Skoðun

Nei, veiði­gjöld eru ekki að hækka!

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Ríkisstjórnin eru ekki að hækka veiðigjöld þó annað megi lesa úr umræðunni. Bara alls ekki og þvert á móti. Þau eru að bæta stöðu fjárlaga fyrir næsta ár með því fresta lækkun veiðigjalda og dreifa henni á næstu 5 ár þar á eftir.

Í miðjum Covid faraldri samþykkti Alþingi lög sem fólu í sér tímabundinn skattaafslátt fyrir fyrirtæki vegna fjárfestinga í atvinnurekstri. Markmiðið var að halda efnahagslífinu gangandi á tímum mikillar óvissu. Jákvætt og verðugt markmið. En nú er komið á daginn að þessir viðspyrnustyrkir komu ekki eingöngu til lækkunar á tekjuskatti fyrirtækja, heldur einnig til lækkunar á veiðigjöldum stöndugustu útgerðarfélaga landsins.

Það þarf ekki að vera að ætlunin hafi verið að lækka veiðigjöldin. Mögulega hafi stjórnvöldum hafi þótt nóg að lækka tekjuskattinn á útgerðina eins og önnur fyrirtæki í miðju Covid fári enda ekki fyrirséð að tekjur sjávarútvegsins myndu aukast í faraldrinum. Kannski kom málið raunverulega fyrst upp þegar verið var að fara með stækkunargleri yfir alla mögulega tekjupósta ríkisins til að bæta afspyrnu léleg fjárlög næsta árs. Þá hafi komið upp hugmyndin um að fresta lækkuninni. Takast á þann vanda síðar. Fá veiðigjöld upp á 9,5 milljarða í stað 7 milljarða í fjárlög 2023, og lækka svo á móti vænt veiðigjöld næstu 5 ár um hálfan milljarð hvert ár.

Nú er Alþingi með boltann. Ber ábyrgðina á því að afgreiða á örfáum dögum sérstakt frumvarp til breytingar á veiðigjöldum svo hægt verði að fresta þeirri lækkun sem varð til sem aukaafurð mótvægisaðgerða stjórnvalda vegna Covid. Samþykki Alþingi breytinguna er ekki verið að hækka veiðigjöld, bara fresta lækkuninni til að bæta fjárlög næsta árs.

Það er ekki lögmál að gjaldtaka fyrir afnot af þjóðarauðlindinni okkar byggi á mjög ógegnsæjum útreikningum og sé háð því hvernig vindar blása í pólitíkinni hverju sinni. Og það er ekki heldur lögmál að það séu stjórnvöld en ekki markaðurinn sem ráði því hvert verðmætið er.

Viðreisn hefur frá stofnun sinni lagt mikla áherslu á breytta nálgun í sjávarútvegsmálum. Tímabinding veiðiheimilda er grundvöllur þess að tryggja eignarrétt almennings á sjávarauðlindinni og þess að hægt sé að fá eðlilegt og sanngjarnt verðmat á eigninni með markaðsleiðinni. Skýr tíma­bund­inn af­nota­rétt­ur há­mark­ar þjóðhags­lega hag­kvæmni veiðanna auk þess að end­ur­spegla með ótví­ræðum hætti eign­ar­rétt þjóðar­inn­ar. Af hverju eiga einhver önnur markmið að ráða hér för?

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×