Skoðun

Sjávarútvegur: Atvinnugrein í djúpstæðum vanda

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Það er mikill áróður hafður uppi um ágæti skipulagsins í sjávarútvegi. Því er haldið fram að íslenskur sjávarútvegur sé fremstur í heimi vegna framseljanlegs kvótakerfis þar sem veiðiréttindum er úthlutað ótímabundið í eitt skipti fyrir öll.  Samkvæmt þessum áróðri er kerfið óumdeilt og eina deiluefnið er hvort réttlát skipting auðlindaarðsins sé milli þjóðarinnar og fárra kvótahafa.

Það er rétt að íslenskur sjávarútvegur stendur um margt framarlega. Greinin er opin fyrir tækninýjungum, sjómenn eru vel menntaðir og útsjónarsamir og fiskimiðin við landið eru óvenjulega gjöful.  Þar eru verðmætar fisktegundir og mjög aðgengilegar. Sjávarútvegur er því arðbær og hefur alltaf verið. En engu að síður er glansmyndin af sjávarútveginum er fjarri lagi. Það eru mörg atriði sem þarf að lagfæra.

Djúpstæður kerfisvandi einkennir atvinnugreinina sem hefur  alvarleg áhrif um allt þjóðfélagið. Það birtist í auðsöfnun fárra einstaklinga og fylgt söfnun valds og áhrifa í þjóðfélaginu. Þetta má meðal annars sjá í ójafnri stöðu launþega gagnvart útgerðarvaldinu og ráðandi áhrifum útgerðar í einstökum byggðarlögum. Afleiðingar kerfisins skína berlega í gegn í sterkum tökum kvótahafanna á stefnumótun margra stjórnmálaflokka og verk þeirra við völd.

Sjávarútvegurinn er efnahagslega svo stór atvinnugrein að þegar um 50-100  manns eru komin með ráðandi stöðu innan hans  eru völd hópsins í íslensku þjóðfélagi orðin gríðarleg. Þessi valdahópur hagar sér rétt eins og sambærilegir hópar í öðrum þjóðfélögum á öllum tímum. Kappkostað er að festa í sessi völdin og áhrifin til langs tíma og þvinga aðra til undirgefni.

Samkeppni og almennar leikreglur eru skaðlegar einoknunarhagsmunum og þess vegna er lagst þversum gegn þeim. Innköllun veiðiheimilda og endurúthlutun með uppboðsaðferð eru eitur í beinum varðmanna núverandi kerfis þar sem með því er vegið að sjálfu valdakerfinu, sem er forsenda auðsöfnunarinnar.  Þjóðfélagslegu afleiðingar kerfisins í sjávarútvegi eru almenningi skaðlegar, rétt eins og reynslan hefur verið hérlendis og erlendis af samsvarandi aðstæðum í ýmsum öðrum atvinnugreinum.

Skortur á samkeppni  

Skortur á samkeppni hefur afleiðingar. Atvinnugrein sem einkennist af því staðnar og skilar minni verðmætum út um þjóðfélagið. Þrátt fyrir allt talið um besta sjávarútveg í heimi segja skýrslur aðra sögu þegar að er gáð. Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri vann skýrslu um sjávarútveginn sem birt var í maí 2010. Þar var gerð úttekt á þróun í fiskveiðum og borið saman við þróun í fiskvinnslu. Á árunum 1991 - 2008 varð mikil breyting í sjávarútveginum í heild og störfum fækkaði úr 14.200 í 7.300. 

Það sem kemur á óvart er hversu misjöfn þróunin varð í veiðunum borið saman við vinnsluna.  Í fiskveiðunum ríkti nánast kyrrstaða. Skipaflotinn dróst saman með minnkandi heildarveiði á þessu árabili og reyndar minnkaði flotinn minna en aflinn því afli pr brúttórúmlest minnkaði úr 3,52 tonn á árinu 1999 í 2,93 tonn árið 2008. Framleiðnin í fiskveiðunum var árið 1991 samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni 112 þorskígildistonn á hvert starf, en árið 2008 var hún nánast sú sama eða 111 þorskígildistonn.

Með öðrum orðum á þessu 18 ára tímabili sem einkenndist af áhrifum af framsali aflaheimilda varð engin framleiðniaukning. Það varð hins vegar á þessu 18 ára tímabili gífurleg auðsöfnun vegna sölu eða skuldsetningar kvóta fyrir um 400 milljarða króna. Auðsóttur gróði hafði í för með sér kyrrstöðu í þróun fiskveiða.

Það er engin samkeppni um aflaheimildirnar þar sem þeim var úthlutað til langs tíma með framsalinu. Þeir sem fengu kvótann hafa hann ótímabundið þurfa ekki að búa við neina samkeppni um veiðiheimildirnar. Öryggið sem kvótakerfinu fylgir og hefur verið margrómað skilar sér ekki í meiri framleiðni. Í þessu liggur rót vandans.

Öðru máli gegnir um fiskvinnsluna. Fiskvinnslan er opin atvinnugrein. Það er ekki úthlutað takmörkuðum fjölda starfsleyfa. Þeir sem eru í fiskvinnslu búa við samkeppnisumhverfi. Á þessu tímabili frá 1991 til 2008 varð gífurleg framleiðniaukning í fiskvinnslunni. Árið 1991 var framleiðnin 87 þorskígildistonn á hvert starf en árið 2008 var hún orðin 151 tonn og hafði nærfellt tvöfaldast. Samkeppnin þýddi að fiskvinnslufyrirtæki sem gátu ekki gengið að hráefninu vísu urðu að borga hærra verð fyrir fiskinn. Þau urðu að keppa um fiskinn og voru tilneydd til þess að bjóða hærra verð til þess að fá hráefnið. Það kallaði á framfarir.

Útsjónarsamir menn ruddu sér rúms og ýttu öðrum lakari til hliðar. Þessi þróun hefur ekki orðið í veiðunum. Þar hefur þvert á móti kerfið varið þá sem fyrir eru með því að gefa þeim færi á því að hagnast á dugnaði annarra með leigu veiðiheimilda.Þetta er fyrirhafnarlítill gróði. Sem dæmi má nefna að vestfirskt útgerðarfyrirtæki sem litið er á sem máttarstólpa í sinni byggð fær endurgjaldslaust frá sveitarfélaginu byggðakvóta sem það svo leigir annarri útgerð fyrir 214 kr/kg. Það er enginn hvati fyrir kvótahafann til þess að gera betur. Það er leiguliðinn sem verður að skera niður útgjöld til þess að mæta þessum mikla kostnaði í sínu bókhaldi.

Sjómenn borga

Ein afleiðing kerfisins er yfirburðastaða kvótahafans í samskiptum við launamenn. Kvótahafarnir hafa velt umtalsverðum hluta af verði kvótans yfir á herðar sjómanna með lækkun launa þeirra. Á smábátaflotanum hafa kjarasamningar frá 2007 staðfest um 45% lækkun á skiptaprósentu sjómanna. Af sjómönnum er tekin stór hluti launa þeirra og færð útgerðarmönnum til þess að borga kaup á kvóta. Þann kvóta á útgerðin ein. Í kjarasamningum annarra sjómanna er ákvæði sem lækkar laun sjómanna um allt að 10% þegar keypt er nýtt skip og rennur til útgerðarinnar.

Útgerðin er oft einnig fiskkaupandi og kemst upp með að ákvarða verðið á fiskinum lægra en markaðsverð. Það lækkar hlut sjómanna um a.m.k. 20 - 30%. Svo sterk er staða útgerðarinnar að kjarasamningar hafa verið lausir í 5 ár og sjómönnum tekst ekki að fá bætta kjaraskerðinguna sem varð við  afnám sjómannaafsláttarins, þrátt fyrir einmuna góða afkomu. Það er valdaójafnvægi milli útgerðar og sjómanna sem hefur fært sjómenn í stöðu hins kúgaða og undirokaða. Það er þekkt staða frá fyrri öldum og hún hefur alltaf að leitt til auðssöfnunar og valdasamþjöppunar. Í kjölfarið hefur svo komið mikill þjóðfélagslegur órói og í verstu dæmunum hefur orðið bylting. Kvótakerfið beinir þjóðfélagsþróuninni á þá varhugaverðu braut.

Niðurstaðan er sú að kerfið er bæði hagfræðilega og þjóðfélagslega meingallað. Atvinnugreinin er í djúpstæðum vanda.

Kristinn H. Gunnarsson

hagfræðingur og stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×