Matur

Æðislegt múslí á örskotstundu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gott er að bæta rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum í múslíið og jafnvel smátt söxuðu súkkulaði á tyllidögum.
Gott er að bæta rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum í múslíið og jafnvel smátt söxuðu súkkulaði á tyllidögum.

Stjörnukokkurinn Eva Laufey heldur úti bloggsíðu þar sem hún sýnir fólki hvernig á að gera allskonar girnilega rétti. Vísir er í samstarfi við Evu og hér að neðan má sjá hvernig hún reiðir fram girnilegt múslí.

Ég hef nú nefnt það við ykkur einu sinni eða tvisvar sinnum hvað ég elska heimalagað múslí og hér er uppskrift sem er mjög einföld og fljótleg. Ilmurinn sem fer um heimilið þegar múslíið er í vinnslu er dásamlega hlýlegur og fullkomið á haustin.

Uppáhaldið mitt er að hræra saman grísku jógúrti og smá hunangi, síðan læt ég vel af múslíinu og svo fersk ber til dæmis jarðarber. Algjör lostæti – og það má gjarnan bera jógúrtið fram í háu glasi en allt sem er fallega borið fram smakkast betur.

Þið getið séð aðferðina á Instastory hjá mér en þið finnið mig á Instagram undir nafninu @evalaufeykjaran.



  • 1 bolli haframjöl
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1 bolli hörfræ
  • 1 bolli graskersfræ
  • 1 bolli saxaðar möndlur
  • 2 msk kókosolía
  • 1 dl eplatrópí
  • 1 – 2 msk hlynsíróp eða hunang
  • salt á hnífsoddi
  • 1 tsk kanil
  • 1 dl rúsínur





    Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál fyrir utan rúsínur, best er að blanda þeim saman þegar búið er að elda múslíið í ofninum.
  3. Dreifið múslíblöndunni á pappírsklædda ofnplötu eða í eldfast mót, bakið í ofni við 200°C í 20 – 25 mínútur. Það þarf að hræra nokkrum sinnum í blöndunni á meðan hún er í ofninum og um leið og múslíið er orðið gullinbrúnt er það tilbúið.
  4. Kælið múslíið svolítið áður en þið berið það fram og bætið gjarnan við rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum (jafnvel smátt söxuðu súkkulaði á tyllidögum).
  5. Berið strax fram og njótið vel!







×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.