Skoðun

Ragnar Þór Ingólfs­son af­hjúpar veikan blett

Sigurjón Þórðarson skrifar

Ragnar Þór Ingólfsson hefur staðið einarður gegn vaxtaokrinu sem aðrir flokkar, nema Flokkur fólksins, hafa látið hjá líða eða jafnvel stutt og réttlætt, þar á meðal Samfylkingin. Sama má segja um baráttu Ragnars gegn afarkjörum leigufélaganna. Vaxtaokrið bitnar harkalega á hag heimila og fyrirtækja, en það segir sína sögu að stýrivextir eru nú rúmlega 60% hærri en verðbólga í landinu, með húsnæðisliðinn innifalinn.

Það kemur kannski ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar ráðist á framboð Ragnars Þórs, fyrst og fremst fyrir að standa kröftuglega með almenningi og gegn ofurgróða bankanna, á meðan ekki er gerð athugasemd við framboð annarra forystumanna í verkalýðshreyfingunni, meðal annars formanns Rafiðnaðarsambandsins.

Þegar öllu er á botninn hvolft afhjúpar andstaðan við Ragnar veikan blett Sjálfstæðisflokksins: að vera fyrst og fremst flokkur þröngra sérhagsmuna þegar á hólminn er komið, og bregðast til varnar ef þeim er ógnað. Því miður virðist engin breyting verða þar á, ef litið er til þeirra frambjóðenda sem hafa raðast í efstu sæti flokksins. Það er ljóst að þeir sem hafa gagnrýnt forystu flokksins hafa ekki átt upp á pallborðið, á meðan klappstýrur og þjónar sérhagsmuna hafa raðað sér í efstu sætin.

Það liggur fyrir að hagur heimilanna og fyrirtækjanna í landinu væri mun betri ef tekið hefði verið tillit til sjónarmiða Flokks fólksins. Með þessum málflutningi er Sjálfstæðisflokkurinn að stimpla sig út.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×