Dusty vann Þór í hörðum toppslag Vodafonedeildarinnar

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Dusty Þór

Það er ekki ofsögum sagt að beðið hafi verið eftir viðureign Dusty og Þórs allt frá því að Þór sýndi að þeir ætluðu sér stóra hluti í Vodafonedeildinni á þessu tímabili. Bæði liðin höfðu verið taplaus fram að þessu og myndi leikurinn því skera úr um hvort liðið gæti tyllt sér einsamalt á topp deildarinnar. Allir leikmenn Þórs, ef frá er talinn Rean, hafa áður leikið undir merkjum Dusty og höfðu því mikið að sanna. Þar að auki átti StebbiC0C0, stjörnuleikmaður Dusty í fyrra, harma að hefna en fyrir tímabilið var honum sparkað úr Dusty og Midgard kom í hans stað. Það var því ekki bara toppsætið sem var undir á föstudaginn heldur þurfti líka að útkljá ýmis mál.

Það kom ekki á óvart að liðin skildu kjósa að mætast í háloftakortinu Vertigo, enda bæði lið því korti vel kunnug og hentar það leikstíl beggja. Þórsarar fóru illa með Dusty í hnífalotunni og kusu að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Dusty gerði sér hins vegar lítið fyrir, vann fyrstu skammbyssulotuna og næstu tvær í kjölfarið. Útlitið var ekki gott í upphafi fjórðu lotu þegar StebbiC0C0 komst á vappann en var umsvifalaust felldur af sínum gamla liðsfélaga Thor. Engu að síður tókst Þórsurum að halda uppi vörnum og rann Eddezennn því út á tíma einn gegn tveimur. Thor átti frábæra lotu eftir það og felldi fjóra, en það dugði ekki til og voru Þórsarar því heldur betur farnir að klóra í bakkann. Framan af komst Dusty í örlítið forskot sem Þórsarar voru fljótir að jafna, en Dusty lét það ekki flækjast fyrir sér þó efnahagurinn væri á stundum slæmur og lauk fyrri hálfleik á sannfærandi hátt. Munaði þar mestu um að Dusty felldu feliri andstæðinga og voru duglegri að svara þegar þeirra leikmenn féllu.

Staða í hálfleik: Dusty 9 - 6 Þór

Þór jafnaði aftur á móti metin strax í upphafi síðari hálfleik og var leikurinn því enn í járnum, bæði lið staðráðin í að sigra og gefa ekkert eftir. Dusty stillti þá upp þéttri vörn og Midgard nældi sér í ás í tuttugustu lotu til að sýna og sanna að Dusty þyrfti ekki að sjá á eftir StebbaC0C0. Glæsileg tilþrif sáust í síðari hálfleik þar sem Rean bjargaði lotu fyrir horn með því að fella þrjá úr afar erfiðri stöðu en á móti sýndu Dusty enga virðingu og sigldu fram úr á lokametrunum.

Lokastaða: Dusty 16 - 13 Þór

Eftir afar jafnan og spennandi leik stóðu Dusty því uppi sem sigurvegarar. Þeir eru því eina liðið sem á möguleika á að fara í gegnum fyrsta hring tímabilsins án þess að tapa leik og hafa sýnt að þrátt fyrir brotthvarf StebbaC0C0 er liðið sterkara en nokkru sinni fyrr. Í næstu umferð mætir liðið Vallea, föstudaginn 26. nóvember. Þórsarar geta þó borið höfuðið hátt og það er aldrei að vita hvað gerist þegar liðin mætast aftur í næsta hring. Þór á auðveldan leik fyrir höndum þriðjudaginn 23. nóvember þegar liðið tekur á móti Kórdrengjum. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir