Skoðun

Örlagastund í sóttvörnum

Halldór Auðar Svansson skrifar

Sóttvarnalæknir er búinn að útbúa minnisblað um aðgerðir innanlands og ríkisstjórnin fundar á morgun. Mín tilfinning er að þetta sé einn krítískasti tíminn í baráttunni við veiruna, þar sem upplýsingagjöf hefur verið misvísandi og mikið óþol komið í marga.

Væntingarnar voru orðnar þannig að það myndi ekki þurfa að grípa til aðgerða aftur, sem er að mörgu leyti skiljanlegt. Það hefur vissulega gengið mjög vel að bólusetja hérlendis og það hlýtur að breyta sviðsmyndum töluvert, í ljósi þess að bólusetningar virðast draga mjög úr líkum á því að sýkt fólk veikist alvarlega. Sérfræðingar okkar sem hafa stýrt ferðinni hingað til virðast hins vegar meta stöðuna þannig að það stefni engu að síður í óásættanlegan fórnarkostnað bráðlega ef ekki er stigið aðeins á bremsuna.

Allt þetta þarf að fara vandlega yfir og skapa sameiginlegan og skýran skilning innan ríkisstjórnarinnar á vegferðinni fram undan - og svo þarf að leggja allt kapp á að miðla henni til fólks með skýrum hætti. Hvað þarf að gera og af hverju, hversu lengi það stendur yfir og hvað er hægt að gera til að bæta stöðuna, s.s. aukabóluefni, bólusetja yngri aldurshópa, og svo framvegis.

Föllum ekki í gryfjuna

Það er stutt í kosningar og freistingin til að fara að skapa sér sérstöðu og slá sér upp á henni er meiri en nokkru sinni áður - en ég vona að það fólk sem ber þessa ábyrgð forðist að falla í þá gryfju. Því miður gefur það ekki góð fyrirheit að sú frekar einfalda og nokkuð skiljanlega aðgerð fyrr í vikunni, að skikka bólusett fólk sem og óbólusett til að framvísa neikvæðri skimunarniðurstöðu við landamærin, olli ein og sér miklum titringi á stjórnarheimilinu og það er eins og það hafi komið mjög flatt upp á sum þar að þurfa að standa í þessu.

Vonandi mun dagurinn í dag gefa andrými til þess að hægt sé að gera betur. Algjörlega óásættanlegasta niðurstaðan væri það sem okkur hefur verið boðið upp á undanfarið þessa viku, eitthvað hálfkák um að styðja við aðgerðirnar en samt eiginlega ekki, og nennuleysi þeirra sem bera þessa ábyrgð gagnvart því að setja sig almennilega inn í hvað er í gangi.

Höfundur skipar þriðja sæti á lista Pírata í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×