Skoðun

Aðild almennings að sameiginlegum málum

Haukur Arnþórsson skrifar

Aukin krafa almennings um aðild að samfélagslegri stefnumörkun er mögulega langtímaþróun sem hófst fyrir um 30 árum með tilkomu einkatölva og netsins. Eins og önnur hægfara þróun bar lengi lítið á henni, en á ákveðnum tímapunkti fer hún yfir þröskuld, verður sýnileg og ekki verður framhjá henni gengið.



Þótt margar skýringar séu á miklu fylgi Pírata (m.a. um popúlisma) þá er því haldið fram hér að áhrif netsins geti verið mikilvæg skýring. Ungt fólk ber jafnan fram ný sjónarmið sem gera kröfu um að verða viðtekin. Mikið fylgi gæti sýnt áherslu nýrrar kynslóðar á nýjungar á grundvelli netsins og ekki er víst að hún gangi til baka þótt fylgi Pírata dali.



Áhrif netsins eru m.a. talin vera aukið frelsi, allt frá tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi til frelsis vegna aukins frítíma og valdefli, það að finna fyrir styrk sínum í krafti fjölda.



Leiðbeiningar

Nokkrar alþjóðastofnanir hafa leiðbeint um hvernig mæta eigi áhrifum netsins. Svarið er að auka samráð við almenning um sameiginleg mál og mæta réttmætum væntingum hans.



Í nágrannaríkjunum tala fræðimenn m.a. um sænska hugtakið legitimitet (e. legitimacy) sem þýðir að stjórnmálin og stjórnsýslan starfi í takt við vilja almennings. Á íslensku er talað um lögmæti og réttmæti, en þau hugtök eru þó frátekin fyrir annað. Skilningurinn er m.a. sá að fyrirætlanir og gerðir verði legitim ef orðið er við almannavilja og brugðist við réttmætum væntingum. Þær væntingar geta verið á hvaða sviði sem er, svo sem loftlagsmálum, um heilbrigðismál eða hvað annað.



Minnt skal á að tíma hugmyndafræðilegrar baráttu er sennilega lokið en nútíminn gerir kröfur um fræðilega og faglega nálgun og hagkvæmar lausnir.



Stjórnmál eða stjórnsýsla

Umboð stjórnmálamanna og embættismanna er að breytast vegna netsins, einkum á Norðurlöndunum og í Evrópuríkjum. Þannig veikist staða stjórnmálanna en stjórnsýslan gengur í endurnýjun lífdaganna með tölvuvæðingu og með því að vinna að og undirbúa mál í sátt við samfélagið. Með þeirri þróun eru alþjóðleg tilmæli um viðbrögð við áhrifum netsins á stjórnmál og stjórnsýslu framkvæmd. Þannig bregðast nágrannasamfélögin við og þar ber ekki mikið á stjórnmálaöflum sem byggja á áhrifum netsins.



Þróunin var í þessa átt hér á landi á árunum eftir 1991 með setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. En á síðustu árum hefur jafnvel mátt tala um bakslag í áherslunni á stjórnsýsluna og lítill áhugi er á að auka hlut hennar, hún er veik og stendur sig ekki alltaf vel. Margir vilja að stjórnmálin leysi á nýjan leik flest mál.



Galdur stjórnsýslunnar

Við lifum á tímum aukinnar sérhæfingar þar sem háskólar mennta starfsfólk framtíðar og veita því þekkingu til þess að þjóna samfélaginu betur en áður hefur verið gert. Leiðin til að nýta krafta þess er að styrkja stjórnsýsluna og gefa nýju starfsfólki tækifæri á að gera þjóðfélagið betra og sanngjarnara. Galdur stjórnsýslunnar felst m.a. í að henni er skylt að taka mið af reglum (jafnræðisreglu, réttmætisreglu, meðalhófsreglu, rannsóknarreglu o.s.frv.) við úrvinnslu mála og hún á að undirbúa mál vel. Sé það gert veikist staða geðþóttaákvarðana stjórnmálanna, en þær þekkjum við öll og kostnaðinn sem af þeim hlýst. Þessar lagareglur bæta og jafna aðstöðu almennings mjög gagnvart stjórnvöldum og kalla á réttmæta og málefnalega úrlausn mála. Þótt þær gildi enn sem komið er um afmörkuð mál má framkvæma þær við margs konar mál. Slík krafa hvílir ekki á stjórnmálunum.



Sú hugmynd að afgreiða megi sameiginleg mál í atkvæðagreiðslum getur brotið í bága við aukna sérhæfingu og veikt kröfuna um faglega uppbyggingu stjórnsýslunnar og gæti jafnvel leitt til enn verri ákvarðanatöku en nú er viðhöfð. Má t.d. hugsa sér að kosið sé um það hvaða aldraðir eigi rétt á vistheimilisplássi eða um opinberar framkvæmdir? Hvort tveggja gæti leitt til ójöfnuðar og brota á stjórnsýslulögum eða öðrum lögum.



Valkostir stjórnvalda

Það þarf að svara ríkum vilja ungs fólks og beina áhuga hans í farveg sem bætir samfélagið. Til þess þarf að vinna skipulega að breyttri framkvæmd stjórnmála og stjórnsýslu.



Stjórnvöld virðast hafa tvo valkosti. Annars vegar að fara leið nágrannaríkjanna, efla stjórnsýsluna og samráð hennar við almenning og breyta og bæta undirbúning mála og framkvæma mál sem þau hafa sterkt umboð til og mæta réttmætum væntingum. Hins vegar geta þau tekist á við almenning í landinu t.d. á grundvelli eigin hugmyndafræði og mætt afleiðingum þess. Þær gætu orðið að meirihlutavilji myndaðist um það í samfélaginu að mynda nýjar formlegar valdaleiðir í stjórnkerfinu. Slíkar leiðir, eins og þær voru kynntar af Stjórnlagaráði, myndu veikja eða fella norræna stjórnkerfið okkar.



Óheppilegt er ef lýðræðið hér á landi þróast í aðra átt en annars staðar á Norðurlöndunum vegna áhrifa netsins. Afleiðingar þess eru ófyrirsjáanlegar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×