Speak No Evil: Pabbi er ekki með fulle fem Heiðar Sumarliðason skrifar 24. september 2024 08:02 Miðað við kynningarefni mætti halda að James McAvoy fari einn með aðalhlutverk Speak No Evil. Danska hrollvekjan Gæsterne kom út hér á landi fyrir u.þ.b. tveimur árum undir nafninu Speak No Evil. Hún vakti töluverða athygli og voru viðbrögð áhorfenda almennt mjög góð. Hollywood-fólk fór ekki varhluta af því og var ekki lengi að skella í eitt stykki endurgerð, sem heitir jú, Speak No Evil og er nú sýnd í kvikmyndahúsum. Myndin fjallar um bandarísku hjónin Ben og Louise Dalton (Scoot McNairy og Mackenzie Davis), sem ásamt dóttur sinni Agnes (Alix West Lefler) kynnast í fríi sínu á Ítalíu eilítið sérkennilegum breskum hjónum, Paddy og Ciara (James McAvoy og Aisling Franciosi), og syni þeirra Ant (Dan Hough). Bandarísku hjónin þiggja í kjölfarið heimboð á afskekktan búgarð þeirra bresku í ensku sveitinni. Það er þar sem við (og þau) áttum okkur á því að hjónin gestrisnu eru mögulega ekki öll þar sem þau eru séð. James McAvoy og Aisling Franciosi fara með hlutverk gestgjafanna. Leikstjórinn James Watkins gefur sér góðan tíma í uppbygginguna og leyfir áhorfendum að uppgötva smám saman að ekki er allt með felldu á búgarðinum. Fyrstu tveir þriðju myndarinnar fara í hægt ris spennu, og þó lítið virðist vera að frétta á yfirborðinu eru áhorfendur allan tímann á tánum vegna vitundar sinnar um einhvers konar yfirvofandi hrylling. Þriðji leikþáttur Speak No Evil heldur svo áhorfendum í heljargreipum þar til allt er yfirstaðið og réttlætir þar með hina hægu uppbyggingu. Lítið um bregðukúnstir Watkins sýnir svo um munar að hann kann að halda áhorfendum á tánum; frá smáatriðum – eins og óhreinum rúmfötum og hunsaðri beiðni um grænmetisrétti – til augljósari ógnvænlegra atvika . Þessi óþægilegu augnablik byggjast upp smám saman og skapa fullkomna stemningu óhugnaðar sem eykst í gegnum alla myndina. Alltof margar hrollvekjur reiða sig á yfirgengilegt ofbeldi og „bregðukúnstir,“ en Speak No Evil velur að halda aftur af sér og leyfa óttanum að koma sér hægt og rólega fyrir í hjörtum áhorfenda. Hæg uppbygging myndarinnar höfðar sjálfsagt ekki til þeirra sem kjósa hraðari söguþráð, en fyrir aðdáendur hægeldaðra hrollvekja er Speak No Evill fullkomlega heppnuð. Spennan vex áreynslulaust, eins og pottur sem hægt og rólega er við það að fara að sjóða upp úr, og þrátt fyrir að fléttan verði augljósari eftir því sem á líður, nær andrúmsloft myndarinnar að skapa spennu og beyg hjá áhorfendum. Speak No Evil er virkilega vel heppnuð hrollvekja sem mæla má með og ég er nokkuð viss um að hún falli langflestum áhorfendum í geð. Ég er hins vegar með nokkrar...við skulum bara kalla þær: Vangaveltur. Djúpköfun og sparðatínsla Leikhópurinn stendur sig heilt yfir frábærlega. Scoot McNairy er þar fremstur meðal jafningja í hlutverki manns sem er bæði stjórnsamur og þurfandi, og ýtir eiginkonu sinni út í sífellt óþægilegri aðstæður. McNairy og mótleikkona hans Mackenzie Davis eru hér alls ekki að vinna saman í fyrsta skiptið. Þau fóru eftirminnilega með aðalhlutverkin í fjórum þáttaröðum af hinni vanmetnu Halt and Catch Fire og bregðast hér ekki frekar en þar. Davis og McNairy í Halt and Catch Fire. En þrátt fyrir að hafa á undanförnum árum verið nokkuð áberandi í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er hvorugt þeirra komið á þann stað að fyrri hlutverk þeirra eru farin að skyggja á þær persónur sem þau leika á nýjum kvikmyndum. Hið sama á hins vegar ekki við um James McAvoy. Hann er í raun kominn á þann stað að hægt er að kalla hann kvikmyndastjörnu vegna þátttöku hans í X-Men, It Chapter 2 og myndum M. Night Shyamalan; og þó að hann sé ekki alveg stjarna af sömu stærðargráðu t.d. Tom Cruise eða Harrison Ford, er eins og hann passi ekki alveg inn í dýnamíkina sem sagan hér biður um. Speak No Evil er kvikmynd þar sem allar persónurnar eru jafn mikilvægar og kallar því eftir svokölluðum „ensemble“ leikhópi. Ekki segja neinum að James McAvoy er vondi kallinn. Að hafa McAvoy þarna í forgrunni (með suss puttann á lofti á plakatinu) kostar þessa bandarísku útgáfu þá mystík sem leikarinn Fedja van Huêt gaf persónunni í upprunalegu myndinni. Fyrir alþjóðlegan áhorfendahóp var hann óskrifað blað, því 99% áhorfenda utan Hollands höfðu líklegast aldrei séð hann áður, ólíkt McAvoy. Ekki með fulle fem Áherslur leikstjórans hjálpa ekki til. T.d. er kynningin á Paddy töluvert ruddalegri í Speak No Evil en á hliðstæðri persónu, Patrick, í Gæsterne. Þá er ég að vísa til senunnar þar sem Paddy biður um að fá lausan sólbekk bandarísku fjölskyldunnar lánaðan. Í Gæsterne sést Patrick ekki í rammanum eftir bónina, hann tekur bekkinn bara upp og gengur með hann burt eftir að hafa fengið leyfi. Í Speak No Evil dregur Paddy þungan bekkinn á eftir sér með tilheyrandi skarkala. Þetta er alltof mikil tilkynning um að Paddy sé ekki „med fulle fem.“ Mögulega er þetta dæmi um það þegar kvikmyndagerðarfólk treystir ekki efninu og byrjar að smyrja ofan á eitthvað sem nú þegar er nægilega vel smurt; smjör ofan á smjör. Þessi sena virkar fullkomlega í Gæsterne; það ankannalega við bón Paddy/Patricks er sú staðreynd að þetta er augljóslega bekkur dóttur bandarísku/dönsku hjónanna sem hann ágirnist. Bara það eitt og sér er ótrúlega lúmsk og þýðleg kynning á persónunni, það er engin ástæða til þess að gera Patrick svona þjösnalegan þetta snemma. Við erum búin að kaupa okkur inn á myndina, við erum ekki að fara neitt, og engin ástæða fyrir því að bæta í persónuna, hún mun koma til okkar. Þegar leikari hefur tekið að sér hlutverk eins og það sem McAvoy lék fyrir M. Night Shyamalan verður oft ekki aftur snúið. Svo grunar mig að McAvoy finni eilítið til sín hér og er greinilega búinn að eyða þremur tímum á dag í ræktinni við að undirbúa hlutverkið. Það er því næstum eins og hann telji sig vera að leika Wolverine en ekki venjulegan gaur sem er eilítið „off.“ Fedja van Huêt er vissulega kraftalegur í upprunalegu myndinni, en hann er ekki mótaður eins og grísk stytta. Hercules eftir gríska myndhöggvarann Lysippos. Það er ágæt þumalputtaregla að ef þú ætlar að hafa „stjörnu“ í kvikmynd sem er svona „ensemble“ þá þurfa fleiri leikarar í myndinni einnig að hafa slíka stjörnunærveru. Ef ekki, er hætta á að kvikmyndastjarnan „éti“ hina leikarana. Það er augljóst að framleiðendum myndarinnar er alveg sama um þetta og sannast það með auglýsingaplakati hennar. Oftast þegar persónugallerí kvikmyndar er svona jafnt eru allar persónurnar settar á veggmyndina. Svo er ekki hér, sem færir sönnur á það að McAvoy er af framleiðendum myndarinnar álitinn „stjarna“ á meðan hin eru það ekki. Tom Cruise var frábær í Magnolia. Þetta er umræða sem hefur áður komið upp, m.a. þegar Tom Cruise tók að sér hlutverk í kvikmynd Paul Thomas Anderson, Magnolia. Það fór t.d. mikið í taugarnar á Anderson hve mikið New Line Cinema lagði áherslu á nærveru Cruise í auglýsingaefni myndarinnar; svo ekki sé talað um að Magnolia er mun meiri ensemble-mynd heldur Speak No Evil. Anderson var mjög meðvitaður um þessa skekkju og ætlaði að gera sitt besta til að sauma Cruise inn í myndina þannig að hann drægi ekki of mikla athygli að sér. Það heppnaðist fullkomlega, þó svo New Line Cinema hafi gert sitt besta til að reyna að selja myndina sem Tom Cruise-mynd. Það er hins vegar enginn Paul Thomas Anderson hér til að hafa vit fyrir peningafólkinu. Það má alveg kalla þetta sparðatínslu hjá mér, þar sem ég naut myndarinnar og mæli með henni, en það er ekkert að því að taka smá djúpköfun öðru hvoru. Niðurstaða: Speak No Evil er í heildina vel heppnuð Hollywood-yfirfærsla á dönsku hrollvekjunni Gæsterne, þó það megi alveg tína til hitt og þetta sem heppnaðist betur í upprunalegu útgáfunni. Það skiptir þó sennilega þorra áhorfenda ekki máli, þar sem þeir hafa líklega ekki séð hana. Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Er bókstaflega skíthrædd Lífið Krakkatían: Kosningar, fiskar og göng Lífið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Kosningakviss: Tókust á um Eurovision og Næturvaktina Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Myndin fjallar um bandarísku hjónin Ben og Louise Dalton (Scoot McNairy og Mackenzie Davis), sem ásamt dóttur sinni Agnes (Alix West Lefler) kynnast í fríi sínu á Ítalíu eilítið sérkennilegum breskum hjónum, Paddy og Ciara (James McAvoy og Aisling Franciosi), og syni þeirra Ant (Dan Hough). Bandarísku hjónin þiggja í kjölfarið heimboð á afskekktan búgarð þeirra bresku í ensku sveitinni. Það er þar sem við (og þau) áttum okkur á því að hjónin gestrisnu eru mögulega ekki öll þar sem þau eru séð. James McAvoy og Aisling Franciosi fara með hlutverk gestgjafanna. Leikstjórinn James Watkins gefur sér góðan tíma í uppbygginguna og leyfir áhorfendum að uppgötva smám saman að ekki er allt með felldu á búgarðinum. Fyrstu tveir þriðju myndarinnar fara í hægt ris spennu, og þó lítið virðist vera að frétta á yfirborðinu eru áhorfendur allan tímann á tánum vegna vitundar sinnar um einhvers konar yfirvofandi hrylling. Þriðji leikþáttur Speak No Evil heldur svo áhorfendum í heljargreipum þar til allt er yfirstaðið og réttlætir þar með hina hægu uppbyggingu. Lítið um bregðukúnstir Watkins sýnir svo um munar að hann kann að halda áhorfendum á tánum; frá smáatriðum – eins og óhreinum rúmfötum og hunsaðri beiðni um grænmetisrétti – til augljósari ógnvænlegra atvika . Þessi óþægilegu augnablik byggjast upp smám saman og skapa fullkomna stemningu óhugnaðar sem eykst í gegnum alla myndina. Alltof margar hrollvekjur reiða sig á yfirgengilegt ofbeldi og „bregðukúnstir,“ en Speak No Evil velur að halda aftur af sér og leyfa óttanum að koma sér hægt og rólega fyrir í hjörtum áhorfenda. Hæg uppbygging myndarinnar höfðar sjálfsagt ekki til þeirra sem kjósa hraðari söguþráð, en fyrir aðdáendur hægeldaðra hrollvekja er Speak No Evill fullkomlega heppnuð. Spennan vex áreynslulaust, eins og pottur sem hægt og rólega er við það að fara að sjóða upp úr, og þrátt fyrir að fléttan verði augljósari eftir því sem á líður, nær andrúmsloft myndarinnar að skapa spennu og beyg hjá áhorfendum. Speak No Evil er virkilega vel heppnuð hrollvekja sem mæla má með og ég er nokkuð viss um að hún falli langflestum áhorfendum í geð. Ég er hins vegar með nokkrar...við skulum bara kalla þær: Vangaveltur. Djúpköfun og sparðatínsla Leikhópurinn stendur sig heilt yfir frábærlega. Scoot McNairy er þar fremstur meðal jafningja í hlutverki manns sem er bæði stjórnsamur og þurfandi, og ýtir eiginkonu sinni út í sífellt óþægilegri aðstæður. McNairy og mótleikkona hans Mackenzie Davis eru hér alls ekki að vinna saman í fyrsta skiptið. Þau fóru eftirminnilega með aðalhlutverkin í fjórum þáttaröðum af hinni vanmetnu Halt and Catch Fire og bregðast hér ekki frekar en þar. Davis og McNairy í Halt and Catch Fire. En þrátt fyrir að hafa á undanförnum árum verið nokkuð áberandi í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er hvorugt þeirra komið á þann stað að fyrri hlutverk þeirra eru farin að skyggja á þær persónur sem þau leika á nýjum kvikmyndum. Hið sama á hins vegar ekki við um James McAvoy. Hann er í raun kominn á þann stað að hægt er að kalla hann kvikmyndastjörnu vegna þátttöku hans í X-Men, It Chapter 2 og myndum M. Night Shyamalan; og þó að hann sé ekki alveg stjarna af sömu stærðargráðu t.d. Tom Cruise eða Harrison Ford, er eins og hann passi ekki alveg inn í dýnamíkina sem sagan hér biður um. Speak No Evil er kvikmynd þar sem allar persónurnar eru jafn mikilvægar og kallar því eftir svokölluðum „ensemble“ leikhópi. Ekki segja neinum að James McAvoy er vondi kallinn. Að hafa McAvoy þarna í forgrunni (með suss puttann á lofti á plakatinu) kostar þessa bandarísku útgáfu þá mystík sem leikarinn Fedja van Huêt gaf persónunni í upprunalegu myndinni. Fyrir alþjóðlegan áhorfendahóp var hann óskrifað blað, því 99% áhorfenda utan Hollands höfðu líklegast aldrei séð hann áður, ólíkt McAvoy. Ekki með fulle fem Áherslur leikstjórans hjálpa ekki til. T.d. er kynningin á Paddy töluvert ruddalegri í Speak No Evil en á hliðstæðri persónu, Patrick, í Gæsterne. Þá er ég að vísa til senunnar þar sem Paddy biður um að fá lausan sólbekk bandarísku fjölskyldunnar lánaðan. Í Gæsterne sést Patrick ekki í rammanum eftir bónina, hann tekur bekkinn bara upp og gengur með hann burt eftir að hafa fengið leyfi. Í Speak No Evil dregur Paddy þungan bekkinn á eftir sér með tilheyrandi skarkala. Þetta er alltof mikil tilkynning um að Paddy sé ekki „med fulle fem.“ Mögulega er þetta dæmi um það þegar kvikmyndagerðarfólk treystir ekki efninu og byrjar að smyrja ofan á eitthvað sem nú þegar er nægilega vel smurt; smjör ofan á smjör. Þessi sena virkar fullkomlega í Gæsterne; það ankannalega við bón Paddy/Patricks er sú staðreynd að þetta er augljóslega bekkur dóttur bandarísku/dönsku hjónanna sem hann ágirnist. Bara það eitt og sér er ótrúlega lúmsk og þýðleg kynning á persónunni, það er engin ástæða til þess að gera Patrick svona þjösnalegan þetta snemma. Við erum búin að kaupa okkur inn á myndina, við erum ekki að fara neitt, og engin ástæða fyrir því að bæta í persónuna, hún mun koma til okkar. Þegar leikari hefur tekið að sér hlutverk eins og það sem McAvoy lék fyrir M. Night Shyamalan verður oft ekki aftur snúið. Svo grunar mig að McAvoy finni eilítið til sín hér og er greinilega búinn að eyða þremur tímum á dag í ræktinni við að undirbúa hlutverkið. Það er því næstum eins og hann telji sig vera að leika Wolverine en ekki venjulegan gaur sem er eilítið „off.“ Fedja van Huêt er vissulega kraftalegur í upprunalegu myndinni, en hann er ekki mótaður eins og grísk stytta. Hercules eftir gríska myndhöggvarann Lysippos. Það er ágæt þumalputtaregla að ef þú ætlar að hafa „stjörnu“ í kvikmynd sem er svona „ensemble“ þá þurfa fleiri leikarar í myndinni einnig að hafa slíka stjörnunærveru. Ef ekki, er hætta á að kvikmyndastjarnan „éti“ hina leikarana. Það er augljóst að framleiðendum myndarinnar er alveg sama um þetta og sannast það með auglýsingaplakati hennar. Oftast þegar persónugallerí kvikmyndar er svona jafnt eru allar persónurnar settar á veggmyndina. Svo er ekki hér, sem færir sönnur á það að McAvoy er af framleiðendum myndarinnar álitinn „stjarna“ á meðan hin eru það ekki. Tom Cruise var frábær í Magnolia. Þetta er umræða sem hefur áður komið upp, m.a. þegar Tom Cruise tók að sér hlutverk í kvikmynd Paul Thomas Anderson, Magnolia. Það fór t.d. mikið í taugarnar á Anderson hve mikið New Line Cinema lagði áherslu á nærveru Cruise í auglýsingaefni myndarinnar; svo ekki sé talað um að Magnolia er mun meiri ensemble-mynd heldur Speak No Evil. Anderson var mjög meðvitaður um þessa skekkju og ætlaði að gera sitt besta til að sauma Cruise inn í myndina þannig að hann drægi ekki of mikla athygli að sér. Það heppnaðist fullkomlega, þó svo New Line Cinema hafi gert sitt besta til að reyna að selja myndina sem Tom Cruise-mynd. Það er hins vegar enginn Paul Thomas Anderson hér til að hafa vit fyrir peningafólkinu. Það má alveg kalla þetta sparðatínslu hjá mér, þar sem ég naut myndarinnar og mæli með henni, en það er ekkert að því að taka smá djúpköfun öðru hvoru. Niðurstaða: Speak No Evil er í heildina vel heppnuð Hollywood-yfirfærsla á dönsku hrollvekjunni Gæsterne, þó það megi alveg tína til hitt og þetta sem heppnaðist betur í upprunalegu útgáfunni. Það skiptir þó sennilega þorra áhorfenda ekki máli, þar sem þeir hafa líklega ekki séð hana.
Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Er bókstaflega skíthrædd Lífið Krakkatían: Kosningar, fiskar og göng Lífið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Kosningakviss: Tókust á um Eurovision og Næturvaktina Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira