Skoðun

Þegar andi Mussolini svífur yfir vötnunum og titlar verða langir

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Hægri öfgaflokkarnir í Evrópu voru lengst af helztu andstæðingar ESB, og leituðu þeir allra leiða til að rýra og sverta ríkjasambandið.

Í millitíðinni hafa flestir þessir flokkar vent sínu kvæði í kross og lýst yfir stuðningi við ESB, enda vart annað mögulegt, jafnvel ekki fyrir þjóðernissinnaða öfgamenn, en að átta sig á gífurlegri þýðingu ESB fyrir frelsi, velferð og öryggi Evrópu.

Enn eru þó öfl í gangi, hér uppi á Íslandi, auðvitað allra yzt á hægri kantinum - væru væntanlega í Bræðrum Ítalíu, með anda Mussolini svífandi yfir vötnunum, ef þar væru, eða í AfD í Þýzkalandi með hakakrossinn falinn inn í skáp - að rembast við, að reyna að varpa rýrð á ESB. Eiríkur Bergmann myndi væntanlega kalla stefnu þessara manna popúlistískan nasjónalsósíalimsa.

Í málflutningi þessara manna, er engu til sparað til að rægja ESB, ekki bara í hálfsannleika, heldur beinlínis í rangfærslum og ósannindum. Hálfsannleikur er reyndar oft skítlegri en lygar; aðferð lúmskra manna.

Hjörtur nokkur J. Guðmundsson, sem titlar sig „Sagnfræðing og alþjóðastjórnmálafræðing (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)“, ekki slorlegur titilll það, skifaði greinar frá yzta kanti hægri öfga og áróðurs í 10 ár á Mogga, auðvitað mest á leiðararopnu, enda væntanlega handgenginn þeim ritsjóra, sem vildi verða forseti. Hjörtur hrökk svo yfir á Vísi í nokkur ár, þar sem hann skrifaði ótt og títt, auðvitað í sama anda, mest um ómöguleika ESB, en inn á milli, skaut hann inn smá lofi á Boris Johnson, Brexit og annað slíkt.

Nú er hann nokkuð stórtækur á báðum miðlum, þó að efnið og málsflutningur sé frekar þunnt. Svona eins og sama tuggan, sem er endurtekin aftur og aftur með smávægilegum orðalags- og áherzlubreytingum.

Í Mogga skrifaði hann grein 20. júní með titlinum „Hvaða áhrif hefur hálfur þingmaður?“, og svo á Vísi 25. júní með titlinum „Dugði Írum og Dönum skammt“. Þar talar hann líka um „hálfan þingmann“.

Ekki sérlega gáfulegt orðatiltæki, mætti í bezta falli kallast aulafyndni, en með þessu orðatiltæki vill sagnfræðingurinn gera lítið úr þeirri staðreynd, að, ef við gengjum í ESB, myndum við fá 6 fulltrúa á Evrópuþingið af þeim 720, sem þingið skipa..

Það kaldhæðnislega við þessa tilraun Hjartar J., til að varpa rýrð á mögulega 6 manna þingfulltrúatölu Íslands á Evrópuþinginu, er, að Malta, sem hefur líka bara 6 þingfulltrúa, á nú forseta þingsins, Roberta Metsola, og annað smáríki, Lúxemborg, sem líka hefur bara 6 fulltrúa, átti forseta framkvæmdastjórnarinnar, áhrifamesta einstakling sambandsins, Jean-Claude Juncker, 2014-2019.

Hér vantar því nokkuð upp á góða dómgreind eða þekkingu hjá Hirti J.

Í nefndri Vísisgrein segir sá titlalangi svo m.a. þetta: „Mjög langur vegur er frá því, að Ísland stæði jafnfætis öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins, ef til þess kæmi að landið gengi í sambandið á einhverjum tímapunkti í framtíðinni... Enda fer vægi ríkja innan sambandsins, og hefur í vaxandi mæli farið, fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru“.

Við skulum við sjá, hvað satt er og rétt í þessum málum:

Möguleg full og formleg aðild okkar að ESB er feikilega stórt mál fyrir okkur, vegna þess, að fyrst með fullri aðild fengjum við setu við borðið, með okkar eigin framvæmdastjóra, kommissar, eins og hin aðildarríkin, nú 27 - hvert, fjölmennt eða fámennt, hefur bara einn framkvæmdastjóra - og 6 þingmönnum á Evrópuþingið, fulltrúa í ráð og nefndir, og, það, sem mest væri, fullu neitunarvaldi til jafns við aðra, hvað varðar veigamikla stefnumótun og allar stærri ákvarðanir ríkjasambandsins.

Neiturnarvaldið nær til þessara málaflokka, sem auðvitað eru þeir langstærstu og lang þýðingarmestu:

  1. Skattlagning hvers konar
  2. Fjárhagsáætlanir, fjármálaskuldbindingar og fjárveitingar
  3. Félagsleg vernd og öryggi almennings
  4. Samningar og ákvarðanir um upptöku nýrra aðildarríkja
  5. Öryggis- og varnarmál sambandsríkjanna 27
  6. Samskipti og samningar ESB við önnur ríki og ríkjasambönd
  7. Sameiginleg löggæzla sambandsríkjanna, eftirlit með yrtri landmærum og flóttafólki.

Ekkert mál í þessum þýðingarmiklu málaflokkum getur farið í gegn, eða hlotið samþykki til framkvæmdar, nema öll aðildarríkin, og, þá, líka við, ef við værum með, myndum samþykkja.

Með þessu fengjum við í hendur gífurlegt áhrifavald á gang mála og þróun sambandsins. Þessu neitunarvaldi er heldur ekki hægt að breyta, draga úr því eða fella það niður, nema að öll aðildarríkin samþykki, sem væntanlega verður aldrei.

Varðandi helztu valdastöður í ESB, þá ræður einstaklingurinn, hæfni hans og geta, en ekki þjóðin eða stærð hennar, sem að baki stendur. Í tíu ár, eða frá 2004 til 2014, var José Manuel Barroso, frá Portúgal, 10 milljón manna þjóð, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og, eins og fyrr greinir, var Jean-Claude Juncker, frá smáríkinu Lúxumborg, forseti framkvæmdastjórnarinnar frá 2014 til 2019. Í heil 15 ár fóru fulltrúar fámennra ríkja sambandsins fyrir valdamestu stofnun þess.

Allt tal um, að stóru ríkin ráði öllu í ESB, er því algjör fjarstæða.

Menn geta velt því fyrir sér, hvort sagnfræðingurinn fylgist ekki með fréttum. Hefur hann t.a.m. ekkert heyrt af því, að Ungverjaland, með sína tíu milljónir íbúa, 2% af íbúum ESB, hefur blokkerað hvert stórmálið á fætur öðru í ESB, gegn vilja hinna 26 ríkjanna, nú síðast bráðnausynlegan fjárstuðning við Úkraínu? Þar áður hafði Ungverjaland blokkerað, að farið yrði í aðildarsamninga við Úkraínu, og, að Aserbaísjan yrði beitt viðskiptaþvingunum vegna árásarstríðsins þeirra gegn Armeníu.

Vont, þegar menn, sem þykjast vera sérfræðingar og belgja sig út með lengsta titli landsins, fylgjast svo ekki með.

Höfundurinn er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×