Skoðun

Að hafa á­hrif á nærumhverfi sitt

Guðbrandur Einarsson skrifar

Ég vil óska Mýrdalshreppi til hamingju með að hafa hlotið samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar í ár fyrir að hafa sett á laggirnar enskumælandi ráð árið 2022. Ráðið er skipað sjö fulltrúum af sex þjóðernum. Tilgangur með þessu ráði er að skapa íbúum af erlendu bergi tækifæri til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt, þó að viðkomandi hafi ekki náð valdi á íslenskri tungu, sem að flestra mati er erfitt tungumál að læra.

Af þessu tilefni var eftirfarandi haft eftir bæjarstjóra Mýrdalshrepps Einari Frey Elínarsyni:

„Við erum með fjölmennan hóp erlendra íbúa sem greiða fulla skatta til samfélagsins og hafa rétt til að kjósa til sveitarstjórna. Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku í ljósi þess að enska er ráðandi tungumál í ferðaþjónustu sem er okkar stærsta atvinnugrein. Okkur þótti mikilvægt jafnréttismál að allir íbúar hefðu raunveruleg tækifæri til þess að eiga aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku og enskumælandi ráðið er liður í því. Það er skipað pólitískt í þetta ráð og greitt fyrir setu á fundum á sama hátt og í öðrum ráðum.“

Eftirfarandi var jafnframt haft eftir Tomasz Chochołowicz formanni ráðsins sem sagðist í fyrstu ekki hafa trúað því hversu mikla áherslu ætti að leggja á stofnun enskumælandi ráðs: „Ég var smá tíma að átta mig á því að Einari og öðrum í sveitarstjórn væri fúlasta alvara með stofnun ráðsins. Ég var búinn að búa í Vík í átta ár en fannst ég aldrei tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“

Að mínu mati hefur það ekkert með íslenskuna að gera að skapa leiðir fyrir erlenda íbúa samfélagsins til að taka þátt í lýðræðislegum ákvörðunum. Það segir hins vegar mikið um það hversu viljug við erum að aðstoða fólk við þátttöku í samfélaginu sem hingað hefur flutt til þess að halda íslensku atvinnulífi gangandi.

Þetta eru ótengdir hlutir. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á að fólk sem hingað kemur fái þá aðstoð sem það þarf til þess að ná tökum á íslensku – og við eigum að gæta þess að allir íbúar eigi kost á að taka þátt í lýðræðislegum ákvörðunum. Við íslenskukennslu ættu ríkið, sveitarfélögin en ekki síst atvinnulífið sjálft að axla meiri ábyrgð. Ekki allir hafa möguleika á því að sækja nám eftir oft á tíðum langan vinnudag þegar sinna þarf börnum.

Stéttarfélögin hafa í gegnum árin veitt félagsmönnum styrki fyrir íslenskunámi en það dugar hvergi nærri til. Fyrir fólk sem vinnur langa vinnudaga, og er jafnvel í tveimur eða fleiri vinnum, þyrfti slík kennsla að fara fram á vinnutíma. Það hefur þó strandað á atvinnulífinu sjálfu.

Þessi staða ætti hins vegar ekki koma í veg fyrir möguleika íbúa af erlendu bergi til þátttöku í mótun samfélagsins. Þess vegna er það virðingarvert af Mýrdalshreppi að stíga skrefið og flýta fyrir því að erlendu íbúar hreppsins upplifi sig sem þátttakendur í samfélaginu. Það eru ekki bara þeir sem sitja í ráðinu sjálfu sem njóta góðs af þessu heldur allir sem í kringum þá eru.

Þess vegna er ástæða til að óska Mýrdalshreppi til hamingju með þessa viðurkenningu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×