Eftir að hafa verið 25 stigum á eftir Víkingi í fyrra tryggði Breiðablik sér Íslandsmeistaratitilinn eftir sannfærandi sigur í úrslitaleik liðanna á sunnudaginn. En hvernig fóru Blikar að því að endurheimta titilinn? Tímabilið 2024 í Kópavoginum er meðal annars saga af upprisu leikmanna, lykilbreytingu á miðju tímabili, breyttum áherslum og draumaendi. Frammistaða Breiðabliks í úrslitaleiknum í Víkinni um helgina verður lengi í minnum höfð. Leikar fóru 0-3 og sigur Blika var öruggur, sannfærandi og sanngjarn. Það er ekki til betri leið til að sanna að þú sért besta lið landsins en að vinna ríkjandi meistara á þeirra eigin heimavelli. Og það gerðu þeir grænu með miklum glans. Framan af tímabili benti ekki margt til þess að titilinn færi í Smárann enda var Víkingur með gott forskot á toppi Bestu deildarinnar. En eftir að hafa aðeins fengið tvö stig í þremur deildarleikjum um mitt mót fóru Blikar á mikið flug. Þeir unnu ellefu af síðustu þrettán leikjum sínum og gerðu tvö jafntefli. Markatalan var 34-14. Blikar voru sjóðheitir síðustu þrjá mánuði tímabilsins og aldrei heitari en í kuldanum í Víkinni á sunnudaginn. Óskarstíminn Eftir að hafa lent í 2. sæti bæði tímabilin undir stjórn Ágústar Gylfasonar var Óskar Hrafn Þorvaldsson ráðinn þjálfari Breiðabliks haustið 2019. Honum til aðstoðar var Halldór Árnason sem hafði einnig aðstoðað hann hjá Gróttu. Undir stjórn Óskars fór Grótta upp um tvær deildir á tveimur árum og vakti athygli fyrir skemmtilega spilamennsku. Árangurinn og aðferðin vöktu athygli manna í Smáranum og þeir réðu Óskar eftir tímabilið 2019. Fyrsta tímabil hans í Kópavoginum var eins konar aðlögunartímabil og Breiðablik lenti í 4. sæti. Liðið endaði endasleppt covid-tímabil hins vegar vel og tók meðbyrinn með sér inn í næsta tímabil. Þar háðu Blikar harða baráttu við Víkinga en misstu toppsætið í þeirra hendur eftir tap í Kaplakrika. Víkingur gerði síðan engin mistök í lokaumferðinni og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan 1991. Tímabilið 2022 fékk hins vegar ekkert stöðvað strákana hans Óskars. Þeir unnu fyrstu átta leiki sína, héldu forskotinu af sannfæringu og stóðu af sér allar atlögur Víkinga. Breiðablik vann á endanum titilinn með tíu stiga mun. Blikar gerðu sig gildandi í Evrópukeppni 2021 og 2022 og tímabilið 2023 gerðu Kópavogsbúar svo nokkuð sem engu öðru íslensku liði hafði þá tekist og komust í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Titilvörnin var hins vegar endaslepp og Blikar enduðu í 4. sæti með 41 stig, 25 stigum á eftir Víkingum. Eftir tvo fyrstu leikina í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar hætti Óskar. Blikar voru fljótir að bregðast við og hækkuðu Halldór í tign. Hann stýrði Breiðabliki í síðustu fjórum leikjunum í riðlakeppninni. Þeir töpuðust allir og sveiflukenndu maraþontímabili Blika lauk loks um miðjan desember. Breiðablik spilaði alls 47 leiki í deild, bikar og Evrópukeppni frá 10. apríl til 14. desember 2023. Óvenjulegur vetur Breiðablik var því enn að spila þegar önnur lið voru byrjuð að æfa fyrir tímabilið 2024. Undirbúningstímabil þeirra grænu hófst ekki formlega fyrr en eftir áramótin og þeir virkuðu ferskir í Lengjubikarnum þar sem þeir stóðu uppi sem sigurvegarar. Nokkrar breytingar urðu á leikmannahópi Breiðabliks frá tímabilinu á undan, sérstaklega á miðsvæðinu en þeir Gísli Eyjólfsson, Anton Logi Lúðvíksson og Ágúst Eðvald Hlynsson yfirgáfu félagið. Davíð Ingvarsson skrapp til Danmerkur, Oliver Stefánsson fór til ÍA og Klæmint Olsen sneri aftur heim til Danmerkur. Í staðinn komu Aron Bjarnason, Arnór Gauti Jónsson, Benjamin Stokke, Kristinn Jónsson og Daniel Obbekjær. Og korteri fyrir mót bættist Ísak Snær Þorvaldsson, markahæsti leikmaður Breiðabliks meistaratímabilið 2022, við. Ísak var ekki í góðu formi þegar hann kom og komst á ekki fullt skrið fyrr en um mitt mót. Blikar byrjuðu samt sem áður vel og eftir fyrri umferðina voru þeir með 25 stig í 2. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Víkinga. Breiðablik tapaði hins vegar næsta leik fyrir FH, 1-0, og gerði svo 2-2 jafntefli við Vestra á Ísafirði í umferðinni þar á eftir. Eftir fjórtán umferðir voru Blikar í 3. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Víkingum. Kaflaskilin Leikurinn gegn Vestra markaði þáttaskil hjá Breiðabliki. Eftir þann leik var Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, færður á miðjuna úr stöðu hægri bakvarðar. Og með hann í feiknaformi tókust Blikar á loft. Breiðablik vann sjö af næstu átta leikjum sínum og fyrir deildarskiptinguna var liðið með 49 stig, jafn mörg og Víkingur en lakari markatölu. Blikar og Víkingar héldust áfram í hendur í úrslitakeppninni; unnu fyrstu tvo leiki sína, gerðu svo jafntefli en unnu síðan í 4. umferðinni. Fyrir úrslitaleikinn var staðan því sú sama. Víkingur og Breiðablik voru með jafn mörg stig en þeir rauðu og svörtu voru með betri markatölu og dugði því jafntefli. Ekkert svoleiðis var hins vegar í boði hjá Blikum sem spiluðu eflaust sinn besta leik á tímabilinu og unnu frækinn 0-3 sigur. Breiðablik varð því Íslandsmeistari í annað sinn á þremur árum og Halldór gerði lið að meisturum á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari í efstu deild. Lárus Orri Sigurðsson hefur verið sérfræðingur Stúkunnar undanfarin þrjú ár og fylgst grannt með liði Breiðabliks; baráttunni við Víking, Evrópuævintýrinu og vendingum síðasta hausts. Hann segist hafa merkt mun á Blikum frá síðasta tímabili. Misstu kúlið „Það var gríðarlega mikill munur á Breiðabliksliðinu milli tímabila. Eins og þeir spiluðu í fyrra var miklu meiri agi yfir þessu liði núna. Lestin fór bara af teinunum á Íslandsmótinu í fyrra og endaði í hálfgerðri vitleysu. Það var eins og allir hafi misst kúlið sem endaði með þessum svokallaða rútuleik í Víkinni,“ sagði Lárus og vísaði til þess þegar Blikar mættu til leiks í Víkina tæpum hálftíma fyrir leik gegn Víkingum sem tapaðist 5-3. „Það voru ekki miklar væntingar til liðsins fyrir mót. Þetta var öðruvísi sett upp og meiri áhersla á varnarleikinn og meira breytt lið en ég átti von á. Það er mjög áhugavert að vita hvort það hafi verið lagt upp með þetta í byrjun móts eða þetta hafi þróast svona,“ sagði Lárus. Hann er frekar á því að hlutirnir hafi þróast svona hjá Breiðabliki. „Ég myndi giska á það. Ég held til dæmis að ef það var hugmynd Halldórs frá upphafi að vera með Höskuld á miðjunni hefði hann spilað honum þar og fundið einhvern annan í bakvörðinn. Höskuldur spilaði sem bakvörður framan af móti, fór svo inn á miðjuna í leiknum gegn Víkingi í Kópavoginum og svo aftur í bakvörðinn í nokkra leiki. Eins og Höskuldur sagði í viðtali fyrir Víkingsleikinn vill hann spila á miðjunni og hann var gríðarlega öflugur þar. Hann er lykilmaður í þessari velgengni hjá þeim.“ Fleiri varnaglar Hrafnkell Freyr Ágústsson er stuðningsmaður Breiðabliks og sérfræðingur í fótboltahlaðvarpinu vinsæla, Dr. Football. Hann tekur undir með Lárusi varðandi breyttar áherslur Blika í sumar. Þeir hafi oftar verið með vaðið fyrir neðan sig. „Ég heyrði það frá fundum sem Halldór tók með stuðningsmönnum að þá sagðist hann vera með mjög svipaðar pælingar og Óskar en varnarpælingarnar væru meiri og fleiri varnaglar. Ég held að þetta hafi verið eitthvað sem kom frá Halldóri og verið hans hugmyndafræði,“ sagði Hrafnkell. Hrafnkell Freyr Ágústsson er fastagestur í fótboltahlaðvarpinu Dr. Football og í Íþróttavikunni á 433.is.aðsend „Svo eru leikmenn orðnir þroskaðri. Í staðinn fyrir halda áfram að keyra fram þegar þeir voru 1-0 yfir féllu þeir aðeins til baka og nýttu tækifærin til að sækja hratt.“ Það sem er allavega ljóst er að Breiðablik varðist mun betur í sumar en á síðasta tímabili. Í fyrra fengu Blikar á sig 49 mörk í 27 deildarleikjum og héldu sjö sinnum hreinu. Í sumar fékk liðið á sig 31 mark, fæst allra, og hélt níu sinnum hreinu, oftast allra. Öruggir sigrar Lárus segir að Blikar hafi áfram pressað andstæðinginn eins og síðustu ár en hafi kannski valið sér augnablikin til þess. „Ef þú horfir á seinni tvo Stjörnuleikina sérðu að þeir liggja til baka og leyfa Stjörnunni að hafa boltann, eru nokkuð þéttir til baka og bíða eftir tækifærunum. Það voru fleiri leikir þar sem það var engin flugeldasýning í gangi en manni fannst sigurinn aldrei í hættu. Þeir voru mjög þéttir í því sem þeir voru að gera, pressuðu á réttum tímum og sátu þess á milli í einhvers konar hálfpressu með vörnina rétt fyrir framan D-bogann en aldrei mjög neðarlega. Þetta var mjög vel útsett hjá þeim,“ sagði Lárus en til marks um öryggi Blika á lokasprettinum lentu þeir aðeins fimm sinnum undir í síðustu þrettán leikjum sínum í deildinni. Lárusi Orra Sigurðssyni (til vinstri) fannst mikið til Blikaliðsins koma seinni hluta tímabils.stöð 2 sport „Manni fannst þeir alltaf vera með stjórn á hlutunum, jafnvel þegar þeir voru ekki með boltann. Eins og leikurinn gegn Stjörnunni í næstsíðustu umferðinni, þar sem þeir voru nokkuð góðir og mikið með boltann, þá fannst manni alltaf liggja í loftinu að Breiðablik væri að fara að vinna.“ Blikar voru talsvert minna með boltann en á síðasta tímabili (54,9 prósent gegn 60,4 prósent) og PPDA (hvað lið nær mörgum sendingum áður en það er pressað) var hærra en í fyrra; 6,91 (2023) og 9,23 (2024). Andstæðingar Breiðabliks náðu með öðrum orðum fleiri sendingum sín á milli en í fyrra. „Ég myndi segja að þeir séu mjög fjölbreyttir. Þeir geta legið til baka og sótt hratt. Þeir geta haldið boltanum og stýrt leikjum þannig. Þeir geta beitt löngum boltum. Þetta er mjög þroskað fótboltalið sem er gott í öllum þáttum leiksins,“ sagði Hrafnkell. Allt annar Anton Ein stærsta ástæðan fyrir bættum varnarleik Blika var frammistaða Antons Ara Einarssonar í marki liðsins. Í fyrra virkaði hann óöruggur nánast frá fyrsta leik og fékk á sig talsvert mörg klaufamörk. Á síðasta tímabili fékk hann á sig 8,16 mörkum meira en hann hefði átt að fá á sig samkvæmt tölfræði WyScout. Í sumar var þessi tala -0,58. Haraldur Björnsson, fyrrverandi markvörður Stjörnunnar og fleiri liða, tók við sem markvarðaþjálfari Breiðabliks fyrir tímabilið og þeir Anton hafa greinilega náð vel saman. Anton Ari Einarsson með Gullhanskann.vísir/anton „Það væri gaman að heyra hvað þeir gerðu öðruvísi með Anton. Var það bara að liðið spilaði öðruvísi og öðruvísi væntingar til hans? Var bara það þess valdandi að það var allt annað að sjá manninn miðað við í fyrra? Eða var unnið með sjálfstraustið og andlega þáttinn. Það skiptir öllu að markverðir séu öruggir. Hann var það ekki í fyrra en heldur betur í ár,“ sagði Lárus en Anton fékk verðlaun eftir leikinn gegn Víkingi fyrir að halda oftast hreinu í Bestu deildinni. Mikilvægi Arnórs Gauta Lárus og Hrafnkell nefndu báðir mikilvægi Arnórs Gauta sem var gríðarlega öflugur á lokasprettinum og var einn besti maður vallarins í úrslitaleiknum. Arnór gekk í raðir Breiðabiks í janúar frá Fylki en tók tíma að vinna sér sæti í liðinu. „Þeir urðu töluvert pragmatískari og með fleiri varnagla til baka. Stór ástæða er innkoma Arnórs Gauta um mitt sumar. Hann er hörku djúpur miðjumaður og mér fannst hann binda saman vörn og miðju. Það fannst jafnvægi sem var ekki í fyrra. Án þess að kasta rýrð á þá leikmenn sem spiluðu þarna í fyrra er Arnór Gauti sterkari í vörn,“ sagði Hrafnkell. Arnór Gauti Jónsson spilaði stórvel í úrslitaleiknum.vísir/anton „Arnór Gauti fór að spila gríðarlega stórt hlutverk á miðjunni. Svo gleymist líka þáttur Viktors Karls [Einarssonar] sem var mjög góður, sérstaklega fyrri hluta sumars meðan aðrir voru ekki upp á sitt besta. Hann dró svolítið vagninn til að byrja með,“ sagði Lárus. Innkoma Davíðs Eins og oft hefur verið raunin missti Breiðablik lykilmann á miðju tímabili þegar Jason Daði Svanþórsson gekk í raðir enska D-deildarliðsins Grimsby Town. Á sama tíma kom hins vegar Davíð Ingvarsson aftur heim í Breiðabliki eftir stutta dvöl í Danmörku. En í staðinn fyrir að spila sem bakvörður, eins og hann hafði jafnan gert hjá Blikum, var Davíð settur á vinstri kantinn. „Hann var mjög flottur á kantinum. Þegar hann var í bakverðinum sýndi hann alltaf að það er gríðarlega mikill kraftur í honum og hann er góður að koma fram. Samvinna þeirra Kristins Jónssonar var virkilega góð,“ sagði Lárus um Davíð sem skoraði tvö mörk og lagði upp sex eftir heimkomuna. Davíð Ingvarsson, Ísak Snær Þorvaldsson og Viktor Örn Margeirsson voru allir í lykilhlutverkum hjá Breiðabliki í sumar.vísir/anton „Jason er frábær leikmaður og einn besti leikmaður mótsins undanfarin ár. En Davíð gefur liðinu eitthvað annað. Þá var líka hægt að færa Aron Bjarnason yfir til hægri. Davíð spilaði eins og kantmaður af gamla skólanum sem hélt breidd og kom með fyrirgjafir,“ sagði Hrafnkell. Svo er það þáttur Ísaks. Hann var ekki í sínu besta formi þegar hann kom frá Rosenborg í vor og fékk sinn skerf af gagnrýni fyrir frammistöðuna framan af tímabili. En um mitt mót hrökk hann heldur betur í gang. Ísak skoraði tvö mörk í fyrstu ellefu leikjum sínum í Bestu deildinni en níu í síðustu ellefu. Tvö þeirra komu í úrslitaleiknum þar sem Ísak var í miklum ham og sýndi allar sínar bestu hliðar. Hann fékk níu í einkunn fyrir frammistöðu sína í úrslitaleiknum hjá Vísi, hæstu einkunn allra á vellinum. Stóð undir traustinu Sem fyrr sagði var Halldór á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild. Hann kom bæði Lárusi og Hrafnkeli skemmtilega á óvart með framgöngu sinni. „Þeir voru fljótir að stökkva til og ráða hann. Maður var svolítið hissa á því vegna þess að það er oft ekki gott að setja óreyndan þjálfara í svona stórt starf. Það getur verið erfitt og það er stór munur á því að vera aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari. Manni fannst þetta pínu sérstök ráðning en hann hefur heldur betur staðið undir traustinu. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér í öllum viðtölum, rólegur og yfirvegaður,“ sagði Lárus. Hrafnkell tók í sama streng. „Hann kom mér svakalega á óvart, ég viðurkenni það. Ég hafði engar svakalegar væntingar. Maður hefur séð þetta margoft að aðstoðarþjálfari taki við en það hefur ekki oft gengið. En hann kemur frábærlega inn í þetta.“ Verið lengi úti á grasinu Hrafnkell nefndi þó að Halldór er alls enginn nýgræðingur í þjálfun, þótt hann hafi aldrei þjálfað áður í efstu deild. „Þetta er gæi sem er búinn að þjálfa ótrúlega lengi. Hann er búinn að þjálfa yngri flokka KR, þjálfaði hjá Gróttu, aðstoðarþjálfari og yngri flokka þjálfari, yfirþjálfari hjá Stjörnunni og hann er búinn að vera mikið úti á grasi. Ég veit hann horfir mikið á fótbolta og pælir mikið í þessu,“ sagði Hrafnkell. Halldór Árnason lyftir skildinum sem hefur verið keppt um undanfarin þrjú ár.vísir/anton „Hann er greinilega alveg með þetta. Ég var smá hræddur við leiðtogahæfileikana. Það skiptir helvíti miklu máli eins og sést hjá Óskari Hrafni og Arnari Gunnlaugssyni. En allir leikmenn voru með honum. Efasemdir mínar voru byggðar á sandi.“ Yngja upp og halda sér á toppnum Lið Breiðabliks er öllu fullorðnara en oft áður en meðalaldur liðsins í sumar var 29,0 ár, sá næsthæsti í Bestu deildinni á eftir Val. Hrafnkell segir ljóst að Blikar þurfi að huga að því að yngja liðið fyrir næsta tímabil. „Þetta var ekki síðasti séns en það þarf klárlega að huga að breytingum. Ég held að hluti ástæðunnar að Alfreð Finnbogason var fenginn inn hafi verið til að yngja liðið upp,“ sagði Hrafnkell en Alfreð, sem var lykilmaður í bikar- og Íslandsmeistaraliðum Blika 2009 og 2010, var ráðinn tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks í sumar. „Það á samt að halda í standarinn. Ég held að allir lykilmennirnir verði áfram en það verða fengnir yngri leikmenn í allar línur á vellinum,“ sagði Hrafnkell. Titilvarnir Breiðabliks 2011 og 2023 voru heldur endasleppar. Hrafnkell á ekki von á því að sú verði raunin á næsta tímabili. Ólíklegt sé að margir í liðinu verði seldir. „Arnór Gauti mögulega en annars eru þetta leikmenn á aldrinum 27-34 ára. Það þarf bara að finna réttu púslin með þeim og ég held þeir muni finna inn rétta leikmenn í vetur og halda áfram. Víkingur gerir það sama. Það breytist ekkert,“ sagði Hrafnkell en Víkingur og Breiðablik hafa unnið alla Íslandsmeistaratitla undanfarin fjögur ár. Besta deild karla Breiðablik Fréttaskýringar Mest lesið Gagnrýnir CrossFit: Flýja alla ábyrgð og láta aðra sjá um kostnaðinn Sport Arne Slot: Hættuleg helgi fyrir Liverpool Enski boltinn Fær meira fyrir hálftíma ræðu en fyrir að spila heilt tímabil Körfubolti „Ef þeim líkar ekki maturinn geta þeir dullað sér úr“ Körfubolti Arnar og Freyr ekki efstir á óskalista Óskars Hrafns Fótbolti „Ég fór ekkert alltof seint að sofa“ Handbolti Launaði greiðann og gaf liðsfélaganum sigurinn Formúla 1 Ætlaði að ná hundraðasta sigrinum en endaði upp á spítala Sport Dagskráin í dag: Jólamánuðurinn hefst á allskonar Sport Dagur Dan komst ekki í úrslitaleikinn Fótbolti
Frammistaða Breiðabliks í úrslitaleiknum í Víkinni um helgina verður lengi í minnum höfð. Leikar fóru 0-3 og sigur Blika var öruggur, sannfærandi og sanngjarn. Það er ekki til betri leið til að sanna að þú sért besta lið landsins en að vinna ríkjandi meistara á þeirra eigin heimavelli. Og það gerðu þeir grænu með miklum glans. Framan af tímabili benti ekki margt til þess að titilinn færi í Smárann enda var Víkingur með gott forskot á toppi Bestu deildarinnar. En eftir að hafa aðeins fengið tvö stig í þremur deildarleikjum um mitt mót fóru Blikar á mikið flug. Þeir unnu ellefu af síðustu þrettán leikjum sínum og gerðu tvö jafntefli. Markatalan var 34-14. Blikar voru sjóðheitir síðustu þrjá mánuði tímabilsins og aldrei heitari en í kuldanum í Víkinni á sunnudaginn. Óskarstíminn Eftir að hafa lent í 2. sæti bæði tímabilin undir stjórn Ágústar Gylfasonar var Óskar Hrafn Þorvaldsson ráðinn þjálfari Breiðabliks haustið 2019. Honum til aðstoðar var Halldór Árnason sem hafði einnig aðstoðað hann hjá Gróttu. Undir stjórn Óskars fór Grótta upp um tvær deildir á tveimur árum og vakti athygli fyrir skemmtilega spilamennsku. Árangurinn og aðferðin vöktu athygli manna í Smáranum og þeir réðu Óskar eftir tímabilið 2019. Fyrsta tímabil hans í Kópavoginum var eins konar aðlögunartímabil og Breiðablik lenti í 4. sæti. Liðið endaði endasleppt covid-tímabil hins vegar vel og tók meðbyrinn með sér inn í næsta tímabil. Þar háðu Blikar harða baráttu við Víkinga en misstu toppsætið í þeirra hendur eftir tap í Kaplakrika. Víkingur gerði síðan engin mistök í lokaumferðinni og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan 1991. Tímabilið 2022 fékk hins vegar ekkert stöðvað strákana hans Óskars. Þeir unnu fyrstu átta leiki sína, héldu forskotinu af sannfæringu og stóðu af sér allar atlögur Víkinga. Breiðablik vann á endanum titilinn með tíu stiga mun. Blikar gerðu sig gildandi í Evrópukeppni 2021 og 2022 og tímabilið 2023 gerðu Kópavogsbúar svo nokkuð sem engu öðru íslensku liði hafði þá tekist og komust í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Titilvörnin var hins vegar endaslepp og Blikar enduðu í 4. sæti með 41 stig, 25 stigum á eftir Víkingum. Eftir tvo fyrstu leikina í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar hætti Óskar. Blikar voru fljótir að bregðast við og hækkuðu Halldór í tign. Hann stýrði Breiðabliki í síðustu fjórum leikjunum í riðlakeppninni. Þeir töpuðust allir og sveiflukenndu maraþontímabili Blika lauk loks um miðjan desember. Breiðablik spilaði alls 47 leiki í deild, bikar og Evrópukeppni frá 10. apríl til 14. desember 2023. Óvenjulegur vetur Breiðablik var því enn að spila þegar önnur lið voru byrjuð að æfa fyrir tímabilið 2024. Undirbúningstímabil þeirra grænu hófst ekki formlega fyrr en eftir áramótin og þeir virkuðu ferskir í Lengjubikarnum þar sem þeir stóðu uppi sem sigurvegarar. Nokkrar breytingar urðu á leikmannahópi Breiðabliks frá tímabilinu á undan, sérstaklega á miðsvæðinu en þeir Gísli Eyjólfsson, Anton Logi Lúðvíksson og Ágúst Eðvald Hlynsson yfirgáfu félagið. Davíð Ingvarsson skrapp til Danmerkur, Oliver Stefánsson fór til ÍA og Klæmint Olsen sneri aftur heim til Danmerkur. Í staðinn komu Aron Bjarnason, Arnór Gauti Jónsson, Benjamin Stokke, Kristinn Jónsson og Daniel Obbekjær. Og korteri fyrir mót bættist Ísak Snær Þorvaldsson, markahæsti leikmaður Breiðabliks meistaratímabilið 2022, við. Ísak var ekki í góðu formi þegar hann kom og komst á ekki fullt skrið fyrr en um mitt mót. Blikar byrjuðu samt sem áður vel og eftir fyrri umferðina voru þeir með 25 stig í 2. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Víkinga. Breiðablik tapaði hins vegar næsta leik fyrir FH, 1-0, og gerði svo 2-2 jafntefli við Vestra á Ísafirði í umferðinni þar á eftir. Eftir fjórtán umferðir voru Blikar í 3. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Víkingum. Kaflaskilin Leikurinn gegn Vestra markaði þáttaskil hjá Breiðabliki. Eftir þann leik var Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, færður á miðjuna úr stöðu hægri bakvarðar. Og með hann í feiknaformi tókust Blikar á loft. Breiðablik vann sjö af næstu átta leikjum sínum og fyrir deildarskiptinguna var liðið með 49 stig, jafn mörg og Víkingur en lakari markatölu. Blikar og Víkingar héldust áfram í hendur í úrslitakeppninni; unnu fyrstu tvo leiki sína, gerðu svo jafntefli en unnu síðan í 4. umferðinni. Fyrir úrslitaleikinn var staðan því sú sama. Víkingur og Breiðablik voru með jafn mörg stig en þeir rauðu og svörtu voru með betri markatölu og dugði því jafntefli. Ekkert svoleiðis var hins vegar í boði hjá Blikum sem spiluðu eflaust sinn besta leik á tímabilinu og unnu frækinn 0-3 sigur. Breiðablik varð því Íslandsmeistari í annað sinn á þremur árum og Halldór gerði lið að meisturum á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari í efstu deild. Lárus Orri Sigurðsson hefur verið sérfræðingur Stúkunnar undanfarin þrjú ár og fylgst grannt með liði Breiðabliks; baráttunni við Víking, Evrópuævintýrinu og vendingum síðasta hausts. Hann segist hafa merkt mun á Blikum frá síðasta tímabili. Misstu kúlið „Það var gríðarlega mikill munur á Breiðabliksliðinu milli tímabila. Eins og þeir spiluðu í fyrra var miklu meiri agi yfir þessu liði núna. Lestin fór bara af teinunum á Íslandsmótinu í fyrra og endaði í hálfgerðri vitleysu. Það var eins og allir hafi misst kúlið sem endaði með þessum svokallaða rútuleik í Víkinni,“ sagði Lárus og vísaði til þess þegar Blikar mættu til leiks í Víkina tæpum hálftíma fyrir leik gegn Víkingum sem tapaðist 5-3. „Það voru ekki miklar væntingar til liðsins fyrir mót. Þetta var öðruvísi sett upp og meiri áhersla á varnarleikinn og meira breytt lið en ég átti von á. Það er mjög áhugavert að vita hvort það hafi verið lagt upp með þetta í byrjun móts eða þetta hafi þróast svona,“ sagði Lárus. Hann er frekar á því að hlutirnir hafi þróast svona hjá Breiðabliki. „Ég myndi giska á það. Ég held til dæmis að ef það var hugmynd Halldórs frá upphafi að vera með Höskuld á miðjunni hefði hann spilað honum þar og fundið einhvern annan í bakvörðinn. Höskuldur spilaði sem bakvörður framan af móti, fór svo inn á miðjuna í leiknum gegn Víkingi í Kópavoginum og svo aftur í bakvörðinn í nokkra leiki. Eins og Höskuldur sagði í viðtali fyrir Víkingsleikinn vill hann spila á miðjunni og hann var gríðarlega öflugur þar. Hann er lykilmaður í þessari velgengni hjá þeim.“ Fleiri varnaglar Hrafnkell Freyr Ágústsson er stuðningsmaður Breiðabliks og sérfræðingur í fótboltahlaðvarpinu vinsæla, Dr. Football. Hann tekur undir með Lárusi varðandi breyttar áherslur Blika í sumar. Þeir hafi oftar verið með vaðið fyrir neðan sig. „Ég heyrði það frá fundum sem Halldór tók með stuðningsmönnum að þá sagðist hann vera með mjög svipaðar pælingar og Óskar en varnarpælingarnar væru meiri og fleiri varnaglar. Ég held að þetta hafi verið eitthvað sem kom frá Halldóri og verið hans hugmyndafræði,“ sagði Hrafnkell. Hrafnkell Freyr Ágústsson er fastagestur í fótboltahlaðvarpinu Dr. Football og í Íþróttavikunni á 433.is.aðsend „Svo eru leikmenn orðnir þroskaðri. Í staðinn fyrir halda áfram að keyra fram þegar þeir voru 1-0 yfir féllu þeir aðeins til baka og nýttu tækifærin til að sækja hratt.“ Það sem er allavega ljóst er að Breiðablik varðist mun betur í sumar en á síðasta tímabili. Í fyrra fengu Blikar á sig 49 mörk í 27 deildarleikjum og héldu sjö sinnum hreinu. Í sumar fékk liðið á sig 31 mark, fæst allra, og hélt níu sinnum hreinu, oftast allra. Öruggir sigrar Lárus segir að Blikar hafi áfram pressað andstæðinginn eins og síðustu ár en hafi kannski valið sér augnablikin til þess. „Ef þú horfir á seinni tvo Stjörnuleikina sérðu að þeir liggja til baka og leyfa Stjörnunni að hafa boltann, eru nokkuð þéttir til baka og bíða eftir tækifærunum. Það voru fleiri leikir þar sem það var engin flugeldasýning í gangi en manni fannst sigurinn aldrei í hættu. Þeir voru mjög þéttir í því sem þeir voru að gera, pressuðu á réttum tímum og sátu þess á milli í einhvers konar hálfpressu með vörnina rétt fyrir framan D-bogann en aldrei mjög neðarlega. Þetta var mjög vel útsett hjá þeim,“ sagði Lárus en til marks um öryggi Blika á lokasprettinum lentu þeir aðeins fimm sinnum undir í síðustu þrettán leikjum sínum í deildinni. Lárusi Orra Sigurðssyni (til vinstri) fannst mikið til Blikaliðsins koma seinni hluta tímabils.stöð 2 sport „Manni fannst þeir alltaf vera með stjórn á hlutunum, jafnvel þegar þeir voru ekki með boltann. Eins og leikurinn gegn Stjörnunni í næstsíðustu umferðinni, þar sem þeir voru nokkuð góðir og mikið með boltann, þá fannst manni alltaf liggja í loftinu að Breiðablik væri að fara að vinna.“ Blikar voru talsvert minna með boltann en á síðasta tímabili (54,9 prósent gegn 60,4 prósent) og PPDA (hvað lið nær mörgum sendingum áður en það er pressað) var hærra en í fyrra; 6,91 (2023) og 9,23 (2024). Andstæðingar Breiðabliks náðu með öðrum orðum fleiri sendingum sín á milli en í fyrra. „Ég myndi segja að þeir séu mjög fjölbreyttir. Þeir geta legið til baka og sótt hratt. Þeir geta haldið boltanum og stýrt leikjum þannig. Þeir geta beitt löngum boltum. Þetta er mjög þroskað fótboltalið sem er gott í öllum þáttum leiksins,“ sagði Hrafnkell. Allt annar Anton Ein stærsta ástæðan fyrir bættum varnarleik Blika var frammistaða Antons Ara Einarssonar í marki liðsins. Í fyrra virkaði hann óöruggur nánast frá fyrsta leik og fékk á sig talsvert mörg klaufamörk. Á síðasta tímabili fékk hann á sig 8,16 mörkum meira en hann hefði átt að fá á sig samkvæmt tölfræði WyScout. Í sumar var þessi tala -0,58. Haraldur Björnsson, fyrrverandi markvörður Stjörnunnar og fleiri liða, tók við sem markvarðaþjálfari Breiðabliks fyrir tímabilið og þeir Anton hafa greinilega náð vel saman. Anton Ari Einarsson með Gullhanskann.vísir/anton „Það væri gaman að heyra hvað þeir gerðu öðruvísi með Anton. Var það bara að liðið spilaði öðruvísi og öðruvísi væntingar til hans? Var bara það þess valdandi að það var allt annað að sjá manninn miðað við í fyrra? Eða var unnið með sjálfstraustið og andlega þáttinn. Það skiptir öllu að markverðir séu öruggir. Hann var það ekki í fyrra en heldur betur í ár,“ sagði Lárus en Anton fékk verðlaun eftir leikinn gegn Víkingi fyrir að halda oftast hreinu í Bestu deildinni. Mikilvægi Arnórs Gauta Lárus og Hrafnkell nefndu báðir mikilvægi Arnórs Gauta sem var gríðarlega öflugur á lokasprettinum og var einn besti maður vallarins í úrslitaleiknum. Arnór gekk í raðir Breiðabiks í janúar frá Fylki en tók tíma að vinna sér sæti í liðinu. „Þeir urðu töluvert pragmatískari og með fleiri varnagla til baka. Stór ástæða er innkoma Arnórs Gauta um mitt sumar. Hann er hörku djúpur miðjumaður og mér fannst hann binda saman vörn og miðju. Það fannst jafnvægi sem var ekki í fyrra. Án þess að kasta rýrð á þá leikmenn sem spiluðu þarna í fyrra er Arnór Gauti sterkari í vörn,“ sagði Hrafnkell. Arnór Gauti Jónsson spilaði stórvel í úrslitaleiknum.vísir/anton „Arnór Gauti fór að spila gríðarlega stórt hlutverk á miðjunni. Svo gleymist líka þáttur Viktors Karls [Einarssonar] sem var mjög góður, sérstaklega fyrri hluta sumars meðan aðrir voru ekki upp á sitt besta. Hann dró svolítið vagninn til að byrja með,“ sagði Lárus. Innkoma Davíðs Eins og oft hefur verið raunin missti Breiðablik lykilmann á miðju tímabili þegar Jason Daði Svanþórsson gekk í raðir enska D-deildarliðsins Grimsby Town. Á sama tíma kom hins vegar Davíð Ingvarsson aftur heim í Breiðabliki eftir stutta dvöl í Danmörku. En í staðinn fyrir að spila sem bakvörður, eins og hann hafði jafnan gert hjá Blikum, var Davíð settur á vinstri kantinn. „Hann var mjög flottur á kantinum. Þegar hann var í bakverðinum sýndi hann alltaf að það er gríðarlega mikill kraftur í honum og hann er góður að koma fram. Samvinna þeirra Kristins Jónssonar var virkilega góð,“ sagði Lárus um Davíð sem skoraði tvö mörk og lagði upp sex eftir heimkomuna. Davíð Ingvarsson, Ísak Snær Þorvaldsson og Viktor Örn Margeirsson voru allir í lykilhlutverkum hjá Breiðabliki í sumar.vísir/anton „Jason er frábær leikmaður og einn besti leikmaður mótsins undanfarin ár. En Davíð gefur liðinu eitthvað annað. Þá var líka hægt að færa Aron Bjarnason yfir til hægri. Davíð spilaði eins og kantmaður af gamla skólanum sem hélt breidd og kom með fyrirgjafir,“ sagði Hrafnkell. Svo er það þáttur Ísaks. Hann var ekki í sínu besta formi þegar hann kom frá Rosenborg í vor og fékk sinn skerf af gagnrýni fyrir frammistöðuna framan af tímabili. En um mitt mót hrökk hann heldur betur í gang. Ísak skoraði tvö mörk í fyrstu ellefu leikjum sínum í Bestu deildinni en níu í síðustu ellefu. Tvö þeirra komu í úrslitaleiknum þar sem Ísak var í miklum ham og sýndi allar sínar bestu hliðar. Hann fékk níu í einkunn fyrir frammistöðu sína í úrslitaleiknum hjá Vísi, hæstu einkunn allra á vellinum. Stóð undir traustinu Sem fyrr sagði var Halldór á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild. Hann kom bæði Lárusi og Hrafnkeli skemmtilega á óvart með framgöngu sinni. „Þeir voru fljótir að stökkva til og ráða hann. Maður var svolítið hissa á því vegna þess að það er oft ekki gott að setja óreyndan þjálfara í svona stórt starf. Það getur verið erfitt og það er stór munur á því að vera aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari. Manni fannst þetta pínu sérstök ráðning en hann hefur heldur betur staðið undir traustinu. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér í öllum viðtölum, rólegur og yfirvegaður,“ sagði Lárus. Hrafnkell tók í sama streng. „Hann kom mér svakalega á óvart, ég viðurkenni það. Ég hafði engar svakalegar væntingar. Maður hefur séð þetta margoft að aðstoðarþjálfari taki við en það hefur ekki oft gengið. En hann kemur frábærlega inn í þetta.“ Verið lengi úti á grasinu Hrafnkell nefndi þó að Halldór er alls enginn nýgræðingur í þjálfun, þótt hann hafi aldrei þjálfað áður í efstu deild. „Þetta er gæi sem er búinn að þjálfa ótrúlega lengi. Hann er búinn að þjálfa yngri flokka KR, þjálfaði hjá Gróttu, aðstoðarþjálfari og yngri flokka þjálfari, yfirþjálfari hjá Stjörnunni og hann er búinn að vera mikið úti á grasi. Ég veit hann horfir mikið á fótbolta og pælir mikið í þessu,“ sagði Hrafnkell. Halldór Árnason lyftir skildinum sem hefur verið keppt um undanfarin þrjú ár.vísir/anton „Hann er greinilega alveg með þetta. Ég var smá hræddur við leiðtogahæfileikana. Það skiptir helvíti miklu máli eins og sést hjá Óskari Hrafni og Arnari Gunnlaugssyni. En allir leikmenn voru með honum. Efasemdir mínar voru byggðar á sandi.“ Yngja upp og halda sér á toppnum Lið Breiðabliks er öllu fullorðnara en oft áður en meðalaldur liðsins í sumar var 29,0 ár, sá næsthæsti í Bestu deildinni á eftir Val. Hrafnkell segir ljóst að Blikar þurfi að huga að því að yngja liðið fyrir næsta tímabil. „Þetta var ekki síðasti séns en það þarf klárlega að huga að breytingum. Ég held að hluti ástæðunnar að Alfreð Finnbogason var fenginn inn hafi verið til að yngja liðið upp,“ sagði Hrafnkell en Alfreð, sem var lykilmaður í bikar- og Íslandsmeistaraliðum Blika 2009 og 2010, var ráðinn tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks í sumar. „Það á samt að halda í standarinn. Ég held að allir lykilmennirnir verði áfram en það verða fengnir yngri leikmenn í allar línur á vellinum,“ sagði Hrafnkell. Titilvarnir Breiðabliks 2011 og 2023 voru heldur endasleppar. Hrafnkell á ekki von á því að sú verði raunin á næsta tímabili. Ólíklegt sé að margir í liðinu verði seldir. „Arnór Gauti mögulega en annars eru þetta leikmenn á aldrinum 27-34 ára. Það þarf bara að finna réttu púslin með þeim og ég held þeir muni finna inn rétta leikmenn í vetur og halda áfram. Víkingur gerir það sama. Það breytist ekkert,“ sagði Hrafnkell en Víkingur og Breiðablik hafa unnið alla Íslandsmeistaratitla undanfarin fjögur ár.