Innlent

Tæp­lega helmingi líst vel á Sam­fylkingu og Við­reisn í ríkis­stjórn

Jón Ísak Ragnarsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Tæplega helmingi kjósenda líst vel á mögulegt ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar og Samfylkingar.
Tæplega helmingi kjósenda líst vel á mögulegt ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar og Samfylkingar. Vísir

Tæplega helmingi kjósenda líst vel á að Samfylking og Viðreisn leiði næstu ríkisstjórn samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Langflestir kjósendur Samfylkingarinnar vilja slíka ríkisstjórn. Óvinsælasta samsetningin sem spurt var um er ríkisstjórn Miðflokks og Samfylkingar, en aðeins um 9 prósent líst vel á slíka stjórn.

Spurt er í nýrri könnun Maskínu, sem fram fór dagana 22. til 29. nóvember og rúmlega 2.700 svöruðu, hvort fólki lítist vel eða illa á mismunandi möguleika á samstarfi flokkanna Samfylkingar, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í ríkisstjórn eftir kosningar. 46 prósentum líst vel á samstarf Samfylkingar og Viðreisnar, 18 prósentum í meðallagi og 36 prósentum illa.

MaskínaMaskína

22 prósentum líst vel á samstarf Miðflokks og Sjálfstæðisflokks, 21 prósenti líst vel á samstarf Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks, 16 prósentum á Viðreisn og Miðflokk, 12 prósentum á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk og 9 prósentum á Samfylkingu og Miðflokk.

Kjósendur Viðreisnar vilja ekki í stjórn með Miðflokki

Athygli vekur að 79 prósent kjósenda Viðreisnar líst vel á mögulegt ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Viðreisnar.

Aðeins um 13 prósent kjósenda Viðreisnar líst vel á samstarf við Miðflokkinn. Um þriðjungi kjósenda Viðreisnar, 29 prósent, líst vel á mögulegt samstarf Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins.

Kjósendur Viðreisnar vilja helst samstarf með Samfylkingunni. Þeim hugnast ekki Miðflokkurinn.Maskína

Kjósendum Sjálfstæðisflokksins líst hins vegar nokkuð vel á hugsanlegt samstarf með Viðreisn, en 73 prósent þeirra sögðu slíkt samstarf hljóma vel. Um 66 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins líst vel samstarf með Miðflokknum.

Kjósendur Miðflokksins vilja helst samstarf með Sjálfstæðisflokki, en 68 prósent hugnast slíkt samstarf vel. Þeim hugnast einnig ágætlega samstarf við Viðreisn, en 56 prósent þeirra sögðu það hljóma vel.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja helst samstarf með Viðreisn. Miðflokkurinn er næstvinsælastur.Maskína
Kjósendur Miðflokksins vilja helst stjórn með Sjálfstæðisflokki. Þeim líst ágætlega á Viðreisn, en Viðreisn virðist ekki bera sama hlýhug til þeirra.Maskína



Fleiri fréttir

Sjá meira


×