sæmd sinni í mildri birtu ævikvöldsins. Við erum vön skæklatogi þegar kemur að málefnum sjávarútvegsins og sjálfir hafa talsmenn greinarinnar ekki verið barnanna bestir í því að umvefja hana neikvæðni með frekju og fruntalegum kveinstöfum. Síldarminjasafnið á Siglufirði er til þess fallið að minna okkur á hitt: af síld ertu kominn. Við byggjum á því sem hún gaf okkur og eigum að einbeita okkur að nýjum úrlausnarefnum með sömu gleði og eftirvæntingu og áar okkar og eddur gerðu þegar síldin kom – og fór. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Íslendingar, ekki vera fávitar! Tómas Ellert Tómasson Skoðun Staðreyndir í útlendingamálum Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Augljós og sýnilegur ávinningur í styttingu biðlista Jóhann F K Arinbjarnarson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Framtíð án sleggju: Vaxtalækkanir og skattalækkanir í þágu heimilanna Ingveldur Anna Sigurðardóttir Skoðun
Ég gekk um Síldarminjasafnið á Siglufirði á dögunum á miðjum rigningardegi – fáir á ferli – þögn yfir öllu. Þá er alltaf skemmtilegast að ganga um söfn, þegar maður þarf ekki að hlusta á eitthvert skvaldur og getur einbeitt sér að því að hlusta á hlutina þegja.Þögn hlutanna Þögnin er margvísleg. Þögn hafsins er mikilúðleg og þögn næturhiminsins vekur manni lotningu, þögn öræfanna er tignarleg og váleg er þögn svarta sanda; sumt fólk þegir þannig að gengur á með þrumum og eldingum kringum það en aðrir sveipa sig mildri og nærgætnislegri þögn. Og svo framvegis. Þögn hlutanna er hins vegar ólík allri annarri þögn. Nytjahlutir sem lokið hafa þjónustu sinni liggja þarna og bíða eftir höndum, bíða þess að vera teknir upp og notaðir – og þegja. Hlutir eru til þess að vera notaðir og hlutir sem ekki hafa verið notaðir til síns brúks áratugum saman fara smám saman að þegja á einhvern alveg sérstakan hátt. Aflögð amboð sem liggja til sýnis, tilbúin að spretta á ný upp, tilbúin að verða fyllt lífi með mannlegri nálgun, samleik handa og heila – frá slíkum verkfærum streymir þögul orka, góð og gjöful. Maður horfir á þau og sér liðin handtök, skynjar í sviphendingu ólgandi athafnalíf, framtakssemi, útsjónarsemi, mannlíf – mannlegt hugvit, tiltekinn þankagang – maður gerir svona og svona og svona og þá gerist þetta og þetta – og djúpt í manni vaknar eitthvað sem líkist verkmanni. Mann langar að fara og gera eitthvað gagn einhvers staðar. Slíkar og þvílíkar kenndir geta vaknað með manni þegar maður fer á minjasöfnin sem víða um land hafa risið og vitna um myndarskap og ræktarsemi við íslenskan menningararf. Ekki er síst gaman að koma á Síldarminjasafnið á Siglufirði og sjá allar þær keðjur og króka sem þar þegja, tunnur, klippur katla og ker – að ógleymdum díxílnum. Afar vel hefur tekist til með uppsetningu safnsins, maður líður þar um af áreynsluleysi og dáist að öllu. Ekki er síst mikilsvert að fá að sjá myndir af fólki, hvort sem það hefur stillt sér upp sérstaklega til myndatöku eða er við störf sín: fjarri er hið luntalega og feimnislega fas sem svo algengt er að sjá á gömlum myndum af íslensku sveitafólki. Þetta fólk er svalt. Það er dugnaðarlegt, íbyggið, opið og fasmikið að sjá, allir virðast óðir og uppvægir við að láta hendur standa fram úr ermum og tileinka sér tækni nýrra tíma, svipurinn ljómar af einhvers konar einkennilegri kátínu, eftirvæntingu, vinnugleði – gott ef ekki sjálfri verðandinni. Samtaka nú! segir þessi svipur. Kvikmyndirnar sýna síðan fólk sem labbar eins og í gömlum Chaplinmyndum: allir hreyfa sig þar svo hratt og manni finnst eins og það sé ekki vegna þess að kvikmyndatæknin sé ófullkomin heldur af hinu, að öllum liggi á að bjarga verðmætum, skapa framtíð – samfélag – nýtt og gott Ísland.Virðing og kærleikur Yfirleitt heyrum við mest talað um það hvað herinn og blessað stríðið hafi gert mikið fyrir Ísland – en í raun og veru var það þetta fólk sem kom Íslandi til bjargar á kreppuárunum, þegar Síldarverksmiðjur ríkisins tóku að starfa af fullum krafti og Íslendingar hættu að láta sér nægja að vinna síldina á forsendum Norðmanna. Maður sér það á fasi þess og svipmóti að það hefur mikilsverðu hlutverki að gegna: þetta er fólkið sem bjó til nútíma-Ísland, skapaði með dugnaði sínum, atorku, útsjónarsemi og vinnugleði – og samtaki – forsendur fyrir þéttbýlismyndun og bjó þar með í haginn fyrir afkomendur sína. Við vitum líka hitt, að þetta kostaði sitt: á síldarleysisárum geysaði stundum hungur í bænum, lífsbaráttan var upp á líf og dauða og margar urðu þarna örlagasögurnar, lífið gat verið ljótt og grimmt og stéttaátökin gátu orðið harðvítug vegna þess að verkafólk þurfti að sækja af alefli öll þau réttindi sín, sem sjálfsögð eru talin nú á dögum. Við megum ekki sjá þessi ár í of rómantísku ljósi eða ímynda okkur að þessi ár hafi lífið verið á einhvern máta betra en við þekkjum. Þetta vitum við. En samt: Síldarárin ljóma í Íslandssögunni. Og þau eru líka tákn þess sem aflaga fór. Af síld ertu kominn og síldin hvarf. Þau eru tákn um fallvaltleik þess að treysta um of á að geta ausið endalaust af brunnum Jarðar, leggja allt sitt traust á hráefnisframleiðslu fremur en hugvit. Eitt af því sem er svo fallegt við Síldarminjasafnið á Siglufirði er að þar er þessi gamla undirstöðu-atvinnugrein okkar, sjávarútvegurinn, umvafinn kærleika og virðingu, eins og vera ber. Allt vitnar um það á þessu safni: hvernig hlutunum er fyrir komið af ástríðu þar sem hver og einn fær notið sín í mælskri þögn sinni, hvernig vinnusvæði eru endurgerð í látleysi sínu og nytjafegurð, hvernig bátarnir í bátaskýlinu tróna í sæmd sinni í mildri birtu ævikvöldsins. Við erum vön skæklatogi þegar kemur að málefnum sjávarútvegsins og sjálfir hafa talsmenn greinarinnar ekki verið barnanna bestir í því að umvefja hana neikvæðni með frekju og fruntalegum kveinstöfum. Síldarminjasafnið á Siglufirði er til þess fallið að minna okkur á hitt: af síld ertu kominn. Við byggjum á því sem hún gaf okkur og eigum að einbeita okkur að nýjum úrlausnarefnum með sömu gleði og eftirvæntingu og áar okkar og eddur gerðu þegar síldin kom – og fór.
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Framtíð án sleggju: Vaxtalækkanir og skattalækkanir í þágu heimilanna Ingveldur Anna Sigurðardóttir Skoðun
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Framtíð án sleggju: Vaxtalækkanir og skattalækkanir í þágu heimilanna Ingveldur Anna Sigurðardóttir Skoðun