Innlent

Heilskimun Intuens enn til skoðunar hjá land­læknis­em­bættinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn hafa gagnrýnt þjónustuna en hún er víða í boði erlendis.
Heilbrigðisstarfsmenn hafa gagnrýnt þjónustuna en hún er víða í boði erlendis. Getty

Mál heilbrigðisfyrirtækisins Intuens er enn til skoðunar hjá landlæknisembættinu, segir í skriflegum svörum embættisins við fyrirspurn fréttastofu. Ekki er hægt að veita upplýsingar um vinnslu málsins né næstu skref á meðan.

Málið varðar nýja þjónustu Intuens sem felst í heilskimun líkamans með segulómrannsókn. 

Fyrirtækið hugðist bjóða upp á skimunina á síðasta ári en var gert afturreka með ákvörðunina í kjölfar gagnrýni landslæknisembættisins og ýmissa heilbrigðisstarfsmanna.

Læknar sem tjáðu sig um þjónustuna sögðu meðal annars að verið væri að hafa fé af fólki að ástæðulausu og að vænta mætti þess að alls kyns frávik gætu fundist sem kölluðu á frekari rannsóknir í heilbrigðiskerfinu en hefðu aldrei valdið viðkomandi nokkrum skaða.

Ástæðulausar heilskimanir myndu óneitanlega valda auknu álagi í heilbrigðiskerfinu.

Landlæknisembættið ákvað að banna Intuens að veita þjónustuna og fyrirtækið hætti við en fór að bjóða upp á rannsóknir gegn tilvísun. 

Heilbrigðisráðuneytið ógilti hins vegar ákvörðun landlæknisembættisins í september síðastliðnum og í kjölfarið hefur verið hægt að bóka svokallaða „heilskoðun“ hjá Intuens, án tilvísunar.

Fréttastofa spurði landlæknisembættið hvar málið væri statt, nú þegar ráðuneytið hefði skikkað það til að taka það upp að nýju; hvort embættið hygðist hafa frekari afskipti af þjónustunni eða heimila hana.

„Málinu var vísað til nýrrar meðferðar hjá embætti landlæknis og þar er málið statt. Þar sem málið er enn til meðferðar þá er getur embættið ekki veitt upplýsingar um vinnslu þess eða næstu vendingar,“ sagði í svari landlæknisembættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×