Hneykslun er val Bergur Ebbi skrifar 8. janúar 2016 07:00 Ég fékk áhuga á hafnabolta á síðasta ári. Á nokkrum mánuðum sökkti ég mér ofan í íþróttina. Það sem ég gerði hefði ekki verið hægt fyrir tíma internetsins. Fyrir utan það að horfa á leiki í beinni útsendingu þá drakk ég í mig fróðleik og alls konar tölfræði. Ég horfði á gamla leiki í heild sinni á YouTube tímunum saman. Ég setti mig meira að segja inn í gömul hneykslismál. Pete Rose og Cincinnati Reds veðmálahneykslið frá 1989 eða þegar lukkudýrið hjá Pittsburgh Pirates, páfagaukur, viðurkenndi fyrir rétti (eða öllu heldur maðurinn inni í búningnum) að hafa selt leikmönnum kókaín. Ég hef í dag sett mig svo kyrfilega inn í hafnabolta að ég get byrjað að vera með stæla við aðra. Það fer til dæmis í taugarnar á mér að horfa á leiki með fólki sem skilur ekki leikreglurnar. Sá sem veit ekki hvað „sacrifice fly“ er, á til dæmis að mínu mati ekkert að vera að horfa á hafnabolta. Þetta er fáránlegt í ljósi þess að ég vissi ekki einu sinni hvernig maður skorar stig í hafnabolta fyrir ári. Hafnabolti er heill heimur, fullur af sérkennilegum siðum og venjum sem enginn skilur lengur. Það er til dæmis bannað að fagna – nema í lok leiks þegar menn gefa kempulegar fimmur. Í leiknum sjálfum, til dæmis eftir home-run, þurfa menn að skokka í gegnum allar hafnirnar með raunalegan hetjusvip. Þannig er það bara. Ef menn fagna eftir home-run þýðir það að þeir fá kast í sig í næsta leik, 150 gramma leðurhúðaðan korkmassa á 150 kílómetra hraða beint í síðuna. Það er víst mjög óþægilegt. En það er líka bannað að kvarta. Það er margt skrítið í hafnabolta og það tekur tíma að venjast því.Þrjú þúsund hrákar Eitt af því sem ég var lengi að venjast í hafnaboltaáhorfi er sá undarlegi siður leikmanna og þjálfara að hrækja í tíma og ótíma. Þessi hræking er ekkert í líkingu við önnur íþróttaskyrp, til dæmis í fótbolta. Venjulegur hafnaboltaleikmaður spýr frá sér hráka á nokkurra sekúndna millibili, þetta eru svona 10 til 20 slummur á mínútu. Það þýðir að í venjulegri sjónvarpsútsendingu af hafnaboltaleik, sem er oft þrjár til fjórar klukkustundir að lengd, er ekki ólíklegt að áhorfandinn verði vitni að um þrjú þúsund hrákum. Þetta eru reyndar yfirleitt hálf rakalausar slummur, yfirleitt eins konar sprey, oft fylgja þessu hnetuskurnir því annar skrítinn siður hafnaboltamanna er að éta sólblómafræ í tíma og ótíma. Áður var vinsælt að tyggja tóbak en svo er líka algengt að vera með túlann fullan af tyggjói og allt eykur þetta tíðni skyrpsins. Hér kem ég að röksemdinni minni. Mér finnst það að hrækja vera ósiður. Ég var alinn upp við það að maður ætti aldrei að hrækja, ekki einu sinni ofan í vaskinn. Einu undantekningarnar voru klósett og bara ef maður var með mikla hálsbólgu. Svona er þetta skrítið hvernig maður getur ekki flúið uppeldi sitt. Þessir 3000-hráka hafnaboltaleikir voru þess vegna töluvert álag fyrir mig. Ég var síhneykslaður, í stöðugri hneykslunar-yfirkeyrslu sem smám saman breyttist í almennan doða fyrir hrákunum. Það má segja að hafnabolti hafi hrækt á mig. Þannig upplifði ég það allavega.Val, frelsi, úff! En lítum nú á málið í stærra samhengi. Það neyddi mig enginn til að horfa á hafnabolta. Hafnabolta er líka sama hvort ég er hneykslaður eða ekki. Uppsafnað áhorf á leiki í bandarísku atvinnumannadeildinni er rúmur milljarður. Þeim milljarði er alveg sama þótt einhver auli, sem vissi ekki einu sinni hvað hafnabolti var fyrir ári síðan, sé hneykslaður yfir því að leikmenn hræki. Þetta var mitt val og mín ákvörðun. Ég. Val. Frelsi. Úff. Ég fæ smá ógeðstilfinningu fyrir að ryðja þessum orðum fram. En sættum okkur við það. Internetið hefur veitt okkur ómælt frelsi. Frelsi til að velja hvað við viljum að gleðji okkur, hvað við viljum að fræði okkur og hvað við viljum að hneyksli okkur og það er mikil eftirspurn eftir því síðastnefnda. Um hvað eru annars sumar fréttir? Einn valdalaus einstaklingur er hneykslaður á því að annar valdalaus einstaklingur er hneykslaður á Eurovision? Og svo hneykslast fólk á því að einhver hneykslist á því. Og svo koma gæjar eins og ég og hneykslast á því að allir séu að hneykslast svona mikið. Þetta er endalaust. Skilaboð mín eru þessi. Hneykslun er val. Ég get tekið íþrótt eins og hafnabolta, með allri sinni 150 ára sögu og merkingu, og afgreitt hana sem drasl vegna þess að leikmennirnir hrækja. Það er mitt val. Við lifum á tímum þar sem póst-módernismi hefur verið iðnvæddur, þar sem meirihluti þess sem fyrir augu ber er slitið úr samhengi, troðið inn í nýjan söguþráð og allt gerist þetta í rauntíma þar sem fólk af holdi og blóði tekur þátt í gegnum samfélagsmiðla. Oft er þetta gert til að láta fólk hlæja eða gleðjast en einnig til að hrífa og hneyksla. Og það er allt í lagi. En áttum okkur á því að meginþorri allrar þessarar hneykslunar hefur enga siðferðislega vigt. Þetta er oftast dægradvöl. Þetta er synd því máttur hneykslunar getur verið mikill og stundum má alveg hneykslast vel og lengi. Til dæmis þegar við fáum fregnir af því að alþjóðlegt stórfyrirtæki sem starfar á Íslandi flytji milljarða úr landi án þess að greiða af þeim skatt. Hráki eða skattsvik? Hneykslun er val. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun
Ég fékk áhuga á hafnabolta á síðasta ári. Á nokkrum mánuðum sökkti ég mér ofan í íþróttina. Það sem ég gerði hefði ekki verið hægt fyrir tíma internetsins. Fyrir utan það að horfa á leiki í beinni útsendingu þá drakk ég í mig fróðleik og alls konar tölfræði. Ég horfði á gamla leiki í heild sinni á YouTube tímunum saman. Ég setti mig meira að segja inn í gömul hneykslismál. Pete Rose og Cincinnati Reds veðmálahneykslið frá 1989 eða þegar lukkudýrið hjá Pittsburgh Pirates, páfagaukur, viðurkenndi fyrir rétti (eða öllu heldur maðurinn inni í búningnum) að hafa selt leikmönnum kókaín. Ég hef í dag sett mig svo kyrfilega inn í hafnabolta að ég get byrjað að vera með stæla við aðra. Það fer til dæmis í taugarnar á mér að horfa á leiki með fólki sem skilur ekki leikreglurnar. Sá sem veit ekki hvað „sacrifice fly“ er, á til dæmis að mínu mati ekkert að vera að horfa á hafnabolta. Þetta er fáránlegt í ljósi þess að ég vissi ekki einu sinni hvernig maður skorar stig í hafnabolta fyrir ári. Hafnabolti er heill heimur, fullur af sérkennilegum siðum og venjum sem enginn skilur lengur. Það er til dæmis bannað að fagna – nema í lok leiks þegar menn gefa kempulegar fimmur. Í leiknum sjálfum, til dæmis eftir home-run, þurfa menn að skokka í gegnum allar hafnirnar með raunalegan hetjusvip. Þannig er það bara. Ef menn fagna eftir home-run þýðir það að þeir fá kast í sig í næsta leik, 150 gramma leðurhúðaðan korkmassa á 150 kílómetra hraða beint í síðuna. Það er víst mjög óþægilegt. En það er líka bannað að kvarta. Það er margt skrítið í hafnabolta og það tekur tíma að venjast því.Þrjú þúsund hrákar Eitt af því sem ég var lengi að venjast í hafnaboltaáhorfi er sá undarlegi siður leikmanna og þjálfara að hrækja í tíma og ótíma. Þessi hræking er ekkert í líkingu við önnur íþróttaskyrp, til dæmis í fótbolta. Venjulegur hafnaboltaleikmaður spýr frá sér hráka á nokkurra sekúndna millibili, þetta eru svona 10 til 20 slummur á mínútu. Það þýðir að í venjulegri sjónvarpsútsendingu af hafnaboltaleik, sem er oft þrjár til fjórar klukkustundir að lengd, er ekki ólíklegt að áhorfandinn verði vitni að um þrjú þúsund hrákum. Þetta eru reyndar yfirleitt hálf rakalausar slummur, yfirleitt eins konar sprey, oft fylgja þessu hnetuskurnir því annar skrítinn siður hafnaboltamanna er að éta sólblómafræ í tíma og ótíma. Áður var vinsælt að tyggja tóbak en svo er líka algengt að vera með túlann fullan af tyggjói og allt eykur þetta tíðni skyrpsins. Hér kem ég að röksemdinni minni. Mér finnst það að hrækja vera ósiður. Ég var alinn upp við það að maður ætti aldrei að hrækja, ekki einu sinni ofan í vaskinn. Einu undantekningarnar voru klósett og bara ef maður var með mikla hálsbólgu. Svona er þetta skrítið hvernig maður getur ekki flúið uppeldi sitt. Þessir 3000-hráka hafnaboltaleikir voru þess vegna töluvert álag fyrir mig. Ég var síhneykslaður, í stöðugri hneykslunar-yfirkeyrslu sem smám saman breyttist í almennan doða fyrir hrákunum. Það má segja að hafnabolti hafi hrækt á mig. Þannig upplifði ég það allavega.Val, frelsi, úff! En lítum nú á málið í stærra samhengi. Það neyddi mig enginn til að horfa á hafnabolta. Hafnabolta er líka sama hvort ég er hneykslaður eða ekki. Uppsafnað áhorf á leiki í bandarísku atvinnumannadeildinni er rúmur milljarður. Þeim milljarði er alveg sama þótt einhver auli, sem vissi ekki einu sinni hvað hafnabolti var fyrir ári síðan, sé hneykslaður yfir því að leikmenn hræki. Þetta var mitt val og mín ákvörðun. Ég. Val. Frelsi. Úff. Ég fæ smá ógeðstilfinningu fyrir að ryðja þessum orðum fram. En sættum okkur við það. Internetið hefur veitt okkur ómælt frelsi. Frelsi til að velja hvað við viljum að gleðji okkur, hvað við viljum að fræði okkur og hvað við viljum að hneyksli okkur og það er mikil eftirspurn eftir því síðastnefnda. Um hvað eru annars sumar fréttir? Einn valdalaus einstaklingur er hneykslaður á því að annar valdalaus einstaklingur er hneykslaður á Eurovision? Og svo hneykslast fólk á því að einhver hneykslist á því. Og svo koma gæjar eins og ég og hneykslast á því að allir séu að hneykslast svona mikið. Þetta er endalaust. Skilaboð mín eru þessi. Hneykslun er val. Ég get tekið íþrótt eins og hafnabolta, með allri sinni 150 ára sögu og merkingu, og afgreitt hana sem drasl vegna þess að leikmennirnir hrækja. Það er mitt val. Við lifum á tímum þar sem póst-módernismi hefur verið iðnvæddur, þar sem meirihluti þess sem fyrir augu ber er slitið úr samhengi, troðið inn í nýjan söguþráð og allt gerist þetta í rauntíma þar sem fólk af holdi og blóði tekur þátt í gegnum samfélagsmiðla. Oft er þetta gert til að láta fólk hlæja eða gleðjast en einnig til að hrífa og hneyksla. Og það er allt í lagi. En áttum okkur á því að meginþorri allrar þessarar hneykslunar hefur enga siðferðislega vigt. Þetta er oftast dægradvöl. Þetta er synd því máttur hneykslunar getur verið mikill og stundum má alveg hneykslast vel og lengi. Til dæmis þegar við fáum fregnir af því að alþjóðlegt stórfyrirtæki sem starfar á Íslandi flytji milljarða úr landi án þess að greiða af þeim skatt. Hráki eða skattsvik? Hneykslun er val.