Blóðmörismi Jón Gnarr skrifar 11. apríl 2015 07:00 Mér er hugleikin umræðan um hina svokölluðu „íslensku þjóðmenningu“. Því er stundum slegið fram að hitt og þetta sé samofið eða hreinn og beinn hluti af þjóðmenningunni. Því er oft haldið fram með trúna. Og það er alveg rétt. Kristin trú hefur haft gríðarleg áhrif á sögu og menningu íslensku þjóðarinnar. En af yfirlýsingum stjórnmálamanna gæti maður haldið að íslensk menning grundvallaðist helst á mataræði og hinum ýmsu réttum, aðallega unnum kjötvörum. Hin íslenska þjóðmenning er líka samofin þjóðrembingi og mikilvægi þess að verja okkur fyrir erlendum áhrifum. Sumum finnst okkur stafa mest hætta frá Bandaríkjunum og fussa og sveia yfir öllu sem þeir halda að komi þaðan. Aðrir virðast óttast Evrópu meira og þá sérstaklega Evrópusambandið sem virðist eiga sér þann draum æðstan að sölsa undir sig landið og gera okkur að einsleitu Evrópuríki. Margir stjórnmálamenn kunna ekki að gúggla og viðurkenna það jafnvel skömmustulaust. Ég er aftur á móti góður í því, enda fljótlegasta og besta leiðin til að afla sér upplýsinga. Ég ákvað því að ráðast í örlitla könnun og leita mér upplýsinga um nokkra séríslenska rétti. Ég byrjaði á að gúggla sviðna kindahausa og komst að því að menn átu svið í Grikklandi til forna löngu áður en Ísland byggðist. Svið eru líka étin í Noregi. Þar heita þau smalehovud. Í Tyrklandi heita þau besbarmaq og eru víða þjóðarréttur. Ekkert íslenskt við það. Sviðin eru frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og bárust hingað í gegnum Noreg. Ég skoðaði líka slátur. Sama sagan þar. Það er þekktur réttur víða í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Frægasta slátrið er líklega hið skoska haggis. Það er svipað og slátrið okkar og er borið fram með kartöflum og rófustöppu. Og þar sem forfeður okkar voru margir frá Norður-Englandi er ekki ólíklegt að þeir hafi borið með sér listina að taka slátur. Við fundum það að minnsta kosti ekki upp. Rollan hefur verið meginuppistaðan í mataræði okkar alla tíð. En við erum langt frá því að vera eina fólkið í heiminum sem étur rollur. Við erum ekki einu sinni þau einu sem éta punginn af hrútum. Það er líka gert í Evrópu. Árlega eru hrútspungahátíðir haldnar hátíðlegar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Ég fann þó í gúggli mínu ekkert um aðra en okkur sem borða súrmat. Íslenskur súrmatur virðist því standa undir nafni að vera íslenskur. En gallinn við súrmatinn er að hann er sjaldan í boði og helst bara á Þorra.Hongeohoe Það eru fáir fiskréttir íslenskir. Fiskur er frekar einfaldur í matreiðslu, yfirleitt soðinn í potti eða steiktur á pönnu. Það er ekkert sérstakt við það. Íslendingar byrjuðu líka frekar seint að éta fisk. Hér voru fáir bátar og enn þá færri bryggjur. Saltfiskur virðist eiga uppruna sinn, eins og margt annað, í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Að salta og þurrka fisk er geymsluaðferð sem þekkist um allan heim. Ekki einu sinni harðfiskurinn er íslenskur. Harðfiskur er forn-kínverskur réttur. Og þeir salta hann ekki bara heldur krydda hann líka. Þetta kom mér ekki á óvart. En ég gapti af undrun þegar ég gúgglaði kæsta skötu. Ég hélt að það hlyti að vera séríslenskt fyrirbæri. Ó nei, í Kóreu þykir hún herramannsmatur og kallast hongeohoe. Hingað hefur vinnsluaðferðin líklega borist í gegnum Grænland. Ef fólk borðar illaþefjandi tindabikkju í Kóreu þá getur það varla talist séríslenskt fyrirbæri. Kórea byggðist mörg þúsund árum á undan Íslandi.Fattigman Það er ekki hægt að ljúka svona rannsókn á uppruna íslenskra rétta án þess að skoða sætabrauðið. Samkvæmt Goggle er kleinan þýsk. Orðið er dregið af þýska orðinu klein, sem þýðir lítill. Í Noregi heitir hún fattigman en í Svíþjóð klenäter. Í Danmörku klejne. Þessar útlensku kleinur eru alveg eins í laginu og þessar íslensku. Eini munurinn á evrópsku og íslensku kleinunni er að sú evrópska er yfirleitt sykurhúðuð en sú íslenska ekki. Mig langar, í þessu sambandi, að minnast aðeins á kokteilsósuna sem margir virðast telja að hafi verið fundin upp hér á landi, það hafi verið íslenskir víkingar sem fyrstum datt í hug það snjallræði að hræra saman majónesi og tómatsósu. Það er misskilningur. Kokteilsósan er ævaforn evrópsk sósa. Júlíus Sesar borðaði líklega mikið af kokteilsósu. Tómatar vaxa villtir í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs en ekki á Íslandi. Tómatsósan kom fyrst til Íslands í stríðinu. Það voru breskir hermenn sem hrærðu fyrstu kokteilsósuna á Íslandi til að hafa með steiktum fiski. Við skoðun reynist íslensk matarmenning frekar útlensk. Flest það sem við köllum íslenskt virðist hafa borist til landsins annars staðar frá. Eini rétturinn sem virðist algjörlega íslenskur sýnist mér vera skyr. Flest gott sem hefur komið til landsins virðist hafa borist þaðan frá útlöndum og þá aðallega frá Evrópu. Og það er allt í lagi. Við skyldum því ekki óttast erlend áhrif heldur fagna þeim. Okkur er alveg treystandi til að velja úr það sem gagnast okkur en henda öðru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Gnarr Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Afreksverk Lilju Daggar Alfreðsdóttur Atli Valur Jóhannsson Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Ert þú að velja milli Samfylkingar og Viðreisnar? Sigurrós Elddís Huldudóttir Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun
Mér er hugleikin umræðan um hina svokölluðu „íslensku þjóðmenningu“. Því er stundum slegið fram að hitt og þetta sé samofið eða hreinn og beinn hluti af þjóðmenningunni. Því er oft haldið fram með trúna. Og það er alveg rétt. Kristin trú hefur haft gríðarleg áhrif á sögu og menningu íslensku þjóðarinnar. En af yfirlýsingum stjórnmálamanna gæti maður haldið að íslensk menning grundvallaðist helst á mataræði og hinum ýmsu réttum, aðallega unnum kjötvörum. Hin íslenska þjóðmenning er líka samofin þjóðrembingi og mikilvægi þess að verja okkur fyrir erlendum áhrifum. Sumum finnst okkur stafa mest hætta frá Bandaríkjunum og fussa og sveia yfir öllu sem þeir halda að komi þaðan. Aðrir virðast óttast Evrópu meira og þá sérstaklega Evrópusambandið sem virðist eiga sér þann draum æðstan að sölsa undir sig landið og gera okkur að einsleitu Evrópuríki. Margir stjórnmálamenn kunna ekki að gúggla og viðurkenna það jafnvel skömmustulaust. Ég er aftur á móti góður í því, enda fljótlegasta og besta leiðin til að afla sér upplýsinga. Ég ákvað því að ráðast í örlitla könnun og leita mér upplýsinga um nokkra séríslenska rétti. Ég byrjaði á að gúggla sviðna kindahausa og komst að því að menn átu svið í Grikklandi til forna löngu áður en Ísland byggðist. Svið eru líka étin í Noregi. Þar heita þau smalehovud. Í Tyrklandi heita þau besbarmaq og eru víða þjóðarréttur. Ekkert íslenskt við það. Sviðin eru frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og bárust hingað í gegnum Noreg. Ég skoðaði líka slátur. Sama sagan þar. Það er þekktur réttur víða í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Frægasta slátrið er líklega hið skoska haggis. Það er svipað og slátrið okkar og er borið fram með kartöflum og rófustöppu. Og þar sem forfeður okkar voru margir frá Norður-Englandi er ekki ólíklegt að þeir hafi borið með sér listina að taka slátur. Við fundum það að minnsta kosti ekki upp. Rollan hefur verið meginuppistaðan í mataræði okkar alla tíð. En við erum langt frá því að vera eina fólkið í heiminum sem étur rollur. Við erum ekki einu sinni þau einu sem éta punginn af hrútum. Það er líka gert í Evrópu. Árlega eru hrútspungahátíðir haldnar hátíðlegar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Ég fann þó í gúggli mínu ekkert um aðra en okkur sem borða súrmat. Íslenskur súrmatur virðist því standa undir nafni að vera íslenskur. En gallinn við súrmatinn er að hann er sjaldan í boði og helst bara á Þorra.Hongeohoe Það eru fáir fiskréttir íslenskir. Fiskur er frekar einfaldur í matreiðslu, yfirleitt soðinn í potti eða steiktur á pönnu. Það er ekkert sérstakt við það. Íslendingar byrjuðu líka frekar seint að éta fisk. Hér voru fáir bátar og enn þá færri bryggjur. Saltfiskur virðist eiga uppruna sinn, eins og margt annað, í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Að salta og þurrka fisk er geymsluaðferð sem þekkist um allan heim. Ekki einu sinni harðfiskurinn er íslenskur. Harðfiskur er forn-kínverskur réttur. Og þeir salta hann ekki bara heldur krydda hann líka. Þetta kom mér ekki á óvart. En ég gapti af undrun þegar ég gúgglaði kæsta skötu. Ég hélt að það hlyti að vera séríslenskt fyrirbæri. Ó nei, í Kóreu þykir hún herramannsmatur og kallast hongeohoe. Hingað hefur vinnsluaðferðin líklega borist í gegnum Grænland. Ef fólk borðar illaþefjandi tindabikkju í Kóreu þá getur það varla talist séríslenskt fyrirbæri. Kórea byggðist mörg þúsund árum á undan Íslandi.Fattigman Það er ekki hægt að ljúka svona rannsókn á uppruna íslenskra rétta án þess að skoða sætabrauðið. Samkvæmt Goggle er kleinan þýsk. Orðið er dregið af þýska orðinu klein, sem þýðir lítill. Í Noregi heitir hún fattigman en í Svíþjóð klenäter. Í Danmörku klejne. Þessar útlensku kleinur eru alveg eins í laginu og þessar íslensku. Eini munurinn á evrópsku og íslensku kleinunni er að sú evrópska er yfirleitt sykurhúðuð en sú íslenska ekki. Mig langar, í þessu sambandi, að minnast aðeins á kokteilsósuna sem margir virðast telja að hafi verið fundin upp hér á landi, það hafi verið íslenskir víkingar sem fyrstum datt í hug það snjallræði að hræra saman majónesi og tómatsósu. Það er misskilningur. Kokteilsósan er ævaforn evrópsk sósa. Júlíus Sesar borðaði líklega mikið af kokteilsósu. Tómatar vaxa villtir í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs en ekki á Íslandi. Tómatsósan kom fyrst til Íslands í stríðinu. Það voru breskir hermenn sem hrærðu fyrstu kokteilsósuna á Íslandi til að hafa með steiktum fiski. Við skoðun reynist íslensk matarmenning frekar útlensk. Flest það sem við köllum íslenskt virðist hafa borist til landsins annars staðar frá. Eini rétturinn sem virðist algjörlega íslenskur sýnist mér vera skyr. Flest gott sem hefur komið til landsins virðist hafa borist þaðan frá útlöndum og þá aðallega frá Evrópu. Og það er allt í lagi. Við skyldum því ekki óttast erlend áhrif heldur fagna þeim. Okkur er alveg treystandi til að velja úr það sem gagnast okkur en henda öðru.