Upprisa kvikmyndastjörnunnar Stefán Pálsson skrifar 12. júní 2016 11:00 Florence Lawrence. Snemma árs 1910 reis ung kanadísk leikkona upp frá dauðum. Hún hét Florence Lawrence og hefur verið kölluð fyrsta kvikmyndastjarnan. Þrátt fyrir frægðina klingdi nafnið ekki bjöllum hjá almenningi. Kvikmyndahúsagestir höfðu fæstir hugmynd um hvað hún hét, en þekktu andlitið og kölluðu hana Biograph-stúlkuna eftir samnefndu kvikmyndaframleiðslufyrirtæki. Auðvitað reis ungfrú Lawrence (sem var raunar gift kona, þótt enginn mætti vita af því) ekki upp frá dauðum í raun og veru. Dauði hennar nokkrum vikum fyrr var sviðsettur af athafnamanninum Carli Laemmie, stjórnanda hins nýstofnaða kvikmyndafyrirtækis IMP, sem síðar varð hluti af stórveldinu Universal Studios. Þýski innflytjandinn Laemmie dreifði þeim orðrómi að leikkonan unga, sem kom fram í fjölda vinsælla rómantískra mynda, hefði orðið fyrir sporvagni í New York og látist af sárum sínum. Síðar upplýsti forstjórinn forherti að allt væri í plati, Florence Lawrence væri sprelllifandi og léki einmitt aðalhlutverkið í nýjustu mynd kvikmyndaversins. Til að bíta höfuðið af skömminni dreifði hann síðar uppskálduðum sögum af því að trylltir aðdáendur hefðu orðið svo glaðir að hitta leikkonuna á lífi, að þeir hefðu tætt utan af henni mestöll fötin svo að stórhneyksli hlaust af!Stjarna fædd Blekkingarnar báru árangur. Florence Lawrence varð sem fyrr segir fyrsta kvikmyndastjarnan. IMP auglýsti kvikmyndir sínar með því að hampa nafni hennar og það sama gilti um aðra aðalleikara. Carl Laemmie gerði sér nefnilega grein fyrir því að áhorfendur áttu sitt eftirlætisfólk á hvíta tjaldinu og voru allt eins líklegir til að velja myndir eftir leikurum og söguþræði. Að leikararnir væru frægir og lesa mætti um líf þeirra í blöðunum yrði því prýðileg auglýsing fyrir kvikmyndir þeirra. Hin nýja nálgun olli byltingu í kvikmyndaheiminum. Fram að þessu höfðu kvikmyndaver ekki einu sinni hirt um að nafngreina leikara sína á auglýsingaplakötum, sem var ástæða þess að kvikmyndahúsagestir þekktu Lawrence aðeins sem Biograph-stúlkuna. Raunar lögðu framleiðendur sig fram um að halda nöfnum leikaranna óþekktum, með þeim afleiðingum að enn í dag glíma kvikmyndasagnfræðingar við að bera kennsl á fólk í mörgum elstu varðveittu myndunum. Þetta ráðslag kann að virðast skringilegt, en átti sér rökréttar skýringar. Kvikmyndaverin litu á leikara sem ódýrt vinnuafl. Þeir fengu greitt sem launamenn og var kaupið ekki í neinu samhengi við vinsældir myndanna. Með því að halda nöfnum þeirra leyndum eða í það minnsta hampa þeim ekki, vildu stjórnendurnir veikja samningsstöðu vinsælustu leikaranna og halda laununum þannig niðri.Alvaldurinn Edison Biograph-kvikmyndaverið var í eigu Skotans Williams Kennedy Dickson, sem unnið hafði að þróun kvikmyndatökutækninnar sem starfsmaður Thomas Alva Edison áður en hann hóf að starfa sjálfstætt. Það var raunar uppfinningameistarinn Edison sem var hugmyndafræðingurinn að baki þeirri stefnu kvikmyndaveranna að reyna að halda leikurunum sem láglaunuðum undirtyllum. Sú stefna var í samhengi við annað í hugmyndafræði hans. Edison er óumdeilanlega frægasti uppfinningamaður sögunnar. Á löngum ferli fékk hann samþykkt meira en þúsund einkaleyfi í Bandaríkjunum einum, sem sýnir fram á ótrúleg afköst en er ekki síður til marks um hversu marga undirmenn hann hafði á sínum snærum. Þá vafðist ekkert fyrir hugvitsmanninum sjálflærða að kaupa efnilegar hugmyndir af öðrum og kynna sem sínar eigin. Ef það er eitthvað eitt sem öðru fremur einkenndi veldi Edisons, þá var það áhersla hans á að stjórna öllum þáttum tæknikerfa sinna. Ljósaperan er augljóst dæmi um þetta. Eftir mikla þrautagöngu tókst Edison að búa til fyrstu hagkvæmu rafmagnsljósaperuna um áramótin 1879-80. (Öðrum hafði tekist að búa til ljósaperur, en þær voru ýmist óhentugar, skammlífar eða dýrar í framleiðslu.) Þar með var þó ekki nema hálfur sigur unninn. Edison lét ekki staðar numið fyrr en hann hafði þróað heildstætt kerfi með orkuveri, flutningskerfi, raflögnum, rafmagnsmælum, ljósarofum, lampastæðum og perunum sjálfum. Markmiðið var að enginn þáttur kerfisins hvíldi á uppfinningum keppinauta. Á sama hátt reyndi Edison að beita einkaleyfum sínum til að gera samkeppnisaðilum erfiðara fyrir að þróa betri útgáfur af tækni sinni. Af hinum ótalmörgu uppfinningum Edisons var hljóðritinn líklega sú sem skapaði honum hvað mesta frægð og auð. Engan hafði órað fyrir að tækni til að hljóðrita mælt mál og tónlist yrði jafn vinsæl og raun bar vitni. Þar skipti tónlistin mestu máli. Lífskjör stórs hluta almennings fóru batnandi með auknum fjárráðum og á sama tíma varð sífellt meiri eftirspurn eftir hvers kyns afþreyingu. Viðtökur hljóðritans voru skýr vísbending um hvers vænta mætti af tækni sem sýnt gæti lifandi myndir. Hugmyndin á bak við kvikmyndatæknina var í sjálfu sér ekki flókin. Um langt skeið höfðu svokallaðar töfralampasýningar notið vinsælda í Evrópu og Ameríku, þar sem myndum á glerplötum var skotið fyrir bjart ljós og varpað upp á sýningartjald. Örar og stöðugar framfarir í ljósmyndatækni og filmugerð hlutu að leiða af sér einhvers konar kvikmyndatækni og þeir uppfinningamenn sem hana fullkomnuðu áttu gott í vændum.Æsilegt kapphlaup Um og eftir 1890 vann fjöldi uppfinningamanna að því að þróa einhvers konar kvikmyndatækni, hver í sínu horni. Þegar árið 1888 lagði Edison inn tilkynningu hjá einkaleyfisskrifstofu um vél sem ætti „að gera það fyrir augað sem hljóðritinn gerði fyrir eyrað“. Hið fyrirhugaða tæki hafði meira að segja fengið nafn: „Kinetoscope“, sem samsett var úr grísku orðunum „kineo“ (hreyfing) og „scopos“ (að horfa). Þetta var fjórum árum áður en frönsku bræðurnir Auguste og Louis Lumière, sem kallaðir eru feður kvikmyndalistarinnar, hófu tilraunir sínar. Edison þurfti að hafa hraðar hendur og um mitt ár 1891 sótti hann um einkaleyfi á myndatöku- og sýningartækni fyrir hreyfimyndir. Búnaður þessi miðaðist við einn notanda í einu, sem horfði inn í sýningarskáp í gegnum kíki. Sýningartækjunum var svo komið fyrir í sérstökum sölum, sem vitaskuld voru reknir af fyrirtæki Edisons, þar sem áhorfendur greiddu dágóðan skilding fyrir að fá að gægjast í kassana – mismarga eftir því hversu mikið var borgað. Í fyrstu þurfti ekki mikið til að heilla áhorfendur. Myndskeiðin sýndu kannski dansara stíga fáein spor eða aflraunakappa lyfta þungum lóðum. Það eitt að sjá lifandi myndir var næg upplifun fyrir áhorfandann. Fljótlega fór nýjabrumið þó af tækninni og kröfur til myndefnisins jukust. Þá tók við tímabil sem einkenndist af fræðandi efni, þar sem áhorfendum bauðst að sjá stutt myndbrot úr fjarlægum borgum, kunnar náttúruperlur eða nafnkunna einstaklinga. Vinsældir Kinetoscope-tækni Edisons urðu öðrum uppfinningamönnum hvatning til dáða. Sumir leituðu leiða til að herma eftir eða betrumbæta útfærslu hans, en aðrir komust að þeirri niðurstöðu að miklu gróðavænlegra væri að þróa tækni sem sýndi mörgum áhorfendum sömu myndina á sama tíma. Sú var nálgun Lumière-bræðra, sem eru fyrir vikið í dag taldir upphafsmenn kvikmyndageirans. Tæknisagan hefur að geyma ótal dæmi um að það geti reynst tvíeggjað sverð að vera brautryðjandi á sviði tæknibyltinga. Á sviði rafmagnslýsingar var Edison frumkvöðull, en treysti fyrir vikið á notkun jafnstraums og missti því af lestinni þegar sporgöngumenn hans tóku að notast við riðstrauminn, eins og áður hefur verið rakið á þessum vettvangi. Sú saga endurtók sig nú. Edison græddi svo vel á kvikmyndasýningarkössum sínum að hann sá ekki ástæðu til að huga að öðrum útfærslum. Á meðan aðrir þróuðu sýningarvélar til að varpa upp á tjald fyrir fullan sal, með möguleikum á mun lengri myndum og þar af leiðandi flóknari söguþræði, taldi Edison vænlegra að vinna áfram að því að bæta sína uppfinningu. Að hans mati yrði næsta skrefið að sameina kosti Kinetoscope-tækjanna og hljóðritans, með því að fella saman mynd og hljóð. Hann varði mikilli orku í þetta, sem síðar gagnaðist óbeint við tilkomu talmyndanna en með tímanum varð ljóst að meistarinn hafði veðjað á rangan hest. Að lokum söðlaði Edison um og hóf framleiðslu á myndum og sýningarvélum fyrir kvikmyndatjald, en í stað þess að hafa drottnunarstöðu á markaðnum var hann nú aðeins einn margra sterkra framleiðenda. Hann reyndi með góðu og illu að fá þá til að sameinast undir einn hatt og virtist ætla að verða nokkuð ágengt. Um tíma leit út fyrir að Edison og félögum hans tækist að einoka kvikmyndamarkaðinn í krafti einkaleyfa og tæknilegra yfirburða. En það er ekki nóg að státa af besta tæknibúnaðinum – þegar kemur að afþreyingu skipti innihaldið ekki minna máli. Edison var í raun meinilla við einfaldar hasarmyndir eða ástarvellu. Honum fannst leikið efni frekar ómerkilegt, en kaus frekar fræðandi myndskeið og fréttamyndir, þar sem hann hikaði ekki við að láta leikara sviðsetja samtímaatburði og selja sem raunverulegar fréttaupptökur. Hrokinn felldi uppfinningamanninn að lokum. Áhorfendur vildu æsilegar afþreyingarmyndir með nafngreindum stjörnum á borð við Florence Lawrence. Um 1912 byrjaði verulega að fjara undan kvikmyndadeild Edison-samsteypunnar og í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar hætti hann að mestu afskiptum af kvikmyndaheiminum. Í ljós kom að það dugar skammt að bjóða upp á besta vélbúnaðinn ef hugbúnaðurinn er slappur. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira
Snemma árs 1910 reis ung kanadísk leikkona upp frá dauðum. Hún hét Florence Lawrence og hefur verið kölluð fyrsta kvikmyndastjarnan. Þrátt fyrir frægðina klingdi nafnið ekki bjöllum hjá almenningi. Kvikmyndahúsagestir höfðu fæstir hugmynd um hvað hún hét, en þekktu andlitið og kölluðu hana Biograph-stúlkuna eftir samnefndu kvikmyndaframleiðslufyrirtæki. Auðvitað reis ungfrú Lawrence (sem var raunar gift kona, þótt enginn mætti vita af því) ekki upp frá dauðum í raun og veru. Dauði hennar nokkrum vikum fyrr var sviðsettur af athafnamanninum Carli Laemmie, stjórnanda hins nýstofnaða kvikmyndafyrirtækis IMP, sem síðar varð hluti af stórveldinu Universal Studios. Þýski innflytjandinn Laemmie dreifði þeim orðrómi að leikkonan unga, sem kom fram í fjölda vinsælla rómantískra mynda, hefði orðið fyrir sporvagni í New York og látist af sárum sínum. Síðar upplýsti forstjórinn forherti að allt væri í plati, Florence Lawrence væri sprelllifandi og léki einmitt aðalhlutverkið í nýjustu mynd kvikmyndaversins. Til að bíta höfuðið af skömminni dreifði hann síðar uppskálduðum sögum af því að trylltir aðdáendur hefðu orðið svo glaðir að hitta leikkonuna á lífi, að þeir hefðu tætt utan af henni mestöll fötin svo að stórhneyksli hlaust af!Stjarna fædd Blekkingarnar báru árangur. Florence Lawrence varð sem fyrr segir fyrsta kvikmyndastjarnan. IMP auglýsti kvikmyndir sínar með því að hampa nafni hennar og það sama gilti um aðra aðalleikara. Carl Laemmie gerði sér nefnilega grein fyrir því að áhorfendur áttu sitt eftirlætisfólk á hvíta tjaldinu og voru allt eins líklegir til að velja myndir eftir leikurum og söguþræði. Að leikararnir væru frægir og lesa mætti um líf þeirra í blöðunum yrði því prýðileg auglýsing fyrir kvikmyndir þeirra. Hin nýja nálgun olli byltingu í kvikmyndaheiminum. Fram að þessu höfðu kvikmyndaver ekki einu sinni hirt um að nafngreina leikara sína á auglýsingaplakötum, sem var ástæða þess að kvikmyndahúsagestir þekktu Lawrence aðeins sem Biograph-stúlkuna. Raunar lögðu framleiðendur sig fram um að halda nöfnum leikaranna óþekktum, með þeim afleiðingum að enn í dag glíma kvikmyndasagnfræðingar við að bera kennsl á fólk í mörgum elstu varðveittu myndunum. Þetta ráðslag kann að virðast skringilegt, en átti sér rökréttar skýringar. Kvikmyndaverin litu á leikara sem ódýrt vinnuafl. Þeir fengu greitt sem launamenn og var kaupið ekki í neinu samhengi við vinsældir myndanna. Með því að halda nöfnum þeirra leyndum eða í það minnsta hampa þeim ekki, vildu stjórnendurnir veikja samningsstöðu vinsælustu leikaranna og halda laununum þannig niðri.Alvaldurinn Edison Biograph-kvikmyndaverið var í eigu Skotans Williams Kennedy Dickson, sem unnið hafði að þróun kvikmyndatökutækninnar sem starfsmaður Thomas Alva Edison áður en hann hóf að starfa sjálfstætt. Það var raunar uppfinningameistarinn Edison sem var hugmyndafræðingurinn að baki þeirri stefnu kvikmyndaveranna að reyna að halda leikurunum sem láglaunuðum undirtyllum. Sú stefna var í samhengi við annað í hugmyndafræði hans. Edison er óumdeilanlega frægasti uppfinningamaður sögunnar. Á löngum ferli fékk hann samþykkt meira en þúsund einkaleyfi í Bandaríkjunum einum, sem sýnir fram á ótrúleg afköst en er ekki síður til marks um hversu marga undirmenn hann hafði á sínum snærum. Þá vafðist ekkert fyrir hugvitsmanninum sjálflærða að kaupa efnilegar hugmyndir af öðrum og kynna sem sínar eigin. Ef það er eitthvað eitt sem öðru fremur einkenndi veldi Edisons, þá var það áhersla hans á að stjórna öllum þáttum tæknikerfa sinna. Ljósaperan er augljóst dæmi um þetta. Eftir mikla þrautagöngu tókst Edison að búa til fyrstu hagkvæmu rafmagnsljósaperuna um áramótin 1879-80. (Öðrum hafði tekist að búa til ljósaperur, en þær voru ýmist óhentugar, skammlífar eða dýrar í framleiðslu.) Þar með var þó ekki nema hálfur sigur unninn. Edison lét ekki staðar numið fyrr en hann hafði þróað heildstætt kerfi með orkuveri, flutningskerfi, raflögnum, rafmagnsmælum, ljósarofum, lampastæðum og perunum sjálfum. Markmiðið var að enginn þáttur kerfisins hvíldi á uppfinningum keppinauta. Á sama hátt reyndi Edison að beita einkaleyfum sínum til að gera samkeppnisaðilum erfiðara fyrir að þróa betri útgáfur af tækni sinni. Af hinum ótalmörgu uppfinningum Edisons var hljóðritinn líklega sú sem skapaði honum hvað mesta frægð og auð. Engan hafði órað fyrir að tækni til að hljóðrita mælt mál og tónlist yrði jafn vinsæl og raun bar vitni. Þar skipti tónlistin mestu máli. Lífskjör stórs hluta almennings fóru batnandi með auknum fjárráðum og á sama tíma varð sífellt meiri eftirspurn eftir hvers kyns afþreyingu. Viðtökur hljóðritans voru skýr vísbending um hvers vænta mætti af tækni sem sýnt gæti lifandi myndir. Hugmyndin á bak við kvikmyndatæknina var í sjálfu sér ekki flókin. Um langt skeið höfðu svokallaðar töfralampasýningar notið vinsælda í Evrópu og Ameríku, þar sem myndum á glerplötum var skotið fyrir bjart ljós og varpað upp á sýningartjald. Örar og stöðugar framfarir í ljósmyndatækni og filmugerð hlutu að leiða af sér einhvers konar kvikmyndatækni og þeir uppfinningamenn sem hana fullkomnuðu áttu gott í vændum.Æsilegt kapphlaup Um og eftir 1890 vann fjöldi uppfinningamanna að því að þróa einhvers konar kvikmyndatækni, hver í sínu horni. Þegar árið 1888 lagði Edison inn tilkynningu hjá einkaleyfisskrifstofu um vél sem ætti „að gera það fyrir augað sem hljóðritinn gerði fyrir eyrað“. Hið fyrirhugaða tæki hafði meira að segja fengið nafn: „Kinetoscope“, sem samsett var úr grísku orðunum „kineo“ (hreyfing) og „scopos“ (að horfa). Þetta var fjórum árum áður en frönsku bræðurnir Auguste og Louis Lumière, sem kallaðir eru feður kvikmyndalistarinnar, hófu tilraunir sínar. Edison þurfti að hafa hraðar hendur og um mitt ár 1891 sótti hann um einkaleyfi á myndatöku- og sýningartækni fyrir hreyfimyndir. Búnaður þessi miðaðist við einn notanda í einu, sem horfði inn í sýningarskáp í gegnum kíki. Sýningartækjunum var svo komið fyrir í sérstökum sölum, sem vitaskuld voru reknir af fyrirtæki Edisons, þar sem áhorfendur greiddu dágóðan skilding fyrir að fá að gægjast í kassana – mismarga eftir því hversu mikið var borgað. Í fyrstu þurfti ekki mikið til að heilla áhorfendur. Myndskeiðin sýndu kannski dansara stíga fáein spor eða aflraunakappa lyfta þungum lóðum. Það eitt að sjá lifandi myndir var næg upplifun fyrir áhorfandann. Fljótlega fór nýjabrumið þó af tækninni og kröfur til myndefnisins jukust. Þá tók við tímabil sem einkenndist af fræðandi efni, þar sem áhorfendum bauðst að sjá stutt myndbrot úr fjarlægum borgum, kunnar náttúruperlur eða nafnkunna einstaklinga. Vinsældir Kinetoscope-tækni Edisons urðu öðrum uppfinningamönnum hvatning til dáða. Sumir leituðu leiða til að herma eftir eða betrumbæta útfærslu hans, en aðrir komust að þeirri niðurstöðu að miklu gróðavænlegra væri að þróa tækni sem sýndi mörgum áhorfendum sömu myndina á sama tíma. Sú var nálgun Lumière-bræðra, sem eru fyrir vikið í dag taldir upphafsmenn kvikmyndageirans. Tæknisagan hefur að geyma ótal dæmi um að það geti reynst tvíeggjað sverð að vera brautryðjandi á sviði tæknibyltinga. Á sviði rafmagnslýsingar var Edison frumkvöðull, en treysti fyrir vikið á notkun jafnstraums og missti því af lestinni þegar sporgöngumenn hans tóku að notast við riðstrauminn, eins og áður hefur verið rakið á þessum vettvangi. Sú saga endurtók sig nú. Edison græddi svo vel á kvikmyndasýningarkössum sínum að hann sá ekki ástæðu til að huga að öðrum útfærslum. Á meðan aðrir þróuðu sýningarvélar til að varpa upp á tjald fyrir fullan sal, með möguleikum á mun lengri myndum og þar af leiðandi flóknari söguþræði, taldi Edison vænlegra að vinna áfram að því að bæta sína uppfinningu. Að hans mati yrði næsta skrefið að sameina kosti Kinetoscope-tækjanna og hljóðritans, með því að fella saman mynd og hljóð. Hann varði mikilli orku í þetta, sem síðar gagnaðist óbeint við tilkomu talmyndanna en með tímanum varð ljóst að meistarinn hafði veðjað á rangan hest. Að lokum söðlaði Edison um og hóf framleiðslu á myndum og sýningarvélum fyrir kvikmyndatjald, en í stað þess að hafa drottnunarstöðu á markaðnum var hann nú aðeins einn margra sterkra framleiðenda. Hann reyndi með góðu og illu að fá þá til að sameinast undir einn hatt og virtist ætla að verða nokkuð ágengt. Um tíma leit út fyrir að Edison og félögum hans tækist að einoka kvikmyndamarkaðinn í krafti einkaleyfa og tæknilegra yfirburða. En það er ekki nóg að státa af besta tæknibúnaðinum – þegar kemur að afþreyingu skipti innihaldið ekki minna máli. Edison var í raun meinilla við einfaldar hasarmyndir eða ástarvellu. Honum fannst leikið efni frekar ómerkilegt, en kaus frekar fræðandi myndskeið og fréttamyndir, þar sem hann hikaði ekki við að láta leikara sviðsetja samtímaatburði og selja sem raunverulegar fréttaupptökur. Hrokinn felldi uppfinningamanninn að lokum. Áhorfendur vildu æsilegar afþreyingarmyndir með nafngreindum stjörnum á borð við Florence Lawrence. Um 1912 byrjaði verulega að fjara undan kvikmyndadeild Edison-samsteypunnar og í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar hætti hann að mestu afskiptum af kvikmyndaheiminum. Í ljós kom að það dugar skammt að bjóða upp á besta vélbúnaðinn ef hugbúnaðurinn er slappur.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira