Lið Bónda uppskar eins og það sáði

Snorri Rafn Hallsson skrifar
bóndi

Leikur Dusty og Breiðabliks fór fram í Inferno og vann Furious hnífalotuna fyrir Breiðablik. Breiðablik hóf því leikinn í vörn (Counter-terrorists) á meðan Dusty sótti.

Það þykir oft betra að byrja í vörn en Dusty kláraði skammbyssulotuna auðveldlega. Dusty hélt hópinn í rólegum aðgerðum sínum framan af leik sem skilaði Bónda og félögum fjölmörgum fellum og rústaði efnahagi Breiðabliks.

Dusty hafa átt það til að taka lakari lið ekki nógu alvarlega en í þetta skiptið mættu þeir af fullum krafti allt frá upphafi, gáfu engin færi á sér og þutu fram úr andstæðingnum. Thor stóð sig vel á vappanum en Bóndi sótti flestar fellur.

Breiðablik átti ekki séns í fyrri hálfleik og fyrsta stig liðsins kom ekki fyrr en í fjórtándu lotu þegar Lilleehh og Furious áttu góða fléttu til að aftengja sprengjuna.

Staða í hálfleik: Dusty 13 – 2 Breiðablik

Sóknarleikur Breiðabliks var öllu skárri en varnarleikurinn en því miður var það of til of mikils mælst að ætla að vinna leikinn á því. Meðalfjöldi fella hjá leikmönnum Breiðabliks var 11,4 á meðan Dusty var með 18,4 fellur að meðaltali. Bóndi var þar fremstur í flokki með 26 en það var einmitt hann sem innsiglaði sigur Dusty með því að fella Víruz.

Lokastaða: Dusty 16 – 6 Breiðablik

Næstu leikir liðanna:

  • Viðstöðu – Dusty, þriðjudaginn 20/9, kl 19:30
  • Ármann – Breiðablik, fimmtudaginn 22/9, kl 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Leikirnir