Stieg Larsson á hæla morðingja Olof Palme Jakob Bjarnar skrifar 1. febrúar 2020 10:00 Stieg Larsson, hinn heimskunni, látni rithöfundur, hafi verið að rannsaka morðið á Olof Palme. Vísir birtir fyrstu hluta bókarinnar Arfur Stiegs Larsson – Lykillinn að morðinu á Olof Palme, svona til að gefa smjörþefinn af því hvað er hér á ferð. „Jan Stocklassa, sænskur blaðamaður, kemst óvænt á snoðir um að Stieg Larsson, hinn heimskunni, látni rithöfundur, hafi verið að rannsaka morðið á Olof Palme og fær aðgang að gögnum hans í mörgum kössum. Þar kemur í ljós að Stieg hefur verið með kenningu um morðið, sem tengist umfangsmiklum rannsóknum hans á sænskum hægriöfgaöflum. Jan Stocklassa ákveður að taka upp þráðinn og sjá hvert hann leiðir,“ segir Pétur Már Ólafsson útgefandi hjá Bjarti & Veröld. Stieg, sem var rithöfundur og blaðamaður, er einkum þekktur fyrir Millennium-þríleikinn, bækur sem seldust í bílförmum á veraldarvísu og hafa verið kvikmyndaðar í bak og fyrir. Hann er fæddur 1954 en dó fimmtugur og óvænt úr hjartaslagi 2005 en Millennium-bókaflokkurinn var gefinn út að honum gengnum. Olof Palme var forsætisráðherra Svíþjóðar, gríðarlega vinsæll en um leið umdeildur. Að kvöldi 28. febrúar var hann ásamt eiginkonu sinni Lisbet Palme, á leið heim eftir að hafa brugðið sér í kvikmyndahús. Óþekktur maður kom aftan að þeim, skaut á hjónin og drap Olof með skoti í gegnum bakið en Lisbet slapp betur; hún fékk skot sem fór í gegnum öxl hennar. Morðinginn hefur aldrei fundist og er það ein af þeim ráðgátum sem heimsbyggðin öll hefur velt fyrir sér, hvernig má vera? Myndbirtingar í bókinni bannaðar í Svíþjóð Arfur Stiegs Larsson – Lykillinn að morðinu á Olof Palme eftir Jan Stocklassa er um þessar mundir að koma upp á borð í verslunum um land allt en Helga Soffía Einarsdóttir og Páll Valsson þýddu. Bókarinnar hefur verið beðið af eftirvæntingu hér á landi en ekki minni miðill en Le Monde sagði um bókina: „Heillandi frásögn Jans Stocklassa um morðið á Palme er í svipuðum stíl og Millenium-bók.“ Vísir birtir fyrstu 29 blaðsíður bókarinnar, með góðfúslegu leyfi útgefanda. Pétur Már útgefandi segir bókina hafa farið sigurför um heiminn. Og nú er hún komin út á íslensku. „Fyrri hluti bókarinnar er meira um Stieg en sá seinni um hvernig Jan rekur kenningu hans og fylgir henni eftir,“ segir Pétur Már. Útgefandinn bendir jafnframt á að niðurstaða bókarinnar hafi vakið mikla athygli; hún var til dæmis fyrir skömmu metsölubók á Amazon. „En í Svíþjóð bönnuðu lögregluyfirvöld birtingu myndar af hinum grunaða, það er svört síða í bókinni, vegna rannsóknarhagsmuna, því lögreglan er enn að vinna í málinu og hefur tekið upplýsingar bókarinnar alvarlega. Og hinn grunaði hefur flúið land og enginn veit hvar hann heldur sig.“ Var Stieg Larsson kominn á spor morðingja Palme? Það var 20. mars 2013 sem Jan Stocklassa, rithöfundur og blaðamaður, komst yfir fjölda kassa í geymsluhúsnæði Stokkhólmi Stiegs Larsson. Megnið sneri að rannsókn Stiegs á hægriöfgaöflum á níunda áratugnum, en þar var líka að finna möppur merktar áður óþekktu verkefni – umfangsmikilli rannsókn Stiegs á morðinu á Olof Palme. Jan ákvað að rekja þræðina sem Stieg hafði uppgötvað og í þeim leiðangri kom í ljós nýtt samhengi: Allt í einu hyllir undir sannfærandi kenningu um lausn á einni alræmdustu, óleystu morðgátu sögunnar. Getur verið að þekktasti glæpasagnahöfundur heims hafi verið kominn á spor morðingja Olofs Palme? Höfundur segist í formála bókarinnar hafa stigið „inn í heim fullan af fólki og atburðum beint upp úr sögum Stiegs. Persónum sem eru jafn ýktar og Lisbeth Salander og Alexander Zalachenko. Nema þær voru raunverulegar. Morðingjar og fórnarlömb þeirra. Njósnarar sem njósna um aðra njósnara. Myrtar konur og börn. Hökkuð gögn, leynilegar upptökur, leyniaðgerðir. Og dauði. Mikið af hræðilegum, skyndilegum dauða.“ Í formála kemur fram að gögn hafa verið afhent lögreglu, afgerandi gögn sem gætu leitt til þess að einn maður verði dreginn fyrir dómstóla. Að minnsta kosti einn maður. Hér neðar má svo lesa upphaf þessarar bókar sem vakið hefur heimsathygli. Og hefst þá lesturinn. Olaf Palme. Morðið á honum og það að morðinginn hafi ekki fundist hefur legið sem mara á sænsku þjóðinni og reyndar heimsbyggðinni allri.Getty FormáliÞað var allt svo einfalt hér áður fyrr. Plútó er pláneta. Mjólk er góð. Dísel er hreinna en bensín. Ef maður fer í sund strax eftir mat getur maður fengið krampa og drukknað. Morðið á Olof Palme forsætisráðherra verður aldrei leyst. En gömlum sannindum er æ oftar snúið á hvolf og nú er aftur komið að því. Nýju sannindin hljóma svo: Morðið á Olof Palme verður leyst. Hjá mér hófst þetta allt saman árið 2008 með því sænskasta sem til er – sé miðað við alla sænsku reyfarana – kona var myrt við vatn í Smálöndunum, en það kveikti hjá mér hugmynd að bók um morðvettvanga. Rúmu ári síðar kom í ljós að ástæða dauðsfallsins var einnig afar sænsk. Lögreglan fann ný, tæknileg sönnunargögn og sökudólgurinn reyndist vera elgur. En þegar þar var komið sögu hafði ég horfið frá upprunalegu hugmyndinni og var kominn á kaf í það ævintýri sem gat af sér þessa bók. Fimm árum síðar komst ég í gleymt skjalasafn Stiegs Larsson og steig inn í heim fullan af fólki og atburðum beint upp úr sögunum hans Stiegs. Persónum sem voru jafnýktar og Lisbeth Salander og Alexander Zalachenko. Nema þær voru raunverulegar. Morðingjar og fórnarlömb þeirra. Njósnarar sem njósna um aðra njósnara. Myrtar konur og börn. Hökkuð gögn, leynilegar upptökur, leyniaðgerðir. Og dauði. Mikið af hræðilegum, skyndilegum dauða. Skáldsögurnar þrjár eftir Stieg Larsson hafa selst í rúmlega 80 milljónum eintaka, en hans helsta afrek var þó ekki að skrifa glæpasögur. Hann helgaði fullorðinsár sín því að berjast gegn sívaxandi öfgahægriöflum. Strax í upphafi tíunda áratugarins varaði hann við nýstofnuðum stjórnmálaflokki Sverigedemokraterna. Sama flokki og tuttugu og fimm árum síðar er einn af þremur stærstu stjórnmálaflokkum Svíþjóðar og hefur sett mark sitt á pólitíska landslagið. Næststærsta verkefni Stiegs var að rannsaka morðið á Olof Palme. Efnið í skjalasafninu virðist að mestu snúast um öfgahægriöfl en það rennur hnökralaust saman við rannsókn hans á morðinu á Palme og leiðir til heildstæðrar kenningar og ábendinga til lögreglu. Ég hef unnið áfram með kenningar og hugdettur Stiegs, grafið dýpra og bætt nýjum bitum við púslið. Sú mynd sem framkallast skýrir ekki aðeins röð undarlegra aðstæðna í kringum morðið, heldur einnig tilefni þess. Ég tel mig hafa nokkuð skýra mynd af því sem gerðist fram að morðinu, af kvöldinu þegar það átti sér stað 28. febrúar 1986 og hverjir voru á vettvangi. Ein möguleg lausn liggur fyrir og þú getur myndað þér skoðun út frá þeim staðreyndum og ályktunum sem ég legg fram. Það sem þú ert með í höndunum hér er heimildaskáldsaga. Hún er skrifuð sem spennandi frásögn en málið er að þetta er allt saman satt. Rúmlega þrjátíu síður eru beinir textar Stiegs – bréf og skilaboð. Mörg samtöl eru skrifuð niður orðrétt á meðan önnur eru færð í stílinn út frá gögnum í skjalasafni Stiegs og rúmlega hundrað viðtölum. Í eftirmála skrifa ég meira um efnið sem liggur til grundvallar og hvernig ég hef meðhöndlað það. Ef þú hefur áhuga á að kafa dýpra í Palmemálið mæli ég með þúsund síðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar og bókum Gunnars Wall og Lars Borgnäs, sem eru tveir helstu sérfræðingar Svíþjóðar um morðið á Palme, en til er ógrynni af efni sem vert er að skoða. Rétt er þó að vara þann við sem ætlar sér að grúska meira: Farðu varlega! Palmemorðið er heiftarlegur vírus sem margir hafa smitast af. Það er viss kaldhæðni í því falin að það skuli vera einmitt Svíþjóð sem situr uppi með óleyst morð á embættismanni. Landið þar sem unnt er að meta alla og útskýra allt í þaula er með opið sár þar sem enginn sannleikur virðist halda sé nánar skoðað. En það á eftir að breytast. Palmemorðið verður leyst. Olof Palme var ekki skotinn af fíklinum Christer Pettersson, að sögn Kristers Petersson, nýs saksóknara og yfirmanns Palmerannsóknarinnar. Og ég tel að hann hafi rétt fyrir sér. Ég er einnig sannfærður um að rannsókn Stiegs Larsson eigi eftir að stuðla að lausn málsins, og vonandi þessi bók líka. Þegar þú lest þetta hefur lögreglan fengið aðgang að efninu og möguleika á að finna afgerandi gögn sem gætu leitt til þess að einn maður verði dreginn fyrir dómstóla. Að minnsta kosti einn maður. Eftir eitt eða tvö ár vonast ég til að hinn nýi sannleikur verði svohljóðandi: Morðið á Olof Palme hefur verið leyst. Jan Stocklassa, september 2018 FORMÁLI Stokkhólmur, 20. mars 2013 Rúðuþurrkurnar börðust við þunga snjókomuna. Það var varla liðið korter frá því að ég lagði bílnum en hríðin hafði þegar vafið dimmrauða Volvoinn minn inn í þétt teppi. Hljóðið að utan var dempað og snjórinn sem þyrlaðist upp villti sýn svo erfitt var að átta sig þótt ég vissi að ég væri staddur á bílaplaninu fyrir framan geymsluhúsnæðið. Lágt vélarhljóð fékk mig til að strjúka hliðarrúðuna svo að móðan hvarf og myndaði lítinn straum eftir úlnliðnum á mér inn í jakkaermina. Silfurlitaður skutbíll lagði vinstra megin við mig. Áður en ég náði að drepa á vélinni höfðu dyrnar á hinum bílnum opnast. Andlit mannsins var vafið inn í langan trefil og hann var með úlpuhettuna dregna upp á höfuð. Hann benti yfir bílþakið að við ættum að fara að innganginum. Þegar ég kom þangað var hann að slá inn aðgangsnúmerið. Það gekk greinilega ekki því hann tók upp símann og hringdi. Þessar mínútur sem við stóðum þarna voru jafnlangar og sænsk kosningabarátta. Skjalasafnið hafði legið þarna óhreyft í tíu ár og virtist ekki ætla að láta raska ró sinni svo hæglega. Að lokum smaug rennihurðin til hliðar og hleypti okkur inn um loftlás inn í hlýjan og þurran gang með sterkum flúrljósum og endalausri röð af rennihurðum úr málmi. Eftir fimbulkuldann var þetta næstum huggulegt. Þegar húfan, trefillinn og hettan voru farin sá ég að það var í raun og veru Daniel Poohl frá dagblaðinu Expo sem hleypti mér inn. Við tókumst í hendur, gengum eftir löngum ganginum, upp tröppurnar á fyrstu hæðina og svo inn nákvæmlega eins gang þar sem Daniel stansaði fyrir framan eina rennihurðina. Ekkert nema lítið málmskilti með númeri gaf til kynna að við værum komnir á áfangastað. Ekkert benti til þess að hér rétt fyrir innan lægi hugsanlega fjársjóður. Fjársjóður sem ég vonaðist til að myndi vísa veginn að einhverju ómetanlegu. Málmhurðin rúllaðist upp með látum og ég sá að litla rýmið var troðið veggjanna á milli. Hillur fullar af pappakössum í hólf og gólf. Á tveimur þröngum göngum voru stæður af pappakössum sem var staflað alveg út að dyrum. Ég kíkti á hliðarnar á kössunum og áletrunin staðfesti að ég hafði fundið það sem ég hafði leitað að svo lengi. Þarna stóð með breiðum tússpenna: STIEG SKJALASAFN. Við lyftum einum kassanum saman niður á gólf. Daniel hélt pappalokinu frá á meðan ég dró upp stafla af gamaldags, brúnum hengimöppum. Hver mappa var merkt skýrum handskrifuðum smáum stöfum efst. Á þeim sem ég hélt á stóð „WACL“, „33-ára maðurinn“, „Resistance International“, „SuðurAfríkuslóðin“ og „Christer Pettersson“. Ég fann straum í fingrunum eins og möppurnar væru rafmagnaðar. Áletranirnar bentu greinilega til þess að skjölin sem ég hafði undir höndum tengdust morðinu á forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme. Þetta var miklu meira efni en ég hafði þorað að vonast eftir og ég velti því fyrir mér hvernig ég færi að því að fara í gegnum þetta allt saman. Daniel kippti mér aftur niður á jörðina. Þótt hann væri aðeins þrjátíu og eins árs var hann bæði aðalritstjóri og forstjóri Expo og hafði helgað líf sitt baráttunni gegn rasisma og óumburðarlyndi. Hann bar ábyrgð á skjalasafninu og gerði mér ljóst að skjölin færu ekki út úr húsi án hans leyfis og að ég fengi ekki að segja nokkrum manni hvar geymslan var. Ég þurfti að lesa skjölin á staðnum en á þessari stundu var ekki nokkur staður í heiminum sem ég vildi frekar vera á en gangurinn á þessari gluggalausu byggingu, sitjandi ofan á pappakassa með hríðarbylinn fyrir utan. Ég hafði takmarkaðan tíma og ég næði varla að skoða meira en brotabrot af efninu, hvað þá að komast að einhverri niðurstöðu um hvað Stieg hafði verið að hugsa. Leiðin hingað hafði verið löng og ströng. Ég hafði flúið mín eigin persónulegu vandamál þegar ég helgaði allan minn frítíma óleystu ráðgátunni um morðið á Olof Palme. Nú hafði það leitt mig hingað að gleymdu skjalasafni eins þekktasta rithöfundar í heimi. Það þýddi bara að nú voru fleiri spottar að toga í. Stieg virtist vera með kenningu um suðurafríska leyniþjónustu í slagtogi við sænska hægriöfgamenn. Sjálfur taldi ég að viðvaningur hefði framið morðið. Það var ekki alveg það sama. Um leið áttaði ég mig strax á því að ég gæti ekki sleppt þessu. Efnið í skjalasafninu var allt of áhugavert til þess að ég fylgdi þessu ekki eftir. Þá vissi ég ekki hvert þetta myndi leiða mig, að þetta grúsk átti eftir að stofna mér sjálfum og öðrum í hættu enda áttu eftir að verða á vegi okkar öfgamenn, útsendarar, blórabögglar og morðingjar. *** Stieg hafði sent sjö blaðsíðna langt bréf til Gerrys Gable, forstjóra Searchlight, sem var leiðandi tímarit í Bretlandi gegn rasisma og fyrirmyndin að sænska tímaritinu Expo. Bréfið var skrifað tæpum þremur vikum eftir morðið á Olof Palme.Stokkhólmur, 20. mars 1986 Kæru Gerry og vinir. Morðið á sænska forsætisráðherranum Olof Palme er, ef satt skal segja, eitt ótrúlegasta og skuggalegasta morðmál sem ég hef haft þann ónotalega starfa að fjalla um. Skuggalegt að því leyti að sagan hverfist skyndilega og vindur upp á sig og leiðir sífellt til nýrra, furðulegra uppgötvana, til þess eins að breytast aftur fyrir næsta skilafrest. Ótrúlegt vegna þeirra gríðarlegu pólitísku áhrifa sem það hefur og að þetta er í fyrsta sinn í sögunni, að ég held, sem þjóðhöfðingi er myrtur án þess að nokkur hugmynd sé uppi um hver framdi verknaðinn. Ónotalegt — morð eru alltaf ónotaleg — þar sem fórnarlambið var forsætisráðherra, maður sem var virkilega dáður og í hávegum hafður í Svíþjóð, óháð því hvort fólk telst vera jafnaðarmenn eða (eins og ég) ekki. Frá því að síminn hringdi snemma morguns laugardaginn 1. mars og ritstjórinn sagði mér frá morðinu og skipaði mér að mæta við skrifborðið hefur líf mitt verið ein ringulreið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ástandið væri hjá ykkur ef ykkur hefði verið falið að fjalla um morðið á frú Thatcher og morðinginn væri horfinn sporlaust. Og síðan er það áfallið almennt. Þessar fyrstu klukkustundir á laugardeginum, þegar fréttin barst um svefndrukkna Svíþjóð, hitti ég fólk sem hafði rokið út á götu fölt og fátt á svip. Á fréttastofunni sá ég reynda glæpafréttamenn — karla og konur sem hafa séð allt oftar en einu sinni — hætta skyndilega að skrifa í miðri setningu, halla sér fram og bresta í grát. Ég stóð sjálfan mig að því að gráta skyndilega þennan morgun. Það gerðist þegar örvæntingarfull déjà vu-tilfinningin helltist yfir mig og ég áttaði mig á því að þetta var í annað skiptið á tæpum þremur árum sem ég horfði á eftir forsætisráðherra. Sá fyrri var Maurice Bishop frá Grenada — maður sem mér þótti mjög vænt um. Síðan, þegar sorginni hefur verið vikið til hliðar og herra Palme borinn til grafar, kemur þetta augnablik þegar fjölmiðlarnir átta sig skyndilega á því hvílíkt skólarbókardæmi um morðgátu þetta mál er. Þvílík saga. Í og með vindur þessu áfram eins og í skáldsögu eftir Robert Ludlum. Aðra daga er þetta meira í ætt við ráðgátu eftir Agöthu Christie, til þess eins að breytast í Ed McBain-löggureyfara kryddaðan Donald Westlake-skopi. Staða fórnarlambsins, pólitíska sjónarhornið, hvarf morðingjans, vangavelturnar, slóðir sem enda í blindgötum, komur og brottfarir forseta og konunga, vísbendingar um bíla, kjaftasögur og klikkhausar og ég-vissi-það-týpurnar, símtöl, nafnlausar ábendingar, handtökur og tilfinning fyrir því að allt sé að koma heim og saman — til þess eins að standa uppi ringlaður með ekkert í höndunum. Það verða bækur skrifaðar um þetta. Venjulega eru þeir sem myrða þjóðhöfðingja handteknir eða drepnir innan nokkurra sekúndna eða mínútna frá viðburðinum. Oftast nær eru morðrannsóknir borðleggjandi. Ekki í þessu tilfelli. Hér erum við með forsætisráðherra sem fer í sína daglegu kvöldgöngu með konu sinni og ekki einn einasti lífvörður í kílómetra fjarlægð. Og við erum með morðingja sem gufar einfaldlega upp. Ég meina, í alvöru, hvernig á að hefja rannsókn þar sem eru bókstaflega þúsundir grunaðra og ekki ein einasta vísbending? Þið fyrirgefið mér þessa munnræpu hér í upphafi. Það var alls ekki ætlunin að skrifa um allt þetta. En að efninu, ég hafði ætlað mér að skrifa ykkur um Palmemorðið alveg síðan það var framið. Ég hef byrjað á átta eða níu uppköstum en ekki klárað eitt einasta. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að áður en mér tekst að klára hefur eitthvað nýtt og óvænt komið í ljós sem hefur orðið til þess að sagan tekur nýja stefnu eina ferðina enn. Þannig neyðist ég sífellt til að fleygja því sem ég er búinn að skrifa og byrja upp á nýtt. Þannig að þetta bréf er ekki grein, heldur tilraun til að upplýsa ykkur um hverjar staðreyndirnar eru og hvað er uppspuni í sambandi við morðið. Eftir að hafa lifað með morðinu sólarhringum saman síðustu þrjár vikurnar á ég í stökustu vandræðum með að fá fjarlægð á efnið og þar sem í kvöld virðist öll rannsóknin hafa ratað í ógöngur er þetta yfirlit til ykkar alveg eins leið fyrir mig að flokka hugsanir mínar og koma böndum á atburðarásina. Hugsanlega hafið þið eitthvert gagn af þessari samantekt ef þið ætlið að skrifa eitthvað sjálf um morðið í næsta blað. Ég skal reyna að halda mig aðeins við það sem kann að skipta máli. Fyrir það fyrsta, hvað gerðist og hvað vitum við um morðið? Nokkrar mínútur yfir ellefu að kvöldi 28. febrúar yfirgaf Palme kvikmyndahúsið Grand í félagsskap konu sinnar og elsta sonar. Bíóferðin hafði verið ákveðin einhvern tíma á föstudeginum; Palme nefndi hana við blaðamann um tvöleytið síðdegis en almennt séð var ekki vitað um fyrirætlanir þeirra. Forsætisráðherrann hafði, eins og hann gerði oft, sagt lífvörðum sínum frá öryggissveit lögreglunnar að hann þyrfti ekki á þeim að halda um kvöldið. Þetta var alvanalegt og allir vissu að Palme fór gjarnan í kvöldgöngu einn síns liðs hvenær sem var, þegar hann var ekki í vinnunni eða sérstök ástæða þótti til að gæta öryggis. Það er óvíst hvort öryggissveitin vissi um áætlanir hans fyrir kvöldið eða ekki. Fyrir utan bíóið buðu Palme og eiginkonan syni sínum góða nótt og ákváðu — þar sem kvöldið var stillt og venjulegur sænskur kuldi í lofti — að ganga heim. Nokkrum mínútum eftir að þau skiljast að lítur sonurinn af tilviljun um öxl og tekur eftir manni sem fylgir foreldrum hans; hann lýsti síðar fatnaði mannsins á hátt sem stemmir við lýsinguna á klæðum morðingjans, en hann greindi ekki andlit mannsins. Annað vitni mætti forsætisráðherranum tveimur mínútum síðar og staðnæmdist þegar hann gekk framhjá. Hann tók eftir manni sem elti parið og sagðist einnig hafa sýnst að tveir menn gengju á undan ráðherranum. Hann hafði talið að þau væru öll saman og dró því þá ályktun að ókunnugu mennirnir þrír tilheyrðu lífvarðasveit forsætisráðherra. Forsætisráðherrann og konan hans gengu eftir Sveavägen, fóru yfir götuna til að kíkja í búðarglugga og héldu síðan áfram. Á mótum Sveavägen og Tunnelgatan gekk morðinginn upp að forsætisráðherranum og skaut kúlu með hlaupvídd .357 Magnum í bakið á honum. Samkvæmt kenningum lögreglunnar bendir allt til þess að morðið hafi verið framið af fagmanni. Blaðamenn virðast hallast að því líka — með vissum fyrirvara. Morðinginn skaut aðeins einu skoti, en vopnið er ein kraftmesta skammbyssa sem til er. Allir sem til þekkja vita hversu miklum skemmdum ein kúla getur valdið. Það hefur komið í ljós að kúlan fór inn í mitt bakið á forsætisráðherranum, í gegnum hryggjarsúluna, tætti upp lungun, skar í sundur öndunarveginn og vélindað og þegar hún fór út úr líkamanum skildi hún eftir sig svo stórt gat að hægt væri að henda hatti í það. Ráðherrann lést samstundis, eða innan nokkurra sekúndna. Jafnvel þótt kúlan hefði ekki átt að splundrast þá snerist hún og var heilklædd til að komast í gegnum skothelt vesti. Morðinginn skaut öðru skoti á Lisbet, eiginkonu Olofs Palme, en að líkindum ekki til að drepa hana. Skotið hefði hæft hana í öxlina nema hún náði að snúa sér undan. Kúlan fór í staðinn í gegnum aðra öxlina á kápunni hennar og út um hina og olli brunasárum á húðinni. Út frá þessum staðreyndum má velta því fyrir sér hvort morðinginn hafi verið fagmaður eða ekki, sumir vilja meina að seinna skotið hafi átt að drepa en að morðinginn hafi verið óreyndur og orðið taugaóstyrkur. Aðrir halda því fram að þetta bendi frekar til að morðinginn hafi verið fagmaður og að seinna skotið hafi aðeins átt að koma í veg fyrir að Lisbet gæti farið á eftir morðingjanum. Eftir morðið flúði árásarmaðurinn eftir því sem virðist vera „vel skipulögð flóttaleið“, upp eftir tröppunum við endann á Tunnelgatan sem gerði eftirför á bíl ómögulega. Það sem ég hef útlistað hingað til eru blákaldar staðreyndir og samkvæmt opinberri skýrslu lögreglunnar. En svo vandast málið. Mörg vitni hafa gefið óljósa mynd af morðingjanum og lýsingarnar eru oft mótsagnakenndar. Algengasta lýsingin á morðingjanum, og þar af leiðandi líkast til sú réttasta, er svohljóðandi: Hvítur karlmaður á fertugsaldri, meðalmaður að hæð og herðabreiður. Hann var með gráa derhúfu á hausnum, eins og Siggi sixpensari, með eyrnahlífar sem mátti leggja niður, klæddur í dökkan mjaðmasíðan frakka og dökkar buxur. Mörg vitni héldu því fram að hann hefði verið með litla tösku með ólum, svona eins og maður notar til dæmis undir peninga og passa. Eftirfarandi er stutt af frásögnum fjölda vitna: Þessi fjögur vitni, sem voru valin úr meira en 10.000 vísbendingum og framburðum, eru álitin áreiðanleg vitni sem hafa lagt til óvéfengjanlegar staðreyndir. Snickarbacken liggur beint inn að Smala gränd og mögulega hefur frásögn leigubílstjórans eitthvað að gera með flóttaleið morðingjans, en það má setja spurningarmerki við eitt og annað. Leigubílsstjórinn vill meina að þetta hafi átt sér stað um það bil 10–15 mínútum eftir morðið en aðeins tekur um 3–4 mínútur að hlaupa þessa vegalengd. Leigubílstjórinn nefnir líka ranga aðliggjandi götu að Snickarbacken, ekki Smala gränd heldur allt aðra götu. Engu að síður gefur atburðarásin til kynna að morðinginn hafi í raun og veru farið framhjá leigubílstjóranum og lögreglan telur að hann gæti hafa dottað og því misreiknað tímasetninguna. (Framburður hans varð til þess að leitað var um land allt að grænum eða dökkbláum Passat, sér í lagi vegna þess að hann gat lagt til hluta af en ekki allt bílnúmerið.) Þessi atburðarás varð til þess að lögreglan taldi morðið vera þaulskipulagða aftöku framda af hópi fólks. Lögreglan hefur samt ekkert gefið opinberlega út um hvers konar hóp eða fólk er um að ræða. Í fyrsta lagi er þessi krítíska spurning: Hvað hefði gerst ef forsætisráðherrann hefði ekki gengið heim heldur frekar fylgt syni sínum í neðanjarðarlestina og þar með aldrei farið um hinn hentuga morðvettvang? Hafi þetta verið þaulskipulagt hefði morðinginn annaðhvort þurft að hætta við morðið eða að minnsta kosti þurft að hafa fleiri flóttabíla til reiðu og/eða fleiri samverkamenn. Semsagt, til er framburður vitna sem passar vel við þessa síðari útgáfu. (Vel að merkja hafa bæði lögregla og blaðamenn spurt þessi vitni spjörunum úr og nokkur þeirra virðast áreiðanleg.) Hér einhvers staðar rennur rannsóknin út í sandinn. Vissulega eru óteljandi uppástungur og frásagnir, en ekkert sem hægt er að segja að tengist morðinu beint. Flestar af ofangreindum staðreyndum voru staðfestar fyrstu tvo dagana (og jafnvel á fyrstu mínútunum) eftir morðið. Síðan kom tími þar sem játningar bárust frá furðufuglum og það-var-ég-sem-gerði-þetta-týpum, fjöldi vitna sem voru minna eða alls ekki áreiðanleg og — að sjálfsögðu — öll nafnlausu símtölin. Þegar um hryðjuverk er að ræða, að minnsta kosti úr „vinstrinu“, hafa þau samtök sem standa fyrir þeim yfirleitt lýst ódæðinu á hendur sér innan klukkutíma. Í þessu tilfelli hefur ekkert slíkt gerst. Meðal þeirra hópa sem hafa reynt að eigna sér heiðurinn af ódæðinu eru Commando Christian Klar, Holger Meins, Ustasja og ýmis hægriog nýnasistagengi. Ekkert þeirra er trúverðugt. Eftir morðið var Svíþjóð eins og hersetið land. Flugvöllum var lokað, eftirlit á landamærum hert, leit gerð í ferjum og höfnum. (Auðvitað gera slíkar ráðstafanir lítið gagn þar sem þaulskipulögðu morði er jú yfirleitt fylgt eftir með þaulskipulögðum flótta.) Þremur dögum eftir morðið var lögreglumaður færður til yfirheyrslu, grunaður um að vera viðriðinn morðið; hægriöfgamaður sem var þekktur fyrir að ganga um vopnaður og hafði lélega fjarvistarsönnun. En eftir tvo daga var honum sleppt og lögreglan gaf út yfirlýsingu um að hann hefði ekkert með morðið að gera. Síðan, rúmum tíu dögum eftir morðið, var annar maður handtekinn, ákærður fyrir að eiga þátt í morðinu. Sá náungi hefur verið nafngreindur sem hinn 33 ára gamli Victor Gunnarsson og reynist vera meðlimur í EAP (Evrópska verkamannaflokknum). Í næstum sólarhring virtist sú saga lofa góðu, sér í lagi þegar lögreglan gaf út yfirlýsingu þess efnis að það væri virkilega búið að finna morðingjann. (Orðalaginu var einnig breytt úr „að eiga hlut að“ yfir í „morðingja“.) Viktor hafði margt á móti sér. Hann er augljóslega hægriöfgafáviti og til eru gögn um að hann sé með þráhyggju fyrir forsætisráðherranum og hafi oft sagt að það ætti að „skjóta hann“, að auki er hann þekktur fyrir að elta Palme á opinber kosningaþing og fundi. Hann var á svæðinu á þeim tíma sem morðið var framið. Heimildir herma að hann hafi verið í sama kvikmyndahúsi og forsætisráðherrann. Hann getur ekki gert grein fyrir ferðum sínum og hefur logið að lögreglunni um nokkur afgerandi atriði. Hann á gráa derhúfu og frakka sem líkist því sem morðinginn klæddist. Þar sem hann hefur unnið hjá fjölmörgum einkareknum öryggisfyrirtækjum hefur hann hlotið vopnaþjálfun og kann að fara með skotvopn. Eitt vitni hefur borið kennsl á hann sem mann sem reyndi að stöðva bíl og fá far rétt eftir morðið á götu sem liggur að Tunnelgatan. Hann sást fara inn í kvikmyndahús um það bil 10–12 mínútum eftir skotið, hálftíma eftir að myndin byrjaði. Hann er þekktur fyrir að eiga í samskiptum við ónafngreind öfgahægri-, trúarog antisemítistasamtök staðsett í Kaliforníu, þar sem hann átti heima um tíma. Á tæpum sólarhring beindist athygli þjóðarinnar að EAP, ég hef sjálfur skrifað fjölda greina um samtökin, og loksins virtist málið ætla að leysast. En svo, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var færður í gæsluvarðhald var Victori Gunnarsson sleppt. Hvers vegna? Jú, vegna þess að vitnið sem vildi meina að hann hefði reynt að fá far með bíl eftir morðið gat allt í einu ekki lengur bent á Victor Gunnarsson í sakbendingu af hundrað prósent vissu. Sem leiðir okkur fram að deginum í dag: Í dag hætti lögreglan við daglega blaðamannafundinn þar sem hún hafði ekki frá neinu nýju að segja. Blindgata. Ein pæling: Það er mjög líklegt að Victor Gunnarsson verði handtekinn á nýjan leik; saksóknarinn segir að þeir hafi ekkert á hann en að hann sé engu að síður mjög athyglisverður fyrir rannsóknina. Þetta er það sem hægt er að segja hingað til. Ég gæti auðvitað haldið áfram með ýmiskonar pælingar í 200 síður í viðbót — það verða skrifaðar bækur um þetta (kannski ætti ég að skrifa bók um efnið) — en það er ekki mikið meira sem veigur er í. Við sitjum uppi með látinn forsætisráðherra og morðingja sem hvarf sporlaust. Meðal hugmynda sem upp hafa komið er að suðurafrískir hagsmunir tengist mögulega morðinu. Palmenefndin, sem Palme sjálfur var mikilvægur í, hafði komið af stað átaki sem beindist gegn vopnasölum sem áttu í viðskiptum við apartheid-stjórnina. Meðal hugmynda er líka að finna kúrdísku PKK samtökin, sem hafa framið að minnsta kosti þrjú pólitísk morð í Svíþjóð síðastliðin tvö ár. Hingað til hafa morðin beinst að „svikurum“ innan þeirra eigin vébanda, en vinsæl (og frekar rasísk) hugmynd gengur út á að þau sé sek. Hvers vegna: Jú, vegna þess að skrifstofa þeirra í Stokkhólmi er við David Bagares-gata þar sem morðinginn hvarf sporlaust. (Á móti kemur að þessi kenning lætur vera að spyrja hvort morðinginn væri virkilega svo vitlaus að hlaupa í felur inn á höfuðstöðvar eigin samtaka, steinsnar frá morðvettvangi.) Þannig að: Þetta er forsagan. Ef eitthvað nýtt kemur upp get ég hringt í ykkur ef þið viljið fá fréttir og þið getið alltaf notað þessar upplýsingar sem bakgrunnsefni. Ég læt fylgja með mynd af Gunnarsson, en hafið eitt í huga: Lögfræðingur hans ætlar að stefna erlendum dagblöðum sem birta myndina (ég var einn af þeim blaðamönnum sem tókst að tryggja sér myndina sem leiddi til skúbbs í evrópskum fjölmiðlum, áður en honum var svo sleppt). Jæja, farið vel með ykkur, Stieg Bókmenntir Morðið á Olof Palme Svíþjóð Mest lesið Gellur tóku yfir Gamla bíó Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Hélt að hann væri George Clooney Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lífið Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Lífið Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig Tónlist Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira
Vísir birtir fyrstu hluta bókarinnar Arfur Stiegs Larsson – Lykillinn að morðinu á Olof Palme, svona til að gefa smjörþefinn af því hvað er hér á ferð. „Jan Stocklassa, sænskur blaðamaður, kemst óvænt á snoðir um að Stieg Larsson, hinn heimskunni, látni rithöfundur, hafi verið að rannsaka morðið á Olof Palme og fær aðgang að gögnum hans í mörgum kössum. Þar kemur í ljós að Stieg hefur verið með kenningu um morðið, sem tengist umfangsmiklum rannsóknum hans á sænskum hægriöfgaöflum. Jan Stocklassa ákveður að taka upp þráðinn og sjá hvert hann leiðir,“ segir Pétur Már Ólafsson útgefandi hjá Bjarti & Veröld. Stieg, sem var rithöfundur og blaðamaður, er einkum þekktur fyrir Millennium-þríleikinn, bækur sem seldust í bílförmum á veraldarvísu og hafa verið kvikmyndaðar í bak og fyrir. Hann er fæddur 1954 en dó fimmtugur og óvænt úr hjartaslagi 2005 en Millennium-bókaflokkurinn var gefinn út að honum gengnum. Olof Palme var forsætisráðherra Svíþjóðar, gríðarlega vinsæll en um leið umdeildur. Að kvöldi 28. febrúar var hann ásamt eiginkonu sinni Lisbet Palme, á leið heim eftir að hafa brugðið sér í kvikmyndahús. Óþekktur maður kom aftan að þeim, skaut á hjónin og drap Olof með skoti í gegnum bakið en Lisbet slapp betur; hún fékk skot sem fór í gegnum öxl hennar. Morðinginn hefur aldrei fundist og er það ein af þeim ráðgátum sem heimsbyggðin öll hefur velt fyrir sér, hvernig má vera? Myndbirtingar í bókinni bannaðar í Svíþjóð Arfur Stiegs Larsson – Lykillinn að morðinu á Olof Palme eftir Jan Stocklassa er um þessar mundir að koma upp á borð í verslunum um land allt en Helga Soffía Einarsdóttir og Páll Valsson þýddu. Bókarinnar hefur verið beðið af eftirvæntingu hér á landi en ekki minni miðill en Le Monde sagði um bókina: „Heillandi frásögn Jans Stocklassa um morðið á Palme er í svipuðum stíl og Millenium-bók.“ Vísir birtir fyrstu 29 blaðsíður bókarinnar, með góðfúslegu leyfi útgefanda. Pétur Már útgefandi segir bókina hafa farið sigurför um heiminn. Og nú er hún komin út á íslensku. „Fyrri hluti bókarinnar er meira um Stieg en sá seinni um hvernig Jan rekur kenningu hans og fylgir henni eftir,“ segir Pétur Már. Útgefandinn bendir jafnframt á að niðurstaða bókarinnar hafi vakið mikla athygli; hún var til dæmis fyrir skömmu metsölubók á Amazon. „En í Svíþjóð bönnuðu lögregluyfirvöld birtingu myndar af hinum grunaða, það er svört síða í bókinni, vegna rannsóknarhagsmuna, því lögreglan er enn að vinna í málinu og hefur tekið upplýsingar bókarinnar alvarlega. Og hinn grunaði hefur flúið land og enginn veit hvar hann heldur sig.“ Var Stieg Larsson kominn á spor morðingja Palme? Það var 20. mars 2013 sem Jan Stocklassa, rithöfundur og blaðamaður, komst yfir fjölda kassa í geymsluhúsnæði Stokkhólmi Stiegs Larsson. Megnið sneri að rannsókn Stiegs á hægriöfgaöflum á níunda áratugnum, en þar var líka að finna möppur merktar áður óþekktu verkefni – umfangsmikilli rannsókn Stiegs á morðinu á Olof Palme. Jan ákvað að rekja þræðina sem Stieg hafði uppgötvað og í þeim leiðangri kom í ljós nýtt samhengi: Allt í einu hyllir undir sannfærandi kenningu um lausn á einni alræmdustu, óleystu morðgátu sögunnar. Getur verið að þekktasti glæpasagnahöfundur heims hafi verið kominn á spor morðingja Olofs Palme? Höfundur segist í formála bókarinnar hafa stigið „inn í heim fullan af fólki og atburðum beint upp úr sögum Stiegs. Persónum sem eru jafn ýktar og Lisbeth Salander og Alexander Zalachenko. Nema þær voru raunverulegar. Morðingjar og fórnarlömb þeirra. Njósnarar sem njósna um aðra njósnara. Myrtar konur og börn. Hökkuð gögn, leynilegar upptökur, leyniaðgerðir. Og dauði. Mikið af hræðilegum, skyndilegum dauða.“ Í formála kemur fram að gögn hafa verið afhent lögreglu, afgerandi gögn sem gætu leitt til þess að einn maður verði dreginn fyrir dómstóla. Að minnsta kosti einn maður. Hér neðar má svo lesa upphaf þessarar bókar sem vakið hefur heimsathygli. Og hefst þá lesturinn. Olaf Palme. Morðið á honum og það að morðinginn hafi ekki fundist hefur legið sem mara á sænsku þjóðinni og reyndar heimsbyggðinni allri.Getty FormáliÞað var allt svo einfalt hér áður fyrr. Plútó er pláneta. Mjólk er góð. Dísel er hreinna en bensín. Ef maður fer í sund strax eftir mat getur maður fengið krampa og drukknað. Morðið á Olof Palme forsætisráðherra verður aldrei leyst. En gömlum sannindum er æ oftar snúið á hvolf og nú er aftur komið að því. Nýju sannindin hljóma svo: Morðið á Olof Palme verður leyst. Hjá mér hófst þetta allt saman árið 2008 með því sænskasta sem til er – sé miðað við alla sænsku reyfarana – kona var myrt við vatn í Smálöndunum, en það kveikti hjá mér hugmynd að bók um morðvettvanga. Rúmu ári síðar kom í ljós að ástæða dauðsfallsins var einnig afar sænsk. Lögreglan fann ný, tæknileg sönnunargögn og sökudólgurinn reyndist vera elgur. En þegar þar var komið sögu hafði ég horfið frá upprunalegu hugmyndinni og var kominn á kaf í það ævintýri sem gat af sér þessa bók. Fimm árum síðar komst ég í gleymt skjalasafn Stiegs Larsson og steig inn í heim fullan af fólki og atburðum beint upp úr sögunum hans Stiegs. Persónum sem voru jafnýktar og Lisbeth Salander og Alexander Zalachenko. Nema þær voru raunverulegar. Morðingjar og fórnarlömb þeirra. Njósnarar sem njósna um aðra njósnara. Myrtar konur og börn. Hökkuð gögn, leynilegar upptökur, leyniaðgerðir. Og dauði. Mikið af hræðilegum, skyndilegum dauða. Skáldsögurnar þrjár eftir Stieg Larsson hafa selst í rúmlega 80 milljónum eintaka, en hans helsta afrek var þó ekki að skrifa glæpasögur. Hann helgaði fullorðinsár sín því að berjast gegn sívaxandi öfgahægriöflum. Strax í upphafi tíunda áratugarins varaði hann við nýstofnuðum stjórnmálaflokki Sverigedemokraterna. Sama flokki og tuttugu og fimm árum síðar er einn af þremur stærstu stjórnmálaflokkum Svíþjóðar og hefur sett mark sitt á pólitíska landslagið. Næststærsta verkefni Stiegs var að rannsaka morðið á Olof Palme. Efnið í skjalasafninu virðist að mestu snúast um öfgahægriöfl en það rennur hnökralaust saman við rannsókn hans á morðinu á Palme og leiðir til heildstæðrar kenningar og ábendinga til lögreglu. Ég hef unnið áfram með kenningar og hugdettur Stiegs, grafið dýpra og bætt nýjum bitum við púslið. Sú mynd sem framkallast skýrir ekki aðeins röð undarlegra aðstæðna í kringum morðið, heldur einnig tilefni þess. Ég tel mig hafa nokkuð skýra mynd af því sem gerðist fram að morðinu, af kvöldinu þegar það átti sér stað 28. febrúar 1986 og hverjir voru á vettvangi. Ein möguleg lausn liggur fyrir og þú getur myndað þér skoðun út frá þeim staðreyndum og ályktunum sem ég legg fram. Það sem þú ert með í höndunum hér er heimildaskáldsaga. Hún er skrifuð sem spennandi frásögn en málið er að þetta er allt saman satt. Rúmlega þrjátíu síður eru beinir textar Stiegs – bréf og skilaboð. Mörg samtöl eru skrifuð niður orðrétt á meðan önnur eru færð í stílinn út frá gögnum í skjalasafni Stiegs og rúmlega hundrað viðtölum. Í eftirmála skrifa ég meira um efnið sem liggur til grundvallar og hvernig ég hef meðhöndlað það. Ef þú hefur áhuga á að kafa dýpra í Palmemálið mæli ég með þúsund síðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar og bókum Gunnars Wall og Lars Borgnäs, sem eru tveir helstu sérfræðingar Svíþjóðar um morðið á Palme, en til er ógrynni af efni sem vert er að skoða. Rétt er þó að vara þann við sem ætlar sér að grúska meira: Farðu varlega! Palmemorðið er heiftarlegur vírus sem margir hafa smitast af. Það er viss kaldhæðni í því falin að það skuli vera einmitt Svíþjóð sem situr uppi með óleyst morð á embættismanni. Landið þar sem unnt er að meta alla og útskýra allt í þaula er með opið sár þar sem enginn sannleikur virðist halda sé nánar skoðað. En það á eftir að breytast. Palmemorðið verður leyst. Olof Palme var ekki skotinn af fíklinum Christer Pettersson, að sögn Kristers Petersson, nýs saksóknara og yfirmanns Palmerannsóknarinnar. Og ég tel að hann hafi rétt fyrir sér. Ég er einnig sannfærður um að rannsókn Stiegs Larsson eigi eftir að stuðla að lausn málsins, og vonandi þessi bók líka. Þegar þú lest þetta hefur lögreglan fengið aðgang að efninu og möguleika á að finna afgerandi gögn sem gætu leitt til þess að einn maður verði dreginn fyrir dómstóla. Að minnsta kosti einn maður. Eftir eitt eða tvö ár vonast ég til að hinn nýi sannleikur verði svohljóðandi: Morðið á Olof Palme hefur verið leyst. Jan Stocklassa, september 2018 FORMÁLI Stokkhólmur, 20. mars 2013 Rúðuþurrkurnar börðust við þunga snjókomuna. Það var varla liðið korter frá því að ég lagði bílnum en hríðin hafði þegar vafið dimmrauða Volvoinn minn inn í þétt teppi. Hljóðið að utan var dempað og snjórinn sem þyrlaðist upp villti sýn svo erfitt var að átta sig þótt ég vissi að ég væri staddur á bílaplaninu fyrir framan geymsluhúsnæðið. Lágt vélarhljóð fékk mig til að strjúka hliðarrúðuna svo að móðan hvarf og myndaði lítinn straum eftir úlnliðnum á mér inn í jakkaermina. Silfurlitaður skutbíll lagði vinstra megin við mig. Áður en ég náði að drepa á vélinni höfðu dyrnar á hinum bílnum opnast. Andlit mannsins var vafið inn í langan trefil og hann var með úlpuhettuna dregna upp á höfuð. Hann benti yfir bílþakið að við ættum að fara að innganginum. Þegar ég kom þangað var hann að slá inn aðgangsnúmerið. Það gekk greinilega ekki því hann tók upp símann og hringdi. Þessar mínútur sem við stóðum þarna voru jafnlangar og sænsk kosningabarátta. Skjalasafnið hafði legið þarna óhreyft í tíu ár og virtist ekki ætla að láta raska ró sinni svo hæglega. Að lokum smaug rennihurðin til hliðar og hleypti okkur inn um loftlás inn í hlýjan og þurran gang með sterkum flúrljósum og endalausri röð af rennihurðum úr málmi. Eftir fimbulkuldann var þetta næstum huggulegt. Þegar húfan, trefillinn og hettan voru farin sá ég að það var í raun og veru Daniel Poohl frá dagblaðinu Expo sem hleypti mér inn. Við tókumst í hendur, gengum eftir löngum ganginum, upp tröppurnar á fyrstu hæðina og svo inn nákvæmlega eins gang þar sem Daniel stansaði fyrir framan eina rennihurðina. Ekkert nema lítið málmskilti með númeri gaf til kynna að við værum komnir á áfangastað. Ekkert benti til þess að hér rétt fyrir innan lægi hugsanlega fjársjóður. Fjársjóður sem ég vonaðist til að myndi vísa veginn að einhverju ómetanlegu. Málmhurðin rúllaðist upp með látum og ég sá að litla rýmið var troðið veggjanna á milli. Hillur fullar af pappakössum í hólf og gólf. Á tveimur þröngum göngum voru stæður af pappakössum sem var staflað alveg út að dyrum. Ég kíkti á hliðarnar á kössunum og áletrunin staðfesti að ég hafði fundið það sem ég hafði leitað að svo lengi. Þarna stóð með breiðum tússpenna: STIEG SKJALASAFN. Við lyftum einum kassanum saman niður á gólf. Daniel hélt pappalokinu frá á meðan ég dró upp stafla af gamaldags, brúnum hengimöppum. Hver mappa var merkt skýrum handskrifuðum smáum stöfum efst. Á þeim sem ég hélt á stóð „WACL“, „33-ára maðurinn“, „Resistance International“, „SuðurAfríkuslóðin“ og „Christer Pettersson“. Ég fann straum í fingrunum eins og möppurnar væru rafmagnaðar. Áletranirnar bentu greinilega til þess að skjölin sem ég hafði undir höndum tengdust morðinu á forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme. Þetta var miklu meira efni en ég hafði þorað að vonast eftir og ég velti því fyrir mér hvernig ég færi að því að fara í gegnum þetta allt saman. Daniel kippti mér aftur niður á jörðina. Þótt hann væri aðeins þrjátíu og eins árs var hann bæði aðalritstjóri og forstjóri Expo og hafði helgað líf sitt baráttunni gegn rasisma og óumburðarlyndi. Hann bar ábyrgð á skjalasafninu og gerði mér ljóst að skjölin færu ekki út úr húsi án hans leyfis og að ég fengi ekki að segja nokkrum manni hvar geymslan var. Ég þurfti að lesa skjölin á staðnum en á þessari stundu var ekki nokkur staður í heiminum sem ég vildi frekar vera á en gangurinn á þessari gluggalausu byggingu, sitjandi ofan á pappakassa með hríðarbylinn fyrir utan. Ég hafði takmarkaðan tíma og ég næði varla að skoða meira en brotabrot af efninu, hvað þá að komast að einhverri niðurstöðu um hvað Stieg hafði verið að hugsa. Leiðin hingað hafði verið löng og ströng. Ég hafði flúið mín eigin persónulegu vandamál þegar ég helgaði allan minn frítíma óleystu ráðgátunni um morðið á Olof Palme. Nú hafði það leitt mig hingað að gleymdu skjalasafni eins þekktasta rithöfundar í heimi. Það þýddi bara að nú voru fleiri spottar að toga í. Stieg virtist vera með kenningu um suðurafríska leyniþjónustu í slagtogi við sænska hægriöfgamenn. Sjálfur taldi ég að viðvaningur hefði framið morðið. Það var ekki alveg það sama. Um leið áttaði ég mig strax á því að ég gæti ekki sleppt þessu. Efnið í skjalasafninu var allt of áhugavert til þess að ég fylgdi þessu ekki eftir. Þá vissi ég ekki hvert þetta myndi leiða mig, að þetta grúsk átti eftir að stofna mér sjálfum og öðrum í hættu enda áttu eftir að verða á vegi okkar öfgamenn, útsendarar, blórabögglar og morðingjar. *** Stieg hafði sent sjö blaðsíðna langt bréf til Gerrys Gable, forstjóra Searchlight, sem var leiðandi tímarit í Bretlandi gegn rasisma og fyrirmyndin að sænska tímaritinu Expo. Bréfið var skrifað tæpum þremur vikum eftir morðið á Olof Palme.Stokkhólmur, 20. mars 1986 Kæru Gerry og vinir. Morðið á sænska forsætisráðherranum Olof Palme er, ef satt skal segja, eitt ótrúlegasta og skuggalegasta morðmál sem ég hef haft þann ónotalega starfa að fjalla um. Skuggalegt að því leyti að sagan hverfist skyndilega og vindur upp á sig og leiðir sífellt til nýrra, furðulegra uppgötvana, til þess eins að breytast aftur fyrir næsta skilafrest. Ótrúlegt vegna þeirra gríðarlegu pólitísku áhrifa sem það hefur og að þetta er í fyrsta sinn í sögunni, að ég held, sem þjóðhöfðingi er myrtur án þess að nokkur hugmynd sé uppi um hver framdi verknaðinn. Ónotalegt — morð eru alltaf ónotaleg — þar sem fórnarlambið var forsætisráðherra, maður sem var virkilega dáður og í hávegum hafður í Svíþjóð, óháð því hvort fólk telst vera jafnaðarmenn eða (eins og ég) ekki. Frá því að síminn hringdi snemma morguns laugardaginn 1. mars og ritstjórinn sagði mér frá morðinu og skipaði mér að mæta við skrifborðið hefur líf mitt verið ein ringulreið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ástandið væri hjá ykkur ef ykkur hefði verið falið að fjalla um morðið á frú Thatcher og morðinginn væri horfinn sporlaust. Og síðan er það áfallið almennt. Þessar fyrstu klukkustundir á laugardeginum, þegar fréttin barst um svefndrukkna Svíþjóð, hitti ég fólk sem hafði rokið út á götu fölt og fátt á svip. Á fréttastofunni sá ég reynda glæpafréttamenn — karla og konur sem hafa séð allt oftar en einu sinni — hætta skyndilega að skrifa í miðri setningu, halla sér fram og bresta í grát. Ég stóð sjálfan mig að því að gráta skyndilega þennan morgun. Það gerðist þegar örvæntingarfull déjà vu-tilfinningin helltist yfir mig og ég áttaði mig á því að þetta var í annað skiptið á tæpum þremur árum sem ég horfði á eftir forsætisráðherra. Sá fyrri var Maurice Bishop frá Grenada — maður sem mér þótti mjög vænt um. Síðan, þegar sorginni hefur verið vikið til hliðar og herra Palme borinn til grafar, kemur þetta augnablik þegar fjölmiðlarnir átta sig skyndilega á því hvílíkt skólarbókardæmi um morðgátu þetta mál er. Þvílík saga. Í og með vindur þessu áfram eins og í skáldsögu eftir Robert Ludlum. Aðra daga er þetta meira í ætt við ráðgátu eftir Agöthu Christie, til þess eins að breytast í Ed McBain-löggureyfara kryddaðan Donald Westlake-skopi. Staða fórnarlambsins, pólitíska sjónarhornið, hvarf morðingjans, vangavelturnar, slóðir sem enda í blindgötum, komur og brottfarir forseta og konunga, vísbendingar um bíla, kjaftasögur og klikkhausar og ég-vissi-það-týpurnar, símtöl, nafnlausar ábendingar, handtökur og tilfinning fyrir því að allt sé að koma heim og saman — til þess eins að standa uppi ringlaður með ekkert í höndunum. Það verða bækur skrifaðar um þetta. Venjulega eru þeir sem myrða þjóðhöfðingja handteknir eða drepnir innan nokkurra sekúndna eða mínútna frá viðburðinum. Oftast nær eru morðrannsóknir borðleggjandi. Ekki í þessu tilfelli. Hér erum við með forsætisráðherra sem fer í sína daglegu kvöldgöngu með konu sinni og ekki einn einasti lífvörður í kílómetra fjarlægð. Og við erum með morðingja sem gufar einfaldlega upp. Ég meina, í alvöru, hvernig á að hefja rannsókn þar sem eru bókstaflega þúsundir grunaðra og ekki ein einasta vísbending? Þið fyrirgefið mér þessa munnræpu hér í upphafi. Það var alls ekki ætlunin að skrifa um allt þetta. En að efninu, ég hafði ætlað mér að skrifa ykkur um Palmemorðið alveg síðan það var framið. Ég hef byrjað á átta eða níu uppköstum en ekki klárað eitt einasta. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að áður en mér tekst að klára hefur eitthvað nýtt og óvænt komið í ljós sem hefur orðið til þess að sagan tekur nýja stefnu eina ferðina enn. Þannig neyðist ég sífellt til að fleygja því sem ég er búinn að skrifa og byrja upp á nýtt. Þannig að þetta bréf er ekki grein, heldur tilraun til að upplýsa ykkur um hverjar staðreyndirnar eru og hvað er uppspuni í sambandi við morðið. Eftir að hafa lifað með morðinu sólarhringum saman síðustu þrjár vikurnar á ég í stökustu vandræðum með að fá fjarlægð á efnið og þar sem í kvöld virðist öll rannsóknin hafa ratað í ógöngur er þetta yfirlit til ykkar alveg eins leið fyrir mig að flokka hugsanir mínar og koma böndum á atburðarásina. Hugsanlega hafið þið eitthvert gagn af þessari samantekt ef þið ætlið að skrifa eitthvað sjálf um morðið í næsta blað. Ég skal reyna að halda mig aðeins við það sem kann að skipta máli. Fyrir það fyrsta, hvað gerðist og hvað vitum við um morðið? Nokkrar mínútur yfir ellefu að kvöldi 28. febrúar yfirgaf Palme kvikmyndahúsið Grand í félagsskap konu sinnar og elsta sonar. Bíóferðin hafði verið ákveðin einhvern tíma á föstudeginum; Palme nefndi hana við blaðamann um tvöleytið síðdegis en almennt séð var ekki vitað um fyrirætlanir þeirra. Forsætisráðherrann hafði, eins og hann gerði oft, sagt lífvörðum sínum frá öryggissveit lögreglunnar að hann þyrfti ekki á þeim að halda um kvöldið. Þetta var alvanalegt og allir vissu að Palme fór gjarnan í kvöldgöngu einn síns liðs hvenær sem var, þegar hann var ekki í vinnunni eða sérstök ástæða þótti til að gæta öryggis. Það er óvíst hvort öryggissveitin vissi um áætlanir hans fyrir kvöldið eða ekki. Fyrir utan bíóið buðu Palme og eiginkonan syni sínum góða nótt og ákváðu — þar sem kvöldið var stillt og venjulegur sænskur kuldi í lofti — að ganga heim. Nokkrum mínútum eftir að þau skiljast að lítur sonurinn af tilviljun um öxl og tekur eftir manni sem fylgir foreldrum hans; hann lýsti síðar fatnaði mannsins á hátt sem stemmir við lýsinguna á klæðum morðingjans, en hann greindi ekki andlit mannsins. Annað vitni mætti forsætisráðherranum tveimur mínútum síðar og staðnæmdist þegar hann gekk framhjá. Hann tók eftir manni sem elti parið og sagðist einnig hafa sýnst að tveir menn gengju á undan ráðherranum. Hann hafði talið að þau væru öll saman og dró því þá ályktun að ókunnugu mennirnir þrír tilheyrðu lífvarðasveit forsætisráðherra. Forsætisráðherrann og konan hans gengu eftir Sveavägen, fóru yfir götuna til að kíkja í búðarglugga og héldu síðan áfram. Á mótum Sveavägen og Tunnelgatan gekk morðinginn upp að forsætisráðherranum og skaut kúlu með hlaupvídd .357 Magnum í bakið á honum. Samkvæmt kenningum lögreglunnar bendir allt til þess að morðið hafi verið framið af fagmanni. Blaðamenn virðast hallast að því líka — með vissum fyrirvara. Morðinginn skaut aðeins einu skoti, en vopnið er ein kraftmesta skammbyssa sem til er. Allir sem til þekkja vita hversu miklum skemmdum ein kúla getur valdið. Það hefur komið í ljós að kúlan fór inn í mitt bakið á forsætisráðherranum, í gegnum hryggjarsúluna, tætti upp lungun, skar í sundur öndunarveginn og vélindað og þegar hún fór út úr líkamanum skildi hún eftir sig svo stórt gat að hægt væri að henda hatti í það. Ráðherrann lést samstundis, eða innan nokkurra sekúndna. Jafnvel þótt kúlan hefði ekki átt að splundrast þá snerist hún og var heilklædd til að komast í gegnum skothelt vesti. Morðinginn skaut öðru skoti á Lisbet, eiginkonu Olofs Palme, en að líkindum ekki til að drepa hana. Skotið hefði hæft hana í öxlina nema hún náði að snúa sér undan. Kúlan fór í staðinn í gegnum aðra öxlina á kápunni hennar og út um hina og olli brunasárum á húðinni. Út frá þessum staðreyndum má velta því fyrir sér hvort morðinginn hafi verið fagmaður eða ekki, sumir vilja meina að seinna skotið hafi átt að drepa en að morðinginn hafi verið óreyndur og orðið taugaóstyrkur. Aðrir halda því fram að þetta bendi frekar til að morðinginn hafi verið fagmaður og að seinna skotið hafi aðeins átt að koma í veg fyrir að Lisbet gæti farið á eftir morðingjanum. Eftir morðið flúði árásarmaðurinn eftir því sem virðist vera „vel skipulögð flóttaleið“, upp eftir tröppunum við endann á Tunnelgatan sem gerði eftirför á bíl ómögulega. Það sem ég hef útlistað hingað til eru blákaldar staðreyndir og samkvæmt opinberri skýrslu lögreglunnar. En svo vandast málið. Mörg vitni hafa gefið óljósa mynd af morðingjanum og lýsingarnar eru oft mótsagnakenndar. Algengasta lýsingin á morðingjanum, og þar af leiðandi líkast til sú réttasta, er svohljóðandi: Hvítur karlmaður á fertugsaldri, meðalmaður að hæð og herðabreiður. Hann var með gráa derhúfu á hausnum, eins og Siggi sixpensari, með eyrnahlífar sem mátti leggja niður, klæddur í dökkan mjaðmasíðan frakka og dökkar buxur. Mörg vitni héldu því fram að hann hefði verið með litla tösku með ólum, svona eins og maður notar til dæmis undir peninga og passa. Eftirfarandi er stutt af frásögnum fjölda vitna: Þessi fjögur vitni, sem voru valin úr meira en 10.000 vísbendingum og framburðum, eru álitin áreiðanleg vitni sem hafa lagt til óvéfengjanlegar staðreyndir. Snickarbacken liggur beint inn að Smala gränd og mögulega hefur frásögn leigubílstjórans eitthvað að gera með flóttaleið morðingjans, en það má setja spurningarmerki við eitt og annað. Leigubílsstjórinn vill meina að þetta hafi átt sér stað um það bil 10–15 mínútum eftir morðið en aðeins tekur um 3–4 mínútur að hlaupa þessa vegalengd. Leigubílstjórinn nefnir líka ranga aðliggjandi götu að Snickarbacken, ekki Smala gränd heldur allt aðra götu. Engu að síður gefur atburðarásin til kynna að morðinginn hafi í raun og veru farið framhjá leigubílstjóranum og lögreglan telur að hann gæti hafa dottað og því misreiknað tímasetninguna. (Framburður hans varð til þess að leitað var um land allt að grænum eða dökkbláum Passat, sér í lagi vegna þess að hann gat lagt til hluta af en ekki allt bílnúmerið.) Þessi atburðarás varð til þess að lögreglan taldi morðið vera þaulskipulagða aftöku framda af hópi fólks. Lögreglan hefur samt ekkert gefið opinberlega út um hvers konar hóp eða fólk er um að ræða. Í fyrsta lagi er þessi krítíska spurning: Hvað hefði gerst ef forsætisráðherrann hefði ekki gengið heim heldur frekar fylgt syni sínum í neðanjarðarlestina og þar með aldrei farið um hinn hentuga morðvettvang? Hafi þetta verið þaulskipulagt hefði morðinginn annaðhvort þurft að hætta við morðið eða að minnsta kosti þurft að hafa fleiri flóttabíla til reiðu og/eða fleiri samverkamenn. Semsagt, til er framburður vitna sem passar vel við þessa síðari útgáfu. (Vel að merkja hafa bæði lögregla og blaðamenn spurt þessi vitni spjörunum úr og nokkur þeirra virðast áreiðanleg.) Hér einhvers staðar rennur rannsóknin út í sandinn. Vissulega eru óteljandi uppástungur og frásagnir, en ekkert sem hægt er að segja að tengist morðinu beint. Flestar af ofangreindum staðreyndum voru staðfestar fyrstu tvo dagana (og jafnvel á fyrstu mínútunum) eftir morðið. Síðan kom tími þar sem játningar bárust frá furðufuglum og það-var-ég-sem-gerði-þetta-týpum, fjöldi vitna sem voru minna eða alls ekki áreiðanleg og — að sjálfsögðu — öll nafnlausu símtölin. Þegar um hryðjuverk er að ræða, að minnsta kosti úr „vinstrinu“, hafa þau samtök sem standa fyrir þeim yfirleitt lýst ódæðinu á hendur sér innan klukkutíma. Í þessu tilfelli hefur ekkert slíkt gerst. Meðal þeirra hópa sem hafa reynt að eigna sér heiðurinn af ódæðinu eru Commando Christian Klar, Holger Meins, Ustasja og ýmis hægriog nýnasistagengi. Ekkert þeirra er trúverðugt. Eftir morðið var Svíþjóð eins og hersetið land. Flugvöllum var lokað, eftirlit á landamærum hert, leit gerð í ferjum og höfnum. (Auðvitað gera slíkar ráðstafanir lítið gagn þar sem þaulskipulögðu morði er jú yfirleitt fylgt eftir með þaulskipulögðum flótta.) Þremur dögum eftir morðið var lögreglumaður færður til yfirheyrslu, grunaður um að vera viðriðinn morðið; hægriöfgamaður sem var þekktur fyrir að ganga um vopnaður og hafði lélega fjarvistarsönnun. En eftir tvo daga var honum sleppt og lögreglan gaf út yfirlýsingu um að hann hefði ekkert með morðið að gera. Síðan, rúmum tíu dögum eftir morðið, var annar maður handtekinn, ákærður fyrir að eiga þátt í morðinu. Sá náungi hefur verið nafngreindur sem hinn 33 ára gamli Victor Gunnarsson og reynist vera meðlimur í EAP (Evrópska verkamannaflokknum). Í næstum sólarhring virtist sú saga lofa góðu, sér í lagi þegar lögreglan gaf út yfirlýsingu þess efnis að það væri virkilega búið að finna morðingjann. (Orðalaginu var einnig breytt úr „að eiga hlut að“ yfir í „morðingja“.) Viktor hafði margt á móti sér. Hann er augljóslega hægriöfgafáviti og til eru gögn um að hann sé með þráhyggju fyrir forsætisráðherranum og hafi oft sagt að það ætti að „skjóta hann“, að auki er hann þekktur fyrir að elta Palme á opinber kosningaþing og fundi. Hann var á svæðinu á þeim tíma sem morðið var framið. Heimildir herma að hann hafi verið í sama kvikmyndahúsi og forsætisráðherrann. Hann getur ekki gert grein fyrir ferðum sínum og hefur logið að lögreglunni um nokkur afgerandi atriði. Hann á gráa derhúfu og frakka sem líkist því sem morðinginn klæddist. Þar sem hann hefur unnið hjá fjölmörgum einkareknum öryggisfyrirtækjum hefur hann hlotið vopnaþjálfun og kann að fara með skotvopn. Eitt vitni hefur borið kennsl á hann sem mann sem reyndi að stöðva bíl og fá far rétt eftir morðið á götu sem liggur að Tunnelgatan. Hann sást fara inn í kvikmyndahús um það bil 10–12 mínútum eftir skotið, hálftíma eftir að myndin byrjaði. Hann er þekktur fyrir að eiga í samskiptum við ónafngreind öfgahægri-, trúarog antisemítistasamtök staðsett í Kaliforníu, þar sem hann átti heima um tíma. Á tæpum sólarhring beindist athygli þjóðarinnar að EAP, ég hef sjálfur skrifað fjölda greina um samtökin, og loksins virtist málið ætla að leysast. En svo, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var færður í gæsluvarðhald var Victori Gunnarsson sleppt. Hvers vegna? Jú, vegna þess að vitnið sem vildi meina að hann hefði reynt að fá far með bíl eftir morðið gat allt í einu ekki lengur bent á Victor Gunnarsson í sakbendingu af hundrað prósent vissu. Sem leiðir okkur fram að deginum í dag: Í dag hætti lögreglan við daglega blaðamannafundinn þar sem hún hafði ekki frá neinu nýju að segja. Blindgata. Ein pæling: Það er mjög líklegt að Victor Gunnarsson verði handtekinn á nýjan leik; saksóknarinn segir að þeir hafi ekkert á hann en að hann sé engu að síður mjög athyglisverður fyrir rannsóknina. Þetta er það sem hægt er að segja hingað til. Ég gæti auðvitað haldið áfram með ýmiskonar pælingar í 200 síður í viðbót — það verða skrifaðar bækur um þetta (kannski ætti ég að skrifa bók um efnið) — en það er ekki mikið meira sem veigur er í. Við sitjum uppi með látinn forsætisráðherra og morðingja sem hvarf sporlaust. Meðal hugmynda sem upp hafa komið er að suðurafrískir hagsmunir tengist mögulega morðinu. Palmenefndin, sem Palme sjálfur var mikilvægur í, hafði komið af stað átaki sem beindist gegn vopnasölum sem áttu í viðskiptum við apartheid-stjórnina. Meðal hugmynda er líka að finna kúrdísku PKK samtökin, sem hafa framið að minnsta kosti þrjú pólitísk morð í Svíþjóð síðastliðin tvö ár. Hingað til hafa morðin beinst að „svikurum“ innan þeirra eigin vébanda, en vinsæl (og frekar rasísk) hugmynd gengur út á að þau sé sek. Hvers vegna: Jú, vegna þess að skrifstofa þeirra í Stokkhólmi er við David Bagares-gata þar sem morðinginn hvarf sporlaust. (Á móti kemur að þessi kenning lætur vera að spyrja hvort morðinginn væri virkilega svo vitlaus að hlaupa í felur inn á höfuðstöðvar eigin samtaka, steinsnar frá morðvettvangi.) Þannig að: Þetta er forsagan. Ef eitthvað nýtt kemur upp get ég hringt í ykkur ef þið viljið fá fréttir og þið getið alltaf notað þessar upplýsingar sem bakgrunnsefni. Ég læt fylgja með mynd af Gunnarsson, en hafið eitt í huga: Lögfræðingur hans ætlar að stefna erlendum dagblöðum sem birta myndina (ég var einn af þeim blaðamönnum sem tókst að tryggja sér myndina sem leiddi til skúbbs í evrópskum fjölmiðlum, áður en honum var svo sleppt). Jæja, farið vel með ykkur, Stieg
Bókmenntir Morðið á Olof Palme Svíþjóð Mest lesið Gellur tóku yfir Gamla bíó Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Hélt að hann væri George Clooney Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lífið Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Lífið Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig Tónlist Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira