Rafíþróttir

Úr­slit Fram­halds­skóla­leikanna á morgun: „Þetta snýst ekki um að setjast fyrir framan tölvuna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Einar Kristjánsson, Egill Ploder, Króli og Donna Cruz sjá um umfjöllun frá Framhaldsskólaleikunum í rafíþróttum.
Kristján Einar Kristjánsson, Egill Ploder, Króli og Donna Cruz sjá um umfjöllun frá Framhaldsskólaleikunum í rafíþróttum.

Úrslitaleikur Framhaldsskólaleikanna í rafíþróttum fer fram á morgun þegar MH mætir Tækniskólanum. Keppt verður í þremur tölvuleikjum: FIFA 21, Rocket League og CS:GO. 

Ísak Jón Einarsson er fyrirliði CS:GO-liðs MH og hann fór létt yfir stemninguna fyrir úrslitaviðureignina.

„Framhaldsskólaleikar Rafíþróttasamtaka Íslands eða FRÍS er í rauninni ekkert ósvipuð hugmynd og Gettu betur,“ sagði Ísak í samtali við Vísi. „Þetta er í rauninni tækifæri fyrir framhaldsskóla landsins til að koma saman og keppa í þessum þrem tölvuleikjum.“

Ísak segir að stemningin í skólanum gæti verið meiri, en liðið hafi undirbúið sig vel seinustu daga.

„Það eru í rauninni ekkert margir sem vita af þessu. Við höfum verið að reyna að auglýsa þetta fyrir samnemendum okkar og hvetja fólk til að horfa.“

„Við fylgdumst vel með undanúrslitunum þar sem Tækniskólinn mætti Verzló og höfum aðeins verið að skoða Tækniskólann fyrir úrslitaviðureignina.“

Ísak segir að ýmsir möguleikar séu í boði fyrir rafíþróttir á Íslandi og að Framhaldsskólaleikarnir geti orðið mjög stórir.

„Þetta gæti orðið stærra en Gettu betur ef allt gengur upp. Mér finnst samt líklegra að þetta verði kannski á pari við Morfís eða eitthvað svoleiðis.“

„Það væri frábært að fá inn leiki eins og League of Legends sem hefur verið stór á Twitch mjög lengi,“ sagði Ísak, aðspurður að því hvort hann vildi sjá einhverja fleiri leiki tekna inn í mótið. „Ég hef reynt aðeins fyrir mér þar og það myndi passa vel inn í svona liðakeppni.“

„Mér finnst samt svona Battle Royale eins og Fortnite og PUBG ekki passa inn í þetta. Mér persónulega finnst skemmtilegra að horfa þegar þú þarft að vinna með liði, en ekki sem einstaklingur.“

Rafíþróttafélög hafa undanfarið verið að skjóta upp kollinum undir merkjum hefðbundina íþróttafélaga, og Ísak telur það vera góða þróun.

„Það er frábært að fá þetta inn í íþróttafélögin. Þetta snýst ekki um að setjast fyrir framan tölvuna heldur snýst þetta um að hitta félagana, ekki bara í gegnum netið, heldur hittast í alvörunni. Með því að koma þessu inn í íþróttafélögin ertu kominn með flotta aðstöðu til að hittast og hreyfa þig.“

Bein útsending frá viðureign MH og Tækniskólans hefst annað kvöld klukkan 18:30 á Stöð 2 eSport. Kristján Einar Kristjánsson lýsir og þau Egill Ploder, Króli og Donna Cruz verða sérfræðingar.

Einnig má fylgjast með í beinni útsendingu á Twitch-síðu leikanna.


Tengdar fréttir






×