Rafíþróttir

Ís­­lenska úr­­vals­­deildin í LoL sam­þykkt for­m­­lega: „Leiðin í at­vinnu­mennsku nú greið­fær“

Ólafur Hrafn Steinarsson skrifar
Heimsmeistaramótið í League of Legends 2019
Heimsmeistaramótið í League of Legends 2019 MYND/Riot Games Inc.

Rafíþróttasamtök Íslands í samstarfi við Dreamhack og Riot Games tilkynntu í gær að íslenska úrvalsdeildin í League of Legends hefur verið samþykkt formlega sem deild í alþjóðlegu keppnisumhverfi League og Legends. 

Þetta þýðir að leiðin í atvinnumennsku í League of Legends getur legið í gegnum íslensk lið. Hingað til hafa íslenskir úrvalsleikmenn reynt að komast í erlend lið sem keppa í deildum í alþjóðlega keppnisumhverfinu.

„Ég bara vona að allir átti sig á því hvað þetta er rosalega mikil viðurkenning fyrir það grasrótarstarf sem hefur verið unnið á Íslandi. Dreamhack er einn stærsti mótshaldari í rafíþróttum í heimi og það að þeir viðurkenni okkar mótshald er rosalegt. En við í Rafíþróttasamtökunum erum í skýjunum með þetta, því þetta þýðir að leikmenn eiga nú mun auðveldara með að komast á stóra sviðið. Það mætti segja að það sé orðið greiðfært í atvinnumenskuna í Lol,” segir Hafliði Örn Ólafsson, mótastjóri úrvalsdeildarinnar.

En nú er leiðin greið og fyrsta og annað sæti í íslensku úrvalsdeildinni tryggir sæti í Telia Masters sem er forkeppni fyrir Norðurlandadeildina.

Aron Ólafsson, framkvæmdarstjóri RÍSÍmynd/Hákon Bröder Lund

Aron Ólafsson, framkvæmdarstjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, er á sama máli og Hafliði.

 „Okkur er mikill heiður sýndur að fara í þetta samstarf. Hér er öflugt grasrótarstarf unnið og það er hægt að iðka League of legends hjá íþróttafélögum í dag. Ég hugsa að það sé bara tímaspursmál hvenær við förum að sjá fleiri íslenska atvinnumenn fyrir íslensk rafíþróttalið. Við höfum valið þá leið að bjóða upp á skipulagt starf fyrir ungmenni á Íslandi þar sem börnin fá þjálfun í að sinna líkama, sál og færni í sínum leik. Nú þegar eru hátt í 1000 iðkendur í rafíþróttum með skipulögðum hætti. Samstarf við Dreamhack og Riot er viðurkenning á því að þessi risastóru alþjóðalegu fyrirtæki trúa því að það sé þess virði að taka Ísland inn í alþjóðlega keppnisumhverfið með beinum hætti.”

Þar sem Vodafonedeildinni lauk áður en samningar náðust verður keyrt opið aukamót sem hefst með tveim opnum forkeppnum dagana 10. til 12. júlí og 14. til 16. júlí. 

Efstu tvö liðin úr þessum forkeppnum takast svo á við liðin sem enduðu í efstu fjórum sætunum í Vodafonedeildinni dagana 17. til 19. júlí. Tvö efstu liðin fá þátttökurétt í Telia Masters sem er fyrsta þrepið af nokkrum í áttina að Heimsmeistaramótinu.


Tengdar fréttir






×