Skoðun

Heima er best

Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir skrifar
Fyrir 13 árum fluttum við eiginmaður minn á Akranes, kornung og nýgift. Hér festum við kaup á okkar fyrstu íbúð og í vasanum vorum við með áform um að stofna fjölskyldu.  Af hverju við fluttum á Akranes er spurning sem við fengum oft að heyra frá vinum okkar og fjölskyldu, svarið var og er einfalt.

Að gera þennan frábæra bæ betri og vinna með íbúum hans fyrir íbúa hans. Ætti þetta ekki að vera í fyrirrúmi?

Ég er landsbyggðartútta í húð og hár, fædd og uppalin í litlu sjávarplássi vestur á fjörðum. Þar var ég var alin upp við frjálsræði sem að ég gat ekki séð fyrir mér að geta boðið framtíðarbörnum okkar upp á í Reykjavík þar sem við bjuggum. Ekki það að Reykjavík sé eitthvað verri kostur en hver annar, en þegar maður er alinn upp við það frjálsræði sem ég ólst upp við fyrir vestan þá getur maður ekki hugsað sér að börnin manns fái ekki að upplifa það sama.

Á Akranesi sá ég fyrir mér að hér gæti okkur liðið vel og hérna myndu börnin okkar dafna og vaxa upp áhyggjulaus og glöð, sú varð raunin.  Ef að satt skal segja var eiginmaðurinn nú ekki alveg til í þetta til að byrja með, en sættist svo á að reyna þetta í ár eða svo.  Nú eru liðin 13 ár og er Akranes orðið okkar heimili sem við metum bæði mikils og þykir vænt um. Móttökurnar sem að við fengum voru frábærar, alls staðar vorum við boðin velkomin og okkur tekið opnum örmum.

„Pay it forward“ er hugmyndafræði sem er mér mjög hugleikin. Borgaðu það áfram eða einfaldlega hjálpaðu til er eitthvað sem ég reyni eftir fremsta megni að lifa eftir og nú er komin upp sú staða að ég vil hjálpa til í víðari skilningi. Ég vil hjálpa til að gera bæinn minn og okkar að ennþá betri bæ. Þess vegna var það þegar ég fékk boð í byrjun árs um að koma á stofnfund Bjartrar framtíðar á Akranesi að tækifærið kom upp í hendurnar á mér, þarna var flokkur sem ég hrífst af. „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir,“ er setning sem kemur upp í hugann þegar nafn flokksins ber á góma, vegna þess að með samvinnu og gleði að leiðarljósi getum við svo ósköp margt.

Öll getum við eitthvað og öll höfum við okkar eiginleika og reynslu. Með fjölbreytileikanum getum við unnið svo ótrúlega margt ef við leggjumst öll á eitt sama hvað flokk við erum bundin eða ekki bundin þá erum við að vinna að sameiginlegum hagsmunum. Að gera þennan frábæra bæ betri og vinna með íbúum hans fyrir íbúa hans. Ætti þetta ekki að vera í fyrirrúmi? Þarna var komið gullið tækifæri til þess vinna að því að breyta þeim starfsháttum sem að hafa svo oft verið ríkjandi í bæjarpólitíkinni.

Einnig að gefa til baka, gefa til baka til fólksins og bæjarins sem tók okkur hjónum svo vel. Mín trú er sú að í sameiningu getum við svo margt, ef við stöndum og vinnum saman öll sem eitt eru okkur allir vegir færir!  Ágætu Skagamenn og konur! Með jákvæðu hugarfari og gleði getum við skipt sköpum fyrir bæinn okkar.

Með bjartri og glaðri kveðju til ykkar allra!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×