Skoðun

Við erum öll hinsegin

Viðar Eggertsson skrifar

Það eru ekki einungis forréttindi að fá að eldast, heldur líka forréttindi að fá að eldast í jafn framsæknu samfélagi og Íslandi. Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan ég var barn og unglingur. Miklar framfarir hafa átt sér stað í réttindum kvenna, réttindum barna, réttindum hinsegins fólks og trans-fólks. Og ég hef verið svo heppinn að hafa verið hluti af þeirri vegferð þó það hafi ekki alltaf verið auðvelt.

Það sem við gleymum oft í umræðunni um hinsegin málefni er hvernig það er að eldast sem hinsegin manneskja.

Hvaða ráðstafanir þurfum við að gera? Og hvað - með fólk sem er að viðurkenna fyrir fjölskyldu og vinum núna, mjög seint á lífsleiðinni að „koma út úr skápnum" eins og við kölluðum þetta í denn.

Hinsegin eldri borgarar í dag hafa oft þurft að taka á sig byrðar og ójöfn tækifæri. Orðið fyrir aðkast og hverskyns misrétti. Hópur sem hefur haldið stoltur uppi merki réttlætis og mannréttindabaráttu.. Þetta er hópur fólks sem er kannski lítill í stóra samhenginu, en er fólkið sem barðist fyrir réttindum þínum til þess að fá að vera þú. Viljum við ekki öll fá að vera við sjálf?

Fjölbreytileikinn er fallegur og við í Samfylkinginunni viljum að það sé fallegt að eldast - líka sem hinsegin manneskja.

Það gerist ekki nema við aukum jöfnuð, styðjum við hinsegin málefni - og síðast en ekki síst: Aukum við stuðning fyrir eldri borgara, líka hinsegin eldri borgara.

Hinsegin fólk er á öllum aldri, og það hvernig við tökum fyrsta skrefið í þessum málefnum er það sem skiptir máli.

Við skiptum öll máli. Hvort sem við erum svona eða hinsegin. Við eigum samleið því öll erum við einstök.

Við eigum samleið um betra líf fyrir okkur öll. Við erum öll hinsegin – á einn eða annan hátt.

Höfundur er leikstjóri, hommi, eldri borgari og í 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×