Skoðun

Ert þú með þrá­hyggju?

Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar

Það er pirrandi að fá eitthvað á heilann en þráhyggja er þó annað og meira en tímabundin heilabrot eða áhyggjur. Þráhyggja vísar til áleitinna og óboðinna hugsana sem koma fólki í uppnám þar sem innihaldið þykir sérlega ógnandi og ógeðfellt. Umhyggjusamt foreldri getur til dæmis séð fyrir sér að það misnoti barnið sitt, hamingjusamlega gift kona að hún haldi framhjá manni sínum og sonur að hann beri banvænan sjúkdóm í foreldrana eða stingi þá með hníf. Eins geta hugsanirnar snúist um samhverfu eða sjúklegar efasemdir um minnstu hluti. Langflestir fá óþægilegar hugsanir annað veifið en taka lítið mark á þeim. Þeir sem þjást af þráhyggju hafa hins vegar af þeim sérstakar áhyggjur, óttast að þær verði að veruleika eða segi eitthvað um innræti. Fólk lætur hins vegar ekki af þessum hugsunum verða því þær eru samkvæmt skilgreiningu óboðnar; það sem fólk vill alls ekki að gerist og í raun það versta sem fólk getur hugsað sér. Þeir sem fá þráhyggju eiga það sammerkt að vera sérlega ábyrgðafullir og siðavandir einstaklingar og því ganga þessar hugsanir mjög nærri þeim.

Þráhyggju fylgir árátta

Þegar fólk fær þessar óþægilegu þráhugsanir reynir það, eðlilega, að afstýra mögulegri ógæfu og bæta líðan sína. Þetta getur verið eitthvað sem fólk gerir í huganum, eins og að rökræða við sig, telja sér trú um að hugsanirnar séu vitleysa, leita hughreystinga annarra og jafna hugsanirnar út. Margir reyna að bæla þær en það hefur öfug áhrif, líkt og að reyna af alefli að hugsa ekki um bleikan fíl. Oft grípur fólk til sýnilegrar áráttu, svo sem að yfirfara hvort allt sé í lagi, þvo hendur endurtekið, fara með bænir, læsa hnífa inni (eins og í tilfelli sonarins) eða forðast að vera einn með börnum (líkt og í tilfelli foreldrisins). Því miður veita árátturnar aðeins skammvinna hugarró og þráhyggjan tekur sig upp aftur. Án meðferðar getur fólk fest í þessum vítahring svo árum eða áratugum skiptir. Vandinn veldur mikilli hugarangist enda telst fólk ekki vera með þráhyggju og áráttu nema svo sé og vandinn hái fólki vandinn valdi uppnámi og hái því á ýmsum sviðum lífsins.

Meðferðin árangursrík

Sem betur fer má ná tökum á þráhyggju og áráttu og ber hugræn atferlismeðferð þar góðan árangur. Þar er farið yfir hvað viðheldur vandanum hjá hverjum og einum og unnið að því að breyta viðbrögðum fólks við þráhyggjunni. Ekki er sama hvernig það er gert enda hafa margir reynt þetta á eigin spýtur með takmörkuðum árangri. Það getur verið erfitt fyrir aðstandendur að skilja hvers vegna fólk „hættir ekki bara þessum áráttum“. Að gera það án nokkurrar þekkingar er líkt og að demba sér í bratta skíðabrekku án þess að hafa nokkru sinni stigið á skíði. Reyndur meðferðaraðili getur útskýrt hvaða lögmálum þráhyggjan lýtur og hvernig bregðast megi öðruvísi við.

Vakin er athygli á afbrigði hugrænnar atferlismeðferðar sem nefnist Fjögurra daga meðferð við þráhyggju og áráttu (Bergen 4-day treatment for OCD) þar sem unnið er á vandanum á fjórum dögum. Meðferðin er veitt í litlum hópum þar sem hver og einn vinnur mestmegnis einslega með sínum sálfræðingi milli þess sem hópurinn kemur saman. Það má líkja þessu við þjálfunarbúðir þar sem reyndir sálfræðingar og þátttakendur leggjast á eitt um að vinna á vanda hvers og eins. Að loknum þessum fjórum dögum vinna þátttakendur markvisst að því að festa breytingarnar í sessi yfir þriggja vikna tímabil. Nú þegar hafa hátt í hundrað manns farið í gegnum meðferðina við Kvíðameðferðarstöðina og birtust árangurmælingar fyrstu hópanna árið 2019 í tímaritinu Clinical Neuropsychiatry. Í stuttu máli er árangurinn sá að tæp 95% eru að lokinni meðferð betri af vandanum og tæp 74% ná góðum (klínískt marktækum) árangri. Þetta er svipaður árangur og náðst hefur með þessu meðferðarformi í Noregi. Þar hafa hátt í 1000 manns sótt meðferðina og benti nýleg eftirfylgdarrannsókn til að árangurinn héldist í fjögur ár hið minnsta. Stærstur hluti þátttakenda nær því árangri með þessum aðferðum á örskömmum tíma. Þetta þýðir þó ekki að fólk fái aldrei aftur óþægilega hugsun eða tilfinningu, en lætur slíkt ekki stýra sér. Um er að ræða krefjandi meðferð þar sem fólk uppsker ríkulega ef leggur sig fram. Aldrei er of seint að leita sér aðstoðar og mikill léttir að losna úr greipum þessa lýjandi vanda.

Höfundur er sálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×