Skoðun

Sam­keppni í sjó­flutningum – hvað gerist næst?

Ólafur Stephensen skrifar

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa síðastliðið haust og háar sektir, sem lagðar hafa verið á Samskip og Eimskip fyrir ólögmætt samráð, vöktu mikla athygli. Sama má segja um úttekt, sem Analytica vann fyrir Félag atvinnurekenda, VR og Neytendasamtökin um samfélagslegt tjón af samráðinu. Niðurstaðan var að það væri samtals 62 milljarðar króna á verðlagi síðasta árs.

Aðgerðir stjórnvalda skipta máli

Tilmæli Samkeppniseftirlitsins um næstu skref í málinu hafa ekki fengið eins mikla athygli, en skipta þó fullt eins miklu máli hvað það varðar að efla samkeppni í flutningum og sjá til þess að virkt samkeppnisumhverfi skili íslenzku atvinnulífi og neytendum þeim ávinningi, sem frjáls samkeppni gerir alla jafna. Samráðið og sektirnar eru mál sem er í fortíðinni og við lærum vonandi af, en aðgerðir stjórnvalda og fyrirtækja til að koma á heilbrigðri samkeppni skipta öllu fyrir framtíðina.

Eitt algengasta umkvörtunarefni félagsmanna í Félagi atvinnurekenda er hár flutningskostnaður, ógegnsæ verðskrá stóru skipafélaganna, þar sem nýjum gjöldum er iðulega skellt á án fullnægjandi rökstuðnings, og ónóg samkeppni í flutningum til og frá landinu. Fyrir samfélagið allt er virk samkeppni á þessu sviði gríðarlegt hagsmunamál. Fá fyrirtæki í landinu eru óháð flutningskostnaði og sá kostnaður vegur þyngra í vöruverði hér á landi en víða annars staðar.

FA fylgir eftir áliti Samkeppniseftirlitsins

FA hefur þess vegna lagt áherzlu á að fylgja eftir tilmælum Samkeppniseftirlitsins til stjórnvalda frá því í byrjun september sl. Áliti SE var beint til innviðaráðherra, Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna. Hvað Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir varðar, snúa tilmælin einkum að því að tryggt verði að nýir og minni aðilar geti fengið aðstöðu og viðeigandi þjónustu í Sundahöfn og eftir atvikum öðrum höfnum, sem geri þeim kleift að keppa án mismununar við stærri aðila í sjóflutningum. Tilmælin til innviðaráðherra snúa að því sama, auk þess að ráðherra hugi að aðgerðum sem hann hefur á valdi sínu til þess að efla samkeppni í landflutningum og skapa aukið aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum.

FA sendi Reykjavíkurborg, Faxaflóahöfnum og Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra erindi um miðjan október og óskaði svara um til hvaða ráðstafana þessir aðilar hefðu gripið í framhaldi af áliti SE og hvort einhver vinna hefði verið sett í gang. Þá var spurt hver stefna þessara aðila væri varðandi skipulag og rekstur Sundahafnar með tilliti til samkeppnismála og aðgangs keppinauta stóru skipafélaganna að hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu. Ráðherra var jafnframt spurður út í stefnu sína varðandi aðgerðir til að efla samkeppni í landflutningum og til að auka aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum. Allir viðtakendur erindisins voru beðnir um að gera grein fyrir tímaramma þeirra aðgerða, sem þeir hyggjast ráðast í.

Jákvæð viðbrögð frá borgar- og hafnaryfirvöldum...

FA og fleiri samtök, sem hafa látið sig málið varða, hafa fengið jákvæð viðbrögð frá bæði Reykjavíkurborg og Faxaflóahöfnum. Snemma í janúar voru fulltrúar FA, VR og Neytendasamtakanna boðaðir á fund með borgarstjóranum í Reykjavík, hafnarstjóra og stjórnarformanni Faxaflóahafna og þar kom fram skýr vilji til að breyta rekstrarmódeli Faxaflóahafna þannig að Eimskip og Samskip reki ekki skipaafgreiðsluna, heldur verði það hafnirnar sjálfar eða óháður þriðji aðili. Fram kom á þeim fundi að slík breyting væri bæði flókin og tæki langan tíma en markmiðið væri skýrt; að tryggja opna samkeppni.

Sömu samtök voru boðuð á fund borgarráðs Reykjavíkur í síðustu viku og óhætt er að segja að þar hafi verið ítrekaður vilji borgar- og hafnaryfirvalda til að gera breytingar, sem muni efla samkeppni í Sundahöfn.

... og innviðaráðuneytið vinnur í málinu

Í framhaldi af fundinum með borgarráði var erindið til innviðaráðherra ítrekað og svör bárust um hæl, um að ráðuneytið hefði fundað með Samkeppniseftirlitinu um tilmælin til ráðherra. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið taki alvarlega þau sjónarmið sem komi fram í áliti SE og leiti nú leiða til að koma til móts við þau. Ráðuneytið telji ekki tímabært að upplýsa um endanleg viðbrögð við áliti Samkeppniseftirlitsins en sú vinna sé yfirstandandi og lagt upp með að klára greiningu og stefnumótun vegna málsins fljótlega.

Taka skipafélögin þátt í breytingum eða þvælast fyrir?

Segja má að hinar svimandi háu tölur í úttekt Analytica, sem nefnd var hér í upphafi, varpi ljósi á það hversu gríðarlegan hag samfélagið allt, bæði fyrirtæki og neytendur, hefur af því að hér sé virk samkeppni á flutningamarkaði. Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum Samkeppniseftirlitsins skipta því miklu máli.

Stóru skipafélögin, Eimskip og Samskip, ættu að taka þátt í þeim breytingum sem Samkeppniseftirlitið leggur til, vinna með stjórnvöldum og gera sitt til að hraða breytingunum en ekki að þvælast fyrir þeim. Það er raunar eina leið þessara fyrirtækja til að endurheimta orðspor sitt og viðskiptavild.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×