Skoðun

Út­boð á Fjarðarheiðargöngum

Hildur Þórisdóttir skrifar

Það situr fast í minninu þegar Færeyingur einn var að spjalla við heimamann á Seyðisfirði en í orðum sínum lagði hann þunga áherslu á hversu dýrt það væri samfélagslega að gera ekki neitt í jarðgangnamálum undir Fjarðarheiði.

Færeyingar eru ljósárum á undan okkur Íslendingum í samgöngumálum en þeir átta sig líka á því að til þess að halda byggð á lífi utan Þórshafnar þurfa samgöngur að vera greiðar allan ársins hring. Enda er alltaf verið að vinna í að minnsta kosti einum jarðgöngum þar í einu og löngu komin skilningur á því að sjálfsagt sé að greiða gjöld í gegnum jarðgöng svo til sé fjármagn í næstu framkvæmd.

Í frétt Vísis frá 8. maí 2023 kom fram að verið er að grafa sex jarðgöng samtímis í Færeyjumtil viðbótar við tvenn sem þeir hafa nýlokið við.

Sandeyjargöng, neðansjávargöng milli Straumeyjar og Sandeyjar, við Klakksvík koma senn tvenn ný göng, Árnafjarðargöng og Hvannasundsgöng, á Sandey er verið að grafa Dalsgöng, á Suðurey er það Fámjinsgöng ásamt Húsareynsgöngum við Þórshöfn. Samtals eru Færeyingar þannig að fá átta ný jarðgöng á fimm ára tímabili. Hér á landi hafa ein ný göng, Dýrafjarðargöng, bæst við vegakerfið á síðustu árum.

Fjallvegurinn um Fjarðarheiði veldur fyrirtækjum og íbúum ómældum kostnaði, tjóni og töpuðum tækifærum á hverju einasta ári. Austurlandi blæðir í heild sinni með sína háu fjallvegi og löngu vegalengdir á milli byggðalaga á meðan þingið dregur lappirnar við að greiða úr fjármögnun framkvæmdar sem hefur verið meðal þeirra verkefna sem næst eru á dagskrá samkvæmt samgönguáætlun allt frá miðju ári 2020.

https://www.stjornarradid.is/verkefni/samgongur/samgonguaaetlun/samgonguaaetlun-2020-2034/

Kostnaður er gríðarlegur vegna ónýttra tækifæra fyrir atvinnulífið þar sem tengd eru saman byggðalög með Seyðisfjarðarhöfn sem er bein tenging við Evrópu og Egilsstaðaflugvöll.

Ekki hefur verið unnið að neinum jarðgöngum á Íslandi í 4 ár þrátt fyrir fyrirheit um annað. Það þarf ekki að finna upp hjólið þegar kemur að fjármögnun og framkvæmdum við jarðgöng í þessum efnum. Dæmin frá Færeyjum sýna það glögglega.

Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð og tilbúin til útboðs! Eftir hverju er verið að bíða?

Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×