Rafíþróttir

Heimsmeistararnir þurftu oddaleik til að tryggja sér sæti í úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liðsmenn DWG KIA fögnuðu vel og innilega þegar ljóst var að þeir eru á leið í úrslit annað árið í röð.
Liðsmenn DWG KIA fögnuðu vel og innilega þegar ljóst var að þeir eru á leið í úrslit annað árið í röð. Lance Skundrich/Riot Games Inc. via Getty Images

Ríkjandi heimsmeistarar í DWG KIA þurftu oddaleik til að tryggja sér sæti í úrslitum Heimsmeistaramótsins í League of Legends er liðið mætti gamla stórveldinu T1 í Laugardalshöll í dag. DWG KIA lenti 2-1 undir, en þetta voru fyrstu tvö töp liðsins á mótinu.

Fyrsti leikur liðanna var endaði með nokkuð öruggum sigri heimsmeistaranna. Liðið náði ágætis forystu eftir rúmlega tíu mínútna leik og sú forysta jókst smám saman þangað til að DWG KIA sigraði eftir tæplega 29 mínútna leik.

Annar leikur liðanna var mun jafnari en sá fyrsti. T1 náði smávægilegu forskoti eftir um 15 mínútna leik, en það forskot var þó alls ekki nóg til að hægt væri að segja að T1 hefði nokkra yfirburði í leiknum. Eftir 25 mínútna leik var allt jafnt, en þá fóru leikmenn T1 hægt og rólega að taka yfir.

T1 tók svo algjöra stjórn á leiknum eftir rúmlega 35 mínútur þegar liðið stal Baron af DWG KIA og eftir það var ekki aftur snúið. T1 varð því fyrsta liðið til að vinna leik gegn ríkjandi heimsmeisturum á þessu móti, en DWG KIA hafði unnið alla tíu leiki sína fram að þessu.

Íþriðju viðureign liðanna höfðu liðsmenn DWG KIA smávægilegt forskot fyrstu tuttugu mínútur leiksins. T1 sýndi þolinmæði og náði forystunni og tíu mínútum síðar höfðu þeir byggt upp gott forskot. Eftir 38 mínútna leik var sigurinn þeirra og T1 þurfti því aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í úrslitum.

Fjórði leikur liðanna var virkilega jafn fyrstu mínúturnar, en fljótlega fóru liðsmenn DWG KIA að taka yfir, og þá sérstaklega þeirra besti maður, Showmaker. Eftir rúmlega tuttugu mínútna leik var brekkan orðin ansi brött fyrir T1, og fimm mínútm síðar virtist hún óyfirstíganleg.

Það reyndist rétt og DWG KIA sigraði eftir um hálftíma leik, og tryggðu sér um leið oddaleik um sæti í úrslitum þheimsmeistaramótsins.

Oddaleikurinn bauð upp á mikla spennu, sem betur fer fyrir hlutlausa aðdáendur League of Legends. Liðin héldust nokkurn vegin í hendur lengi vel, en DWG KIA virtist þó vera skrefi á undan eftir um tuttugu mínútna leik.

Tæpum tíu mínútum síðar tóku þeir sinn fjórða dreka, og þar með drekasál, og því ljóst að DWG KIA hafði yfirhöndina. Örfáum mínútum síðar virtust þeir vera búnir að vinna leikinn, en þrír meðlimir T1, Oner, Keria og Gumayusi, björguðu liðsfélögum sínum fyrir horn, og gamla stórveldið fékk því nokkrar mínútur í viðbót til að snúa leiknum sér í hag.

Eftir rúmar 35 mínútur af League of Legends náðu liðsmenn DWG KIA þó Elder Dragon, og í kjölfarið af því var leikurinn búinn fyrir T1. Eftir hetjulega baráttu voru þeir úr leik, en ríkjandi heimsmeistarar eru komnir í úrslit þar sem þeir fá tækifæri til að verja titilinn næstkomandi laugardag gegn annaðhvort Edwarg Gaming eða Gen.G.

Seinni undanúrslitaviðureginin fer fram á morgun en þá mætast einmitt Edward Gaming og Gen.G. Líkt og áður veðrur hægt að fylgjast með viðureigninni í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport frá klukkan 12:00.






×