Skoðun

Sérhagsmunagæsla Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sóknar, VG og Miðflokks dæmd ó­lög­leg

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Það má ekki brjóta lög við lagasetningu á Alþingi. Þetta er nokkuð sem flestir skilja. Síðastliðin vor gerðum við í Viðreisn miklar athugasemdir við framgöngu fráfarandi stjórnarmeirihluta sem með dyggum stuðningi Miðflokksins keyrði í gegn fráleita breytingu á búvörulögum án þess að skeyta um lögbundin vinnubrögð Alþingis.

Viðreisn gagnrýndi annars vegar efnisatriði breytinganna þar sem meirihluti Alþingis kippti einfaldlega skilyrðum fyrir heilbrigða samkeppni og neytendavernd kippt úr sambandi í þágu nokkurra stórfyrirtækja. Hins vegar gagnrýndum við vinnubrögð meirihlutans enda voru þau algjörlega forkastanleg þar sem umdeildar og viðamiklar breytingar á búvörulögum voru keyrðar í gegnum þingið án nauðsynlegrar umræðu og vinnu.

Unnu gegn hagsmunum heimila

Í stuttu máli snerist breytingin um að samkeppnislögum var einfaldlega kippt úr sambandi með tilheyrandi tjóni fyrir heimili landsins. Kjötafurðastöðvar gátu þannig í kjölfarið sameinast án nokkurra takmarkana og þeim heimilað að hafa með sér alls konar samráð sem í öðrum atvinnugreinum er bæði ólögmætt og refsivert. Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að lagabreytingin var keyrð í gegn hefur eitt stærsta fyrirtækið á kjötafurðamarkaði keypt önnur slík, án þess að Samkeppniseftirlitið hafi rönd við reist.

Nú hefur Héraðsdómur slegið því föstu að þessi breyting flokkanna fjögurra hafi strítt gegn stjórnarskrá og breytingin hafi því ekkert gildi að lögum. Héraðsdómur hefur þannig tekið skýra afstöðu með stjórnarskránni, með heimilum og með heilbrigðri samkeppni gegn framgöngu fráfarandi stjórnarmeirihluta Alþingis.

Það er kominn tími á nýja ríkisstjórn sem vinnur með almannahagsmunum, ekki gegn þeim.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×