Skoðun

Að vera stjórntækur að mati Við­reisnar

Friðjón R. Friðjónsson skrifar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar var á dögunum í einhverskonar skjallspjalli með formanni Samfylkingarinnar í hlaðvarpi Björns Inga Hrafnssonar, Grjótkastinu. Þar mærði Þorgerður meirihlutasamstarf Viðreisnar og Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarin 6 ár, sagði samstarfið fínt og bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki stjórntækur, hvorki í borgarstjórn né á landsvísu.

Sú fullyrðing kallar á að maður spyrji sig hvað það er að vera „stjórntækur“ að mati formanns Viðreisnar. Þá er vitnisburðurinn frá Reykjavík kannski vísbending. Þar hefur Viðreisn undirgengist öll helstu stefnumál Samfylkingarinnar, svo sem:

Ofurþéttingarstefna Samfylkingarinnar er núna líka stefna Viðreisnar

Afskiptaleysi Samfylkingarinnar í garð atvinnulífs í Reykjavík er núna líka stefna Viðreisnar

Hatrömm andstaða Samfylkingarinnar í garð bifreiða er núna líka stefna Viðreisnar

Skattahækkunarstefna Samfylkingarinnar er núna líka stefna Viðreisnar

Biðlistastefna Samfylkingarinnar er núna líka stefna Viðreisnar

Skeytingarleysi Samfylkingarinnar um rekstur Reykjavíkur er núna líka stefna Viðreisnar

Í raun má vart á milli sjá hver situr í borgarstjórn fyrir Viðreisn og hver situr fyrir Samfylkingu. Fordæmin sýna því að það að vera stjórntækur fyrir Viðreisn er að kokgleypa stefnumál Samfylkingarinnar í einu og öllu. Það er kannski stefnan fyrir næsta kjörtímabil, að Viðreisn hlýði Víði og Kristrúnu. Því þó Viðreisn hafi kannski haft stefnumál í síðustu og þarsíðustu borgarstjórnarkosningum sem sker flokkinn frá Samfylkingunni þá hefur ekkert af þeim málum orðið að veruleika.

Við sem höfum reynslu af störfum systurflokkanna í Reykjavík, Viðreisnar og Samfylkingar, verðum því að vara landsmenn við því að innleiða rekstur Reykjavíkur í landsmálin. Vara við því að innleiða þjónustu borgarinnar við borgarbúa til landsmanna allra og vara við því að innleiða yfirlæti meirihlutans í garð kjósenda.

Skattgreiðendur hafa ekki efni á Reykjavíkurmódelinu, landsmenn eiga betra skilið.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×