Skoðun

Ætla þingmenn að breyta tilskipun ESB fyrir Símann?

Heiðar Guðjónsson skrifar

Nú liggur fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að innleiða tilskipun ESB um „ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta“. Allt er gott um það mál að segja því innleiðing á tilskipun ESB mun minnka sóun og auka hraða í uppbyggingu fjarskiptakerfa. Hins vegar hefur Síminn komið með breytingartillögu við málið sem þingmenn þurfa núna að taka afstöðu til.



Allir sem sent hafa inn umsagnir um tilskipun ESB eru á einu máli, Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppniseftirlitið, Reykjavíkurborg og fyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Allir nema Síminn.



Síminn vill láta breyta tilskipun ESB, sem getur skapað íslenska ríkinu skaðabótaskyldu, þannig að fyrirtækið hafi aðgang að kerfum Gagnaveitu Reykjavíkur þegar það kýs. Efnislega væri með þessu verið að framlengja lóðrétt samþætta markaðsráðandi stöðu Símasamstæðunnar inn í ljósleiðaranet Gagnaveitu Reykjavíkur. Þetta er í beinni andstöðu við allt það sem markaðsaðilar segja, eftirlitsaðilar og þeir sem sérfróðir eru á markaði.



Ætla þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd að ganga erinda eins fyrirtækis, þvert á inntak tilskipunar ESB, baka ríkinu hugsanlega skaðabótaskyldu, fara á móti Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitinu og varanlega skaða neytendur á fjarskiptamarkaði?



Svarið kemur í ljós á næstu dögum þegar málið verður afgreitt úr nefndinni, annaðhvort eftir forskrift ESB og allra aðila sem láta sig málið varða eða eftir hentugleika eins fyrirtækis, Símans.



Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×