Rafíþróttir

Nýr þjóðarleikvangur rafíþrótta á Íslandi opnaði í vikunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nýr þjóðarleikvangur rafíþrótta á Íslandi, Arena, opnaði síðastliðinn fimmtudag.
Nýr þjóðarleikvangur rafíþrótta á Íslandi, Arena, opnaði síðastliðinn fimmtudag. Mynd/ArenaGaming.is

Síðastliðinn fimmtudag opnaði rafíþróttahöllin Arena í turninum í Kópavogi, en um er að ræða nýjan þjóðarleikvang rafíþrótta á Íslandi. Arena býður upp á frábæra aðstöðu til rafíþróttaiðkunnar, sem og tölvuleikjaspilunnar.

Hvort sem að um er að ræða tölvuleikjaspilara í leit að afdrepi til að spila í rólegheitum í flottri aðstöðu, eða rafíþróttalið sem stefnir hátt og lætur aðeins bjóða sér það besta, geta allir fundið sér eitthvað við sitt hæfi á Arena.

Boðið er upp á fyrsta flokks aðstöðu á staðnum þar sem að allar PC-tölvurnar eru af nýjustu gerð og á Arena má einnig finna PlayStation 5 tölvur. Hægt er að leigja sali fyrir hópa með PC-tölvum og VIP-herbergi með PlayStation 5 tölvu.

Á Arena verður einnig hægt að panta sér veitingar í fljótandi og föstu formi af veitingastaðnum Bytes sem er samtengdur staðnum.

Sigurjón Steinsson, framkvæmdarstjóri Arena, sagði í samtali við mbl.is að fyrstu gestirnir hafi verið virkilega ánægðir með aðstöðuna.

„Það gekk ótrú­lega vel í gær. All­ir sem komu voru ánægðir með aðstöðuna og búnaðinn sem við bjóðum uppá. Fólk er ennþá að upp­gvöta staðinn og við bú­umst við því að það verði mikið að gera í dag og um helg­ina.“

„Við hlökk­um til að leyfa fólki að prófa og erum spennt að taka á móti gest­um. Við miðum að því að búa til vina­lega og skemmti­lega stemn­ingu fyr­ir all­an ald­ur og eru all­ir vel­komn­ir,“ sagði Sigurjón.

Einnig eru á döfinni margir viðburðir hjá Arena, svo sem mót í mismunandi tölvuleikjum og einnig verður hægt að horfa á heimsmeistaramótið í League of Legends á staðnum. Riðlakeppni heimsmeistaramótsins hefst einmitt á morgun.






×