Skoðun

Fram­boð­stil­kynning til for­seta

Gunnar Ásgrímsson skrifar

Nú þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hefur gefið út að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs til forsetaembættisins, þá hef ég eftir samráð við mína nánustu og margar áskoranir tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til forseta.

Svona gæti tilkynning frá einhverjum stjórnarmanna okkar í Sambandi ungra Framsóknarmanna hljómað ef ekki væri fyrir það smáatriði að í stjórnarskrá Íslands er ungu fólki, undir 35 ára aldri, óheimilt að bjóða sig fram til forseta.

Auk 35 ára aldurs eru ekki margar kröfur gerðar til forsetaframbjóðanda. Íslenskur ríkisborgararéttur, kosningaréttur og 1500 meðmæli. Hvorki er gerð krafa um fasta búsetu á Íslandi né hreint sakavottorð. Væri ekki heldur ráð að viðhalda virðingu embættis þjóðhöfðingja með því að gera kröfu um meira en 1500 meðmæli frekar en að meina kosningabærum, löghlýðnum skattgreiðendum frá því að bjóða fram krafta sína?

Við í Ung Framsókn höfum ekki enn heyrt sannfærandi rök fyrir því að meina ungu fólki að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Það sama unga fólk getur verið kjörið í sveitarstjórnir, til Alþingis og jafnvel gegnt stöðu ráðherra. Yngri einstaklingur gæti því verið handhafi forsetavalds í fjarveru forseta, þar sem ekki er sett slík aldurstakmörkun á embætti forsætisráðherra eða forseta Alþingis.

Í stefnu Framsóknar í stjórnskipunar- og alþjóðamálum, sem var samþykkt á flokksþingi 2021 segir “Þá vill Framsókn að […] Öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur“, einnig hefur Ung Framsókn ályktað “Ungt Framsóknarfólk vill að öll aldurstengd réttindi fullorðinna verði endurskoðuð eftir 18 ára aldur með það í huga að afnema aldurstakmarkanir”.

Krefjumst við í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna að við allar framtíðarendurskoðanir á stjórnarskrá verði unnið að því að fella niður þessa reglu.

Það er óásættanlegt að í nútíma lýðræðisríki séu settar fram slíkar hindranir í veg fólks sem hyggur að forsetaframboði, sem virðast aðeins byggðar á aldursfordómum. Treystum íslensku þjóðinni til þess að meta hæfi frambjóðenda sjálf á kjörstað, hún hefur staðið sig vel í því verkefni til þessa.

F.h Sambands ungra Framsóknarmanna.

Höfundur er formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×