Sjóðheitur Stalz stal 4. sætinu af Breiðabliki

Snorri Rafn Hallsson skrifar
stalz

Breiðablik tryggði sér hnífalotuna og byrjaði í vörn, og strax í skammbyssulotunni náðu þeir að fella alla leikmenn LAVA og aftengja sprengjuna án þess að missa mann. LAVA svaraði um hæl með flottum fellum við gosbrunninn og tengdi saman fjórar lotur til að tryggja sér forystuna sem liðið hélt í gegnum allan hálfleikinn. Það stóð þó tæpt í fimmtu lotu en J0n beitti vappanum vel til að fæla Blikana frá sprengjunni. 

Eftir þetta skiptust liðin á lotum, LAVA sprengdi sprengjuna en Breiðabliki tókst lystilega að láta tímann renna út tvisvar og minnka muninn úr 8–3 í 8–6 undir lok hálfleiks með.

Staðan í hálfleik: LAVA 9 – 6 Breiðablik

Blikum tókst að jafna í fyrsta sinn í leiknum í upphafi síðari hálfleiks enda höfðu leikmenn liðsins aldrei gefist upp. LiLLehh var einn gegn þremur í skammbyssulotunni og hafði betur á sprengjusvæði A. WNKR og Sax voru einnig á góðu róli og hvergi af baki dottnir. LAVA svaraði með gallalausri lotu þar sem TripleG felldi þrjá, en Blikar jöfnuðu í 10–10 um hæl. 

Þá upphófst fimm lotu runa LAVA sem tryggði þeim forskotið á ný. Hún hófst á tvöfaldri fellu frá TripleG sem Stalz og Instant fylgdu eftir og lauk með þrefaldri fellu Stalz sem hafði skotið sig efstan á blað. Breiðablik náði þá tveimur lotum til viðbótar en útslagið gerði þreföld fella frá J0ni og lokaði Stalz leiknum með því að fella WNKR í 28. lotu.

Lokastaða: LAVA 16 – 12 Breiðablik

Með sigrinum komst tók LAVA fjórða sætið af Breiðabliki og er miðjan í deildinni nú orðin mjög þétt setin.

Næstu leikir liðanna:

  • FH – LAVA, þriðjudaginn 17/1 kl. 19:30
  • Breiðablik – TEN5ION, þriðjudaginn 17/1 kl. 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir