Skoðun

Ungt fólk, fyrstu kaupendur og nýjar stúdentaíbúðir

Ragna Sigurðardóttir og Sonja Björg Jóhannsdóttir skrifar

Borgin hefur í samstarfi við Félagsstofnun stúdenta farið í umfangsmikla uppbyggingu á stúdentaíbúðum. Þær íbúðir rísa nú í stórum stíl. Af þeim verkefnum sem teljast ný eru Oddagarðar við Sæmundargötu og Skjólgarðar við Brautarholt sem opnuðu árið 2016. Nú eru stærstu stúdentagarðar landsins að rísa sem telja 244 íbúðareiningar á reit Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Það mun skipta stúdenta miklu máli að uppbygging stúdentagarða haldi áfram af enn meiri krafti. Næsta stúdentagarðaverkefni er á reitnum við Gamla garð sem kallað hefur verið eftir víðtæku samráði um og við viljum að fari af stað sem allra fyrst.



HR og Byggingafélag námsmanna

Fram undan eru svo fleiri reitir á háskólasvæðinu sem eru fráteknir fyrir stúdentaíbúðir og gætu farið í uppbyggingu á næstu misserum. Á næstunni munu fyrstu áfangar 400 íbúða uppbyggingu fyrir stúdenta Háskólans í Reykjavík fara af stað við rætur Öskjuhlíðar. Eins er Byggingafélag námsmanna að fara að reisa 100 íbúðir á reit Kennaraháskólans við Stakkahlíð. Byggingafélagið hefur einnig fengið vilyrði fyrir frekari uppbyggingu á Stýrimannaskólareit. Enn frekari uppbygging er til skoðunar þannig að heildarfjöldi nýrra íbúða Byggingafélags námsmanna verður 250-300 á næstu árum.



Hvernig komum við ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn?

Með því að taka frá lóðir sem eru í eigu borgarinnar fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur getum við fjölgað íbúðum sérstaklega fyrir þann hóp sem markaðurinn nær ekki að sinna. Alls er á áætlun að þúsund íbúðir rísi fyrir þennan hóp ungs fólks á næstu árum. Lóðirnar sem borgin hefur þegar tekið frá í sérstakt verkefni þess efnis eru í Gufunesi, Skerjafirði, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi III, á Veðurstofuhæð og lóð Stýrimannaskólans. Með því að beita því afli sem borgin hefur til að auðvelda ungu fólki og fyrstu kaupendum að eignast sína fyrstu íbúð getum við haft mikil og góð áhrif á húsnæðismarkaðinn í borginni. Allar þessar lóðir verða afhentar með því skilyrði að byggðar verði á þeim íbúðir sem eru á færi ungs fólks og fyrstu kaupenda.



Höfundar eru Ragna Sigurðardóttir 9. sæti og Sonja Björg Jóhannsdóttir 22. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×