Skoðun

Fellur helsti stuðnings­maður menningar­mála af þingi?

Magnús Logi Kristinsson skrifar

Það er ekki sjálfgefið að þjóð eigi menningarráðherra sem stendur með menningarlífinu í landinu í blíðu og stríðu. Lilja Alfreðsdóttir hefur verið þessi menningarmálaráðherra. Á undanförnum 7 árum hefur virðing mín vaxið fyrir henni sem stjórnmálamanni, ráðherra menningarmála og ráðherra annarra málaflokka sem hún hefur tekið að sér. Sú staðreynd að hún viðurkenni og skilji mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir samfélagið skiptir mig miklu máli. Mestu máli skiptir þó að hún framkvæmir í takt við það!

Stundum hefur maður upplifað að það sé litið niður á menningu og skapandi greinar. Á þessu hefur orðið talsverð breyting til hins betra, ekki síst fyrir tilstuðlan Lilju, sem hefur lagt mikið kapp á að draga fram hið efnahagslega mikilvægi sem menning og skapandi greinar hafa fyrir samfélagið og tala þessar greinar markvisst upp.

Dökk mynd í málun

Í málefnum myndlistarinnar hefur Lilja tekið til hendinni líkt og í öðrum listgreinum. Þannig hefur hún ráðist í stefnumótun í góðri samvinnu við haghafa myndlistarinnar og í Myndlistarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 birtist framtíðarsýn fyrir greinina, sem er þegar byrjað að hrinda til framkvæmda.

Þegar ég ræði við kollega mína í menningarlífinu um Lilju er tónninn alltaf sá sami: Mikil virðing er borin fyrir því að orð standi hjá Lilju Alfreðsdóttur – og að hún gangi í verkin til þess að klára þau.

Það væri synd að sjá Lilju Alfreðsdóttur falla af Alþingi, en sú dökka mynd virðist vera að málast upp samkvæmt skoðanakönnunum. Ég vil því stíga fram og lýsa yfir stuðningi við Lilju Alfreðsdóttur og jafnframt þakka fyrir framlag hennar til menningarmála á Íslandi. Það skiptir máli að á Alþingi sé jafn öflugur stuðningsmaður menningar og skapandi greina. Takk, Lilja!

Höfundur er myndlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×