Skoðun

Undirstaða velmegunar

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum, verður ný ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar að skilja, að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju. Spítalar og heilbrigðisstofnanir þurfa að geta byggt upp mikilvæga þjónustu, mannað allar stöður og nútímavætt tæknibúnað sinn. Meirihluti landsmanna vill frekar verja almannafé í opinbera þjónustu heldur en einkarekstur og það viljum við í Samfylkingunni líka.

Það er hneyksli að til sé fólk hér á landi sem hefur ekki efni á því að fara til læknis eða sálfræðings, að börn og ungmenni geti ekki vegna hárrar gjaldtöku fengið hjálp við geðrænum vanda, að aldraðir og öryrkjar neiti sér um tannlækningar og að veikt fólk búi við óþarfa fjárhagsáhyggjur á þeirra erfiðustu stundum.

Hugmyndum um gróða og markað hefur verið þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðiskerfisins undanfarin ár. Þeir sem vilja selja ríkinu heilbrigðisþjónustu hafa ráðið för með því að skilgreina þarfirnar og útfærsluna sjálfir og er í raun leyft að skammta sér almannafé. Ráðherrar eiga ekki að geta einkavætt grunnstoðir samfélagsins án aðkomu Alþingis og því er nauðsynlegt að breyta lögum um Sjúkratryggingar Íslands.

Ekkert kallar á aukinn einkarekstur nema frjálshyggjustefna fráfarandi ríkisstjórnar með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar, sem vill leyfa einkavæðingunni að blómstra í hans skjóli. Við hin þurfum að gæta að og verja grunnstoðir velferðarkerfisins kröftuglega þegar hugmyndum um aukinn einkarekstur er veifað sem töfralausn. Einkarekstur getur aldrei komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem er öllum aðgengileg. Aldrei má minnsti vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra.

Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Að horfið verði frá þeim niðurskurði sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Það er forgangsverkefni. Ákall almennings er um betri opinbera heilbrigðisþjónustu um allt land. Við jafnaðarmenn ætlum að svara því kalli.

 

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×