Matur

Vatnsdeigshringur með karamellufyllingu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Eva Laufey Kjaran er byrjuð að hugsa um bolludaginn.
Eva Laufey Kjaran er byrjuð að hugsa um bolludaginn. Myndir/Eva Laufey Kjaran

Bolludagurinn verður haldinn hátíðlegur þann 24. febrúar næstkomandi. Matgæðingurinn Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er auðvitað byrjuð að undirbúa og hér deilir hún einni girnilegri uppskrift með lesendum Vísis, sem hægt er að gera fyrir bolludaginn eða annað tilefni. Uppskriftin er fyrir 10 til 12 bollur en má einnig nota í að gera vatnsdeigsbolluhring. Blóm gera svo allt fallegra. 

Vatnsdeigsbollur/hringur

10 – 12 bollur

Hráefni:

  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 2 msk sykur
  • 110 g hveiti
  • 3 stór egg

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 200°C. (blástur)
  2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 – 3 mínútur áður en hveitið er sett út í.
  3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
  4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman.
  5. Setjið deigið  í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum.
  6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.
Myndir/Eva Laufey Kjaran

Karamellufylling

  • 500 ml rjómi (gott að nota g-rjóma frá MS, hann er stífari)
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk karamellusósa (uppskrift hér að neðan)
  • 100 g karamellukurl

Aðferð:

  1. Þeytið rjóma og vanillusykur þar til rjóminn er stífþeyttur.
  2. Bætið karamellusósu og karamellukurli saman við með sleikju.
  3. Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið á milli botnanna.
Myndir/Eva Laufey Kjaran

Karamelluglassúr

  • 150 g söltuð karamellusósa
  • 1 – 2 dl flórsykur, magn fer eftir smekk eða eftir því hversu þykkt kremið á að vera fyrir ykkar smekk.

Aðferð:

  1. Blandið sósunni og flórsykrinum saman þar til þið eruð sátt við þykktina, sem má ekki vera of þunn því þá lekur kremið út um allt.

Söltuð karamellusósa:

  • 200 g sykur
  • 4 msk smjör
  • 1 dl rjómi
  • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á pönnu án þess að hreyfa við honum, þegar sykurinn er allur bráðinn bætið þið smjörinu út á pönnuna og hrærið stanslaust. Ágætt að lækka hitann á hellunni í miðlungshita.
  2. Hellið rjómanum því næst saman við og hrærið áfram þar til karamellusósan er orðin slétt og fín. Saltið sósuna í lokin.
  3. Hellið sósunni í skál/krukku og leyfið henni að kólna alveg, hún þykknar um leið og hún kólnar.

Tengdar fréttir

Tólf konur valdar í fjölmiðlaþjálfun

Félag kvenna í atvinnulífinu og Ríkisútvarpið hafa hleypt af stokkunum verkefni til þriggja ára sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.