„Það er einmanalegt að missa móður“ Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar 27. apríl 2024 07:00 Unnur Birna J. Backman ræddi við blaðamann um leiklistina, lífið sitt, sorgina, jákvæða þróun á sambandi við sjálfa sig, flutninga erlendis og margt fleira. Vísir/Vilhelm „Ég ætlaði alls ekki í leiklist. Þú getur samt aldrei flúið frá kölluninni og þér sjálfri, úr hverju þú ert og við hvað þú elst upp. Maður er nú genasamsetning foreldra sinna,“ segir leikkonan Unnur Birna J. Backman. Unnur er dóttir Eddu Heiðrúnar Backman heitinnar og Jóns Axels Björnssonar myndlistarmanns og er alin upp í kringum mikla list. Hún ræddi við blaðamann um móðurmissinn, uppeldið, leiklistina, stöðuga þróun á sjálfri sér, hvernig hreyfing bjargaði lífi hennar og margt fleira. Opið og orkumikið barn Í barnæsku ólst Unnur upp við að fara í leikhúsið með mömmu hennar. „Ég var mjög opið barn, það var svakaleg orka í mér og mig langaði stöðugt að vera að syngja og dansa. Ég var alltaf að setja upp litlar sýningar heima og ég þreifst vel í því umhverfi; með áhorfendur. Ég er líka alin upp á afar listrænu heimili og maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað það er mikil gjöf að fá að vera svona mikið í kringum listina. Í dag átta ég mig á því að það er ekkert sjálfsagt.“ Fjölskyldan bjó í stóru timburhúsi í Skerjafirði sem foreldrar Unnar gerðu upp saman og lýsir hún því sem ævintýralegu umhverfi. „Pabbi var með vinnustofuna sína í kjallaranum og mamma var alltaf í leikhúsinu. Svo á ég tvö systkini sem eru átta og níu árum eldri en ég. Við áttum stóran garð og ég man vel eftir mömmu að gera blómin fín.“ Unnur átti ævintýraleg uppvaxtarár í Skerjafirðinum. Vísir/Vilhelm Dauðinn stöðugt yfirvofandi Í æsku sá Unnur framtíðina fyrir sér í leikhúsinu en það breyttist þó. Móðir hennar greindist með sjúkdóminn MND þegar að Unnur var fimm ára gömul og við tók mikil óvissa í lífi fjölskyldunnar. „Þetta var svo sérstök staða. Mamma var virkilega orkumikil en hún veikist þegar að ég er bara rétt að byrja í grunnskóla. Það er svo margt sem dettur út og þú áttar þig ekki alveg á því, því þetta er bara þinn raunveruleiki. Ég á miklu færri minningar af henni gangandi en í hjólastól. Það vantar í raun alla snertinguna, faðmlögin, þú missir þetta allt sem er svo mikilvægt á uppvaxtarárunum. Mamma elskaði að hreyfa sig, syngja, leika og dansa en allt þetta var tekið frá henni. Án þess að hafa fattað það almennilega tóku veikindin algjörlega yfir allt. Fjölskyldukjarninn var ekki sá sami og fókusinn fór í að hugsa um manneskju sem var alltaf að veikjast meira og meira.“ Mæðgurnar Edda Heiðrún og Unnur Backman. Aðsend Út frá því segir Unnur að hugmyndin um leiklistina hafi fjarlægst henni. Mamma hennar fór meðal annars yfir í að leikstýra, opnaði súkkulaði- og blómabúð, byrjaði að mála með munninum og var að sögn Unnar mjög nösk á að finna sér hluti sem veittu henni innblástur og hamingju þrátt fyrir veikindin. „Mamma greindist með MND árið 2002, fyrir 22 árum. Bróðir hennar veiktist úr sama sjúkdómi og lést sama ár og ég fæddist, 1998. Hann var ranglega greindur með krabbamein fyrst, það var nefnilega svo lítið vitað um þennan sjúkdóm á þessum tíma. Læknarnir gátu ekki gefið mömmu nein nákvæm svör. Maður vissi aldrei hvað yrði, hvort hún myndi falla frá eftir tvö ár, fjögur ár eða eitthvað annað. Síðan þá hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar og í dag er sagan allt önnur. En þarna vissum við fjölskyldan ekkert og vorum í rauninni í algjöru stjórnleysi. Ég lokaðist þar af leiðandi meira. Þegar dauðinn er yfirvofandi alla þína barnæsku er svolítið flókið að átta sig á því hvernig manni raunverulega líður; að eiga veikt foreldri var bara minn raunveruleiki og ég var ekki með neitt viðmið. Þetta brýst oft út í alls konar skrýtnu, eins og að vilja hafa stjórn á öllu frá A-Ö í kringum þig.“ Unnur segir að hún hafi þróað með sér mikinn frammistöðukvíða og vildi hafa stjórn á öllu í kringum sig þar sem hún gat ekki haft stjórn á veikindum móður sinnar. Vísir/Vilhelm Nokkur skref aftur á bak eftir þúsund skref áfram Unnur þróaði með sér mikinn frammistöðukvíða og vildi stöðugt standa sig vel. „Ég vildi hafa stjórn á því sem ég gat haft stjórn á þegar ég hafði enga stjórn á því sem var að gerast við mömmu. Ég get til dæmis talið á annarri hendi hversu oft ég var skömmuð af kennurum í skóla. Ég var algjörlega miður mín þegar ég var skömmuð. Það var aldrei neitt sem hvatti mig til að taka áhættu. Ég hef alltaf verið passasöm, forðast óþarfa sársauka og hef til dæmis aldrei brotið bein.“ Það er því krefjandi fyrir Unni að leyfa sjálfri sér að gera mistök sem eru þó svo mikill partur af tilverunni. „Ég held að það hafi verið mesta áskorunin fyrir mig í leiklistarnáminu. Ég þurfti alltaf að gera allt eins fullkomið og ég gat en leiklistin skarast á við það. Það lögmál virkar ekki í listinni yfir höfuð. Það er aldrei hægt að segja að eitthvað sé fullkomið listaverk.“ Hún hefur því unnið að þessu undanfarin ár og segist leggja upp úr því að reyna að verða betri við sig sjálfa. Það hefur verið áskorun að leyfa sér að gera mistök og vita að það gerist ekkert hræðilegt þó svo að eitthvað gangi ekki upp. „Það býr alveg rosalegur, rótgróinn kvíði um að gera mistök innra með mér og ég er búin að vera að tækla hann undanfarin ár. Það gengur mikið betur að gera mistök í dag, ég á alveg mín móment samt. Maður tekur alltaf nokkur skref aftur á bak eftir þúsund skref áfram, það er allt í lagi.“ Listræni áhuginn kviknaði snemma hjá Unni þó svo að hún hafi fjarlægst hann um tíma. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá henni undanfarin ár og segir hún sömuleiðis mikilvægt að vita að það sé í lagi að taka nokkur skref aftur á bak eftir fjöldamörg skref áfram. Aðsend Húmorinn haldreypi Unnur hefur tekið þátt í ýmsum sjónvarpsverkefnum eftir útskrift og segir hún það hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Sem dæmi fór hún með hlutverk í þáttunum Aftureldingu, Skvíz og Svörtu Söndum II en hún hefur einnig lesið fjölda hljóðbóka ásamt því að hafa talsett teiknimyndina Rayu og síðasta drekann. Hér má sjá stiklu úr þáttunum Skvíz: „Markmið mitt í starfinu er að gefa mig alla í það, bera virðingu fyrir verkefninu og samstarfsfólki mínu og muna að ég geri þetta af því að þarna nærist ég og fæ innblástur. Það er svo gjöfult að vinna með fólki í þessu skapandi starfi og fyrst og fremst á þetta að vera skemmtilegt og maður þarf að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Þú gerir það besta sem þú getur með tólin sem þú hefur hverju sinni og það hefur ekkert upp á sig að vera að slá sig með svipu á bakið.“ Húmorinn hefur alltaf verið öflugt haldreipi í lífi Unnar og segist hún fá það frá foreldrum sínum. „Mamma var algjör húmoristi og pabbi líka. Mér finnst nú reyndar allt sem sem hann pabbi minn segir oftast drepfyndið og hann er mér mikil fyrirmynd í listinni.“ Samsett mynd af Unni og foreldrum hennar, Jóni Axel og Eddu Heiðrúnu. Unnur fékk húmorinn frá foreldrum sínum og sömuleiðis auðvitað listrænu genin. Faðir Unnar er myndlistarmaður og móðir hennar var leikkona, leikstjóri og mikil listakona. Aðsend Mjög erfið unglingsár Á unglingsárunum gat Unnur ekki hugsað sér að fara í leiklist. Hún var ári á undan í skóla og fór í MR eftir Hagaskóla. Hún snerti ekki á félagslífinu eða leiklistinni í MR. „Unglingsárin mín voru bara mjög óljóst tímabil og ég var alls ekki í tengslum við sjálfa mig. Ég var ekkert að pæla raunverulega í tilfinningunum mínum þó að mér hafi fundist ég svo fullorðin. Við mamma vorum þó duglegar að tala saman um það hvernig okkur leið. Ég átti alltaf auðvelt með það og mér leið kannski þar af leiðandi eins og ég væri svo þroskuð. En ég var í smá rugli andlega, ég lokaði algjörlega á skapandi hliðina mína og vildi bara passa inn í kreðsuna. Oftar en ekki er það það sem unglingar vilja, að vera í góðum felulitum.“ Unnur og Edda Heiðrún þegar að Unnur var unglingur. Aðsend Unnur segist hafa upplifað mikið ójafnvægi í raunveruleika sínum eftir að hafa alist upp í kringum langveikindi. „Þú ert alltaf að reyna að lesa í aðstæður, spegla þig og passa upp á allt fari eins og það á að fara. Það getur verið ótrúlega þreytandi. Ég get ekki talað fyrir persónulega reynslu hvers og eins en þetta er það sem ég upplifi og heyri líka frá fólki sem hefur þurft að díla við svipaða hluti.“ Hún segist muna sterkt eftir því þegar að móðir hennar ræddi fyrst við hana um meðvirkni. „Þegar ég var níu ára var ég að leika í mynd sem heitir Desember, leikstýrðri af Hilmari Oddsyni, sem fjallar meðal annars um meðvirkni innan kjarnafjölskyldu. Þá fórum við að ræða um þetta og ég man að þetta var í fyrsta skipti sem ég las þetta orð og pældi í því. Ég held að ég muni þetta svo skýrt vegna þess að mamma útskýrði þetta mjög ítarlega fyrir mér og sagði að það væri mikilvægt að vera var um þetta. Þetta er aldrei neinum að kenna, það er bara svakalegt álag á fjölskyldu þegar einhver veikist og þetta ójafnvægi myndast. Allt er í óreiðu en það eru allir að reyna að gera sitt besta.“ Litla Unnur og Jón Axel pabbi hennar. Aðsend Ógleymanleg upplifun þegar að leiklistin kallaði Leiklistarköllunin kom svo aftur til Unnar eftir útskrift frá MR. „Eins og ég segi þá ætlaði ég alls ekki í leiklist. Þetta var sko ekki það sem ég vildi vera að gera þegar ég var táningur. Þú getur samt á endanum ekkert flúið frá kölluninni og þér sjálfri, úr hverju þú ert og við hvað þú elst upp.“ Þegar að Unnur var átta ára gömul lék hún í þáttaseríu í leikstjórn Reynis Lyngdal og fór svo aftur með hlutverk í seríu tvö nokkrum árum síðar. „Svo líður tíminn og eftir MR er ég að vinna í Spúútnik. Á þessum tíma er um ár liðið frá því að mamma deyr og ég fæ símtal frá Reyni. Þá er hann eitthvað að velta fyrir sér mögulega að gera þriðju seríuna og hann er að spyrja hvort ég hefði áhuga á að vera með. Þetta er svo ótrúlega eftirminnilegt augnablik því ég varð svo spennt, fékk einhvern skrýtinn fiðring í magann. Ég man meira að segja nákvæmlega hvar ég var staðsett þegar hann hringdi. Ég man hvað ég var glöð. Þá hugsaði ég bara kannski er þetta eitthvað sem ég ætti að tjékka á. Svo skrái ég mig í inntökupróf í LHÍ en meikaði svo ekki að mæta. Ári seinna mætti ég síðan í prufur og komst inn. En Reynir minn Lyngdal vakti upp gamalt fræ innra með mér. Ég sagði eiginlega engum frá því að ég væri að fara í prufur. Ég vildi hafa þetta frekar prívat og var alveg frekar hrædd við að gangast við þessari köllun. Ég er svo ótrúlega ánægð að ég hafi staðið við þetta og gert þetta.“ Unnur brosir breitt á útskriftardaginn frá LHÍ.Aðsend Erfitt að geta ekki upplifað hlutina með mömmu sinni Í leiklistarnáminu þurfti Unnur að glíma við flóknar og skrýtnar tilfinningar í sorgarferlinu. „Það sem var frústrerandi við sorgarferlið í mínu tilfelli er að hafa ekki náð að upplifa og ræða svo marga hluti við hana mömmu. Ég er að fást við það sem hún var að fást við, hún þreifst í þessum bransa næstum því allt sitt líf og var algjör fagmanneskja. Það er svo margt sem væri svo verðmætt að fá að tala við hana um. Það er einmanalegt að missa móður. Ég tala fyrir sjálfa mig en fyrir mér er móðir þín helsti aðdáandi þinn. Ég var einstaklega heppin með hana mömmu og hún hvatti mig svo mikið áfram. Svo er það líka þessi hnýsni sem ég sakna hvað mest, mamma var inni í öllu mínu, vildi fá að vita allt út í minnstu smáatriði og þessi mæðgnatenging er algjörlega einstök.“ Mæðgnatengingin var engri lík hjá þessum tveimur og segir Unnur sorgarferlið mjög marglaga. Aðsend Hún segist auðvitað meðvituð um að foreldrar séu mismunandi. „En mér fannst ótrúlega erfitt að missa þetta. Þetta er sömuleiðis eitthvað sem kemur ekkert í ljós strax í sorgarferlinu. Þetta er blaut tuska sem þú færð í andlitið reglulega, til dæmis á ákveðnum tímamótum. Ég útskrifaðist úr MR hálfu ári eftir að mamma dó og það var bara rosalega erfitt. Það á að vera svakaleg hátíð og rosalega magnað og gaman en það var ömurlega einmanalegt, skrýtið og leiðinlegt að standa þarna með þetta blessaða plagg og hafa hana ekki hjá sér. Það var líka sérstakt að fara í gegnum leiklistarnámið og læra svona mikið inn á sjálfa sig. Þetta nám er margþætt, eins og lífið. Maður fór í gegnum allar tilfinningarnar og þá var erfitt að geta ekki rætt við mömmu sem var atvinnumanneskja í akkúrat þessu. Þannig að þetta var oft strembið en það var líka einhvers konar huggun í þessu. Ég þarf oft að tala við mömmu í huganum og hitta hana í því sem er ekki áþreifanlegt.“ Mæðgurnar á góðri stund í sólbaði. Unnur segist dugleg að tala við mömmu sína í huganum og hittir hana í því sem er ekki áþreifanlegt. Aðsend „Það bjargaði lífi mínu að hreyfa mig“ Námið náði sömuleiðis að hjálpa Unni að syrgja. „Í hvert skipti sem eitthvað kemur upp á langar mann að kalla á mömmu sína. Það fer ekkert og þér hættir ekkert að líða þannig. En ég er þakklát og ánægð að ég menntaði mig sem leikkona. Það var svo margt við námið sem ég held að hafi hjálpað mér að syrgja. Ég byrja í leiklist þremur árum eftir að mamma deyr. Nú eru að verða komin átta ár í október. Þetta var mjög ferskt sár þegar ég byrja. Þegar ég horfi til baka er það auðvitað stuttur tími en þetta hjálpaði mér mikið.“ Unnur hefur unnið að betra sambandi við sjálfa sig undanfarin ár og segir hún eina breytu sérstaklega hafa hjálpað. „Það bjargaði lífi mínu að hreyfa mig, ég vil hafa það á hreinu. Ég tárast bara við það að segja þetta. Það hefur verið mér algjör heilun á líkama og sál. Börn í kvíðavaldandi aðstæðum eru oftast ekki með tólin til þess að takast á við hlutina þó að þau haldi það. Það er til að mynda alls konar sem líkaminn þinn rígheldur í án þess að þú gerir þér grein fyrir því. Þú byggir kannski upp kvíða sem tekur sér bólfestu í líkamanum og hefur þær afleiðingar að þú nærð ekki djúpri öndun, þú ert ekki að taka upp næringu úr fæðunni þinni, þú ert ekki að sofa nóg, hormónarnir þínir eru í bulli og þú ert í algjöru ójafnvægi. Síðastliðin ár er ég búin að reyna að taka þennan marglaga lauk og fletta af honum, með því að vera mýkri við líkamann minn, hlusta á hann og skilja hvað hann þarf.“ Unnur hefur verið í fallegri vegferð varðandi samband sitt við líkama sinn og andlega heilsu. Hér er hún við tökur á handboltaþáttunum Aftureldingu. Aðsend „Líkaminn og sálin, það er eitt“ Hún segist hafa upplifað magnað augnablik þegar að hún fékk stresskast og gat loksins fjarlægt sig frá því og virt það fyrir sér. „Það er auðvitað eðlilegt fyrir alla að upplifa kvíða af og til. Kvíði getur alveg verið hjálplegur í hóflegum skömmtum. En hann má ekki fara úr böndunum til lengri tíma. Um daginn fann ég bara: já þetta er kvíði, hann er að koma. Hann er ekki eðlilegur, ég finn að það er kominn hrollur í hnakkann og aftan á hausinn; gömul en kunnug tilfinning. Ég var loksins með tólin og skildi hvað ég þurfti að gera til þess að komast úr þessu ástandi. Ég ætla ekki að lifa lífinu mínu stöðugt kvíðin. Ég ætla ekki að gera frumunum mínum og líkamanum mínum það. Lífið er einfaldlega of stutt. Það bjargaði mér að endurhugsa sambandið mitt við mikilvægasta verkfærið mitt, sem er í sjálfu sér mikilvægasta verkfæri allra. En þegar að þú ert að vinna svona mikið með líkamann þá þarftu að sinna honum afar vel. Það er alltof mikið af fólki sem er kvíðið og veit það ekki. Þú festist kannski í bakinu eða ert með þrálátan magaverk og fattar ekki að það á sér andlega orsök.“ Unnur varð ástfangin af því að lyfta og fann fyrir mikilli og jákvæðri breytingu á sjálfri sér. Aðsend Sömuleiðis segir Unnur að það hafi verið mikil gjöf að vinna með innra barnið í leiklistinni. Hún getur þó ekki lagt nægilega áherslu á það hvað hreyfing og mataræði hefur hjálpað henni mikið. „Að skilja sjálfa mig betur og hvaðan reiðin, kvíðinn og uppbyggða sjálfsgagnrýnin kemur. Líkaminn og sálin, hið líffræðilega og andlega, það er eitt. Og að skilja það hefur algjörlega bjargað mér. “ Unnur segir að það hafi bjargað sér að hugsa um líkama og sál sem eina heild. Vísir/Vilhelm Varð ástfangin af því að lyfta Unnur stundaði handbolta á sínum yngri árum en hætti sem unglingur. Hún fór svo með hlutverk handboltastelpu í þáttaseríunni Aftureldingu og ákvað að hún vildi styrkja sig meira. „Ég var alltaf með ræktarkort en ég vissi ekkert hvað væri gott fyrir mig. Konum er alltaf sagt að vera stöðugt í brennslu, að minnka sig og ég hafði í rauninni aldrei lyft af neinu viti.“ Einkaþjálfarinn Gummi Emil er góður vinur Unnar. Við undirbúning fyrir þættina ákveður Unnur að heyra í Gumma. „Sumarið hafði verið annasamt hjá mér og ég sendi á Gumma að ég væri að fara að leika handboltakonu og mig langaði að verða sterk og komast í góða rútínu. Mér fannst þetta geggjuð áskorun. Þessar handboltakonur eru náttúrulega ótrúlega harðar og í svakalegu formi. Við vorum með handboltaþjálfara sem sá um tæknilegu hliðina en síðan var Gummi svo góður að hjálpa mér til hliðar. Þá varð ég raunverulega ástfangin af því að lyfta í fyrsta skipti, ég varð bara háð þessu og er það enn í dag. Andlega er þetta algjört meðal fyrir mig. Þetta snýst allt um að hlusta á líkamann og blanda þessu við aðrar æfingar en þetta varð að algjörri jákvæðnisvakningu hjá mér. Allt í einu fór ég líka að nálgast mat á svo fallegan hátt, að það sé gaman að næra sig. Allar þessar mýtur sem maður hefur heyrt um að konur megi ekki stækka og lyfta þungu eru skaðlegar. Þetta er svo mikið kjaftæði. Það jafnast ekkert á við tilfinninguna að vera hraustur.“ Krraftmikill kvennahópur við faðmlög í tökum á Aftureldingu. Aðsend Líkamsræktin griðastaður Samtalið vekur upp jákvæðar og sterkar tilfinningar hjá Unni. „Þetta er svo frábært fyrir konur og fólk sem er búið að heyra allt sitt líf að það eigi að minnka sig, vera stöðugt að puða fyrir það, þá myndast svo neikvætt samband við hreyfingu. Þú átt ekki að koma í ræktina og finna kvíða. Þú átt að sinna líkamanum þínum af ást og umhyggju. Ég elska þetta, líkamsrækt er bara minn griðastaður.“ Unnur hefur náð langt í því að mynda jákvætt samband við sig og sinn líkama. „Það getur þó alltaf verið flókið að horfa á sig og hlusta á sig. Það er algengur misskilningur að leikarar eigi alltaf auðvelt með það. Ég er líka sjúklega prívat manneskja, ég fer í vinnuna og svo finnst mér næs að geta dregið mig í skel. En ég gerði til dæmis TikTok myndband um daginn og fannst það svo erfitt,“ segir Unnur og hlær. „Svo er ekkert mál að vera i mega karakter eða lesa til dæmis inn á einhverja auglýsingu.“ Unnur og Saga Garðars við tökur á Aftureldingu.Aðsend Nýtur þess að festa rætur með ástinni sinni í Hollandi Unnur er nýflutt út til Hollands þar sem Pálmi Kormákur kærasti hennar er í myndlistarnámi. Hún kemur reglulega heim í verkefni og nýtur þess að búa erlendis. Hún er sömuleiðis mjög ánægð með umboðsmenn sína og segir flæðið mjög gott. „Ég verð held ég með annan fótinn þar og kem reglulega hingað. Sem verktaki ertu náttúrulega bara á tánum og maður veit ekkert of mikið fram í tímann. Ég er líka búin að vera að lesa mikið af hljóðbókum fyrir Storytel sem mér finnst alveg frábært.“ Unnur er dugleg að koma til Íslands í verkefni og hefur farið með fjölbreytt hlutverk. Aðsend Hún segir mikilvægt að passa vel upp á jafnvægið og líkir kvikmyndabransanum við vertíð. „Þú þarft að passa hvernig þú skipuleggur þig en þetta hentar mér mjög vel. Mér finnst æðislegt að taka tarnir og fá svo frítíma til að hreyfa mig, elda góðan mat, njóta þess að vera til og ég er ótrúlega heppin að geta gert það. Við erum að koma okkur fyrir úti en ég hef aldrei búið erlendis áður. Það er frábært að vera á meginlandinu. Það er mikilvægt fyrir mig sem var krakkinn sem ferðaðist eiginlega aldrei út af veikri móður, þegar allt gat gerst. Ég fór aldrei neitt í skiptinám, ég tók aldrei neina áhættu. Þannig að það er rosalega gaman að geta gert þetta núna.“ Unnur og Pálmi Kormákur eru ástfangin í Amsterdam. Aðsend Fær innblástur og hvatningu frá kærastanum Unnur segist sömuleiðis fá mikinn innblástur frá kærastanum sínum og er mjög stolt af honum. „Mér finnst hann vera að gera frábæra hluti og hann er virkilega drífandi fyrir mig. Við jöfnum hvort annað út, erum bæði samstíga en líka ólík sem er kostur. Hann er hvetjandi, með frábærar hugmyndir og peppar mig áfram. Hann er alltaf bara: Þú getur þetta, kýldu á þetta.“ Unnur og Pálmi eru miklir vinir og eru dugleg að ferðast á meginlandinu. Aðsend Framtíðin er björt hjá Unni en hún vinnur að uppsetningu á óperuverki í Sandberg instituut og segist einnig áhugasöm að vinna listræn verkefni með Pálma við tækifæri. „Svo langar mig að skrifa meira og mögulega taka kennsluréttindi í fjölbreyttri hreyfingu. Það sem er mikilvægast fyrir mig núna er að skjóta smá rótum úti, finna taktinn minn og koma mér fyrir. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu ári og ég hlakka til að halda áfram að rækta sjálfa mig, opna á nýja valmöguleika og vera óhrædd við að taka öðruvísi skref. Ég hef rými og tækifæri til að hugsa: Hvað vill Unnur? og það er svo spennandi,“ segir þessi kraftmikla, þrautseiga, listræna og jákvæða unga kona að lokum. Sorg Ástin og lífið Heilsa Geðheilbrigði Íslendingar erlendis Bíó og sjónvarp Menning Mest lesið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Gellur tóku yfir Gamla bíó Hélt að hann væri George Clooney Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Einstakur garður í Mosfellsbænum Leggja undir sig spinningshjólin og upphífingarstangirnar á tónleikunum Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Söngelskir nemendur í Menntaskólanum að Laugarvatni Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Kynbomba og reynsluboltar í Melodifestivalen Söfnunarþáttur UNICEF í beinni útsendingu á þremur stöðvum í einu Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lyftu barninu upp eins og hann væri Simbi Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Frægar í fantaformi Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Gervigreindin stýrði ferðinni Sjá meira
Opið og orkumikið barn Í barnæsku ólst Unnur upp við að fara í leikhúsið með mömmu hennar. „Ég var mjög opið barn, það var svakaleg orka í mér og mig langaði stöðugt að vera að syngja og dansa. Ég var alltaf að setja upp litlar sýningar heima og ég þreifst vel í því umhverfi; með áhorfendur. Ég er líka alin upp á afar listrænu heimili og maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað það er mikil gjöf að fá að vera svona mikið í kringum listina. Í dag átta ég mig á því að það er ekkert sjálfsagt.“ Fjölskyldan bjó í stóru timburhúsi í Skerjafirði sem foreldrar Unnar gerðu upp saman og lýsir hún því sem ævintýralegu umhverfi. „Pabbi var með vinnustofuna sína í kjallaranum og mamma var alltaf í leikhúsinu. Svo á ég tvö systkini sem eru átta og níu árum eldri en ég. Við áttum stóran garð og ég man vel eftir mömmu að gera blómin fín.“ Unnur átti ævintýraleg uppvaxtarár í Skerjafirðinum. Vísir/Vilhelm Dauðinn stöðugt yfirvofandi Í æsku sá Unnur framtíðina fyrir sér í leikhúsinu en það breyttist þó. Móðir hennar greindist með sjúkdóminn MND þegar að Unnur var fimm ára gömul og við tók mikil óvissa í lífi fjölskyldunnar. „Þetta var svo sérstök staða. Mamma var virkilega orkumikil en hún veikist þegar að ég er bara rétt að byrja í grunnskóla. Það er svo margt sem dettur út og þú áttar þig ekki alveg á því, því þetta er bara þinn raunveruleiki. Ég á miklu færri minningar af henni gangandi en í hjólastól. Það vantar í raun alla snertinguna, faðmlögin, þú missir þetta allt sem er svo mikilvægt á uppvaxtarárunum. Mamma elskaði að hreyfa sig, syngja, leika og dansa en allt þetta var tekið frá henni. Án þess að hafa fattað það almennilega tóku veikindin algjörlega yfir allt. Fjölskyldukjarninn var ekki sá sami og fókusinn fór í að hugsa um manneskju sem var alltaf að veikjast meira og meira.“ Mæðgurnar Edda Heiðrún og Unnur Backman. Aðsend Út frá því segir Unnur að hugmyndin um leiklistina hafi fjarlægst henni. Mamma hennar fór meðal annars yfir í að leikstýra, opnaði súkkulaði- og blómabúð, byrjaði að mála með munninum og var að sögn Unnar mjög nösk á að finna sér hluti sem veittu henni innblástur og hamingju þrátt fyrir veikindin. „Mamma greindist með MND árið 2002, fyrir 22 árum. Bróðir hennar veiktist úr sama sjúkdómi og lést sama ár og ég fæddist, 1998. Hann var ranglega greindur með krabbamein fyrst, það var nefnilega svo lítið vitað um þennan sjúkdóm á þessum tíma. Læknarnir gátu ekki gefið mömmu nein nákvæm svör. Maður vissi aldrei hvað yrði, hvort hún myndi falla frá eftir tvö ár, fjögur ár eða eitthvað annað. Síðan þá hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar og í dag er sagan allt önnur. En þarna vissum við fjölskyldan ekkert og vorum í rauninni í algjöru stjórnleysi. Ég lokaðist þar af leiðandi meira. Þegar dauðinn er yfirvofandi alla þína barnæsku er svolítið flókið að átta sig á því hvernig manni raunverulega líður; að eiga veikt foreldri var bara minn raunveruleiki og ég var ekki með neitt viðmið. Þetta brýst oft út í alls konar skrýtnu, eins og að vilja hafa stjórn á öllu frá A-Ö í kringum þig.“ Unnur segir að hún hafi þróað með sér mikinn frammistöðukvíða og vildi hafa stjórn á öllu í kringum sig þar sem hún gat ekki haft stjórn á veikindum móður sinnar. Vísir/Vilhelm Nokkur skref aftur á bak eftir þúsund skref áfram Unnur þróaði með sér mikinn frammistöðukvíða og vildi stöðugt standa sig vel. „Ég vildi hafa stjórn á því sem ég gat haft stjórn á þegar ég hafði enga stjórn á því sem var að gerast við mömmu. Ég get til dæmis talið á annarri hendi hversu oft ég var skömmuð af kennurum í skóla. Ég var algjörlega miður mín þegar ég var skömmuð. Það var aldrei neitt sem hvatti mig til að taka áhættu. Ég hef alltaf verið passasöm, forðast óþarfa sársauka og hef til dæmis aldrei brotið bein.“ Það er því krefjandi fyrir Unni að leyfa sjálfri sér að gera mistök sem eru þó svo mikill partur af tilverunni. „Ég held að það hafi verið mesta áskorunin fyrir mig í leiklistarnáminu. Ég þurfti alltaf að gera allt eins fullkomið og ég gat en leiklistin skarast á við það. Það lögmál virkar ekki í listinni yfir höfuð. Það er aldrei hægt að segja að eitthvað sé fullkomið listaverk.“ Hún hefur því unnið að þessu undanfarin ár og segist leggja upp úr því að reyna að verða betri við sig sjálfa. Það hefur verið áskorun að leyfa sér að gera mistök og vita að það gerist ekkert hræðilegt þó svo að eitthvað gangi ekki upp. „Það býr alveg rosalegur, rótgróinn kvíði um að gera mistök innra með mér og ég er búin að vera að tækla hann undanfarin ár. Það gengur mikið betur að gera mistök í dag, ég á alveg mín móment samt. Maður tekur alltaf nokkur skref aftur á bak eftir þúsund skref áfram, það er allt í lagi.“ Listræni áhuginn kviknaði snemma hjá Unni þó svo að hún hafi fjarlægst hann um tíma. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá henni undanfarin ár og segir hún sömuleiðis mikilvægt að vita að það sé í lagi að taka nokkur skref aftur á bak eftir fjöldamörg skref áfram. Aðsend Húmorinn haldreypi Unnur hefur tekið þátt í ýmsum sjónvarpsverkefnum eftir útskrift og segir hún það hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Sem dæmi fór hún með hlutverk í þáttunum Aftureldingu, Skvíz og Svörtu Söndum II en hún hefur einnig lesið fjölda hljóðbóka ásamt því að hafa talsett teiknimyndina Rayu og síðasta drekann. Hér má sjá stiklu úr þáttunum Skvíz: „Markmið mitt í starfinu er að gefa mig alla í það, bera virðingu fyrir verkefninu og samstarfsfólki mínu og muna að ég geri þetta af því að þarna nærist ég og fæ innblástur. Það er svo gjöfult að vinna með fólki í þessu skapandi starfi og fyrst og fremst á þetta að vera skemmtilegt og maður þarf að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Þú gerir það besta sem þú getur með tólin sem þú hefur hverju sinni og það hefur ekkert upp á sig að vera að slá sig með svipu á bakið.“ Húmorinn hefur alltaf verið öflugt haldreipi í lífi Unnar og segist hún fá það frá foreldrum sínum. „Mamma var algjör húmoristi og pabbi líka. Mér finnst nú reyndar allt sem sem hann pabbi minn segir oftast drepfyndið og hann er mér mikil fyrirmynd í listinni.“ Samsett mynd af Unni og foreldrum hennar, Jóni Axel og Eddu Heiðrúnu. Unnur fékk húmorinn frá foreldrum sínum og sömuleiðis auðvitað listrænu genin. Faðir Unnar er myndlistarmaður og móðir hennar var leikkona, leikstjóri og mikil listakona. Aðsend Mjög erfið unglingsár Á unglingsárunum gat Unnur ekki hugsað sér að fara í leiklist. Hún var ári á undan í skóla og fór í MR eftir Hagaskóla. Hún snerti ekki á félagslífinu eða leiklistinni í MR. „Unglingsárin mín voru bara mjög óljóst tímabil og ég var alls ekki í tengslum við sjálfa mig. Ég var ekkert að pæla raunverulega í tilfinningunum mínum þó að mér hafi fundist ég svo fullorðin. Við mamma vorum þó duglegar að tala saman um það hvernig okkur leið. Ég átti alltaf auðvelt með það og mér leið kannski þar af leiðandi eins og ég væri svo þroskuð. En ég var í smá rugli andlega, ég lokaði algjörlega á skapandi hliðina mína og vildi bara passa inn í kreðsuna. Oftar en ekki er það það sem unglingar vilja, að vera í góðum felulitum.“ Unnur og Edda Heiðrún þegar að Unnur var unglingur. Aðsend Unnur segist hafa upplifað mikið ójafnvægi í raunveruleika sínum eftir að hafa alist upp í kringum langveikindi. „Þú ert alltaf að reyna að lesa í aðstæður, spegla þig og passa upp á allt fari eins og það á að fara. Það getur verið ótrúlega þreytandi. Ég get ekki talað fyrir persónulega reynslu hvers og eins en þetta er það sem ég upplifi og heyri líka frá fólki sem hefur þurft að díla við svipaða hluti.“ Hún segist muna sterkt eftir því þegar að móðir hennar ræddi fyrst við hana um meðvirkni. „Þegar ég var níu ára var ég að leika í mynd sem heitir Desember, leikstýrðri af Hilmari Oddsyni, sem fjallar meðal annars um meðvirkni innan kjarnafjölskyldu. Þá fórum við að ræða um þetta og ég man að þetta var í fyrsta skipti sem ég las þetta orð og pældi í því. Ég held að ég muni þetta svo skýrt vegna þess að mamma útskýrði þetta mjög ítarlega fyrir mér og sagði að það væri mikilvægt að vera var um þetta. Þetta er aldrei neinum að kenna, það er bara svakalegt álag á fjölskyldu þegar einhver veikist og þetta ójafnvægi myndast. Allt er í óreiðu en það eru allir að reyna að gera sitt besta.“ Litla Unnur og Jón Axel pabbi hennar. Aðsend Ógleymanleg upplifun þegar að leiklistin kallaði Leiklistarköllunin kom svo aftur til Unnar eftir útskrift frá MR. „Eins og ég segi þá ætlaði ég alls ekki í leiklist. Þetta var sko ekki það sem ég vildi vera að gera þegar ég var táningur. Þú getur samt á endanum ekkert flúið frá kölluninni og þér sjálfri, úr hverju þú ert og við hvað þú elst upp.“ Þegar að Unnur var átta ára gömul lék hún í þáttaseríu í leikstjórn Reynis Lyngdal og fór svo aftur með hlutverk í seríu tvö nokkrum árum síðar. „Svo líður tíminn og eftir MR er ég að vinna í Spúútnik. Á þessum tíma er um ár liðið frá því að mamma deyr og ég fæ símtal frá Reyni. Þá er hann eitthvað að velta fyrir sér mögulega að gera þriðju seríuna og hann er að spyrja hvort ég hefði áhuga á að vera með. Þetta er svo ótrúlega eftirminnilegt augnablik því ég varð svo spennt, fékk einhvern skrýtinn fiðring í magann. Ég man meira að segja nákvæmlega hvar ég var staðsett þegar hann hringdi. Ég man hvað ég var glöð. Þá hugsaði ég bara kannski er þetta eitthvað sem ég ætti að tjékka á. Svo skrái ég mig í inntökupróf í LHÍ en meikaði svo ekki að mæta. Ári seinna mætti ég síðan í prufur og komst inn. En Reynir minn Lyngdal vakti upp gamalt fræ innra með mér. Ég sagði eiginlega engum frá því að ég væri að fara í prufur. Ég vildi hafa þetta frekar prívat og var alveg frekar hrædd við að gangast við þessari köllun. Ég er svo ótrúlega ánægð að ég hafi staðið við þetta og gert þetta.“ Unnur brosir breitt á útskriftardaginn frá LHÍ.Aðsend Erfitt að geta ekki upplifað hlutina með mömmu sinni Í leiklistarnáminu þurfti Unnur að glíma við flóknar og skrýtnar tilfinningar í sorgarferlinu. „Það sem var frústrerandi við sorgarferlið í mínu tilfelli er að hafa ekki náð að upplifa og ræða svo marga hluti við hana mömmu. Ég er að fást við það sem hún var að fást við, hún þreifst í þessum bransa næstum því allt sitt líf og var algjör fagmanneskja. Það er svo margt sem væri svo verðmætt að fá að tala við hana um. Það er einmanalegt að missa móður. Ég tala fyrir sjálfa mig en fyrir mér er móðir þín helsti aðdáandi þinn. Ég var einstaklega heppin með hana mömmu og hún hvatti mig svo mikið áfram. Svo er það líka þessi hnýsni sem ég sakna hvað mest, mamma var inni í öllu mínu, vildi fá að vita allt út í minnstu smáatriði og þessi mæðgnatenging er algjörlega einstök.“ Mæðgnatengingin var engri lík hjá þessum tveimur og segir Unnur sorgarferlið mjög marglaga. Aðsend Hún segist auðvitað meðvituð um að foreldrar séu mismunandi. „En mér fannst ótrúlega erfitt að missa þetta. Þetta er sömuleiðis eitthvað sem kemur ekkert í ljós strax í sorgarferlinu. Þetta er blaut tuska sem þú færð í andlitið reglulega, til dæmis á ákveðnum tímamótum. Ég útskrifaðist úr MR hálfu ári eftir að mamma dó og það var bara rosalega erfitt. Það á að vera svakaleg hátíð og rosalega magnað og gaman en það var ömurlega einmanalegt, skrýtið og leiðinlegt að standa þarna með þetta blessaða plagg og hafa hana ekki hjá sér. Það var líka sérstakt að fara í gegnum leiklistarnámið og læra svona mikið inn á sjálfa sig. Þetta nám er margþætt, eins og lífið. Maður fór í gegnum allar tilfinningarnar og þá var erfitt að geta ekki rætt við mömmu sem var atvinnumanneskja í akkúrat þessu. Þannig að þetta var oft strembið en það var líka einhvers konar huggun í þessu. Ég þarf oft að tala við mömmu í huganum og hitta hana í því sem er ekki áþreifanlegt.“ Mæðgurnar á góðri stund í sólbaði. Unnur segist dugleg að tala við mömmu sína í huganum og hittir hana í því sem er ekki áþreifanlegt. Aðsend „Það bjargaði lífi mínu að hreyfa mig“ Námið náði sömuleiðis að hjálpa Unni að syrgja. „Í hvert skipti sem eitthvað kemur upp á langar mann að kalla á mömmu sína. Það fer ekkert og þér hættir ekkert að líða þannig. En ég er þakklát og ánægð að ég menntaði mig sem leikkona. Það var svo margt við námið sem ég held að hafi hjálpað mér að syrgja. Ég byrja í leiklist þremur árum eftir að mamma deyr. Nú eru að verða komin átta ár í október. Þetta var mjög ferskt sár þegar ég byrja. Þegar ég horfi til baka er það auðvitað stuttur tími en þetta hjálpaði mér mikið.“ Unnur hefur unnið að betra sambandi við sjálfa sig undanfarin ár og segir hún eina breytu sérstaklega hafa hjálpað. „Það bjargaði lífi mínu að hreyfa mig, ég vil hafa það á hreinu. Ég tárast bara við það að segja þetta. Það hefur verið mér algjör heilun á líkama og sál. Börn í kvíðavaldandi aðstæðum eru oftast ekki með tólin til þess að takast á við hlutina þó að þau haldi það. Það er til að mynda alls konar sem líkaminn þinn rígheldur í án þess að þú gerir þér grein fyrir því. Þú byggir kannski upp kvíða sem tekur sér bólfestu í líkamanum og hefur þær afleiðingar að þú nærð ekki djúpri öndun, þú ert ekki að taka upp næringu úr fæðunni þinni, þú ert ekki að sofa nóg, hormónarnir þínir eru í bulli og þú ert í algjöru ójafnvægi. Síðastliðin ár er ég búin að reyna að taka þennan marglaga lauk og fletta af honum, með því að vera mýkri við líkamann minn, hlusta á hann og skilja hvað hann þarf.“ Unnur hefur verið í fallegri vegferð varðandi samband sitt við líkama sinn og andlega heilsu. Hér er hún við tökur á handboltaþáttunum Aftureldingu. Aðsend „Líkaminn og sálin, það er eitt“ Hún segist hafa upplifað magnað augnablik þegar að hún fékk stresskast og gat loksins fjarlægt sig frá því og virt það fyrir sér. „Það er auðvitað eðlilegt fyrir alla að upplifa kvíða af og til. Kvíði getur alveg verið hjálplegur í hóflegum skömmtum. En hann má ekki fara úr böndunum til lengri tíma. Um daginn fann ég bara: já þetta er kvíði, hann er að koma. Hann er ekki eðlilegur, ég finn að það er kominn hrollur í hnakkann og aftan á hausinn; gömul en kunnug tilfinning. Ég var loksins með tólin og skildi hvað ég þurfti að gera til þess að komast úr þessu ástandi. Ég ætla ekki að lifa lífinu mínu stöðugt kvíðin. Ég ætla ekki að gera frumunum mínum og líkamanum mínum það. Lífið er einfaldlega of stutt. Það bjargaði mér að endurhugsa sambandið mitt við mikilvægasta verkfærið mitt, sem er í sjálfu sér mikilvægasta verkfæri allra. En þegar að þú ert að vinna svona mikið með líkamann þá þarftu að sinna honum afar vel. Það er alltof mikið af fólki sem er kvíðið og veit það ekki. Þú festist kannski í bakinu eða ert með þrálátan magaverk og fattar ekki að það á sér andlega orsök.“ Unnur varð ástfangin af því að lyfta og fann fyrir mikilli og jákvæðri breytingu á sjálfri sér. Aðsend Sömuleiðis segir Unnur að það hafi verið mikil gjöf að vinna með innra barnið í leiklistinni. Hún getur þó ekki lagt nægilega áherslu á það hvað hreyfing og mataræði hefur hjálpað henni mikið. „Að skilja sjálfa mig betur og hvaðan reiðin, kvíðinn og uppbyggða sjálfsgagnrýnin kemur. Líkaminn og sálin, hið líffræðilega og andlega, það er eitt. Og að skilja það hefur algjörlega bjargað mér. “ Unnur segir að það hafi bjargað sér að hugsa um líkama og sál sem eina heild. Vísir/Vilhelm Varð ástfangin af því að lyfta Unnur stundaði handbolta á sínum yngri árum en hætti sem unglingur. Hún fór svo með hlutverk handboltastelpu í þáttaseríunni Aftureldingu og ákvað að hún vildi styrkja sig meira. „Ég var alltaf með ræktarkort en ég vissi ekkert hvað væri gott fyrir mig. Konum er alltaf sagt að vera stöðugt í brennslu, að minnka sig og ég hafði í rauninni aldrei lyft af neinu viti.“ Einkaþjálfarinn Gummi Emil er góður vinur Unnar. Við undirbúning fyrir þættina ákveður Unnur að heyra í Gumma. „Sumarið hafði verið annasamt hjá mér og ég sendi á Gumma að ég væri að fara að leika handboltakonu og mig langaði að verða sterk og komast í góða rútínu. Mér fannst þetta geggjuð áskorun. Þessar handboltakonur eru náttúrulega ótrúlega harðar og í svakalegu formi. Við vorum með handboltaþjálfara sem sá um tæknilegu hliðina en síðan var Gummi svo góður að hjálpa mér til hliðar. Þá varð ég raunverulega ástfangin af því að lyfta í fyrsta skipti, ég varð bara háð þessu og er það enn í dag. Andlega er þetta algjört meðal fyrir mig. Þetta snýst allt um að hlusta á líkamann og blanda þessu við aðrar æfingar en þetta varð að algjörri jákvæðnisvakningu hjá mér. Allt í einu fór ég líka að nálgast mat á svo fallegan hátt, að það sé gaman að næra sig. Allar þessar mýtur sem maður hefur heyrt um að konur megi ekki stækka og lyfta þungu eru skaðlegar. Þetta er svo mikið kjaftæði. Það jafnast ekkert á við tilfinninguna að vera hraustur.“ Krraftmikill kvennahópur við faðmlög í tökum á Aftureldingu. Aðsend Líkamsræktin griðastaður Samtalið vekur upp jákvæðar og sterkar tilfinningar hjá Unni. „Þetta er svo frábært fyrir konur og fólk sem er búið að heyra allt sitt líf að það eigi að minnka sig, vera stöðugt að puða fyrir það, þá myndast svo neikvætt samband við hreyfingu. Þú átt ekki að koma í ræktina og finna kvíða. Þú átt að sinna líkamanum þínum af ást og umhyggju. Ég elska þetta, líkamsrækt er bara minn griðastaður.“ Unnur hefur náð langt í því að mynda jákvætt samband við sig og sinn líkama. „Það getur þó alltaf verið flókið að horfa á sig og hlusta á sig. Það er algengur misskilningur að leikarar eigi alltaf auðvelt með það. Ég er líka sjúklega prívat manneskja, ég fer í vinnuna og svo finnst mér næs að geta dregið mig í skel. En ég gerði til dæmis TikTok myndband um daginn og fannst það svo erfitt,“ segir Unnur og hlær. „Svo er ekkert mál að vera i mega karakter eða lesa til dæmis inn á einhverja auglýsingu.“ Unnur og Saga Garðars við tökur á Aftureldingu.Aðsend Nýtur þess að festa rætur með ástinni sinni í Hollandi Unnur er nýflutt út til Hollands þar sem Pálmi Kormákur kærasti hennar er í myndlistarnámi. Hún kemur reglulega heim í verkefni og nýtur þess að búa erlendis. Hún er sömuleiðis mjög ánægð með umboðsmenn sína og segir flæðið mjög gott. „Ég verð held ég með annan fótinn þar og kem reglulega hingað. Sem verktaki ertu náttúrulega bara á tánum og maður veit ekkert of mikið fram í tímann. Ég er líka búin að vera að lesa mikið af hljóðbókum fyrir Storytel sem mér finnst alveg frábært.“ Unnur er dugleg að koma til Íslands í verkefni og hefur farið með fjölbreytt hlutverk. Aðsend Hún segir mikilvægt að passa vel upp á jafnvægið og líkir kvikmyndabransanum við vertíð. „Þú þarft að passa hvernig þú skipuleggur þig en þetta hentar mér mjög vel. Mér finnst æðislegt að taka tarnir og fá svo frítíma til að hreyfa mig, elda góðan mat, njóta þess að vera til og ég er ótrúlega heppin að geta gert það. Við erum að koma okkur fyrir úti en ég hef aldrei búið erlendis áður. Það er frábært að vera á meginlandinu. Það er mikilvægt fyrir mig sem var krakkinn sem ferðaðist eiginlega aldrei út af veikri móður, þegar allt gat gerst. Ég fór aldrei neitt í skiptinám, ég tók aldrei neina áhættu. Þannig að það er rosalega gaman að geta gert þetta núna.“ Unnur og Pálmi Kormákur eru ástfangin í Amsterdam. Aðsend Fær innblástur og hvatningu frá kærastanum Unnur segist sömuleiðis fá mikinn innblástur frá kærastanum sínum og er mjög stolt af honum. „Mér finnst hann vera að gera frábæra hluti og hann er virkilega drífandi fyrir mig. Við jöfnum hvort annað út, erum bæði samstíga en líka ólík sem er kostur. Hann er hvetjandi, með frábærar hugmyndir og peppar mig áfram. Hann er alltaf bara: Þú getur þetta, kýldu á þetta.“ Unnur og Pálmi eru miklir vinir og eru dugleg að ferðast á meginlandinu. Aðsend Framtíðin er björt hjá Unni en hún vinnur að uppsetningu á óperuverki í Sandberg instituut og segist einnig áhugasöm að vinna listræn verkefni með Pálma við tækifæri. „Svo langar mig að skrifa meira og mögulega taka kennsluréttindi í fjölbreyttri hreyfingu. Það sem er mikilvægast fyrir mig núna er að skjóta smá rótum úti, finna taktinn minn og koma mér fyrir. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu ári og ég hlakka til að halda áfram að rækta sjálfa mig, opna á nýja valmöguleika og vera óhrædd við að taka öðruvísi skref. Ég hef rými og tækifæri til að hugsa: Hvað vill Unnur? og það er svo spennandi,“ segir þessi kraftmikla, þrautseiga, listræna og jákvæða unga kona að lokum.
Sorg Ástin og lífið Heilsa Geðheilbrigði Íslendingar erlendis Bíó og sjónvarp Menning Mest lesið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Gellur tóku yfir Gamla bíó Hélt að hann væri George Clooney Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Einstakur garður í Mosfellsbænum Leggja undir sig spinningshjólin og upphífingarstangirnar á tónleikunum Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Söngelskir nemendur í Menntaskólanum að Laugarvatni Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Kynbomba og reynsluboltar í Melodifestivalen Söfnunarþáttur UNICEF í beinni útsendingu á þremur stöðvum í einu Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lyftu barninu upp eins og hann væri Simbi Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Frægar í fantaformi Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Gervigreindin stýrði ferðinni Sjá meira