Skoðun

Tákn­myndir páskanna og náttúru­vernd

Sigurvin Lárus Jónsson skrifar

Táknmyndir páskanna benda á sigur lífsins andspænis valdi dauðans, á lífið sem birtist í eggi og unga, í fyrstu blómum vorsins og í frjósömum hérum.

Við upphaf 21. aldar hefur boðskapur píslarsögunnar aldrei verið brýnni. Mannkynið hefur á ógnarhraða byggt upp stóriðnað, landbúnað og búsetu um allan heim á kostnað svæða sem varðveita tegundafjölbreytni og vistkerfi jarðar.

Á Íslandi birtist þetta í ósjálfbærum veiðum, ofbeit sauðfjár og ræsingu votlenda og erlendis með eyðingu skóga og svæða, þar sem villt dýr hafa heimkynni sín. Arðrán okkar verður aldrei að fullu bætt og komandi kynslóðir koma til með að greiða fyrir þann skaða sem við höfum unnið frá iðnbyltingu á vistkerfi jarðar.

Útdauðar tegundir plantna og dýra munu ekki snúa aftur, en eins og upprisan fylgdi krossdauða Krists,finnur náttúran nýjar leiðir til að blómstra ef að henni er hlúð. Fiskveiðistjórnunarkerfi geta verndað fiskistofna, uppgræðsla skilar árangri gegn jarðvegsrofi og þegar votlendi er endurheimt skila fuglategundir sér að einhverju marki til baka.

Páskarnir eru hátíð lífs og vonar, sem sprettur af brýnni áminningu um að manneskjan er í eðli sínu breysk. Samfélag okkar er eins og píslarsagan í því það býður ekki upp á annað en svik, að brenna jarðolíu, henda plasti og eignast hluti sem framleiddir eru á kostnað lífríkisins, en með því að setja lífið í forgrunn, að skipta mannmiðlægni út fyrir líf- og vistkerfismiðlægni getum við endurheimt aldingarð.

Ef við gerum það mun lífið á ný finna sér farveg og upprisan blómstra í páskaliljum, eggjum og ungum og öllu því sem minnir á undur lífríkisins.

Gleðilega hátíð lífsins, gleðilega páska.

Höfundur er prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×